Plast út um allt - líka á Íslandi

Við búum í heimi þar sem plast kemur við sögu í hverju skrefi. Við sjáum það hvert sem við lítum. En hvað er plast og hvers vegna notum við svona mikið af því?

„Plast er í rauninni bara fjölliða úr kolefnum, sem er framleitt yfirleitt úr olíu og ástæðan fyrir því að við notum svona mikið af því er að það er bara mjög gott efni að mörgu leyti. Sérstaklega af því að það er mjög endingargott og það er mjög létt,“ segir Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Plastið gott – en notum of mikið

Þegar plast kom til sögunnar varð algjör bylting, t.d. í heilbrigðisgeiranum. Með plasti var líka hægt að létta bæði flutningsvarning og farartæki og auka endingu matvæla til muna. Og það er alls ekkert svo langt síðan að plast kom til sögunnar.

Framleiðslan hófst ekki af alvöru fyrr en um miðja tuttugustu öldina en síðan þá hefur hún aukist á ógnarhraða - og gerir enn. Aukningin hefur verið slík að helmingurinn af öllu plasti sem til er í heiminum var bara framleiddur á síðustu 15 árum.

„Samband okkar við plast er bara orðið svolítið brenglað og svo erum við náttúrulega að nota allt of mikið af því,“ segir Birgitta.

Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. (Mynd Kveikur)

Og, staðreyndin er sú að við erum oft að nota þetta annars góða og gagnlega efni á kolrangan hátt.

„Ef þú ert með vöru sem endist í einhverjar þúsundir ára og þú ert að velja að nota hana í tíma sem er kannski eins og kaffimál, 10 mínútur, þá sérðu náttúrulega að það verður mjög skakkt. Þessi notkun verður mjög undarleg í rauninni,“ segir hún.

Mikið af plastinu sekkur

Þetta býr til vandamál. Heimurinn er að fyllast af plasti því við notum allt of mikið af því og það endist von úr viti. Við fáum fréttir utan úr heimi af plasti sem þekur heilu strendurnar og hafsvæðin, lífríkinu til stórkostlegs tjóns. En hvernig ætli staðan sé á Íslandi?

Ef einhver hefur tilfinningu fyrir því þá hlýtur það að vera Tómas Knútsson, stofnandi Bláa hersins.

„Það er svona ca 1 tonn á hverjum kílómetra af rusli í strandlengju Íslands. Og það er mjög sorglegt því hún er 4950 og eitthvað kílómetrar. Þannig að það liggja hérna einhverstaðar 4000+ tonn af rusli í fjörunum okkar,“ segir hann. „Veiðarfæri, skór, allskyns ílát. Matarílát, mikið af því.“

Rannveig Magnúsdóttir, sjávarvistfræðingur, segir stóran hluta plastsins í hafinu sökkva niður á botn. „Þannig að við erum ekki að sjá nema hluta af því sem að spýtist á strendurnar. Það er bara einhver örfa prósent af því plasti sem er í sjónum,“ segir hún.

„Mér finnst þetta bara rosalega sorglegt, að við skulum ekki hugsa betur um landið okkar. Litla Ísland, sem á að vera svo hreint og fagurt og það er ekki hreint og fagurt“ segir Magga Hrönn Kjartansdóttir, sjálfboðaliði, þar sem hún stendur og tínir rusl við sjóinn.

Síðan höfum við míkróplastið. Það er að segja örsmáu plastagnirnar, 5 millimetrar eða minni, sem eru stundum sérstaklega framleiddar, t.d. fyrir snyrtivörur, en geta líka orðið til þegar stærra plast brotnar niður, t.d. í sjónum.

„Og náttúrulega sem Íslendingar sem búum á eyju í miðju Atlantshafinu þá þurfum við náttúrulega að sjá vel um hafið. Það er bara undirstaða þess hvernig við lifum,“ segir Birgitta hjá Umhverfisstofnun.

Plast finnst í fiski

Hjá Hafrannsóknastofnun eru ekki stundaðar sérstakar rannsóknir á plasti í hafinu í kringum Ísland. Þó er hafin skrásetning á því plasti sem kemur upp með afla í trollum rannsóknarskipa stofnunarinnar.

