Tala um hræðslu og þöggunartilburði meðal lækna

Tveir læknar sem hafa gagnrýnt sóttvarnayfirvöld segja hálfgerða þöggunartilburði viðgangast innan læknasamfélagsins á Íslandi. Skoðanaskipti lækna á opinberum vettvangi séu talin ógna trausti fólks til bóluefna.

Tala um hræðslu og þöggunartilburði meðal lækna

Sigfús Örvar Gizurarson, hjartalæknir á Landspítalanum, skrifaði nýlega grein þar sem hann varaði við því að fara of geyst í bólusetningar barna. Hann segir viðbrögð samstarfsmanna almennt hafa verið góð en ekki allra. „Sumir svo sem gengu svo langt að maður gæti kallað það einhvers konar þöggunartilburði. Við ættum ekkert að vera að tjá okkur um þetta.“

Læknar veigri sér við því að tjá sig af ótta við að vera stimplaðir andstæðingar bóluefna. „Að læknar séu að tala um bólusetningar, hvort það sé þörf á þeim í þessum aldurshópi og öll þessi blæbrigði á bólusetningum minnir að einhverju leyti á umræðuna sem var fyrir hrun, íslenska bankakerfið var þannig að það mátti helst ekki tala um það, ef fólk var að tala það niður var maður beinlínis þátttakandi í hruninu, að valda hruninu,“ segir Sigfús.

Jón Ívar Einarsson segir að hann geti tjáð sig óhindrað þar sem hann starfi í útlöndum.

Stendur utan við „ættbálkinn“

Jón Ívar Einarsson, prófessor við Læknadeild Harvard-háskóla, segir það að starfa erlendis gera sér kleift að tjá sig óhindrað. „Læknastéttin hérna er mjög lítið samfélag, ættbálkur má segja. Ég veit að mjög margir af mínum kollegum sem hafa verið gagnrýnir myndu aldrei taka þá áhættu að segja neitt til að rugga bátnum því hér hafa margir læknar kannski bara eina stofnun til að vinna á,“ segir Jón Ívar.

Í fyrsta Kveiksþætti vetrarins, sem er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20:05, verður fjallað um umræðuna um COVID-bólusetningar á Íslandi og talað við fólk sem hefur kosið að láta ekki bólusetja sig.

Lestu umfjöllun Kveiks um fólkið sem vildi ekki COVID-bólusetningar eða horfðu á sjónvarpsútgáfu umfjöllunarinnar.