Sýklalyfjaónæmi: ein mesta lýðheilsuvá samtímans

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál í heiminum - og ef svo fer fram sem horfir, munu fleiri láta lífið af þess völdum en deyja úr krabbameini, um miðja öldina. Staðan hér á Íslandi er óvenju góð, en hversu mikið hefur það með bann við innflutningi á ófrosnu kjöti að gera?

Fyrir utan íslensku krónuna, veðrið, Evrópusambandið og borgarlínu eru nokkur viðfangsefni sem koma sífellt upp á yfirborðið í íslenskri umræðu. Meðal annars þetta: á að leyfa innflutning á ófrystu kjöti?

Í þeirri umræðu hafa hagsmunaaðilar látið í sér heyra, hátt og skýrt, enda heilmikið í húfi. Tvö sjónarhorn hafa verið áberandi; annars vegar þeirra sem eru fylgjandi frjálsum innflutningi. Þeir tala um lægra matvöruverð og aukið úrval, neytendum til hagsbóta. Og svo eru það þeir sem vilja vernda sérstöðu íslensks landbúnaðar.

Þetta er dálítið flókin umræða. Segja má að innflutningur á ófrystu kjöti sé bara lítill angi af miklu stærra máli. Miklu lengri sögu þar sem sýklalyf en ekki kjöt eru í aðalhlutverki.

Uppgötvað fyrir tilviljun

Skoski líffræðingurinn Alexander Fleming var ekkert sérstaklega að leita að pensilíninu þegar hann fann það fyrir tilviljun, snemma á síðustu öld. Mygluskán hafði myndast á sýni á rannsóknarstofu hans og þessi litli myglublettur átti eftir að breyta öllu. Sýklalyf höfðu verið fundin upp.

Það var ekki nóg með að skyndilega höfðu læknavísindin yfir að ráða lyfjum sem gátu ráðið niðurlögum ýmiss konar lífshættulegra sýkinga í mönnum heldur kom seinna á daginn að notkun þeirra í dýraeldi gat gefið vel af sér. Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir, líffræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, segir að sýklalyf í litlum skömmtum hafi reynst hafa vaxtarhvetjandi áhrif á dýrin.

ÞórunnRafnar Þorsteinsdóttir, doktor í sýklalyfjaónæmi (Mynd: Freyr Arnarson)

„Nákvæm skýring á því hefur svo sem ekki alveg fundist. Og svo nota menn þetta til þess að fyrirbyggja sýkingar í stórum eldishópum. Og þar með náttúrulega að auka hagnað af eldinu,“ segir Þórunn, sem er doktor í sýklalyfjaónæmi.

Á Íslandi hefur aldrei verið leyfilegt að nota sýklalyf til vaxtaraukningar og raunar er óvíða í heiminum jafn lítið notað af sýklalyfjum í landbúnaði og hér. „Það hefur verið bannað að nota sýklalyf sem vaxtarhvetjandi þátt í dýrum í Evrópusambandinu en það er mikið notað sem vaxtarhvetjandi þáttur í Bandaríkjunum. Og bara víða annars staðar í heiminum,“ segir Þórunn.

Lyfin gætu hætt að virka

Það er innan við öld síðan sýklalyfin voru uppgötvuð en segja má að þessi kraftaverkalyf hafi fljótt orðið eigin velgengni að bráð því að sýklalyfjanotkun elur á sýklalyfjaónæmi.

Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir, segir að mun meira sé notað af sýklalyfjum í landbúnaði en við lækningar á fólki. „Það tengist náttúrlega aukinni kjötframleiðslu, verið að nota sýklalyf í svokölluðum verksmiðjubúgörðum,“ segir hann.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst sýklalyfjaónæmi sem einni mestu lýðheilsuvá sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag. „Sýklalyfjaónæmi er þegar bakteríur verða ónæmar fyrir sýklalyfi og þannig að ef við ætlum að nota sýklalyf til þess að meðhöndla sýkingu af þeirra völdum virkar ekki viðkomandi sýklalyf,“ útskýrir Karl.

