Síðasti bóndinn slekkur ljósið

Neysluhættir Íslendinga hafa gerbreyst á undanförnum áratugum og sífellt fleiri velja grænmeti. En íslenska landbúnaðarkerfið virðist að mörgu leyti sniðið að kröfum neytenda á áttunda áratug síðustu aldar.

„Neytendur sem ekki neyta dýraafurða munu ekki kaupa neitt af núverandi bændum annað en grænmetið."

Daði Már Kristófersson hagfræðiprófessor er ekki sérlega bjartsýnn fyrir hönd íslenska landbúnaðarkerfisins. Það varð í grundvallaratriðum til á fjórða áratug síðustu aldar, þegar stór hluti íslensku þjóðarinnar starfaði við landbúnað. Tilgangur þess var að tryggja lífsviðurværi bænda, og neytendum holl og góð matvæli. Síðan hefur margt breyst, þar á meðal kerfið, en í dag er það hvorki sniðið að þörfum markaðarins né starfandi bænda.

Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands

„Ég held að núverandi kerfi sé þannig að síðasti bóndinn slekkur ljósið," segir Daði. „Það er bara á einni leið, þeim mun fækka með framleiðniþróun í landinu og breytingu á neysluvenjum, og smám saman grefur undan grunninum í þessum samfélögum."

Hvað borðum við?

Fátt er einfaldara, sjálfsagðara og mikilvægara fyrir manninn en þörfin fyrir að næra sig. Og samt getur það verið svo ósköp flókið. Maturinn sem við borðum hefur áhrif á heilsu okkar, lífsstíl og sjálfsmynd, umhverfið, efnahaginn og menninguna.

Um aldir nærðust Íslendingar aðallega á því sem þeir ræktuðu sjálfir og veiddu, en síðustu hundrað árin hefur neysla okkar breyst hratt.

Fullveldisárið 1918 hefði dæmigerður kvöldverður getað verið soðin ýsa, súr blóðmör, soðnar rófur, rúgbrauð með smjöri og mjólkurglas.

Um 1970 borðaði þjóðin miklu meira kjöt. Þá hefði kvöldmaturinn getað verið lambalærissneiðar með brúnni sósu, kartöflum og niðursoðnum grænum baunum, og kannski tómatsneið til hliðar. Áfram hefðum við drukkið mjólk með matnum.

Árið 2000 hafði neysla okkar á ljósu kjöti og grænmeti aukist mjög. Þá hefði kvöldverður getað verið soðið pasta, kjúklingur, salat með tómötum og agúrku, og glas af gosi með.

En hvað borðum við árið 2020? Síðasta stóra mataræðisrannsókn Landlæknisembættisins, Matvælastofnunar og Rannsóknarstofu í næringarfræði var gerð 2011. Þá hafði mjólkurneysla minnkað um 23% frá árinu 2002, og neysla á kjöti hafði aukist um 17%, grænmeti og ávöxtum um 34% og grófu brauði um 80%.

Samkvæmt nýlegri Gallup-könnun eru aðeins 0,9% þjóðarinnar vegan, og borða enga matvöru úr dýraríkinu, hvorki kjöt, fisk, egg né mjólkurvörur. Hins vegar virðist vegan-hreyfingin hafa ýtt við mörgum, bæði vegna dýraverndar, loftslagsmála og af heilsufarsástæðum. Þriðjungur þjóðarinnar hefur beinlínis keypt matvöru vegna þess að hún var merkt vegan, og næstum 23.000 manns eru í Facebook-hópnum Vegan Ísland, þar sem grænkerar bera saman bækur sínar, leita ráða og deila uppskriftum að grænmetisréttum. Og þótt fæstir séu vegan, hafa margir endurskoðað innkaupin.

Hlutfall þeirra Íslendinga sem borða aldrei tiltekna tegund af kjöti hefur lítið breyst undanfarin þrettán ár.  

Heimild: Gallup

En það fer eftir því hvern maður spyr. Konum á aldrinum 18-24 ára sem borða aldrei tiltekna tegund af kjöti hefur fjölgað mjög hratt á sama tíma. Sextán prósent þeirra borðuðu aldrei nautakjöt, árið 2018.