Hjá stofnuninni er heldur ekki sérstaklega kannað hvort plast leynist í flökum eða mögum fiska á Íslandsmiðum en þegar starfsfólk stofnunarinnar kannar magainnihald þeirra, með tilliti til fæðu, og rekst fyrir tilviljun á plast, þá er það skráð.

Það er þó ekki algeng sjón.

„Við erum með örfá tilfelli í þorski og við erum að skoða nokkur þúsund maga á ári. Við erum að sjá örfá skipti líka í ufsa, en það virðist vera kannski einna hærra hlutfallið í makríl. Enda er hann að éta í yfirborðinu og plast jú flýtur. En það þarf samt að brýna hnífana og skoða þetta betur,“ segir Haraldur Arnar Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.

Það gæti enda verið ástæða til.

Anne de Vries, nemi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, birti á dögunum fyrstu niðurstöður úr meistaraverkefni sínu sem benda til þess að 17 prósent þorsks og 16 prósent ufsa hafi örplast í maga.  

Tómas er ekki ánægður með hvað lítið er vitað um plastið við Íslandsstrendur og áhrif þess. „Kerfið okkar er steingelt í þessu, algjörlega. Flýr af hólmi þegar maður er að skora á þau,“ segir hann.

„Ég er að biðja um allskonar rannsóknir á öllu milli himins og jarðar vegna þess að ég vil fá að vita hvort það sé plast hér í fisknum okkar, í fuglunum okkar, í hvölunum okkar og það er aldrei hægt að veita manni neinar upplýsingar. Það er mjög fátæklegt af fiskveiðiþjóð að geta ekki rannsakað hafið sitt og haft alveg 100 prósent vissu fyrir því að þetta sé hreint haf.“

Nú styttist ef til vill í að kerfið hafi einhver svör. Á allra síðustu vikum og mánuðum hefur Umhverfisstofnun til dæmis sett fjármagn í tvenns konar rannsóknir sem geta sagt til um stöðuna á hafinu í kringum landið.

Það eru rannsóknir á plasti í mögum fýla og hins vegar á örplasti í kræklingi - og Kveikur fékk að fylgjast með ferlinu.

Kræklingur góður mælikvarði

Halldór Pálmar Halldórsson sjávarlíffræðingur og Hermann Dreki Guls eiturefnavistfræðingur hafa undanfarið safnað kræklingi á sex stöðum á landinu, þar á meðal við Straum í Straumsvík. Þar komum við auga á plast löngu áður en við finnum einn einasta krækling.

Ein af helstu uppsprettum örplasts er talin vera slit á dekkjum. Það er því engin tilviljun að sýni séu meðal annars tekin í nágrenni við Reykjanesbrautina, einn mest ekna veg landsins.

„Þannig að okkur fannst þetta vera kjörinn staður til þess að sjá áhrif af því,“ útskýrir Hermann Dreki Guls.

Skilar ekki plastinu frá sér

Um svipað leyti var Kveikur á Húsavík, þar sem Náttúrustofa Norðausturlands leitar að plasti í mögum fýla, fyrir Umhverfisstofnun. Þeir þykja ekki síður hentugur mælikvarði á magn plasts í hafi en kræklingur.

„Ástæðan er sú að hann er svona yfirborðsæta á sjónum. Hann er ekki góður að kafa. Hann er mest að taka þetta sem er næst yfirborðinu og það er þar sem plastið er,“ útskýrir Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur hjá Nátturustofu Norðausturlands.

Annað sem gerir fýlinn ákjósanlegan til plastrannsókna er að hann skilar plastinu ekki frá sér, heldur safnast það fyrir í líkama hans.

„Nema, sem er reyndar kannski svolítið leiðinlegt, það er hjá varpfuglum, að þeir æla upp í ungana, fæði fyrir ungana. Og þannig losna þeir við plastið. Þannig að staðreyndin er sú að ungar eru með meira plast en fullorðnir. Svo sorglegt sem það er,“ segir hann.

