*

Smálán, stór skuld

Eftir að íslensk stjórnvöld þrengdu að starfsemi smálánafyrirtækja hvarf þorri íslensku fyrirtækjanna af yfirborðinu en skaut upp höfðinu í Kaupmannahöfn skömmu síðar. Þaðan bjóða þau Íslendingum lán með árlegan kostnað upp á allt að 35 þúsund prósent. Þetta brýtur í bága við íslensk lög.

Árið 2009 heyrðu Íslendingar fyrst um hraðlán. Einfalda leið til að ná sér í smáupphæð, redda sér, með því að senda SMS.

Það má segja að frá fyrsta degi hafi staðið yfir stríð við þessi fyrirtæki, sem eru sökuð um að níðast á þeim sem viðkvæmastir eru, rukka okurvexti og fara á skjön við lög.

Strax 2010 var því reynt að setja lög um þessa starfsemi. Árni Páll Árnason, þáverandi félagsmálaráðherra sagði í viðtali við RÚV 2010: „Þetta er starfsemi sem á ekki að líðast, hefur ekkert samfélagslegt gildi og ég held það skipti okkur miklu máli að finna leiðir til að stöðva þennan ófögnuð eins fljótt og við getum.“

Það tókst þó ekki í þeirri umferð og starfsemin hélt áfram.

Starfsemin í dag

Haukur Örn Birgisson, þáverandi lögmaður samtaka smálánafyrirtækja, varði þó framgang fyrirtækjanna í viðtali við RÚV 2012: „Það er alveg rétt að lántökukostnaður vegna þessara lána er hlutfallslega hár enda eru lánsfjárhæðirnar mjög lágar og það má alveg deila um það hvort það sé fjárhagslega skynsamlegt fyrir lántakendur að taka svona lán eða ekki.“

2013 samþykkti Alþingi loks lög um neytendalán og það varð flóknara fyrir fyrirtækin að halda starfseminni áfram óbreyttri. En svo fóru þau á hausinn, eitt af öðru.

Skömmu eftir gjaldþrot risu fyrirtækin upp frá dauðum. Tíu árum eftir að fyrsta smálánafyrirtækið var stofnað, stendur stríðið því enn, þrátt fyrir allt sem reynt hefur verið í millitíðinni. Sama þjónustan, sömu nöfnin eða vörumerkin. En í dag er bara eitt fyrirtæki á bak við þau öll.

Ef farið er inn á vef Smálána.is í dag, er notandinn strax áframsendur á annan vef, smalan.dk. Allt á íslensku, en þjónustan er nú skráð í eigu fyrirtækis í Danmörku, eCommerce 2020. Hvaða lög gilda þá, dönsk lög, því þar er móðurfyrirtækið, eða íslensk lög, því hér eru lánin veitt?

Matthildur Sveinsdóttir, lögfræðingur á neytendaréttarsviði Neytendastofu (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

„Ef markaðssetningunni er beint að íslenskum neytendum, vefsíðurnar eru á íslensku, það eru Íslendingar að fá beina markaðssetningu með SMS-um á íslensku, þá gilda íslensk lög um starfsemina,“ segir Matthildur Sveinsdóttir lögfræðingur á neytendaréttarsviði Neytendastofu.

Íslensk lög, íslensk refsing?

Þegar Matthildur er spurð að því hvort það sé ekki erfitt að lögsækja fyrirtækin eða leggja á þau sektir þegar þau eru með höfuðstöðvar erlendis svarar hún: „Það getur verið það, já. En það breytir ekki skyldunni um að þeim ber að fara að íslenskum lögum.“

Íslensku lögin kveða til dæmis skýrt á um hámarkskostnað við neytendalán, en smálán falla í þann flokk. En í skýrslu um starfsumhverfi smálánafyrirtækja á Íslandi, sem gefin var út í byrjun þessa árs, segir að smálánin beri kostnað langt umfram það hámark, það sem kallast árleg hlutfallstala kostnaðar, eða ÁHK.

Áður en lengra er haldið, er rétt að útskýra það hugtak, ÁHK. Við erum vön því að borga vexti af lánum, en smálánafyrirtæki rukka fæst vexti, heldur kostnað. Til þess að lög nái yfir allan kostnað, hvaða nafni sem hann er kallaður, var búið til hugtakið árleg hlutfallstala kostnaðar, ÁHK. Í raun er þetta ekkert ólíkt vöxtum, heitir bara annað.

