Skapadægur skordýranna

Skordýr eru ekki sérlega vinsæl dýr. Þau eru fyrir okkur, trufla okkur og ógna okkur jafnvel. Margir taka fækkun þeirra því eflaust sem gleðitíðindum. En hvað verður um okkur án þeirra?

Með hlýnandi loftslagi á Íslandi hefur nýjum tegundum skordýra fjölgað. Þetta tvennt hangir talsvert saman, smádýr og gróður. Á meðan gróður eykst þá fjölgar skordýrum. Það er meira að éta og bíta og brenna, segir Erling Ólafsson skordýrafræðingur.

Víða annars staðar í heiminum er þróunin þveröfug. „Segjum að þú hefðir farið að hjóla úti á akri fyrir fimmtíu árum þá hefði himinn verið fullur af söngfuglum og mikið af skordýrum. Þannig er það ekki lengur. Þarna ríkir þögn. Það er ekkert,“ segir Hans de Kroon, prófessor í plöntuvistfræði við Radboud-háskóla í Nejmegen í Hollandi.

Fólk minnist þess hálfpartinn með trega að hafa séð framrúður bíla sinna þaktar krömdum skordýrum eftir langa keyrslu, því þannig er það ekki lengur. Á ferðalagi Kveiks um Mið-Evrópu í sumar var gerð tilraun þessu tengd.

Þrír fjórðu skordýra farnir

Þannig er, að þótt skordýr séu líklega meira en helmingur allra dýrategunda á jörðinni, þá væri seint hægt að segja að það sé offramboð á rannsóknum á þeim. Í Krefeld í Suðvestur-Þýskalandi, hefur hópur áhugafólks þó safnað forvitnilegum gögnum sem ná áratugi aftur í tímann.

Það sem einna helst einkennir gögnin er að hópurinn fylgdist ekki bara með stökum tegundum, heldur öllum mögulegum fljúgandi skordýrum. Árið 1989 settu þau upp fyrstu gildrurnar og á næstu 27 árum fylgdust þeir með magni fljúgandi skordýra á 63 stöðum innan náttúruverndarsvæða í Þýskalandi.

Hans de Kroon prófessor tók þátt í greiningu og úrvinnslu gagnanna. Þegar hann hellti sér yfir þau var illur grunur áhugafólksins í Krefeld staðfestur.

„Á þessum tæpu þrjátíu árum, að teknu tilliti til áhrifa óstöðugs veðurfars og breytinga á veðurfari á þessum tíma, kom í ljós að við höfðum misst úr þrjá fjórðu skordýranna.“

„Þetta eru ekki fáeinar sjaldgæfar tegundir sem hafa einhverjar sérstakar þarfir sem eru horfnar. Það útskýrir ekki brotthvarf 3/4 dýranna. Fækkunin á sér einnig stað hjá algengari tegundum, í miklum mæli, og það er það sem kemur á óvart,“ segir de Kroon.

Getum ekki án skordýra verið

Skordýr eru ekkert sérstaklega vinsæl dýr og því ekki verið lögð neitt sérstaklega mikil áhersla á það í gegnum tíðina að vernda þau. Menn hafa frekar látið sér annt um stór og krúttleg dýr.

Skordýr eru fyrir okkur; þau trufla okkur, stinga okkur, ógna okkur jafnvel. En í sannleika sagt þá getum við engan veginn án þeirra verið. „Þú getur ekki ímyndað þér hvernig heimurinn lítur út ef skordýrin hverfa alveg,“ segir de Kroon.

Án skordýra væri stoðum kippt undan matvælaframleiðslu í heiminum auk þess sem þau eru sjálf fæða fyrir aðrar dýrategundir. „Skordýr eru afar mikilvæg í fæðukeðjunni. Þau eru fæða froskadýra, skriðdýra og fugla auk spendýra.“ Þar að auki gegna skordýr mikilvægu hlutverki í niðurbroti og rotnun lífrænna efna og svo halda þau hvert öðru í skefjum.

