Í gíslingu efnis sem eirir engu

Fíkniefnaheimurinn á Íslandi er orðinn enn harðari en áður, með tilkomu ópíóíða á borð við oxycontin. Sífellt fleiri deyja af völdum ópíóíða. Ekkert neyslurými er til staðar og fólk notar fíkniefni á almenningssalernum og í bílastæðahúsum. Mörg hundruð manns eru á biðlista eftir að komast í meðferð.

Athugið: Myndefni sem fylgir fréttinni hér að neðan getur vakið óhug.

Karlmaður vindur sér rösklega inn um dyrnar á Reykjavíkurapóteki við Seljaveg klukkan tíu að morgni föstudags, snemma í september. Starfsfólkið þekkir hann augljóslega og bregst snarlega við. Davíð Þór Jónsson er að sækja dagskammt af contalgini. Contalgin er sterkt morfínlyf sem hann fær ávísað frá lækni, á hverjum degi.

Hvernig líður þér núna, finnst þér eins og þú þurfir að drífa þig að fara að taka þetta?

„Já, ég vil bara gönna af stað,“ segir Davíð þar sem við stöndum fyrir utan apótekið. Hann er sýnilega órólegur, allur á iði.

Hér er hægt að horfa á umfjöllunina. Á myndinni fær Davíð contalgin í Reykjavíkurapóteki.

Davíð segir að fráhvörfin séu óþægileg, honum sé til að mynda illt í maganum. En að allt lagist þegar hann tekur contalginið. Efnið heldur honum almennt stöðugum og frá enn sterkari og verri efnum, að mestu leyti, og þess vegna fær hann því ávísað.

Við fylgjum Davíð að bílastæðahúsinu við Vesturgötu, í hjarta höfuðborgarinnar, innan um ferðamenn, veitingahús og opinberar stofnanir. Davíð fer nánast daglega í bílastæðahúsið. Og hann er ekki einn um það, því þegar við komum á staðinn þennan föstudagsmorgun voru þar nokkrir samankomnir í sama tilgangi; að sprauta sig með morfín-skyldum efnum.

Þegar við komum inn í bílastæðahúsið við Vesturgötu snemma á föstudagsmorgni eru þar nokkrir samankomnir til þess að sprauta sig með morfín-skyldum efnum.

Um leið og við komum inn í húsið verður okkur ljóst að Davíð er alls ekki að koma þangað í fyrsta sinn. Hann þekkir hvern krók og kima í bílastæðahúsinu og gengur hreint til verks. Hann veit til að mynda nákvæmlega hvert hann á að fara til þess að ná sér í hreint vatn, sem er nauðsynlegt til þess að hann geti sprautað sig, á stað sem er sannarlega hvorki hreinn né sérlega geðslegur.

Davíð kemur sér fyrir í tröppum í stigahúsinu og undirbýr sig. Á vegg í stigahúsinu er búið að koma fyrir lítilli tunnu sem er sérstaklega fyrir sprautur og sprautunálar. Davíð segist alltaf „ganga frá í boxið“ eða taka nálarnar með sér þegar hann er búinn.

„Ég tek alltaf 200 [innsk. milligrömm] á morgnana. Síðan getur maður hitað upp aftur. Maður fær alveg affall af þessu. Þannig að ég á síðan alveg annan skammt úr því sem verður eftir,“ útskýrir Davíð á meðan hann sýður contalginið í vatni yfir litlum kveikjara.

„Þetta er alltaf jafnóþægilegt,“ segir hann þegar við heyrum umgang í stigahúsinu. Nokkur fjöldi fólks gengur framhjá okkur á þeim 20 til 30 mínútum sem við erum þarna. Enda er venjulegur föstudagsmorgun og margir sem eiga erindi í bílastæðahúsið.

Á meðan Davíð sprautar sig í bílastæðahúsinu ganga margir framhjá okkur, enda eiga margir erindi í húsið þennan föstudagsmorgun.

