*

„Sjúklingar á landsbyggðinni standa einir“

Málfríður Stefanía Þórðardóttir, ljósmóðir og fyrrverandi starfsmaður Sjúkrahússins á Akureyri, varð fyrir miklu áfalli þegar hún gekkst undir aðgerð á Sjúkrahúsinu á Akureyri í janúar 2018. Hún segir að nánast allt sem gat farið úrskeiðis þann dag og dagana á eftir hafi gert það. Hún gagnrýnir að fólk á landsbyggðinni hafi ekki aðgang einhvers konar umboðsmanni sjúklinga til að aðstoða þegar það telur að mistök hafi orðið.

Málfríður leitaði til læknis vegna kvilla sem hafði hrjáð hana lengi. Í aðgerðinni varð hún fyrir áfalli sem hefur haft mikil áhrif á hana.

„Mér leið vel á SAk [Sjúkrahúsinu á Akureyri] meðan ég vann þar, en ég get ekki hugsað mér að vera þar. Ég er bæði með áfallastreitu þannig að mér líður illa bara að koma nálægt þessum stað og ég er mjög ósátt við vinnubrögðin og varð bara fyrir alveg ofboðslegum vonbrigðum með stjórnendur SAk.“

Meðal þess sem Málfríður er óánægð með er að hún hafi ekki verið beðin um leyfi fyrir því að nemi væri viðstaddur aðgerðina, að henni hafi ekki verið kynnt hvernig aðgerðin yrði framkvæmd og að hún hafi ekki haft tækifæri til að hætta við aðgerðina þegar hún vildi gera það. Þegar hún hafi kvartað undan vinnubrögðunum formlega hafi viðbrögð spítalans verið ófagleg.

Þá segir hún að allt útlit sé fyrir að skorið hafi verið í vöðva í aðgerðinni og hún því orðið fyrir líkamlegum skaða einnig. Málfríður er nú öryrki á fullum örorkubótum.

„Síðasta ár fór í, hjá mér, í rauninni bara í verki og mikla vanlíðan og - ja ég held ég verði bara að segja það upphátt; ég var bara með hægðaleka, ég þufti bara að ganga með bleiu á þessu tímabili. Fjörutíu og fimm ára gömul kona með bleiu.“

Málfríður gagnrýnir að enginn standi vörð um réttindi og öryggi sjúklinga á landsbyggðinni.

„Fyrir sjúklinga sem búa á landsbyggðinni, þegar þeir lenda í svona atviki, þeir hafa ekki aðgang að neinum svona umboðsmanni sjúklinga eins og er á Landspítalanum, sem að sjúklingar geta leitað til. Þannig að fólk úti á landi er dálítið bara eitt í þessu.“

Nánar er rætt við Málfríði í þætti Kveiks, þriðjudagskvöldið 29. október.