*

Stór hluti vegakerfisins ber ekki um­ferðar­þungann

Það eru engin nýmæli að malbik og klæðningar á vegum skapi hættu. Vegir eru holóttir, það eru djúp hjólför í þeim og stundum verða þeir hálir á heitum sumardögum. En hvers vegna er þetta svona? Erum við svona léleg í að leggja vegi? Hvað þarf að gera til að bæta ástandið?

Vegakerfi ríkisins er um 13.000 kílómetra langt. Af þeim eru um 5.600 með bundnu slitlagi en annað eru malarvegir.

Ólafur Kr. Guðmundsson, sérfræðingur í umferðaröryggi, hefur lengi fylgst með ástandinu á vegum landsins:

„Svona í kringum 2013-14 fór ég að hella mér svolítið út í malbikið og reyndi að afla mér einhverra upplýsinga um hvað væri í gangi hérna. Ég hitti malbikunarstöðvarnar og þá sem hafa séð um þetta og Vegagerðina og fór yfir þetta með fólki, hvað væri að. Fyrst hélt maður að það væri eitthvað eitt að en svo kom í ljós að það var bara eiginlega allt að. Ef við tölum bara um mölina, hvaða bik er notað í þetta, hitastig, þykktin, undirlag - það var meira og minna eitthvað að alls staðar. Svo safnast þetta náttúrulega saman í ástandið eins og það er.“

Ólafur Kr. Guðmundsson hefur fylgst með ástandi vega um árabil

Hægt er að skipta bundnu slitlagi í tvo flokka, malbik og klæðningu. Sameiginlegt með þeim er að bik og steinefni eru notuð í hvort tveggja en mikill munur er á lagningu, meðferð, efnasamsetningu og uppbyggingu veganna. Og vandamálin sem tengjast þeim eru ekki þau sömu.

Flestir vegir utan suðvesturhornsins eru klæddir en ekki malbikaðir. Þá er bik þynnt út, blandan lögð á veginn og steinefni lagt yfir og því þjappað ofan í blönduna, fyrst með valtara en bílarnir sjá svo um afganginn. Við þetta verður til eins og hálfs sentimetra þykkt slitlag á veginum.

Björk Úlfarsdóttir efnafræðingur hefur í nokkur ár rannsakað klæðningar í samvinnu við Vegagerðina. Hún segir að þær henti vel á vegum þar sem umferð er minni:

„Þetta er bara hugsað fyrir umferðarminni vegi. Þetta mætti alls ekki leggja út hérna í höfuðborginni og jafnvel er þetta er notað á hringveginn og jafnvel eru sem sagt staðir á hringveginum komnir með of mikla umferð fyrir þessa týpu af slitlagi.“

Björk hefur rannsakað klæðningar í mörg ár

Þessu er Ólafur sammála. Klæðningar henti vel til síns brúks á vegum þar sem umferð er lítil. En nú séu breyttir tímar: „Þetta slapp á Íslandi meðan bara við vorum að keyra á þessum vegum. En undanfarin tíu ár, eftir að ferðamannaholskeflan byrjaði og álag á vegina snarjókst, fórum við bara yfir það sem klæðning þolir.“

Hvers vegna eru vegirnir þá ekki malbikaðir, þegar umferðin er orðin þetta mikil? Svarið við því er einfalt, segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Hlaðbæ-Colas: „Eitt lag af klæðningu kostar kannski 6-700 krónur fermetrinn. Eitt lag af tiltölulega þykku malbikslagi kostar kannski 3.000 krónur fermetrinn.“

Klæðningunum blæðir

Það eru þrjár tegundir klæðninga á vegum á Íslandi: þunnbik, þjálbik og bikþeyta. Í þunnbiki er bik þynnt út með hvítspíra, í þjálbiki er það þynnt út með lífolíu eins og repjuolíu eða fiskiolíu og í bikþeytu er bikið þynnt út með vatni með sérstakri aðferð. Nú er næstum alfarið hætt að nota þunnbik enda er hvítspíri mjög mengandi. Þá hefur notkun repjuolíu í þjálbiki verið nærri alveg hætt líka, þar sem sú blanda gafst ekki nógu vel. Nú er því mest notuð bikþeyta og þjálbik með fiskiolíu í vegaklæðningar.