„Mér finnst óþægilegt að sprauta mig fyrir framan fólk,“ segir Davíð, en lætur það þó ekki stöðva sig, þótt það gangi að vísu illa að finna heppilega æð þennan morguninn.

„Þessar æðar eru bara langmest notaðar. Ég er líka orðinn hálfpartinn titrandi,“ segir Davíð sem finnur að lokum móttækilega æð og sprautar efninu í sig. Og áhrifin eru ekki lengi að koma í ljós.

„Þetta bara breiðir yfir allt,“ útskýrir hann.

„Þegar maður fær morfín og maður er að upplifa einhvern hræðilegan andlegan sársauka, og hann bara svona slökknar, skilurðu. Þú ert bara huggaður. Þú ert bara kominn í fangið á mömmu þinni aftur.“

„Þetta er eins og að leggjast í heitt bað með sæng og kodda, ef það væri hægt,“ segir Davíð. „Og fara að sofa án þess að drukkna.“

Garibaldi kyssir bless

Í stóru einbýlishúsi í Garðabæ er Garibaldi Ívarsson að hella sér upp á kaffi. Það er maí og klukkan er fimm um morgun.

„Djöfull er ég þreyttur maður. Þetta tekur á sko. Ég skelf í löppunum,“ segir Garibaldi. Og það er ekkert skrítið að hann sé þreyttur því hann er búinn að vera vakandi í að minnsta kosti sólarhring.

Garibaldi, sem er 25 ára, er á leiðinni til Danmerkur ásamt föður sínum, þegar við hittum hann þennan morgun. Þeir feðgar eru að vísu ekki á leiðinni í neina skemmtiferð því Garibaldi er að fara í meðferð eftir langvarandi fíkniefnaneyslu.

„Ég var náttúrulega yfir honum allan daginn og langt fram á kvöld og það gekk vel,“ segir Ívar Bragason, pabbi Garibalda.

Síðasta daginn fyrir meðferðina nýtti hann til þess að skemmta sér. Hann fór í tölvuleikjasalinn Arena og spilaði þar tölvuleikinn League of Legends.

„Þetta var mjög gaman. Maður verður að kyssa þetta bless.“

Notaðir þú eitthvað?

„Bara kókaín. Ég spilaði bara LOL og ég fékk mér kók og bjór.“

Ívar Bragason, faðir Garibalda, var með honum síðasta daginn. Ívar segir að Garibaldi hafi farið átta sinnum í meðferð, og að það hafi alltaf verið mikil spenna daginn áður, hvort hann láti sig hverfa til þess að sleppa við meðferðina.

Ívar og Garibaldi eru góðir vinir og hafa alltaf verið. Ívar segir að það hafi hjálpað mikið í baráttunni undanfarin ár.

„Hann er búinn að hverfa margoft þannig að ég var hræddur um að hann myndi hverfa í gær, til að taka síðustu rispuna. En það gerðist ekki. Ég var náttúrulega yfir honum allan daginn og langt fram á kvöld og það gekk vel,“ segir Ívar.

Sjálfur segist Garibaldi vera tilbúinn til þess að fara í meðferð, meira tilbúinn en áður.

„Og framtíðin er björt skilurðu. Að skipta um umhverfi og komast yfir margt sem ég er búinn að lenda í.“

En það er ekki nóg að vera tilbúinn, það þarf líka að komast í meðferð. Með því að senda son sinn til Danmerkur er Ívar í raun að borga Garibalda fram hjá íslenskum biðlistum. Og það er ekki ókeypis. Verðmiðinn er þrjár milljónir króna.

„Ef svona úrræði væri til hérna, þá værum við að gera þetta hérna. Það er bara ekki í boði,“ segir Ívar.

Sprautan breytti öllu

Þegar Davíð var búinn að sprauta sig í bílastæðahúsinu við Vesturgötu fór hann á Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni, þangað sem hann fer á nánast hverjum degi og fær sér að borða. Hann segist þakka Guði fyrir kaffistofuna, sem var full af fólki þegar við komum þangað í hádeginu þennan dag.