Heimild: Gallup

Þetta er mikilvægur hópur neytenda. Þær eru mæður næstu kynslóðar íslenskra barna. Stór hluti þessara barna mun því alast upp á heimilum þar sem kjöt er ekki á borðum.

Hraðar breytingar

„Við þurfum að taka tillit til þess að neysluvenjurnar eru að breytast," segir Daði. „Og það er ekki bara þannig að neyslan sé að færast úr dökka kjötinu yfir í ljósa kjötið sem hefur verið ráðandi undanfarna áratugi, heldur líka frá dýraafurðum yfir í plöntuafurðir."

Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands, tekur undir að taka þurfi tillit til breyttra neysluhátta þjóðarinnar.

„Það eru gríðarlega hraðar breytingar í umhverfi okkar, bæði hvað varðar loftslagsmál og líka neyslubreytingar, og það er eitthvað sem við þurfum að taka inn í. Svo það er eitthvað sem þarf að breytast," segir Guðrún.

Daði segir mörg tækifæri til að þróa íslenskan landbúnað sem núverandi kerfi styðji ekki við: „Ekki nema fyrir frumkvæði og dugnað einhverra einstaklinga sem það hefst, en fullkomlega án stuðnings hins opinbera."

Eldur kviknar hjá Eymundi

Einn þessara frumkvöðla er Eymundur Magnússon í Vallanesi á Fljótsdalshéraði. Þar er stundaður lífrænn búskapur sem fáir hefðu trúað á fyrir nokkrum áratugum.

Kornskurðarvél í Vallanesi

„Byggið er undirstaðan, og þetta byrjar á því að rækta bygg og koma því í neyslu til manneldis," segir Eymundur. „En svo hafa bæst við margar grænmetistegundir, 100 tegundir af grænmeti, repja og repjuolía er nýlega komin inn, en það sem er okkar áskorun er að framleiða tilbúnar matvörur úr því sem við ræktum. "

En Eymundur ætlaði ekki alltaf að rækta lífrænt korn og grænmeti. Hann var ákveðinn í að verða kúabóndi, menntaði sig til þess og rak kúabú í tíu ár.

„Það var settur kvóti á mjólkurframleiðsluna og ég króaðist af með mjög lítinn kvóta. En við vorum að rækta lífrænt fyrir okkur sjálf, og fólk fór að hringja frá Reykjavík og spyrja hvort það gæti keypt af okkur lífrænt ræktaðar kartöflur og gulrætur og hvaðeina, og þá kviknaði markaðshugsun meira en að framleiða mjólk í mjólkurbúið. En kannski stærsti þátturinn er sá að ræktunarmaðurinn, við það að rækta upp Vallanes sem var í algerri órækt, engin tún, þá kviknaði eldur sem verður ekki slökktur."

Eymundur Magnússon bóndi í Vallanesi

Í dag er engin mjólk framleidd í Vallanesi. En Eymundur fær aðeins lítinn hluta af þeim ríkisstuðningi sem hann fengi ef hann hefði haldið sig við kúabúskapinn.

„Við erum bara komin upp á okkur sjálf, en það getur verið mjög erfitt að eiga allt undir veðri og vindum, þannig að ef samfélagið vill halda byggð í landinu og rækta lífrænt, sem allar þjóðir eru að gera og styðja mjög dyggilega við sem byggðamál og umhverfismál, þá mætti taka til í kerfinu," segir hann.

En ef kerfið er ekki hannað fyrir bændur eins og Eymund, hverjum gagnast það þá?

Íslenska landbúnaðarkerfið í hnotskurn

Landbúnaðarkerfið byggir á stuðningi við tvær búgreinar, mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Stuðningur við aðrar greinar er mjög lítill, að sögn Daða Más Kristóferssonar. Hann lærði upphaflega búfræði á Hvanneyri, en í dag er hann hagfræðiprófessor, sérfróður í kvótakerfum. Og hann er ekki bjartsýnn fyrir hönd íslenska landbúnaðarkerfisins.

Íslenskur landbúnaður er styrktur á tvo vegu: í fyrsta lagi með beinum stuðningi í samræmi við búvörusamninga, og í öðru lagi með tollum á innfluttar landbúnaðarvörur. Beini stuðningurinn nemur 14,4 milljörðum króna á þessu ári.