Þórunn segir að það gæti farið illa. „Ef ekkert er að gert endar með því að við höfum engin sýklalyf til þess að meðhöndla sýkingar í mönnum,“ segir hún.

Verða ónæmar fyrir lyfjunum

Því meira sem er notað af lyfjunum því gagnslausari verða þau. „Það er kannski lítill hluti baktería sem er ónæmur, við skulum segja í þörmunum. Og svo gefum við sýklalyf sem þurrkar út bakteríuflóruna sem er næm og þannig eykst vaxtarhraði og fjölgun á þessum ónæmu bakteríum,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

Þetta getur gerst í þörmum manna og dýra. Menn geta síðan smitað hver annan af ónæmum bakteríum og dýrin sömuleiðis.

Ónæmar bakteríur smitast á milli manna og dýra (Mynd: Ragnar Visage) 

En hvernig tengist þetta innflutningi á ófrystu kjöti til Íslands? Jú, sjáið til, ónæmu bakteríurnar geta líka borist í menn úr matvælum, til dæmis kjöti eða grænmeti sem komist hefur í snertingu við vatn eða dýraáburð sem innihélt ónæmar bakteríur.  

Og ekki nóg með það, ónæmar bakteríur geta látið sýklalyfjaónæmið ganga til annarra baktería.  „Þannig að í einu vetfangi, kannski bara í sjúklingi sem er að fá tiltekna sýklalyfjameðferð, geta þessi ónæmisgen flust frá kannski skaðlausri bakteríu yfir í sýkil eins og salmonellu. Og gert hana ónæma. Þannig að þetta flýtir verulega fyrir þróun ónæmis,“ segir Karl.

Muni leggja fleiri að velli en krabbamein

Í skýrslu sem unnin var fyrir bresku ríkisstjórnina 2016 var gert ráð fyrir að það mætti rekja um 700.000 dauðsföll í heiminum á ári til sýklalyfjaónæmis . „Og spár gera ráð fyrir því að árið 2050, ef ekkert verður að gert, verði þessi tala komin í 10 milljónir. Þannig að þá látist fleiri af völdum sýklalyfjaónæmra baktería en látast af völdum krabbameins í dag,“ segir Karl.

Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir. (Mynd: Freyr Arnarson)

Ef svo fer fram sem horfir má búast við að veigamiklum þáttum í nútímalæknavísindum verði teflt í tvísýnu. „Í dag eru margar af stærri skurðaðgerðum aðeins mögulegar vegna þess að það er verið að gefa forvarnasýklalyf í aðgerðinni þannig að viðkomandi einstaklingar fái ekki alvarlegar sýkingar í kjölfar skurðaðgerðanna,“ segir Karl. „Og eins líka má hugsa sér að það yrði erfiðara að bjarga mönnum sem lenda í mjög alvarlegum slysum.“

Þetta á við um aðgerðir í kviðarholi og munnholi, krabbameinsmeðferðir, líffæraflutninga, opnar hjartaaðgerðir og heilaskurðaðgerðir, svo eitthvað sé nefnt. Þarna liggja undir tiltölulega algengar aðgerðir eins og mjaðmaskipti. Ímyndið ykkur að fara um það bil öld aftur í tímann og gera þessar aðgerðir við þess tíma aðstæður, þegar engin sýklalyf voru til.  

Eitt mikilvægasta lyfið

Þórólfur sóttvarnarlæknir segir að sennilega séu hafi fá lyf sem hafi komið í veg fyrir eins jafn mörg dauðsföll eins og sýklalyf. „Og það verður að gera allt sem hægt er til þess að stemma stigu við þessu ónæmi,“ segir hann.
Staða Íslands er hins vegar tiltölulega góð enn sem komið er, miðað við önnur lönd. „Sóttvarnastofnun Evrópu gaf út skýrslu í fyrra, sem sýnir að Ísland er með lægstu sjúkdómsbyrðina af völdum sýklalyfjaónæmra baktería af öllum Evrópulöndum,“ segir Þórólfur.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. (Mynd: Freyr Arnarson)