Þegar of margir bílar aka á klæddum vegum geta myndast svokallaðar blæðingar. Þá þrýstist bikið upp fyrir steinana og vegurinn verður háll. Ólafur sýnir okkur myndbönd af vegum á Suðurlandi þar sem blæðingar hafa skapað hættulegar aðstæður:

„Þetta eru rúturnar sem eru allan ársins hring að keyra inn á Geysi. Vegurinn þolir þær ekki. Og klæðningin blæðir alveg þvílíkt. Þetta er algerlega löðrandi í olíu og flughált.“

Í lok ágúst í fyrra varð slys í Vík í Mýrdal, þegar vöruflutningabíll rann stjórnlaust niður brekkuna inn í þorpið. Ástæðan var blæðingar í klæðningu. Tveir ferðamenn áttu fótum fjör að launa og mikil mildi þykir að ekki fór verr því að bíllinn rann yfir tvær gangbrautir.

„Klukkan tólf komu allir krakkarnir úr skólanum og voru að fara heim til sín og löbbuðu yfir þessar gangbrautir. Korteri seinna. Þannig að núna eru þeir að heimta það hjá Vík að öll brekkan hérna upp á Reynisfjall verði malbikuð. Við getum ekki tekið þennan séns aftur.“

Íslensku steinefnin

Það eru ekki einvörðungu blæðingar sem skapa hættu á klæddum vegum. Steinlos í klæðningum er annað vandamál. Þeir sem starfa í þessum geira og Kveikur hefur rætt við, eru sammála um að mikið af innlenda steinefninu sé ekki nógu gott, það sé oft ekki nægilega slitsterkt og límist verr við bikblönduna en harðara efni. Einn sem er hefur verið í bransanum í áratugi orðaði það svona:

„Það er náttúrlega reynt að taka bara efni sem er næst og, þú veist, þetta er meira og minna, eins og maður segir, bara drulla. Stundum er bara verið að fara alveg ódýrustu leiðina og þá eru þeir að taka það sem er næst og láta það sleppa fyrir þessa umferð, eins og er oft sagt.“

Þessu vísar Vegagerðin á bug:

„Þetta er fullyrðing sem ekki er hægt að einfalda á þennan hátt,“ segir í skriflegu svari frá Birki Hrafni Jóakimssyni, verkefnastjóra hjá Vegagerðinni. „Við notum það steinefni sem stenst þær kröfur sem við gerum og í langflestum tilfellum stenst íslenskt steinefni kröfurnar [...] Íslensk steinefni eru líka afar breytileg [...] [og] víða af þeim gæðum að þau henta vel til að nota í klæðingar, þar sem við t.d. klæðum vegi með umferð frá örfáum bílum á dag upp í 2-3000.“

Björk Úlfarsdóttir mælir þó heldur með erlendu steinefni: „Ég myndi alfarið mæla með að nota norskt granít. Það er slitsterkara. Það náttúrlega kostar peninga að flytja steinefni að utan og hingað. Þess vegna erum við alltaf að reyna að leita leiða til þess að nýta íslensku steinefnin með klæðningunni.“

Lítið malbik – og þunnt

Um 12 prósent af vegum með slitlagi eru malbikaðir. Það er malbik á höfuðborgarsvæðinu, á stofnleiðunum til Keflavíkur, Selfoss og Borgarness og svo á einhverjum köflum í ýmsum bæjarfélögum. Malbik er miklu slitsterkara og þolir miklu meiri umferð en klæðning enda miklu þykkara. Hvert lag er fimm til sex sentimetrar.