„Án skordýra lifum við ekki af. Það er mjög einfalt. En ætli skordýrin lifi okkur ekki, svona til lengri tíma litið.“ Þetta segir Joseph Settele, þýskur líffræðingur, og rammar þannig inn mikilvægi skordýra í þessari hrollvekjandi setningu.

Maðurinn grefur undan grunnstoðum lífs á jörðinni

Settele þessi er ekki óvanur því að vera boðberi válegra tíðinda. Hann var einn af aðalhöfundum IPBES-skýrslu Sameinuðu þjóðanna, þar sem lagt var mat á stöðu líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa í heiminum. Skýrslan kom út í byrjun sumars og fékk marga til þess að staldra við.

Þar er greint frá því að maðurinn sé í óðaönn að grafa undan grunnstoðum lífs á jörðinni og að grundvallarbreytinga sé þörf. Svo sem ekki nýjar fréttir en þarna komu meira en 450 vísindamenn frá um 50 löndum að því að setja saman eina yfirgripsmestu greiningu á líffræðilegum fjölbreytileika sem gerð hefur verið.

Þar var talað um skordýr. „Á hnattrænan mælikvarða er líffræðileg fjölbreytni á niðurleið og skordýr eru ómissandi meðal tegundanna. Segjum að tegundir skordýra séu fimm til sex milljónir, sem er varlega áætlað, og ef tíu prósent þeirra eru í útrýmingarhættu, þá missum við hálfa milljón tegunda af þessum sökum,“ segir Settele.

Milljón tegundir útdauðar ef ekkert er að gert

Skýrslan spáði því að ein milljón plöntu- og dýrategunda yrðu útdauðar innan nokkurra áratuga nema gripið yrði til stórtækra breytinga.

„Við sögðum eitthvað í líkingu við að milljón tegundir deyi líklega út á næstu áratugum ef ekkert er að gert. Þarna er mikilvægt að nefna áratugina og „ef fram heldur sem horfir“ sem þýðir að ekki er ómögulegt að snúa því við.“

„Boðskapurinn er oft einfaldaður. Milljón tegundir verða útdauðar. Það er ekki það sem við segjum. Við segjum: „Ef svo fer fram sem horfir“ og bendum á að þetta taki marga áratugi. En þetta er samt ógnvegkjandi tala, að sjálfsögðu,“ segir hann.

Framlag áhugamannanna mikilvægt

Greinin, sem byggði á gögnum áhugamannanna frá Krefeld, sýndi að skordýrum hefði fækkað um þrjá fjórðu á ákveðnum svæðum á innan við þremur áratugum.

Gögnin voru þó ekki fullkomin og niðurstöður greinarinnar hafa verið hártogaðar. Sýnunum var til að mynda ekki alltaf safnað á sömu stöðum ár eftir ár, þótt það hafi verið gert í sumum tilfellum.

„Það var ekki gert vegna þess að þannig var rannsóknin ekki hönnuð. Þeir höfðu ekki hugmynd um fyrir þrjátíu árum að fækkunin yrði svona skörp, augljóslega,“ segir Kroon.

„Fyrstu árásirnar gegn þeim fólust í að kalla þá áhugamenn. Áhugamenn þá notað í neikvæðri merkingu en öll gögn um líffræðilegan fjölbreytileika, eða um 99 prósent þeirra, koma frá svokölluðum áhugamönnum. Án áhugamanna myndum við ekkert vita um náttúruna. Aðferðafræðin sem þeir beittu var í góðu lagi,“ segir Settele.

„Krefeld-rannsóknin er ein sú neikvæðasta, en ekki undantekning. Aðrar benda í sömu átt. Margar aðrar sýna 20, 30, 40 eða 50 prósent minnkun. Sem verndarsinni segi ég að hvort sem það er áttatíu eða þrjátíu prósent þá er það of mikið. Mér er sama um hver talan er nákvæmlega. Mér er ekki sama um almennu þróunina, sem er neikvæð,“ segir Settele.