Davíð þakkar Guði fyrir kaffistofu Samhjálpar.

Davíð er 38 ára og ólst upp í Reykjavík og á Akranesi, auk þess að hafa verið í sveit við Ísafjarðardjúp. Hann segir að æskan hafi verið góð, allt þar til hann var 10 ára, og foreldrar hans gengu í votta Jehóva.

„Þá breytist allt hjá okkur, engin afmæli, engin jól,“ útskýrir hann. „Já, ég lenti bara í miklu einelti út af þessari trú sko.“

Davíð í gistiskýlinu við Grandagarð, þar sem hann dvelur flestar nætur.

Davíð byrjaði að drekka og reykja kannabis-efni þegar hann var 12 til 13 ára. Þá fékk hann líka lyf við athyglisbresti. Eitt af lyfjunum sem hann fékk var rítalín.

„Þannig að ég var of fljótt sjálfur farinn að nota þetta, bara að taka þetta í nefið, brytja þetta niður og taka þetta í nefið.“

Þrátt fyrir það segir Davíð að hann hafi haft þokkalega stjórn á lífi sínu. Það var ekki fyrr en fyrir um tíu árum síðan, þegar hann sprautaði sig fyrst, að allt hrundi.

„Þetta er bara búið að taka allt sem mér þykir vænt um og allt sem skiptir máli. Þú veist, ég er bara öryrki á gistiskýli sko.“

„Þetta er bara búið að taka allt sem mér þykir vænt um og allt sem skiptir máli,“ segir Davíð um fíknina.

Eftir matinn hjá Samhjálp var komið að annarri sprautu dagsins. Þennan daginn dugði contalginið nefnilega ekki til að halda fíkninni í skefjum. Davíð ákvað að nota salernið á kaffistofunni og var ekki einn um það. Þarna voru tveir aðrir að sprauta sig á sama tíma, innan um aðra gesti kaffistofunnar.

Davíð ákvað að sprauta sig með rítalíni, sem hann segist gera til þess að vera virkur og til þess að geta fylgt þeim verkefnum eftir sem hann á eftir að sinna.

„Það eru mánaðamót og ég á eftir að gera helling af hlutum. Ég er með svona dagsplan skilurðu.“

Davíð fer inn á einn klósettbásinn og sprautar sig, með opna hurðina, enda virðist þetta vera lítið feimnismál á þessum stað. Og það líður ekki á löngu þar til hann er orðinn mun hressari en áður.

„Núna er ég einmitt strax kominn í svona gír bara, ég er til í hvað sem er sko,“ segir hann.

Oxy tröllríður markaðnum

En hvað sem rítalíni og contalgini líður, er hið umdeilda lyf oxycontin það fíkniefni sem hefur tröllriðið markaðnum á síðustu misserum. Oxycontin, eða oxy, hefur gjörbreytt þessum heimi, enda enn sterkara og meira ávanabindandi en flest önnur fíkniefni.

Lögreglan hefur ekki farið varhluta af þessu. Árið 2020 lagði hún hald á rúmlega 3.000 einingar af ópíóíðum. Árið eftir var fjöldinn kominn í rúmlega 16.000. Og í fyrra var lagt hald á rúmlega 23.000 einingar, langmest oxycontin.

Á lögreglustöðinni á Vínlandsleið hittum við Sigurlín Rósu Óskarsdóttur, eða einfaldlega Rósu, sérfræðing á tæknideild lögreglunnar. Hún sýnir okkur alls konar fíkniefni sem lögreglan hefur gert upptæk á síðustu misserum, meðal annars poka fullan af oxycontin.

„Þetta er oxy, eða OC80 eins og við köllum þetta. Og þetta eru 500 stykki sem komu í gegnum tollinn. Og um leið og maður opnar þetta, þá finnur maður ákveðna lykt. Þannig að maður veit alveg hvað maður er með í höndunum,“ útskýrir Rósa um leið og hún opnar pokann og hellir pillunum á borðið.

Þannig að þú þekkir lyktina af oxy?