„Við viljum gjarnan að vegir þar sem umferð er komin vel yfir 2.000 bíla, að ég tali nú ekki um 3.000 bíla, séu malbikaðir. Okkur er sannarlega ekki að takast það enda hefur umferðin aukist mjög hratt á stuttum tíma“, segir Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar. „Þetta eru bara risastór samgönguverkefni, að koma malbiki á vegi. Það er yfirleitt ekki hægt að klæða þá beint, sem sagt þegar við förum í það að setja malbik þá förum við líka í að meta burðarlag vegarins, breidd hans, frágang á vegöxlum og annað slíkt og við erum náttúrulega í svakalega stórum verkefnum, eins og Kjalarnesið er að fara af stað núna og Suðurlandsvegurinn, þar sem verið er að endurbyggja þessa gömlu vegi þar sem umferðin er orðin gríðarleg.“

„Erlendis nota menn mörg lög af malbiki,“ segir Ólafur Guðmundsson. „Við yfirleitt malbikum bara eitt lag og svo ekki meir. Allra nýjustu vegirnir, eins og Kambarnir og milli Hveragerðis og Selfoss, þar eru þeir að malbika rétt tvö lög. Megnið af öðrum vegum, Reykjanesbrautin, tvöföldunin á henni: eitt lag. Sandskeið, tvöfaldi kaflinn þar: eitt lag. Við tímum ekki að láta tvö lög svo þetta er alltof þunnt.“

Malbik er viðkvæmt efni og miklu skiptir að vandað sé til verka þegar unnið er með það. Ef blandan er of köld gengur illa að þjappa efnið, steinar fara fljótlega að losna úr veginum og hann endist skemur. Sigurður Erlingsson, verkfræðiprófessor í vega- og gatnagerð, jarðtækni og bergtækni, eða með öðrum orðum sérfræðingur í malbiki, segir að á Íslandi hafi tilhneigingin verið sú að hafa malbiksblönduna þétta svo vatn komist ekki í efnið og sprengi það þegar frystir:

„Á Íslandi höfum við svona í áranna rás talið eiginlega stærsta bófann vera okkar veðráttu. Vatn á það til að komast ofan í efnið. Svo þegar frystir þá sprengir það út frá sér og losar um og þá raknar malbikið upp. Þess vegna hafa menn haft tilhneigingu til þess að hafa blönduna þannig að hún verði mjög þétt, það er að segja öll holrýmin inni í kjarnanum verði fyllt biki. En það er á kostnað ýmissa annarra eiginleika í blönduninni.“

Sigurður Erlingsson, með malbikskjarna. Hann segir malbik vera viðkvæmt efni og vandmeðfarið. 

Fyrir vikið sé holrýmd malbiksins, eða lofthlutinn, oft mjög lítill eða tvö til þrjú prósent.

„Og ef hann verður minni en það töpum við eiginleikum og efnið verður ekki eins stabílt fyrir bragðið. Þá getur hjólfaramyndun orðið hraðari en ella, viðnámseiginleikar breytast, bremsuvegalengdin verður meiri.“

Malbik á hraðbrautum og umferðarþyngri vegum erlendis er lagt í allt að þremur lögum. Hér á landi er hins vegar algengt að lagt sé eitt lag á vegina sem þýðir að vegirnir eru ekki eins endingargóðir. Þeir eiga líka til að verða hálir, því hlutfall biks og lofts eru ekki rétt. Það er of mikið bik og of lítið loft. „Þá sest bik á yfirborðið, það myndast svona filma á yfirborðinu sem óneitanlega verður hál“, segir Sigurður.