„Hámarkið er 50%,“ segir Matthildur, „að viðbættum stýrivöxtum á hverjum tíma.“

Árleg hlutfallstala kostnaðar (Mynd: Ragnar Visage)

Kveikur skráði sig hjá Kredia. Reiknivélin á síðunni sýndi skilmerkilega hvað greiða þyrfti af tiltekinni fjárhæð eftir því hversu langur lánstíminn væri. Og það er ekki reynt að fela ÁHK – þótt óvíst sé að neytandi sem skoðar síðuna átti sig á því hvað það er. Ef ætlunin er að fá tíu þúsund krónur í þrjátíu daga, er ÁHK-talan 5.314%. En eigi að greiða lánið hraðar niður, á fimmtán dögum, hækkar þessi tala í nærri 35.000%.

Í Danmörku eru yfirvöld í herferð gegn þessum fyrirtækjum og þar í landi var mönnum nóg boðið vegna 250% ÁHK. En ef einhver tekur lán og skilmálar þess eru klárlega ólöglegir, ber þá að borga? Eða getur viðkomandi sagt nei?

Matthildur, lögmaðurinn hjá Neytendastofu, segir lög ekki skera úr um hvaða þýðingu það hafi. „Það eru dæmi um það hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, þar sem einstaklingur fór fyrir nefndina í kjölfar ákvörðunar frá Neytendastofu um að farið hafi verið yfir þetta hámark. Þar hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi ekki að greiða kostnað umfram hámarkið.“

Merkilegt nokk hefur aldrei reynt á þetta fyrir dómstólum. Ekki eitt einasta smálán frá félögunum Kredia eða eCommerce hefur endað þar.

Eignarhald

En hvaða fyrirtæki eru þetta í dag? Hverjir eru á bak við þau? Opinberir eigendur eru Tékkar, í gegnum félög víðsvegar í Evrópu.

Síðla árs 2016 var félagið eCommerce 2020 stofnað í Kaupmannahöfn. Stofnandinn var Michal Mensik, sem hafði átt hluta í eContent, smálánafyrirtæki á Íslandi, ásamt Óskari Þorgils Stefánssyni, sem tók svo við sem forstjóri danska fyrirtækisins snemma árs 2017.

Í maí sama ár var Kredia Group skráð í London. Stofnandinn var Tékki, Ondrej Smakal. Skömmu síðar keypti hann danska fyrirtækið og þeir Michal og Óskar hættu afskiptum, eða svo virtist.

Við heimsækjum höfuðstöðvar Kredia Group í London, á 33. hæð á dýrum stað. En þegar við komum er okkur sagt að Kredia sé „virtual client“, það er að segja, þar sé engin starfsemi eða starfsmaður.

Í fyrrasumar breyttist eignarhaldið á breska félaginu. Nýr eigandi: Michal Mensik, fyrrverandi eigandi danska, og þar áður íslenska, fyrirtækisins.

Dótturfyrirtæki Kredia, eCommerce 2020, er með skrifstofur á besta stað í Kaupmannahöfn. Starfsfólk í móttöku staðfestir að eCommerce sé skráð þarna, en hefur aldrei séð starfsmann af holdi og blóði. Það hafi hins vegar nýlega fengið tölvupóst frá fulltrúa fyrirtækisins þar sem sagði að ef einhverjir blaðamenn kæmu þarna að spyrja, þá ætti að gefa þeim upp ákveðið netfang.

Höfuðstöðvar eCommerse 2020 í Kaupmannahöfn (Mynd: DR)

Þegar íslenskumælandi starfsfólk í þjónustuveri er spurt í netspjalli hvar starfsstöðin sé, gefur það samt upp þetta heimilisfang: Havnegade 39 í Kaupmannahöfn. Og þar er enginn.

En hvar fer þá hin eiginlega starfsemi fram? Til að mynda heilt þjónustuver sem svarar fyrirspurnum á íslensku? Kannski er eitthvað að finna í Tékklandi, heimalandi eigendanna?