Kroon telur að hægt sé að staðfesta, miðað við þau gögn sem liggi fyrir, að skordýrum fari fækkandi. Að minnsta kosti megi heimfæra niðurstöðuna á Vestur-Evrópu. „Margar stofnanir hafa nú greint niðurstöður okkar aftur og alltaf kemur á daginn að 75 prósent minnkun lífmassans er niðurstaðan, hvernig sem kafað er í gögnin. Það er engin leið fram hjá því.  Það er hægt að skoða og greina það á ólíkan hátt en fækkun um þrjá fjórðu er óhjákvæmileg.“

„Við verðum að bregðast við undir eins. Við getum ekki beðið í önnur tíu ár þar til við höfum ítarlegri skilning á þróuninni,“ segir Hans de Kroon.

Hvað veldur fækkuninni?

Hans de Kroon segir að erfitt sé að benda á sökudólginn. „Helstu orsakirnar þarf ég að tala um af varúð af því við fundum ekki einn sökudólg. Af því við höfðum ekki gögn um slíkt. En við gátum útilokað loftslagsbreytingar og landslagið hafði ekki breyst mikið.“

„Við þurfum líka að tala alveg skýrt um það hvað við vitum og hvað við vitum ekki. Við skulum átta okkur á því að mikið er til af upplýsingum um áhrif skordýraeiturs í litlu magni á skordýrastofna. Það er í samræmi við það sem við sjáum hérna,“ segir hann.

Hvernig er hægt að bregðast við?

Hans de Kroon segir liggja í augum uppi hvernig sé hægt að bregðast við. „Það er mjög einfalt. Við getum hætt því sem er vont fyrir skordýr og gert það sem er gott fyrir þau.“

Erling Ólafsson skordýrafræðingur velkist ekki í vafa um eitt sem Íslendingar gætu gert, sem kæmi skordýrum vel. „Þessi garðaúðun svokallaða, sem að mínu áliti er fáránleg. Þetta á bara ekki að líðast og það á að taka fyrir þetta strax. Því þetta hefur engan tilgang.“

Með eitrun sé ekki bara verið að drepa skordýr heldur líka koma í veg fyrir að plöntur þrói náttúrulegar varnir. „Runninn þinn er fallegur þetta sumarið og aftur næsta sumarið vegna þess að þú eitrar hann, en þetta er engin framtíð í þessu. Við eigum að taka á því, það er engin spurning.“

Vörn snúið í sókn

Á þéttsetnu landbúnaðarsvæði skammt frá heimaborg Hans de Kroon í Hollandi hefur verið gerð tilraun til þess að  endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og vænka hag skordýra.

Venjulegum landbúnaði og ræmum af landi þar sem villtur gróður fær að vaxa hefur verið blandað saman á landbúnaðarsvæðinu undanfarin fimmtán ár. Í kjölfarið hefur svæðið orðið lífvænlegt fyrir allskyns tegundir sem ekki gátu verið þar áður. Þetta er dæmi um hvernig er hægt að endurheimta heimkynni skordýra, segir de Kroon.

„Hér gæti þróast og orðið til skordýrasamfélag þar sem einnig væri að finna rándýr, eða skordýr sem éta önnur skordýr. Það gæti komið ökrunum að gagni. Það er auðvitað þetta sem við viljum leggja til og þá vinnum við saman.“ Þannig sé hægt að draga úr notkun á skordýraeitri.

Það voru ekki allir bændur á svæðinu tilbúnir til að taka þátt í verkefninu. Þetta er auðvitað hvorki auðvelt né ókeypis. „Hvern fermetra sem þeir tapa þarf að bæta þeim upp. Við getum ekki vænst þess að þeir borgi það allt sjálfir. Þess vegna þurfum við að vera skynsöm með peninga sem eru eyrnamerktir náttúruvernd og endurheimt náttúru,“ segir hann.