Neysluplastið endar í hafinu

Birgitta segir að áætlað sé að 5-15 milljónir tonna af plasti endi í hafinu á hverju ári. „En það hefur breyst svolítið samsetningin á því. Það var kannski til að byrja með meira frá atvinnuvegum á sjó, sem sagt fiskvinnslu eða olíuvinnslu eða annað. En núna kemur eiginlega mjög lítið frá þeim iðnaði og um 80 prósent kemur í rauninni frá landi,“ segir hún.

Það er að segja, megnið af plastinu í hafinu er bara neysluplastið frá mér og þér - og öllum hinum tæplega 8 milljörðunum sem búa á þessari jörð. Því vegna þess hversu létt plastið er ratar það auðveldlega í hafið með vatni, veðri og vindum.

„Það er kannski ekkert endilega vandamál á Íslandi frekar en annarstaðar. Það er náttúrulega stærra vandamál annarstaðar þar sem er ekki einu sinni aðilar sem eru að taka við þessum úrgangi. En af því að þetta er hafið þá er þetta náttúrulega bara heimsvandamál,“ segir Birgitta.

Örplast í helmingi kræklings við Ísland

Í nýlegri rannsókn sem gerð var á kræklingi við strendur Noregs kom í ljós að 77 prósent kræklings innihélt örplast. Og það sem meira er - plastið var mest í kræklingi nyrst í Noregi, þar sem er strjálbýlast. Og Noregur er nú ekki ýkja langt í burtu.

Dreki skoðar sýni á rannsóknarstofunni. (Mynd Kveikur)

Halldór og Dreki leysa kræklinga upp í sterkum basa til að rannsaka hann. „Því við viljum leysa upp allt lífræna en við viljum hafa plastið eftir í honum. Og svo síum við hann í gegnum síu,“ útskýrir Dreki.

Á meðan við fylgdumst með rannsókninni fann hann strax tvo plastþræði í einu sýni.

En eru þeir almennt að finna plast í kræklingi? „Eins og hefur verið, þá já. Þá erum við búnir að sjá plastagnir í nánast öllum kræklingum sem við höfum skoðað,“ segir hann.

Eftir þetta héldu rannsóknir þeirra Halldórs og Dreka áfram í nokkrar vikur. Niðurstöður eru ekki fullbúnar en gefa til kynna að örplast finnist í um helmingi kræklings við Ísland.

Vitum ekki nóg um áhrifin

Í raun eru vísindamenn enn í þeim fasa að komast að því hvar örplast er að finna og hversu mikið er af því. Þá á eftir að svara því hvaða áhrif það hefur og hversu alvarlegt það er. „Sumir sjá áhrif og aðrir ekki. Það er allur skalinn í þessu. Þannig að svona heilt yfir í rauninni getur maður vonað bara að áhrifin verði sem minnst,“ segir Halldór.

Það er sem sagt haldreipið, að hvona það besta? „Það er haldreipið, já. Ég lít þannig á það. Maður vonar það besta. En að sjálfsögðu eigum við að breyta okkar neysluvenjum.“

Hrönn Jörundsdóttir, umhverfisefnafræðingur hjá Matís, segir plast verða vandamál, sé það ekki orðið það nú þegar. „Ef þetta er ekki vandamál í dag þá mun sjálfsagt koma að þeim tímapunkti að þetta verður vandamál ef að við hættum ekki í rauninni að sleppa út öllu þessu plasti í okkar umhverfi,“ segir hún.

Vitandi það sem þeir vita, halda þeir Halldór og Dreki áfram að borða krækling og sjáfarfang? „Ég held þetta sé ennþá með því betra sem maður getur fengið,“ svarar Dreki og Halldór tekur í sama streng.

„Af því að plastið er alls staðar. Það er bara því miður þannig. Þannig að ef maður setur þetta í það samhengi, allavega ef ég tala fyrir mig, þá held ég alveg áfra m að borða fisk og krækling þó við finnum agnir í þessum dýrum sko,“ segir hann.

Ekki beint lystaukandi...

Hinum megin á landinu er verið að greina magainnihald fýla. Ekki lystaukandi verkefni, en afar forvitnilegt.  

Rannsóknir Aðalsteins héldu áfram eftir þetta. Í heildina krufði hann 43 fýla og reyndust 70 prósent þeirra hafa einhverskonar plast í maganum.