Þá stöðu vilja margir verja. En menn greinir á um hvaða aðgerðir séu réttmætar.
Almennt mætti segja að ástandið versni eftir því sem sunnar dregur í Evrópuálfunni.  „Ástandið er sýnu verst í löndum eins og Indlandi og í Suðaustur-Austur- Asíu,“ segir Karl. „Við siglum í sömu átt og hinir að sjálfsögðu en mér finnst  við hafa einstakar aðstæður hér á Íslandi til þess að reyna að sporna við þessari þróun, með ýmsum aðgerðum.“

Sneiðir hjá innfluttu grænmeti

Hvaða aðgerðir eru réttlætanlegar? Er til dæmis réttlætanlegt að leggja hömlur á innflutning á kjöti? Ekki samkvæmt EFTA-dómstólnum og hvorki héraðsdómi né Hæstarétti en hvað sem dómstólum líður þá er þetta afstaða Karls: „Ég sneiði hjá innfluttu grænmeti. Og ég reyni alltaf að kaupa kjöt sem er innlent.“

Hversu alvarlegt er þetta? Á fólk að óttast það að borða ferskt erlent grænmeti? „Fólk erlendis borðar þetta grænmeti og það stráfellur ekki.  En þetta er aukin áhætta. Það er meira um sýklalyfjaónæmar bakteríur í grænmeti og kjöti víða erlendis frá. Maður þarf bara að vera svolítið meðvitaður. Að elda kjötið rétt og skola grænmetið,“ segir Þórunn.

Steik og grænmeti. (Mynd: Freyr Arnarson)

Auknar varnir allstaðar

Karl segir að hið óþekkta sé vandamál í þessu. „Vandamálið er, ef við tölum um innflutning á matvælum og þá fersku kjöti, að það veit eiginlega enginn nákvæmlega hvað stór hluti af sýklalyfjaónæmum bakteríum kemur úr mat eða fóðri. Og það veit heldur enginn hvað það er stór hluti sem kemur með ferðamönnum,“ segir hann.

Hann er þeirrar skoðunar að það séu svo miklir hagsmunir í húfi að við eigum að gera allt sem við getum jafnvel þótt við vitum ekki hversu mikil áhættan er í hverjum flokki? „Jafnvel þó við vitum ekki nákvæmlega hvað mörg prósent koma frá einum stað eða öðrum eigum við bara að leggja áherslu á að auka varnirnar alls staðar,“ segir hann. „Ég er ekki að mæla með boðum eða bönnum. Ég er bara að mæla með því að fólk sé upplýst og það geti þá, ef það fer til dæmis út í kjörbúð, tekið upplýsta ákvörðun um hvaðan það velur matvælin. Það séu upprunamerkingar.“

Sóttvarnalæknir deilir áhyggjum Karls af þróun sýklalyfjaónæmis. „Ég vil hins vegar fá meiri upplýsingar um tilvist ónæmra baktería í matvælum, íslenskum og erlendum, áður en ég fer að draga sterkari ályktanir af þessum innflutningi,“ segir Þórólfur.

Í miðbæ Reykjavíkur. (Freyr Arnarson)

Hann telur að við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hægja á þessari þróun og þess vegna verði að afla nauðsynlegra gagna til að geta með góðum rökum gripið til aðgerða.

Þola frystinguna

Samkvæmt Evrópureglugerð hefði átt að skima fyrir sýklalyfjaónæmum bakteríum í kjöti hér á landi frá árinu 2014. Reglugerðin var hins vegar ekki innleidd fyrr en í fyrra. Fyrsta skimun var þó gerð árinu áður. Ónæmar bakteríur fundust þá aðeins á einu sýni, svínakjöti frá Spáni.

Á allra næstu dögum er von á nýjum niðurstöðum úr skimun Matvælastofnunar á kjöti á markaði í fyrra. Þó er vitað að ónæmar bakteríur finnast líka í íslenskum kjúklingum og svínum.