Þótt einstaklingum fjölgaði þá fækkaði tegundum

Joseph Settele hefur sérhæft sig í fiðrildarannsóknum og í gegnum árin hafa rannsóknir hans leitt svolítið aðra niðurstöðu í ljós en áhugamannanna í Krefeld. Í fiðrildarannsóknum Setteles fjölgaði fiðrildum í gegnum árin - en þau voru af færri tegundum en áður.

„Í eftirliti okkar undanfarin fimmtán ár höfum við séð lítillega fjölgun einstakra dýra, sem sagt lífmassa, en sjálfum tegundunum hér á svæðinu og um allt land fer fækkandi, sem þýðir að þetta er að verða einsleitara. Við sjáum meira og meira af sömu tegundunum og þær sjaldgæfustu verða sjaldgæfari og deyja út.“

Fækkun skordýra getur því  þýtt fækkun tegunda en ekki endilega fækkun í einstökum dýrum talið. Settele segir að þessu tvennu sé oft blandað saman.

Aðstæður aðrar hér á landi

Á Íslandi eru aðstæður aðrar. „Það þekkja það allir sem hafa flogið yfir nágrannalönd og horft yfir að þar undir liggur bútasaumsteppi. Þetta eru bara akrar og aftur akrar. Þetta er allt annar búskapur á Íslandi. Túnbleðlar hér og þar. Þannig að við erum ansi hreint mikið betur stödd heldur en margar nágrannaþjóðir og ég tala nú ekki um stærri, fjölmennari þjóðir,“ segir Erling Ólafsson.

Vandamálið er Íslendingum samt ekki óviðkomandi. Matur og varningur sem landsmenn neyta er ekki aðeins framleiddur hér á landi, heldur teygir vistsporið sig víða um heim. Jafnvel þótt fólki gangi gott eitt til.

„Allir eru hrifnir af náttúrunni. Ef þú spyrð fólk líkar öllum við náttúruna. Hvort sem viðkomandi rekur efnaverksmiðju eða er náttúruunnandi, allir hafa gaman af því fara út að ganga í náttúrunni. Það vill enginn misbjóða náttúrunni, en gera það samt óbeint. Við lifum kannski ágætu lífi í Evrópu, líffræðileg fjölbreytni er ágæt en kannski kostar það að við flytjum útrýminguna annað.“

Kveikur týndi til svolítið af matvælum sem er ekki ólíklegt að rati á borð á íslenskum heimilum, að minnsta kosti af og til. Þetta litla samansafn er upprunnið í sex heimsálfum:

Gerum breytingar núna eða neyðumst til þess seinna

Settele leggur áherslu á að fólk, fyrirtæki og stjórnvöld þurfi að hætta að benda hvert á annað. „Til að finna lausnina þurfa allir að taka þátt, hverjir sem þeir eru. Við getum ekki bara beðið eftir því að hinir geri eitthvað því við vitum að ef við bíðum gerist ekkert.“

„Ólíkt spendýrum hafa skordýr það forskot að þau fjölga sér hratt. Ef aðstæður batna getur ástandið batnað hratt. Það vekur von.“ Hins vegar verði maðurinn þá að aðhafast og hugsa landbúnað og lifnaðarhætti upp á nýtt.

„Mannkynið verður að gera eitthvað núna annars þurfa mennirnir að gera miklu meira seinna. Ef þetta fer á endanum að snúast um deilur um rými, næringu og mat held ég að ástandið versni til muna og þá þarf að finna aðrar lausnir. Það verða aðrar lausnir auðvitað en þær verða miklu sárari fyrir stóran hluta mannskyns,“ segir hann.

„Við getum breytt þessu ef við viljum. Ef við leggjum vinnuna á okkur getum við breytt þessu,“ segir Kroon.