Ekki er vitað hvort eða hvaða áhrif plastið getur haft á fuglana.  

Fjölskylda dregur úr plastnotkun

„Ef mann langar til að gera betur þá felst þetta í ábyrgari notkun á plasti. Sko í fyrsta lagi að minnka notkunina og reyna að forðast það að nota plast,“ segir Hrönn. Og í öðru lagi að koma eins miklu og maður getur til endurvinnslu.

Samkvæmt tölum frá Umhverfisstofnun falla til um 13 kíló af plasti hjá fjögurra manna fjölskyldu í hverjum mánuði. Við fylgdumst með sex manna fjölskyldu í Hafnarfirði, þeim Karli Guðmundssyni og Emilíu Borgþórsdóttur og börnum, í mánuð. Hjá þeim féllu ekki til nema rúmlega sjö kíló - og þau eru sex. Þannig að þetta er töluvert minna en hjá flestum – en að þeirra mati, samt allt of mikið.

„Þetta eru mánaðarbirgðir hjá sex manna fjölskyldu í Hafnarfirði. Núna bara síðustu 30 dagana höfum við bara tekið allt plast sem hefur fallið til á heimilinu,“ segir Karl um tilraunina.

Þetta var í ágúst og september framundan. Plastlaus september.

„Ég held við þurfum að fara bara að nota minna. Og hugsa meira, ókey, er þetta virkilega, er einhver þörf fyrir þetta? Hvar sé ég þetta fyrir mér? Er þetta eitthvað sem ég helst get ekki verið án?“ segir Emilía.

Markmiðið fyrir september er að fara úr rúmum sjö kílóum af plastrusli, niður fyrir þrjú kíló.

Plastagnir losna úr flíkum

Þótt umbúðaplast sé meiri hluti þess plasts sem fellur til á heimilum, þá kemur það líka í fleiri formum. Og til þess að varpa ljósi á það, þá gerðum við smá tilraun í samstarfi við Matís og skelltum í vél. Stórri hrúgu af ýmis konar fötum úr gerviefnum.

Á rannsóknarstofu hjá Matís var þvottavatnið síað í gegnum örfína síu, þannig að allt sem var í vatninu varð eftir á henni. Svanhildur Hauksdóttir, starfsmaður Matís, sá um að framkvæma tilraunina. Þegar hún var að skoða sýnin sá hún strax plastagnir.

En það verður reyndar verra. Rúmlega ársgömul rannsókn á kranavatni, sem gerð var í fimm heimsálfum, sýndi fram á að örplast fannst í 83 prósent sýna. Veitur könnuðu málið hjá sér í kjölfarið og greindu svo frá því að örplast fyndist í kranavatni í Reykjavík, en mun minna en erlendis. Ekki nema 0,2-0,4 agnir í hverjum lítra vatns.

Um leið og við létum Matís rannsaka þvottavatnið, létum við líka leita að örplasti í kranavatni frá reykvísku heimili. Og kranavatnið fór sömu leið, í gegnum hárfína síu. Og svo var að telja.

Í sýninu okkar voru að meðaltali 27 örplastsagnir í hverjum lítra drykkjarvatns. Það er mun meira en rannsókn Veitna leiddi í ljós fyrr á þessu ári.

Við verðum þó að slá nokkra varnagla. Við tókum bara eitt sýni, á einu heimili. Og enn hafa vísindamenn ekki komið sér saman um staðlaðar aðferðir til þess að rannsaka örplast, þannig að tryggt sé að allir séu að gera það á sama hátt og hægt sé að bera það saman.

Agnir í drykkjarvatninu

En hvaðan er þetta plast í kranavatninu að koma? „Við vitum í rauninni ekki nákvæmlega hvaðan þetta plast í kranavatninu er að koma. Hvort það sé að koma úr leiðslunni eða blöndunartækjunum eða hvort þetta sé raunverulega að koma úr uppsprettunni. Við bara vitum það ekki,“ segir Hrönn.