Fjórir búvörusamningar eru í gildi milli ríkis og bænda.

  1. Samningurinn um nautgriparækt nær yfir mjólkurkvóta og stuðningsgreiðslur fyrir nautakjöt og mjólk. Hann kostar sjö milljarða króna á þessu ári.
  2. Sauðfjársamningurinn fjallar líka um kvótakerfi, og framleiðslustyrki fyrir lambakjöt. Hann kostar um 5,2 milljarða króna á þessu ári.
  3. Samningurinn um grænmetisrækt nær bara yfir tómata, agúrkur og paprikur sem eru ræktaðar í gróðurhúsum, og niðurgreiðslu á rafmagni. Þessi samningur fær um 600 milljónir í ár.
  4. Og loks er það rammasamningurinn svokallaði, sem nær yfir eiginlega allt sem hinir samningarnir ná ekki yfir. Inni í honum eru til dæmis styrkir til jarðræktar, eins og útiræktað grænmeti og korn, nýsköpun og margt annað. Þessar greinar fá samtals 1,6 milljarða á þessu ári.

Samtals verja því Íslendingar 85% af beinum landbúnaðarstyrkjum til að framleiða mjólk og rautt kjöt.

Og þetta getur komið í veg fyrir að bændur lagi sig að þörfum markaðarins og breyti búskaparháttum sínum. Eymundur í Vallanesi segir að því hafi ekki verið tekið vel þegar hann fór yfir í byggið.

„Mjög illa," segir hann. „Ég þótti bara glataður. En Eymundur er fylginn sér, það hreif ekkert á mig, ég vissi hvað ég var að gera. En ég vorkenni fólki í dag, það hefur hringt í mig, fólk sem er að hugsa um að breyta til, fara úr þessu hefðbundna kerfi í lífræna ræktun eða einhverja aðra framleiðslu, og það er alveg það sama í dag, fólk er alveg á móti því sem við erum að spá í að gera, og fólk guggnar oft. Þannig að það þarf einhvern veginn að styðja betur við þetta fólk."

Bjartsýni í Bárðardal

En það eru ekki allir tilbúnir að skrifa undir það að íslenskur landbúnaður sé dauðadæmdur í núverandi kerfi. Guðrún Sigríður, formaður Bændasamtakanna, býr í Svartárkoti, lengst inni í Bárðardal í Þingeyjarsýslu. Þar hefur alltaf verið stundaður sauðfjárbúskapur, enda sauðlönd góð.

„Við rekum hérna sauðfjárbú, erum með um 360 á vetrarfóðrum, og fjölskyldan mín er búin að vera hér síðan 1946, þá komu afi og amma. Við erum þriðji ættliðurinn, sem er svo sem ekkert mjög langt á Íslandi. Svo erum við að veiða í vatninu og reykja silung og svona," segir Guðrún.

Guðrún Sigríður Tryggvadóttir formaður Bændasamtaka Íslands og bóndi í Svartárkoti í Bárðardal

Og hún hefur ekki áhyggjur af aukinni grænmetisneyslu þjóðarinnar: „Ég held að í þessu liggi tækifæri. Neyslan hefur verið að breytast, og það sem er manneskjunni mikilvægast er að hafa aðgang að góðum og heilnæmum matvælum, sem eru framleiddar við sem bestar aðstæður. Og þar stöndum við Íslendingar afskaplega sterkt."

Daði telur tvo galla á kerfinu: „Í fyrsta lagi að þá er fyrirkomulagið á stuðningi við þessar tvær búgreinar þannig að það rennur lítið til núverandi bænda. Þetta er kerfi sem er fyrst og fremst hagkvæmt fyrir fyrrverandi bændur og þá sem hafa hug á því að hætta. Í öðru lagi takmarkar það eðlilega þróun íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Það eru fyrst og fremst þessar tvær búgreinar og sáralítið annað."

Guðrún er á öðru máli: „Þessi kerfi eiga að virka fyrir þá sem starfa í landbúnaði, og það hefur verið lögð áhersla á að það sé þannig. En núna í dag er ekkert auðvelt að koma inn í ef þú hefur ekki ættartengsl, og það er dýrt að hefja landbúnað. Við höfum kannski ekki lagt nógu mikla áherslu á þessa nýliðun. Og það er eitthvað sem við þurfum að gera í nýrri stefnumótun, ásamt tækifærum fyrir aðra framleiðslu og nýjar greinar. Þetta er gríðarlega mikilvægt."