„Ef við höldum okkur við malbikið, þá pressast bikið upp þannig að þetta verður alveg slétt eins og spegill,“ segir Ólafur Guðmundsson. „En malbik á að vera svona yrjótt, þess vegna er möl, til að fá grip þar sem dekkin grípa í malbikið. Þú getur líkt því við að keyra annars vegar á blautu gleri eða keyra á grófum sandpappír, það er allt annað grip við þær kringumstæður. Og ef það gerist að bikið fer upp í gegn og þetta verður spegilslétt þá verður það sleipt en flughált ef það blotnar. Þetta er sama aðferð og menn nota erlendis þegar þeir eru að búa til hálkubrautir fyrir ökuskóla.“

Bæði verktaki og eftirlit brugðust

Í sumar varð alvarlegt umferðarslys á Kjalarnesi þegar bifhjól og bíll skullu saman. Tvö létust í slysinu og einn var fluttur slasaður á sjúkrahús. Ökumenn hjólanna virðast hafa misst stjórn á þeim og fljótlega bárust böndin að malbikinu. Slysið varð á sunnudegi en aðfaranótt föstudagsins var lagt nýtt malbik á þennan kafla á Vesturlandsvegi.

„Malbik og klæðning er bara uppskrift að efnum sem eru meðhöndluð á ákveðinn hátt, bara eins og kaka,“ segir Ólafur Guðmundsson. „Þú notar ekki lýsi í staðinn fyrir smjörlíki í uppskrift, það verður ekki góð kaka. Og ef þú ert með vitlausan hita á ofninum, þá annað hvort verður hún hrá eða hún brennur. Það er nákvæmlega sama hér, það er uppskrift að malbiki og klæðningu, við bara förum ekki eftir uppskriftinni og meðhöndluninni.“

Þessi mynd, sem tekin var daginn eftir slysið, sýnir hversu gljúpt bikið var. Förin sem sjást þarna eru eftir bíl sem stóð á malbikinu í smástund. Sigurður Erlingsson telur mjög líklegt að alltof mikið bik hafi verið í malbiksblöndunni sem þarna var lögð.

Nokkrar kvartanir bárust til Vegagerðarinnar fram að slysinu og eftirlitsaðilinn hefði átt að sjá að vegurinn væri mögulega háll. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, tekur undir það:

„Hann gerir það í sjálfu sér, hann setur upp hálkuviðvörunarmerki en það eru í okkar útboðsgögnum fyrirmæli um að þegar að hálkublettir hafa náð tiltekinni útbreiðslu skuli stöðva verkið. Við höfum ekki aðra skýringu en þá en það bara er ekki gert og það er bara mjög alvarlegt. Það er okkar mat að þarna hafi verktakinn brugðist og eftirlitsmaðurinn líka.“

Samkvæmt heimildum Kveiks hringdu vegfarendur í Vegagerðina strax á laugardeginum og vöruðu við hálkunni á veginum. Hefði það ekki átt að vera tilefni til þess að fara bara og athuga hvað væri um að vera?

„Jú í sjálfu sér hefði það alveg verið tilefni til þess. En það sem kannski má segja þessu fólki til varnar ef einhver er, það er að þetta kemur algjörlega óvænt. Það var enginn sem átti von á neinu þessu líku og ástandið á þessu efni sem er lagt þarna út er eitthvað sem menn hér hafa ekki séð, hvorki fyrr né síðar. Þannig að ég held að menn hafi bara hreinlega verið teknir í bólinu með það hversu alvarlegt þetta var,“ segir Bergþóra.

Á vettvangi banaslyssins á Kjalarnesi í júní 2020

Þegar útboðslýsingar fyrir verkið á Kjalarnesi og önnur malbikunarverkefni Vegagerðarinnar eru skoðaðar sést að Vegagerðin gerir kröfur um að holrýmd malbiks sé 1-3 prósent. Í Noregi og víðast hvar annars staðar í Evrópu er gerð krafa um að holrýmdin í malbiki sé á bilinu 2-8 prósent. Sigurður telur að það sé tímabært að hækka þennan lofthluta.

Birkir Hrafn Jóakimsson hjá Vegagerðinni er ekki viss um það: ,,Þetta hefur þótt gefa góða raun til að sporna við því að frost-þíðu sveiflur skemmi malbikið. Þessi gildi eru byggð á fjölda rannsókna í gegnum tíðina og til viðmiðunar miðar sænska Vegagerðin við 1,5-3,5 prósenta holrýmd sem ekki er langt frá okkar viðmiðunum.”