Hún telur að þetta hafi ekki verið nein tilviljun að plast hafi fundist í þessu sýni, að þetta sé bara svona í hverfinu sem sýnir var tekið úr. „Nei ég held þetta sé nú almennt svona,“ segir hún. „Og það er mjög erfitt held ég að finna drykkjarvatn sem hefur engar agnir.“

„En það náttúrulega, spurningin er kannski ekki endilega hvort við erum að finna það heldur kannski hversu mikið við erum að finna og þá næsta spurning er þá hvort þetta sé að hafa einhver áhrif á okkur,“ segir Hrönn.

Hefur þetta einhver áhrif á okkur?

„Við bara vitum það ekki. Af því að oft geta áhrifin verið svolítið dulin. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hvað er að valda ákveðnum áhrifum,“ segir hún.

Rannsóknir eru einfaldlega bara svo stutt á veg komnar.

„Almennt svona að fá í sig agnir eða ryk eða korn ætti ekkert að vera vandamál,“ segir Hrönn.

Viðbótarefnin eru áhyggjuefni

Raunar fannst nýlega í fyrsta sinn, svo staðfest sé, örplast í hægðum fólks - í Evrópu, Japan og Rússlandi. Þetta hljómar kannski ekki eins og neitt sérstaklega góðar fréttir, en þær eru samt ekki alslæmar. Úr því að fólk innbyrðir plast, þá er kannski ágætt að það sé staðfest að það fari í gegn. Eða, að minnsta kosti eitthvað af því.

„Það sem að við erum meira að velta fyrir okkur er sko efnið plast, að það geti verið að koma með eitthvað annað með sér,“ útskýrir Hrönn.

„Og fræðilega séð er verið að velta fyrir sér núna þegar ögnin er orðin nægilega lítil að hún gæti mögulega komist yfir þarmaveggina. Þá úr maga- og þarmakerfinu inn í sjálfan líkamann. Og hvað ögnin er þá að gera? Við bara höfum enga hugmynd um það. Það eru þessar pælingar sem að vísindamenn í dag eru að reyna að velta fyrir sér og eru að reyna að rannsaka,“ segir hún.

„Það eru plastagnir eiginlega allstaðar þar sem við leitum.“

Halldór Pálmar tekur í sama streng. „Þessi efni einmitt eru oft frekar laustbundin í plastið þannig að þau losna kannski frekar auðveldlega úr plastinu sko. Og sem að við ættum kannski frekar að hafa áhyggjur af þeim viðbótarefnum heldur en plastinu sjálfu,“ segir hann.

„Þetta er náttúrulega ansi skuggalegt allt saman. Hvernig umgengni okkar er bara í rauninni. Að það sé plast út um allan heim. En þetta er bara samt einhvern veginn á byrjunarreit, að við erum að átta okkur á hversu víða þetta er.“

Þrjár tegundir sjávarsalts voru prófaðar. (Mynd Kveikur)

Plastagnir í saltinu

Til þess að nefna nokkur dæmi þá hefur plast fundist á mesta dýpi sjávar, á fjallstindum í Sviss, í fiskum í Amazon, skordýrum í Wales og ísjökum á Norðurpólnum. Það hefur fundist örplast í drykkjarvatni í öllum heimsálfum, í andrúmslofti, bjór, hunangi, sykri og salti. Og já alveg rétt, salti.  

Við fengum Matís líka til þess að leita að örplasti í þremur tegundum sjávarsalts sem algengt er að fáist í íslenskum matvöruverslunum. Tveimur íslenskum tegundum og einni erlendri. Það reyndist örplast í þeim öllum. Í hverjum 100 grömmum voru á bilinu 48-124 þræðir. Að meðaltali 80 agnarsmáir plastþræðir í 100 grömmum af salti.

Þetta þarf kannski ekkert að koma á óvart. Í nýlegri fjölþjóðlegri rannsókn á salti fannst örplast í 90 prósentum sýna, frá fimm heimsálfum. Og af hverju skyldi það svo sem ekki vera hjá okkur líka?

„Þetta er til staðar og ég held að við þurfum ekkert að bíða eftir því að kannski vita nákvæmega hver dreifingin er, eða hversu viðamikið þetta er heldur verðum við að byrja á að fara í einhverjar aðgerðir til að reyna að hamla því að það fari meira plast út í umhverfið hjá okkur,“ segir Hrönn.