„Já. Það er bara sérstök lykt af því.“

Sigurlín Rósa Óskarsdóttir, sérfræðingur á tæknideild lögreglunnar.

Rósa segir að oxycontin sé það efni sem tröllríði fíkniefnamarkaðnum á Íslandi, á því leiki ekki nokkur vafi. „Þetta alveg flæðir inn í landið,“ segir hún.

Oxycontin tilheyrir flokki ópíóíðalyfja sem eru afar sterk verkjalyf, og er meðal annars gefið krabbameinssjúklingum. Oxycontin hefur áhrif á miðtaugakerfið og hindrar að sársaukaboð berist þangað. Lyfið er mjög ávanabindandi. Þannig segist Garibaldi ekki geta hugsað um neitt annað en oxycontin „hverja einustu millisekúndu af lífi sínu.“

„Og í hvert skipti sem þú sérð eitthvað sem líkist oxý, eða líkist broti af oxý, liggjandi á jörðinni, þá ferðu strax og tékkar á því. Ég hef rifið upp gólflista heima hjá mér, leitandi að oxý. Ég hef skriðið út um allt herbergi, leitandi að brotum af oxý. Þetta er bara algjört helvíti sko.“

Garibaldi segist hafa séð marga í kringum sig deyja af völdum ofneyslu, meðal annars vini sína. Og Ragnar Jónsson, sem sinnir andlátsrannsóknum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur líka séð alltof marga deyja af völdum ofneyslu.

„Og það sem við höfum verið að finna á vettvangi eru þessar töflur sem síðar hefur komið í ljós þegar við sendum þær í rannsókn að eru oxycontin,“ segir Ragnar. „Ég veit ekki hvort við getum talað um einhvern faraldur, en þetta virðist koma í bylgjum. Í vor var sérstaklega slæmt.“

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Landspítalanum létust 17 manns af völdum ofneyslu ópíóíða á Íslandi á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Meðalaldur þeirra var 36,4 ár. Sá sem var yngstur var tvítugur.

Ragnar Jónsson, sem sinnir andlátsrannsóknum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur séð alltof marga deyja af völdum ofneyslu.

„Öll þessi mál eru slæm en það stingur sérstaklega þegar það er um unga einstaklinga að ræða, sem eiga sér enga neyslusögu, ætla sér bara að prófa eitthvað sem þau vita í rauninni ekkert hvað er. Það er engin innihaldslýsing á þessu,“ segir Ragnar.

Aldrei séð neitt þessu líkt

Á meðferðarheimilinu Krýsuvík eru hátt í 30 manns í meðferð á hverjum tíma, en meðferðin tekur sex mánuði. Þar leita sífellt fleiri sér hjálpar vegna hvers kyns ópíóíða-fíknar.

Meðferðarheimilið Krýsuvík.

„Það eru um 20% af okkar skjólstæðingum þar sem þetta er fyrsta efni. Oxý, morfín, og bensó-lyf. Og oxý þar í miklum meirihluta,“ segir Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Krýsuvíkur. Hann segir að ópíóíða-fíkn sé erfið að eiga við og að árangurinn af meðferðinni sé ekki eins góður og af meðferð við annars konar fíkn.

„Þetta er alveg nýtt breed, ef maður má orða það þannig. Ég er búinn að vera í þessum bransa í 25 ár, og allt nýtt sem hefur komið inn síðan skilur maður, en ég tengi ekki alveg við þessa neyslu,“ segir Elías.

Og það er ekki bara á meðferðarheimilum sem ópíóíða-fíknin er áberandi. Á Landspítalann leita þeir sem glíma við þessa fíkn, ekki síst eftir að eina neyslurýminu var lokað fyrr á þessu ári.

„Það sem við sjáum á spítalanum er kannski fyrst og fremst þeir sem koma inn vegna ofskammtana,“ segir Kristín Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sem vann áður sem teymisstjóri skaðaminnkunar hjá Rauða krossinum. „En svo er það náttúrulega líka allt sem fylgir notkuninni, eins og þeir sem eru að nota í æð, þeir eru gjarnan með sýkingar. Þá erum við að fá inn mjög veikt fólk.“

Kristín Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, segir að ofskammtanir og sýkingar fylgi neyslunni.