Þar er að finna skrifstofu fyrirtækis, Kredia, sem er skráð dótturfyrirtæki Kredia Group í London og forstjórinn er skráður Ondrej Smakal. Í samvinnu við tékkneska útvarpið leitaði Kveikur að skrifstofunni og fann lítil ummerki um raunverulega starfsemi, einungis svör í móttökunni um að stundum komi einhver við á skrifstofunni, en voða sjaldan.

Ondrej Smakal segir kollegum okkar hjá tékkneska útvarpinu að hann tali enga ensku og kemur af fjöllum þegar hann er spurður út í viðskipti fyrirtækis sem hann er sagður stýra.

En hann vill ekki veita viðtal, heldur einungis svara tölvupóstum og furðar sig á áhuga tékkneskra fréttamanna á viðskiptum hans á Íslandi. Þeir ganga á Smakal og spyrja um lögmæti viðskiptanna, en fá þá þau svör að hann viti ekki hvaða starfsemi þetta sé þar sem ekkert þeirra fyrirtækja sem hann sé í forsvari fyrir sé með starfsemi á Íslandi.

Samskiptin halda áfram í tölvupóstum. Þar verða svörin enn skrítnari. Smakal segist til að mynda aldrei hafa átt fyrirtækin, þrátt fyrir að opinber skráning í London segi aðra sögu. Hann neitar að svara hvort fyrrverandi eigendur smálánafyrirtækjanna á Íslandi séu enn viðriðnir reksturinn. Engin starfsemi sé á Íslandi, einungis í Danmörku, og allri þjónustu útvistað.

Smakal segir að hann sé reyndur stjórnandi sem hafi einfaldlega verið ráðinn til starfa. Hann gefur sig reyndar líka út fyrir að kenna fjármálalæsi á YouTube, til dæmis hvað beri að varast þegar gerður sé lánasamningur.

Hver er eigandi smálánafyrirtækjanna í dag?

Skýrsla ríkislögreglustjóra 

Í spánnýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um peningaþvætti er fjallað um muninn á lagalegum og raunverulegum eiganda. Lagalegur eigandi er sá sem er skráður á pappírunum. Hann þarf þó ekki endilega að vera raunverulegur eigandi. Með því að fá aðra til að skrá sig sem lagalega eigendur, og stofna flókið net fyrirtækja og eignarhaldsfyrirtækja sé hægt að fela sig. Raunverulegi eigandinn sé hins vegar að lokum alltaf sá sem nýtur góðs af öllu, græðir. Við höfum ekki enn gögn í höndunum sem svara þeirri spurningu með afgerandi hætti, hver það sé í þessari fléttu.

Margir leita til Umboðsmanns skuldara

Þrátt fyrir hörmungakjör smálánafyrirtækjanna vantar hins vegar ekki eftirspurnina. Það sjá starfsmenn Umboðsmanns skuldara greinilega.

„Við tókum eftir því að það var yngsti aldurshópurinn sem óx mjög hratt,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara. „Hópurinn frá 18 til 29 ára. Við vildum kanna hvað það var sem olli því. Og við rákum strax augun í þessi svokölluðu skyndilán.“

Þegar Ásta er spurð að því hvert umfang vandamálsins sé svarar hún: „Ef ég tek dæmi frá okkur, að þá var þetta 5% umsækjenda okkar árið 2012. En á síðasta ári 27,3%.“ Hún tekur annað dæmi: „Þeir sem sækja um greiðsluaðlögun í þessum hópi, þá eru 80% með skyndilán.“

Í hópnum sem leitar til Umboðsmanns skuldara eru konur í meirihluta. Þorrinn er einhleypur eða einstætt foreldri. 60% eru með grunnskólapróf, meðaltekjur eru um 335 þúsund þegar allt er tekið saman, laun, meðlag, barnabætur, húsnæðisbætur, vaxtabætur og hvaðeina annað. 22% eru atvinnulaus og 38% öryrkjar eða lífeyrisþegar. Ríflega helmingur er á leigumarkaði, einungis 9% búa í eigin fasteign. Í stuttu máli: þetta eru þeir hópar samfélagsins sem eru viðkvæmastir og verst settir.

Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

„Við sjáum bara lágtekjuhópa og oft þetta unga fólk, þetta er náttúrulega ekki með neinar tekjur,“ segir Ásta. „Líka þá sem ná ekki endum saman. Þeir eru að taka þessi lán. Svo verður þetta bara vítahringur, algjör vítahringur.“

Þeir sem taka smálán og lenda í vanskilum eru settir á vanskilaskrá. En kvarti þeir, eru þeir umsvifalaust teknir þaðan aftur. Það bendir óneitanlega til þess að grundvöllur þessara lána sé hæpinn. En það er samt innheimt af krafti.

Ásta segir að það gangi ekki vel að greiða úr þessum lánum, þegar fólk leitar til Umboðsmanns skuldara. „Við höfum reynt eins og við getum að ná til þeirra því það má ekki gleyma því að það er mikil ábyrgð að veita lán,“ segir hún og heldur áfram: „Þessi fyrirtæki sýna ekki mikla samfélagslega ábyrgð. Þannig að ég myndi segja að þetta væru mjög erfiðir viðsemjendur.“

En þótt að þorri þessara lána fari í bága við íslensk lög, er samt reynt að semja, því Umboðsmaður skuldara hefur ekki heimild til að skoða lögmæti lána eða skulda. Þeir sem eru með þessi lán verða því sjálfir að leita sér lögfræðiaðstoðar til að fá mat á lögmæti þeirra og ráðgjöf um hvort rétt sé að borga.

Smálánafyrirtækið er rekið frá Danmörku og innheimtufyrirtækið er á Siglufirði. Hvernig gengur að ná í fólk ár? „Við erum einmitt í samskiptum við innheimtufyrirtæki,“ svarar hún. „Það getur bara oft verið svolítið torsótt. Og eins og staðan er hjá okkur í dag, þá eru þetta erfiðustu viðsemjendurnir.“

Almenn innheimta innheimtir bara smálán

Fyrirtækið sem sér um innheimtu fyrir eCommerce 2020 hérlendis heitir í dag Almenn innheimta. Fimm starfsmenn þess vinna í þessu ómerkta húsnæði á Siglufirði. Samkvæmt skráningu er eigandi þess og stjórnandi lögmaður, Gísli Kr. Björnsson. Rekstrartekjurnar voru 123 milljónir 2016, ári síðar tvöfalt hærri, 239 milljónir. Eini viðskiptavinurinn er eCommerce. Fyrirtækið er lítið en kostnaðurinn mikill, svo hagnaður er nánast enginn. Til dæmis var tölvukostnaður 33 milljónir 2016 og hækkaði upp í heilar 84 milljónir ári síðar.

Skrifstofuhúsnæði Almennrar innheimtu (Mynd: RÚVAK)

Við leitum Gísla Kr. Björnsson uppi og leitum svara um innheimtu þessara umdeildu lána og starfsemi Almennrar innheimtu.

Í fyrstu tók hann því vel að veita viðtal, en snerist hugur og taldi best fyrir sig að segja sem minnst. Þó kom upp úr krafsinu að innheimtufyrirtækið var stofnað að undirlagi þáverandi framkvæmdastjóra innheimtufyrirtækisins Inkasso, Ingólfs Kristins Magnússonar, sem stýrði Almennri innheimtu þar til snemma á þessu ári, þegar hann hætti snögglega. Gísli sagðist vera að rýna í starfsemina. Eftir nokkurn eltingarleik bárust svo svör frá almannatengli þeirra félaganna, um að engin núverandi tengsl væru við fyrrverandi eigendur smálánafyrirtækjanna á Íslandi og að fyrirtækið stæði siðferðislega rétt að skyldum sínum.

Núverandi stjórnendur Inkasso þvo með öllu hendur sínar af Almennri innheimtu, segja engin tengsl þeirra á milli, og vilja ekki koma nálægt innheimtu smálána.

Höfuðstöðvar Inkasso (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

En ef íslenskt innheimtufyrirtæki er að innheimta ólögleg lán, á þá ekki Fjármálaeftirlitið að gera athugasemdir við það? Nei, því Almenn innheimta ehf. er í eigu lögmanns og rekið á lögmannsleyfi hans. Fyrir vikið er Lögmannafélagið eini eftirlitsaðilinn samkvæmt lögum. Eftirlitið felst aðallega í að tryggja að lögmenn fari eftir lögmannslögum og siðareglum, og byggist fyrst og fremst á því að kvartanir berist frá öðrum, sem telja lögmenn hafa gert rangt. En eftirlit með innheimtufyrirtæki lögmanns?