Það eru margir byrjaðir. Farnir að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að draga úr plastnotkun. En, það er ekki alltaf einfalt.  

Ekki tilgangslaust

Því skal haldið til haga að plastumbúðir utan um matvæli eru síður en svo tilgangslausar. Þær geta verndað vörurnar og lengt líftíma þeirra. Sem getur aftur hjálpað til við að draga úr matarsóun. En stundum er plastið samt óþarfi - eða kannski óþarflega mikið.

Forsvarsmönnum Krónunnar berst fjöldi kvartana vegna plasts, og þá sér í lagi þess sem er utan um íslenskt grænmeti. Í grænmetisdeildinni hjá þeim er á að giska helmingur umvafinn plasti. Væri ekki hægt að ákveða að selja bara grænmeti og ávexti plastfrítt?

„Sko, ef við ætluðum að gera það þá þyrftum við að taka sjálf plastið utan af,“ segir Karen Rúnarsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar.

En væri ekki hægt að gera kröfu á byrgja að afhenda vörurnar plastlausar?

„Við gætum það að einhverju leyti. Mögulega gætum við bara stigið fram, alveg eins og við gerðum þegar við tókum öll búrhænuegg úr sölu. Þannig að við gætum eflaust tekið einhver þannig skref. En við viljum samt alltaf gera þau í góðu,“ svarar hún.

Karen Rúnarsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar. (Mynd Kveikur)

Í sátt við viðskiptavini

Af hverju ekki að taka alveg afstöðu með náttúrunni?

„Af því að við erum líka bara þjónustufyrirtæki og við viljum gera þetta í sátt við viðskiptavini. Við viljum ekki að þeir verði ósáttir við okkur,“ segir Karen. „Kannski erum við of rög, ég veit það ekki. Og kannski á einhverjum tímapunkti sjáum við að við þurfum að taka stærri og djarfari skref. Af því að það er raunverulega okkar vilji. Við viljum vera leiðandi. Við viljum breyta og hafa áhrif.“

Það virðist ekki vanta góðan vilja. En verkefnið er samt ærið. Það þarf ekki annað en að líta svolítið í kringum sig í versluninni til þess að sjá að plastið er alls staðar. Ætli það komi til greina að leggja minna á umhverfisvænar vörur?

„Ég bara þekki ekki verðstrúktúrinn nægilega vel svo ég geti svarað þessari spurningu. Innkaupadeildin þyrfti að svara því. En ef við myndum ákveða það að það væri einhver stefna þá er ég viss um að við gætum gert það,“ segir hún.

Ekki enn búið að banna örplast

Við vitum að plast er vandamál sem fer stækkandi. Notkunin eykst með hverju árinu og hún er oft og tíðum byggð á óþarfa. En hver ber ábyrgð í þessu máli? Og hver á að leysa það? Í raun og veru mætti segja að ábyrgðin deilist í þrennt: á herðar stjórnvalda, fyrirtækja og einstaklinga.

Í byrjun síðasta mánaðar skilaði samráðshópur um aðgerðir í plastmálefnum tillögum sínum til umhverfisráðherra. Hópurinn leggur meðal annars til að banna sumar einnota plastvörur, að flokkun úrgangs verði samræmd á landsvísu, skólphreinsun bætt og framleiðsla og innflutningur á snyrtivörum sem innihalda örplast bannaður.

Og já, þið eruð örugglega búin að heyra um örplast í snyrtivörum árum saman og að það standi til að banna það. En það er samt ekki enn búið að því. Hvorki hér né innan Evrópusambandsins.

Samkvæmt tillögunum á að hrinda verkefnunum í framkvæmd á næstu þremur árum. En, þetta eru bara tillögur. Og á meðan tifar klukkan. Það tekur nefnilega tíma að semja frumvörp, skrifa reglugerðir og breyta lögum.

Ekki það, einstaklingar og fyrirtæki geta sannarlega brett upp ermar - jafnvel þótt enn séu ekki tilbúin lög sem skikka þau til þess.

Ekki hægt að endurvinna allt

Hjá Evrópusambandinu eru í bígerð ýmsar aðgerðir sem gætu náð til okkar í gegnum EES-samninginn. Þetta eru til að mynda bönn við ýmiskonar einnota varningi - og, aukin áhersla á ábyrgð framleiðenda.  