En svo er það frystiskyldan sem hvílir á innfluttu kjöti, hún hefur ekki áhrif á sýklalyfjaónæmið, segir Þórunn.  „Flestar bakteríur þola frystinguna mjög vel og það hafa engar rannsóknir verið gerðar sem sýna að frysting fækki sýklalyfjaónæmum bakteríum í kjöti.“ „Kjöt er vissulega ein leið fyrir sýklalyfjaónæmar bakteríur til að berast í menn. Ég veit samt ekki hvort þetta er það sem við eigum að einbeita okkur að. Mér finnst að við þurfum bara að horfa á miklu fleiri þætti. Þetta er svo flókið. Það er svo margt sem þarf að huga að, meira en kjötið.“

Ekki í aðgerð hvar sem er

Þar á meðal eru til að mynda ferðir Íslendinga til annarra landa, eins og sóttvarnarlæknir bendir á. „Ónæmar bakteríur dreifast líka með Íslendingum sem eru að ferðast erlendis. Á svæðum þar sem ónæmi er mikið. Þeir koma með bakteríur með sér heim í görninni. Ferðamenn erlendis frá koma með svona bakteríur hingað heim,“ segir hann.

Þetta er reyndar angi af málinu sem Karl G. Kristinsson segir að ekki sé gefinn nægilegur gaumur.„Ég myndi nú ferðast til allra landa sjálfur, nema ef ég ætti að fara í aðgerð eða eitthvað svoleiðis. Þá myndi ég hugsa mig tvisvar um áður en ég færi til Indlands eða Suðaustur-Asíu,“ segir hann. „En það eru ekki margir sem að leiða hugann að þessu og ég er svona að reyna að kynna fyrir læknum og almenningi að þetta skiptir máli.“

Sjúkrabíll á ferð. (Mynd: RUV)

Sums staðar er sýklalyfjaónæmi vandamál og Karl telur að taka þurfi tillit til þess þegar ákveðið er að leita lækninga erlendis, hvort sem það eru tannlækningar eða skurðaðgerð. „Það eru þá meiri líkur á því að sýkjast af þessum fjölónæmu bakteríum,“ segir hann.

Í betri stöðu en aðrir

Karl dregur upp dökka mynd af aðstæðum og framtíðarhorfum. Getur verið að fólk sé bara ekki tilbúið til að hlusta á boðskapinn sem hann ber? Til dæmis að við eigum ekki að neyta matvæla frá öðrum löndum og ekki ferðast til ákveðinna landa. „Já, þetta er erfið umræða og það er náttúrulega þægilegast að útiloka hana og hugsa ekki um þetta mál. En það er mikilvægt fyrir ákveðna hópa að huga að þessum málum því að það getur skipt þá verulegu máli. Og eftir því sem tímarnir líða og hlutfall sýklalyfjaónæmis hækkar fer þetta alltaf að skipta meira og meira máli og ég tel að þetta skipti verulegu máli nú þegar,“ segir hann.

„Við erum reyndar í einstakri aðstöðu eins og hin Norðurlöndin. Þannig að það er ekkert vandamál að fara til ákveðinna landa, en þetta skiptir máli,“ segir Karl. „Við eigum ekki að banna ferðamenn eða banna ferðalög, það er bara mikilvægt að við séum alla vega upplýst um þá áhættu sem við tökum.“

Norðurlandameistarar í sýklalyfjanotkun

Ef innflutningur á kjöti skiptir ekki máli svo lengi sem fólk ferðast óhindrað milli landa, er þetta þá ekki töpuð barátta? Þórólfur heldur ekki. „Ég held að við getum gert ýmislegt og það er verið að gera ýmislegt. En það getur vel verið að við náum einhverjum toppi sem er hærri en núna áður en ástandið fer að lagast,“ segir hann.