Lögmannafélag Íslands fríar sig frá ábyrgð

Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands segir að Lögmannafélagið veiti ekki innheimtuleyfi og lögmannafélagið afturkalli þar af leiðandi ekki slíkt leyfi. Raunar virðast bæði eftirlitshlutverkið og heimildir Lögmannafélagsins til að sinna því mjög á reiki.

„Við erum með lögbundið eftirlits- og agahlutverk, samkvæmt samþykktum félagsins og samkvæmt lögum,“ segir Berglind. „En það er í rauninni takmarkað hvernig við getum framfylgt þessu eftirlitshlutverki okkar.“

Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Það er ekki einu sinni skýrt hvort Lögmannafélagið geti beint málum til eigin úrskurðarnefndar og nú standa yfir málaferli til að skera úr um það. Og um það bil það eina sem úrskurðarnefndin getur gert er að leggja til réttindasviptingu, sem er sjaldgæft.

„Við erum ekki rannsóknarlögregla, það er enginn að tala um það,“ segir Berglind og heldur áfram: „En okkur er samt falið ákveðið hlutverk með lögum og okkur verður að vera gert kleift að framfylgja því hlutverki. Því annars eru þetta bara orðin tóm.

Það eru því reyndar ekki allir sammála að það sé hentugt að hagsmunafélag, eins og Lögmannafélagið hafi svona víðtækt eftirlit á sínum höndum og umboðsmaður Alþingis gerði 2014 athugasemdir við að lögmenn gætu rekið innheimtufyrirtæki án eftirlits og sérstaks leyfis. Þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram frumvarp um að því verði breytt.

Innheimtan fer í gegnum Hólmavík

Það er ekki nóg að hafa innheimtufyrirtæki á sínum snærum. Til þess að koma kröfum áleiðis, til dæmis í heimabanka, til að geta einfaldlega rukkað eitthvað, þarf að hafa aðgang að hinu svokallaða greiðslumiðlunarkerfi bankanna. Þar hefur valkostum Almennrar innheimtu fækkað.

Á Hólmavík búa á fjórða hundrað manns. Hér eru höfuðstöðvar Sparisjóðs Strandamanna, sem er bara einn af fjórum sparisjóðum sem eftir eru á landinu. Starfsmennirnir eru alls sex. Það var hér, hjá Sparisjóðnum, sem Almenn innheimta fékk aðgang að greiðslumiðlunarkerfinu.

„Það eru bara alls konar fyrirtæki í viðskiptum við okkur,“ segir Björn Líndal Traustason, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Strandamanna. „Bara alls staðar að af landinu. Það er ekki bundið við Strandasýslu. Við erum með nokkur hundruð aðila í innheimtukerfinu.“

Björn Líndal Traustason, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Strandamanna (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Hagnaðurinn af þessum aðilum áætlar Björn að sé um tíu prósent af hagnaði Sparisjóðsins.

Í lögum segir að það eigi að afla upplýsinga um tilgang með fyrirhuguðum viðskiptum og eftir atvikum hvort þau fari fram í þágu þriðja aðila. Þegar Björn er spurður að því hvernig Sparisjóður Strandamanna hefði getað gengið úr skugga um það, svarar hann:  „Við gerum það með svokallaðri áreiðanleikakönnun. Það er viðkomandi aðili sem svarar okkur sjálfur um það, hver tilgangur viðskiptanna er. Við getum ekki sannreynt það á neinn hátt, í sjálfu sér,“ og heldur áfram: „Við höfum auðvitað ekki sömu tengsl inn í atvinnulífið eins og stóru bankarnir á höfuðborgarsvæðinu, það segir sig nú alveg sjálft.“

Eins og við höfum ítrekað nefnt, fara skilmálar lánanna sem þarna er verið að rukka í bága við íslensk lög. Þegar Björn er spurður að því hvort það veki ekki spurningar hjá honum um hvort sé verið að innheimta löglegar kröfur, svarar hann: „Jú, auðvitað gerir það það, þegar maður hefur fengið ábendingar um að svo sé. Við höfum ekki haft upplýsingar um það. Við höfum brugðist við því, með því að óska eftir upplýsingum frá þessu fyrirtæki um hvað það er að gera í innheimtukerfinu okkar.“