„Sagt að þeir beri ábyrgð á þá í rauninni kostnaði samfélagsins við það plast sem sleppur út í umhverfið, ef það má orða það svo,“ segir Birgitta hjá Umhverfisstofnun.

Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, segir að stór hluti umbúða sé þannig að ekki sé hægt að endurvinna þær.

„Það eru kannski allt að 30 prósent af umbúðunum, það er bara ekkert hægt að endurvinna þær. Og það verður líka að hafa það í huga að umbúðirnar eru ekki framleiddar til að endurvinna þær, þær eru framleiddar til að geyma vöruna sem um er að ræða. En ég held að það sé mikið tækifæri til þess að taka líka tillit til þess sem á eftir kemur,“ segir hann.

Allt skiptir máli

En hvað myndi Birgitta segja við þá sem bara gjörsamlega fallast hendur frammi fyrir þessu vandamáli?

„Að allt skiptir máli. Mér finnst mjög mikilvægt að neytandinn geri sér grein fyrir því að það sem hann gerir skiptir máli. Það er alltaf sagt ,,Þú ert bara ein manneskja af öllum í heiminum”. En það er ekkert þannig af því að líka það sem þú ert að gera hefur áhrif á fólk í kringum þig. Það hefur áhrif á það hvernig samfélagið talar um málefni og svo framvegis. Sérstaklega í svona litlu samfélagi eins og Íslandi af því að við sjáum alveg að fyrirtækin eru ekkert það mörg að þau heyra alltaf samfélagsumræðuna,“ segir hún.

Rannveig Magnúsdóttir sjávarvistfræðingur segir mikilvægt að fagna því sem er gert vel. „Við þurfum að vera með þrýsting á stjórnvöld og fyritæki, að þau breyti sinni hegðun. Og við þurfum að vera bara hugrökk,“ segir hún og heldur áfram:

„Ef maður hugsar bara um þessar skelfilegu afleiðingar þá bara getur maður gleymt þessu. Af því að maður brennur út um leið og maður sekkur sér of mikið í þunglyndið þannig að við eigum að hópa okkur saman, fagna því að við séum að gera eitthvað. Heimurinn er að vakna.“

„Ef eitt skref kemur þá fylgja hin á eftir.“

Fóru úr 7 kílóum í 1,5

En hvernig fór hjá fjölskyldunni með plastið?

Kína hætti að taka við

Meiri hluti umbúðaplasts á Íslandi er ennþá urðaður. Eina plastið sem er endurunnið á landinu, er heyrúlluplast og það er gert í Hveragerði. Restin er flutt til Svíþjóðar.

„Farvegurinn var í rauninni þannig að plastinu var safnað, sett um borð í gám, flutt erlendis til miðlara sem gáfu kvittun fyrir því. Kvittunin kemur heim og telur þá að þetta sé endurunnið. Svo spurðu menn ekkert fleiri spurninga með þetta og töldu bara að þetta væri í toppmálum,“ segir Sigurður Halldórsson, framkvæmdastjóri Pure North Recycling

Í byrjun þessa árs kom babb í bátinn. Kínverjar, sem höfðu áratugum saman tekið við stórum hluta plastrusls í heiminum, hættu því. Sögðust ekki lengur vilja vera ruslahaugar heimsins.

„Það lokuðust í rauninni allir markaðir fyrir óunnið plast. Og verð á endurunnu plasti féll um 50-60 prósent,“ segir hann.

Til að gera langa sögu stutta, þá varð þetta til þess að Evrópa fylltist af plasti sem enginn vildi. Það á við um plastið okkar líka.

Plastið okkar brennt í Svíþjóð

Björn Hafsteinn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, þekkir þetta. „Þetta venjulega plast sem að íbúar eru að flokka í dag, það hefur farið frá miðju ári í orkuendurvinnslu,“ segir hann.

Orkuendurvinnslu? Hvað skyldi það nú þýða? Jú, síðasta hálfa árið hefur sem sagt allt blandaða plastið sem Sorpa hefur flutt út til Svíþjóðar, um það bil 800 tonn, ekki verið endurunnið heldur brennt.