Raunar eru Íslendingar uppi á eins lags toppi nú þegar, handhafar Norðurlandameistaratitilsins í sýklalyfjanotkun. Þórunn segir að hér sé þveröfug þróun við það sem gerist annars staðar. „Á sama tíma og hún hefur verið að aukast hér hefur hún verið að minnka á annars staðar Norðurlöndunum og það er eitthvað sem væri mjög mikilvægt að skoða,“ segir Þórunn sem hefur reyndar ákveðnar kenningar um að vinnumenning Íslendinga eigi þar talsverðan hlut að máli. „Fólk vill ekki missa dag úr vinnu og við förum of oft með börn sem eru svolítið veik á leikskólann. Börnin fara þá náttúrulega og smita önnur börn. Við mætum í vinnuna svolítið veik, hóstandi og smitum aðra. Og til þess að missa ekki dag úr vinnu þá viljum við fá sýklalyf til þess að losna við sýkinguna. Komast sem fyrst aftur til vinnu,“ segir hún.

Skoðað í smásjá. (Mynd: Freyr Arnarson)

Ýmislegt enn hægt að gera

Sem betur fer eru ýmis tól í verkfærakistunni sem nýtast í baráttunni við sýklalyfjaónæmi. Fyrsta skrefið er auðvitað að draga úr sýklayfjanotkun; að taka þau bara þegar nauðsyn krefur og nota þau rétt. Það á til dæmis alltaf að klára sýklalyfjakúra sem læknar hafa ávísað en ekki hætta að taka lyfin um leið og einkennin eru horfin. Hreinlæti skiptir líka máli, svo færri verði veikir og þurfi á lyfjunum að halda. Og svo þyrfti helst að finna upp nýja flokka sýklalyfja. Það eru nefnilega áratugir síðan nýr flokkur sýklalyfja fannst. Og það eru færri að leita.„Þetta eru dýrar og miklar rannsóknir sem ég held að lyfjafyrirtæki bara leggi ekki í,“ segir Þórunn.

Það er tímafrekt og erfitt að þróa ný sýklalyf og gróðavonin er takmörkuð því að ef ný sýklalyf fyndust yrði lögð áhersla á að nota þau sem minnst svo þau héldu virkni sinni. Þar fyrir utan er mun ábatasamara fyrir lyfjafyrirtæki að framleiða lyf sem fólk tekur á hverjum degi árum og áratugum saman en ekki bara í eina eða tvær vikur.

Verðum að taka í taumana

Karl er líka á því að baráttan sé ekki töpuð þótt vandamálið virðist vera óleysanlegt. „Það hljómar þannig já, eins og kannski með hlýnandi loftslag og gróðurhúsaáhrifin. En ef við tökum höndum saman getum við hægt verulega á þessari þróun og hugsanlega snúið henni við. En það verður þá ýmislegt að gerast í landbúnaði í þeim löndum þar sem verið er að nota mest af sýklalyfjum,“ segir hann.

Úr kjötvinnslu. (Mynd: RUV)

Hvað sem innflutningi á ófrystu kjöti til Íslands líður er sem sagt ljóst að sýklalyfjaónæmi er eitt af stóru viðfangsefnunum framundan.

„Ég þekki málið mjög vel og ég tel mig í rauninni bara hafa þá skyldu að upplýsa almenning um stöðuna og áhætturnar. Og sjálfur hef ég engra annarra hagsmuna að gæta. Nema þá hugsanlega bara hagsmuni barna og barnabarna. Að þau viti það að ég hafi nú alla vega reynt að gera eitthvað í stöðunni með þá þekkingu og vitneskju sem ég hef,“ segir Karl.

Getur verið að hann dragi upp of dökka mynd?

„Ég get alveg fallist á að ég taki dæmi sem eru frekar dökk. En þau dæmi eru sönn. Og ég held að ef ég tæki ekki dökku dæmin þá myndi það ekki hafa nein áhrif,“ segir hann og bætir við: „Mér finnst mér bera skylda til þess að menn viti hver staðan er og hvernig hún getur orðið. Því við verðum að taka í taumana.“