Hann svarar því neitandi þegar hann er spurður hvort slíkar upplýsingar hafi borist og þegar hann er inntur eftir því hver viðbrögð Sparisjóðs Strandamanna verði þegar og ef svör berist, svarar hann: „Það segir sig alveg sjálft, ef að fyrirtæki er í viðskiptum við okkur og er að haga sér með ósæmilegum hætti og misnota okkar kerfi, okkar þjónustu. Þá getur það ekki verið í viðskiptum við okkur.“

Björn og aðrir í fjármálageiranum gætu þurft að velta svona löguðu nánar fyrir sér á næstunni, því ein af tillögum nefndar um starfsumhverfi smálánafyrirtækja er að greiðsluþjónustu banka og sparisjóða verði gert ómögulegt að innheimta kostnað af neytendalánum umfram lögbundið hámark.

„Danir, hafa sem dæmi, farið í tímatakmarkanir,“ segir Ásta. „Það má ekki taka þessi lán á næturnar. Og það eru 48 tímar frá því að þú tekur lán þangað til þú færð lánið. Og þú getur afturkallað á þeim tíma.“

Umboðsmaður skuldara (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Víða er starfsemi smálánafyrirtækja leyfisskyld. Væntanlega þýðir það að brjóti fyrirtæki lög og reglur, er leyfið afturkallað.

Starfshópurinn hér heima taldi hins vegar ekki þörf á að lánastarfsemi yrði gerð leyfisskyld. Leyfisskylda gæti hamlað nýsköpun og dregið úr samkeppni.

„Neytendastofa hefur lengi talað fyrir því að það þurfi skráningu eða leyfisskyldu á þessi fyrirtæki,“ segir Matthildur, lögmaður hjá Neytendastofu. „Þá bæði til þess að auka utanumhaldið og að Neytendastofa sé ekki hreinlega að fara út að leita hvar þessi fyrirtæki eru. Heldur eigum við þau þá til á skrá hjá okkur. Og eins þá bara auðvelda aðgengi að fyrirtækjunum.“

Matthildur segir að það séu svo sem engin rök gegn því að þessi fyrirtæki séu skráningarskyld. „Í skýrslunni er talað um að mögulega sé of íþyngjandi að hafa leyfisskyldu þar sem eingöngu er skráningarskylda á fyrirtæki sem eru að veita fasteignalán til neytenda sem eru þá að lána mun hærri fjárhæðir.“

Þingmenn allra flokka á Alþingi hafa raunar rætt nauðsyn þess að auka eftirlit með smálánafyrirtækjum og gera starfsemina leyfisskylda. Frumvarp þess efnis var lagt fram í haust en hefur ekki komist á dagskrá.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, var meðal þeirra sem ræddu þetta 2018: „Við þurfum að setja þessa starfsemi, gera hana leyfisskylda og setja hana undir þau lög sem að aðrar fjármálastofnanir sem hér eru, því þetta er jú ekkert annað en fjármálastarfsemi.“

Á að borga svona lán og kostnaðinn sem því tengist?

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

„Við teljum að þessir vextir séu klárlega ólöglegir og við hvetjum fólk til að greiða bara höfuðstólinn,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. „Og krefjast þess að vextirnir verði endurreiknaðir út frá íslenskum lögum.“

Hvað vitum við nú, eftir þessa yfirferð? Í fyrsta lagi að með landamæraflakki er hægt að fela slóðina og gera yfirvöldum erfitt að framfylgja íslenskum lögum. Ráðið fyrir neytanda er að borga höfuðstólinn og krefjast endurútreikninga á vöxtunum. Skráningarskylda svona fyrirtækja myndi í það minnsta þýða að við vissum hverjir væru á þessum markaði – og umfang markaðarins. Og með því að leggja auknar kvaðir á herðar þeirra sem eru hluti þessarar keðju – innheimtufyrirtækja og banka, til dæmis - væri hægt að gera fyrirtækjum mjög erfitt að innheimta skuldir byggðar á ólögmætum lánum. En það er líka ýmsum spurningum ósvarað um þessi fyrirtæki, eigendur þeirra og eignatengsl.