„Það fer í orkuendurvinnslu já, brennt. En það er ekki alveg þannig að það verði ekki að neinu. Það verður að rafmagni og varma einhvers staðar annars staðar,“ segir hann.

Sem sagt ekki endurunnið?

„Þetta kallast orkuendurvinnsla. En það má alveg hártoga og deila um það hvort það sé endurvinnsla eða ekki. Erlendis, eins og í Svíþjóð þar sem þetta hefur farið er þetta skilgreind orkuendurvinnsla. Hún er ofar heldur en það að urða. Og ég meina, þetta er tímabundið ástand og við verðum einhvern veginn að leysa það og það var leyst með þessu móti,“ segir hann.

En heldur hann að það sé það sem að fólk sér fyrir sér þegar það stendur og skolar jógúrtdósir og tekur Smjörvadollur í sundur? „Nei, það má vel vera að menn horfi einhvern veginn öðruvísi á það en staðan hefur bara verið þannig undanfarna mánuði að það hefur ekki verið til nein önnur leið,“ segir hann.

Björn Hafsteinn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu. (Mynd Kveikur)

Betra að brenna en grafa

Við skulum þó hafa í huga að það er ekkert nýtt að plastið okkar sé að einhverju leyti brennt í Svíþjóð. Því það er alltaf ákveðinn hluti blandaðs heimilisplasts sem er bara ekki hægt að endurvinna. Og þá er vissulega betra að setja það í orkuvinnslu en landfyllingu.

Björn vonar að fólk sýni þessu skilning, vegna aðstæðna.

„Þetta verður þróun. Evrópubúar hljóta að taka við sér úr því að Kína lokaði og við vitum að það er verið að undirbúa efnisendurvinnslu í fleiri en einu landi. Þannig að þetta jafnar sig smám saman,“ segir hann.

„Þannig að ég vona bara og óska eftir því að fólk sýni því skilning að eins og staðan hefur verið þá höfum við bara ekki getað losnað við þetta í efnisendurvinnslu en við erum að vinna að því að það sé hægt að gera það í framtíðinni.“

Flokkun bjargar ekki öllu

Birgitta segir að flokkun reddi ekki öllu. „Af því að þetta er bara allt of mikið magn til þess að markaðurinn geti tekið við því í rauninni,“ segir hún. „Kannski það sem við þurfum að gera upp á framtíðina ekkert bara upp á plast er bara að neyta miklu miklu minna og það bara á við um allar vörur í rauninni. Og þær tengjast náttúrulega allar plasti á einn eða annan hátt.“

„Það er alls ekki til töfralausn. Ég myndi segja það. Og það mun líklega ekki verða til heldur þurfum við bara að koma að úr öllum áttum. Það er ekki eitthvað eitt sem við getum gert til þess að redda þessu sko.“

Rannveig sjávarvistfræðingur segir að það þurfi að minnka plastframleiðsluna. „Eina lausnin sem ég sé er að við bara skrúfum fyrir þennan plastkrana. Hættum að framleiða svona brjálæðislega mikið plast. Og þá er ég aðallega að tala um einnota plastið. 80 prósent af því sem við erum að framleiða er einnota plast,“ segir hún.

Þó að það sé ekki til nein töfralausn, þá er Tómas, hjá Bláa hernum, með hugmynd sem er kannski ekki verri en hver önnur: „Ef það væri skilagjald á rusli þá hyrfi það á mettíma. Það er bara málið. Stofnum bara banka sem kaupir drasl úr náttúrunni. Málið dautt,“ segir hann.

Nú er tækifærið

„Þessi brjálæðisneysla sem við erum að stunda hérna á Íslandi, hún á sér engin mörk og þetta bara gengur ekki til framtíðar,“ segir Rannveig.

Hrönn segir að tækifærið til að grípa inn í sé núna.

„Af því að við gerum okkur grein fyrir því að þetta er til staðar. En ef við grípum inn í núna þá getum við mögulega komið í veg fyrir það að þetta verði gífurlegt vandamál í framtíðinni,“ segir hún. „En hver og einn verður að takast á við sína ábyrgð.“