Rannsókn sem Vegagerðin lét gera á malbikinu á Kjalarnesi leiddi í ljós að holrýmd malbiksins var allt of lítil og bikmagnið allt of mikið sem gerði það flughált. Það var enda augljóst öllum sem fóru um þennan vegarkafla þessa helgi í júní að það var eitthvað mikið að. Malbikið var spegilslétt og það eitt hefði átt að gefa tilefni til að stöðva framkvæmdir strax á föstudeginum eða í það minnsta hefði átt að mæla hemlunarviðnám vegarkaflans.

Vegagerðin gerir kröfur um að hemlunarviðnám sé 0,5 en í góðu malbiki er það oft nokkuð hærra, jafnvel 0,7 eða 0,8. Í Bretlandi og víðar er miðað við 0,65 og á flugbrautum þarf það að vera 0,75. En hvers vegna er viðnámið ekki bara alltaf mælt?

„Það er bara góð spurning og það getur bara vel verið að það eigi að verða þannig. Þetta er mæling sem er svolítið umhendis að gera og við eigum ekki nema einn mæli, en þetta er eitt af því sem að er til skoðunar hér, hvort þetta eigi bara að vera standard,“ segir Bergþóra.

Ábyrgðin hjá Vegagerðinni

„Við drögum margvíslegan lærdóm af þessu slysi,“ segir Bergþóra. „Þetta var bara skelfilegt slys og síðan erum við búin að setja af stað hér innanhúss umfangsmikla vinnu við að skoða alla okkar verkferla í kringum vinnslu á malbiki og klæðingum þannig að það verði hægt að breyta útboðslýsingum fyrir næsta ár eftir því sem að menn komast að.“

Eftir standa allir hinir vegakaflarnir á landinu með sínum holum, hjólförum, steinlosi og blæðingum. Og enn er töluvert langt í að hægt verði að leggja malbik á alla umferðarþunga vegi. Ástæðan: það eru ekki til peningar. Góður, malbikaður vegur með vegriðum og öllu tilheyrandi, eins og sá sem verið er að leggja á Reykjanesbrautinni er heldur ekki gefinn.

„Ætli verkið, tveir kílómetrar, kosti ekki tvo milljarða,“ segir Sigþór Sigurðsson hjá Hlaðbæ-Colas. „Þannig að þetta er milljarður á kílómetrann í svona framkvæmd. Við höfum kannski hérna á Íslandi verið að spara við okkur eða ráðstafað takmörkuðu fé í vegagerð og þá hefur verið gripið til þess kannski að nýta þessar ódýrustu lausnir, eins og til dæmis klæðningar. Það er nánast hægt að segja að það sé stórhættulegt að keyra um þjóðvegakerfið okkar. Það er mjótt og það er slitið og það eru hjólför og það eru þessi ódýru efni, þannig að þetta er ekki gott.“

Aðeins 680 kílómetrar eru malbikaðir á landinu og tæplega 5.000 kílómetrar eru klæddir. Malarvegirnir eiga því enn vinninginn, þeir eru rúmlega 7.300 kílómetrar. Verkefnið er risastórt, um það deilir enginn, allra síst forstjóri Vegagerðarinnar:

„Viðhaldsþörfin eins og við skilgreinum hana í dag er 14 milljarðar á ári. Viðhaldsféð fór niður í fimm milljarða þegar verst var eftir hrun og það segir sig alveg sjálft að þegar það skortir svona mikið fé árum saman inn í viðhald á stærstu eign ríkisins þá sést það einhvers staðar,“ segir Bergþóra. „Við erum líka að horfa á það að þegar þú viðheldur ekki einhverju þá smám saman brotnar það niður og á endanum verður viðhaldið miklu dýrara heldur en það hefði verið ef þú hefðir getað sinnt því jafnt og þétt.“