Kvótakerfið í hnotskurn

Stuðningurinn er að miklu leyti bundinn við kvótakerfi, á mjólk og sauðfjárbúskap.

Mjólkurkvótinn í landinu nemur 145 milljónum lítra á þessu ári. Hann skiptist milli kúabænda svipað og fiskveiðikvótinn milli útgerða, getur gengið kaupum og sölum og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði. Afurðastöðvar, sem taka við mjólkinni frá bændum, þurfa að borga ákveðið lágmarksverð fyrir hana.

Sauðfjárkvótinn heitir greiðslumark. Undanfarin ár hefur hann alls verið 368.457 kindur, eða ærgildi, í landinu. Bændur fá borgað fyrir hverja kind sem þeir eiga innan þessa greiðslumarks. Afurðastöðvar, eins og Sláturfélag Suðurlands eða Kaupfélag Skagfirðinga, borga síðan markaðsverð fyrir sjálft lambakjötið.

Bændir sviptir lífsviðurværi, heimili og lífi

Daði telur að með þessu kerfi hafi bæði bændum og íslenskum landbúnaði verið gerður óleikur. Margir berjast í bökkum, kúabændum hefur fækkað hratt og flestir sauðfjárbændur þurfa að vinna við annað og sinna bústörfum í hjáverkum, til að geta lifað mannsæmandi lífi.

„Það er hins vegar erfitt að breyta kerfinu og mikilvægt að taka fram að eigi að breyta því þá er ég þeirrar skoðunar að það verði ekki gert yfir nótt. Það verður að gerast yfir lengra tímabil. Og ástæðan er sú að eignir bænda eru að verulegu leyti bundnar í þessum réttindum sem þeir hafa keypt af fyrrverandi bændum. Sviptir þú þá þessum réttindum ertu  að gera þá eignlausa. Og þetta er miklu alvarlegra en í öðrum atvinnugreinum, vegna þess að búreksturinn og heimilið er samvaxið. Þannig að þú ert ekki bara að svipta fólk lífsviðurværi sínu heldur heimilum sínum og lífi," segir Daði.

Með fingurinn á púlsinum

Það eru ekki bara gallar á kvótakerfinu. Snorri Sigurðsson er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda en starfar nú sem sérfræðingur í nautgriparækt í Kína.

„Ísland er örmarkaður, pínulítill í samanburði við hinn stóra heim, og mjólkurframleiðslan okkar er agnarsmá úti í hinum stóra heimi," segir Snorri.

Snorri Sigurðsson sérfræðingur í nautgriparækt

Í Kína er neysla á kjöti og mjólkurvörum að aukast.

„Breytingar á neysluháttum felast í því að fólk færir neyslu úr einni tegund af búfjárafurðum og landbúnaðarvörum yfir í aðrar, fólk verður alltaf að borða, og kvótakerfið í mjólkurframleiðslu er hannað til að vera með puttann á púlsinum," segir Snorri. „Það er nefnd sem fylgist með því hvað er borðað og drukkið mikið af mjólk, og ef neyslan fer niður er dregið úr kvótanum, og ef neyslan fer upp þá er hann aukinn. Þannig að kvótakerfið er ágætlega virkt, hvort það er nógu kvikk, ég veit það ekki, en kvótakerfið sem slíkt er góð leið til að hafa stjórn á svona litlum markaði."

Margir hafa áhyggjur af því að kerfið verði til þess að mjólkurkvótinn safnist á fárra hendur. Á árunum 2008 til 2016 fækkaði kúabúum úr 707 í 631 í landinu, og til eru fjós með fleiri en 200 kýr.

„Mér finnst þetta svolítið spaugileg umræða. Ég skil að fólki finnst þetta vera stórt en þetta er ekkert stórt miðað við úti í löndum. 200 kýr er minna en meðalbúið í Danmörku. Meðalbúið í Kína þar sem ég starfa eru 850 kýr að meðaltali. Stærstu kúabúin þar erum með tugþúsundir kúa. ÉG skil þetta alveg, það er verið að tala um fjölskyldubú og að þetta veiti fólki vinnu, en tilfellið er að fjölskyldur geta alveg verið með nokkur hundruð kýr," segir Snorri.

Stuðningur mestur við þá sem bregða búi

Daði telur helsta gallann á kerfinu þann að þegar kvótakerfið var smíðað hafi stuðningurinn verið færður fyrstu kynslóð eigenda að gjöf.

„Þannig að stuðningurinn hefur alltaf farið til fyrrverandi bænda. Og ég verð að viðurkenna að þetta þykir mér ankanalegt, ef markmiðið er að viðhalda blómlegum landbúnaði og að við teljum það svo mikilvægt að við tökum skattfé í það verkefni, þá er mjög sérstakt að beina stuðningnum til fyrrverandi bænda," segir Daði.

Hvernig væri hægt að sníða landbúnaðarkerfið að þörfum bæði bænda og neytenda?

„Öll kerfi sem ég þekki til hafa einhverja galla," segir hann. „Það hefur samt verið þróunin í Evrópu að fara þá leið að gera skilyrðin fyrir stuðningi almennari og almennari."

Bændur fái þannig styrki óháð því hvað þeir rækta á jörðum sínum og geti því fylgt kröfum markaðarins. Daði telur engan vafa á því að það hafi stutt við þróun evrópsks landbúnaðar. Til dæmis hafi þróunin þar í áttina að lífrænni framleiðslu og annarra afurða en dýraafurða verið studd betur en íslenska kerfið.

„Og ég held raunar að á Íslandi séu gríðarleg ónýtt tækifæri í þessari þróun sem er að gerast á miklum hraða. Og það er áhyggjuefni fyrir okkar landbúnað til lengri tíma, hvort bændur hér muni eiga einhvern hlut í þessum markaði framtíðarinnar. Neytendur sem ekki neyta dýraafurða munu ekki kaupa af núverandi bændum annað en grænmetið," segir Daði.

Sauðkindur í Svartárkoti

Hvert stefnir íslenskur landbúnaður?

Guðrún er sannfærð um að hægt sé að breyta kerfinu. Til þess þurfi fyrst að móta stefnu fyrir íslenskan landbúnað.

„Okkur vantar landbúnaðarstefnu í samstarfi við stjórnvöld, og ég held að hún sé alveg að fara að koma. Maður finnur áhuga á stjórnvöldum að fara í þetta. En svona kerfi breytast rólega," segir hún. „Það er klárt að við eigum fullt af ónýttum tækifærum í grænmetisframleiðslu, til dæmis. Við getum líka verið með fjölbreyttari vinnslu á því sem við erum að gera, og bara í allskonar jarðrækt og kornrækt."

Eru kjötframleiðendur hræddir við að missa spón úr sínum aski ef þessar breytingar leiða til þess að fjármagn flytjist yfir til grænmetisræktenda?

„Ef við förum í að draga úr framleiðslu á kjöti og mjólk, þá liggja kannski önnur framleiðslutækifæri á sömu jörðum hjá sama fólki. Þannig að ég held að við eigum ekki að vera hrædd við að finna leiðir til framtíðar út frá einhverjum kreðsum, það skilar okkur ekkert áfram."

Daði tekur undir að þörfin sé brýn fyrir stefnu í íslenskum landbúnaði.

„Hagsmunir núverandi bændastéttar og hagsmunir landbúnaðar til framtíðar eru ekkert endilega þeir sömu. Hvað þá hagsmunir bænda og neytenda, eða skattgreiðenda," segir hann. Því sé stefnumótun nauðsynleg. „Ef þú veist ekki hvert þú vilt komast, þá eru í sjálfu sér allar leiðir þangað. Það er ekki hægt að segja að þetta kerfi henti ekki vegna þess að við höfum ekkert markmið. Og það markmið þyrftum við að eignast."

„Það er talað um að með hnattrænni hlýnun að komi matvælaframleiðsla til með að færast meira norður á bóginn, og hvað þýðir það? Ætlum við að vera hluti af því," spyr Guðrún. „Og hvað varðar loftslagsmálin, þá er ekkert í boði annað en að við förum í breytingar, öll þjóðin, ekki bara bændur. Bara allir. Og ég held að bændur séu alveg klárir í slaginn."