Hafrún Elísa Sigurðardóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, segir að sífellt fleiri leiti í hvers kyns ópíóíða, og að aukningin sé sérstaklega mikil hjá ungmennum. Frú Ragnheiður vinnur eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar „þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hljótast af notkun vímuefna fremur en að fyrirbyggja notkunina sjálfa,“ eins og segir á heimasíðunni.

„Í samtölum okkar við notendur, þá heyrum við að fíknin í ópíóíðana er mjög sterk,“ segir Hafrún. „Og svo fylgir því mikil ofskömmtunarhætta, þegar fólk er að nota þessi efni.“

Alls leituðu um 700 manns til Frú Ragnheiðar í fyrra, sem segir sína sögu um hversu margir berjast við hvers kyns fíkniefnavanda. Hafrún segir að fólkið sem þangað leitar sé á bilinu 18 til 70 ára, en að meðalaldurinn sé einhvers staðar á bilinu 25 til 35 ára.

Skammvinn sæla

Oxycontin eru töflur sem eru framleiddar til þess að gleypa. En flestir sem eiga við fíkniefnavanda að stríða brytja töflurnar hins vegar niður og reykja þær. Garibaldi segir að þegar hann reyki oxycontin fái hann mikla dópamín- og endorfín-tilfinningu, „eins og allt sé í lagi.“

„Síðan færðu kláða. Og það er ógeðslega gott að klóra sér. Alveg bara rosalega gott að klóra sér. Eins og það er gott að klóra sér sko. Og síðan náttúrulega bara fer þetta og þá þarftu annan skammt.“

Eftir hvað langan tíma?

„Korter.“

Korter? Þetta er svona stuttur tími?

„Já,“ segir Garibaldi.

Í Krýsuvík kemur fyrir að fólk komi í meðferð á sama tíma og það er að taka út fráhvörf eftir neyslu á oxycontin.

„Og ég hef aldrei séð önnur eins líkamleg átök,“ segir Elías framkvæmdastjóri, og bætir því við að skjólstæðingur sem er með fráhvörf líti út eins og hann sé fárveikur, skjálfandi á beinunum og með mikla líkamlega verki.

Öll fjölskyldan er í gíslingu

Ívar segir að neysla Garibalda hafi haft mikil áhrif á alla fjölskylduna síðustu 5-7 árin.

„Þegar fer að þyngjast í, að lýsa þessu, þá er þetta bara eins og helvíti á jörðu sko. Ég vil bara ekki óska neinum foreldrum að þurfa að standa í þessu,“ segir Ívar. Fjölskyldan sé í raun búin að vera í gíslingu síðustu tvö árin.

„Þú getur ekkert lifað venjulegu lífi, þú getur ekkert farið í frí eða sinnt öðrum fjölskyldumeðlimum eða áhugamálum eða neitt. Þú ert bara í gíslingu.“

Ívar segir að framan af hafi Garibaldi verið heilbrigður og ekki orðið fyrir neinum áföllum. En síðan hafi hann byrjað að fikta. Sjálfur segist Garibaldi fyrst hafa reykt gras í áttunda bekk, prófað kókaín á fyrsta árinu í menntaskóla og svo e-pillur í kjölfarið.

„Þetta var bara djamm um helgar. „Ókei, fáum okkur kókaín. Smá e-pillur eða eitthvað.“ Síðan er það bara skóli á mánudaginn. Og við mættum í skólann og bara gerðum það.“

En það var svo þegar Garibaldi notaði oxy í fyrsta sinn, sem allt breyttist.

„Og ég hugsaði bara: „O-ó.“ Og ég vissi bara að þetta væri að fara að taka yfir. Þú færð rosalega mikið svona dópamín-kikk.“

Ívar segir að þá hafi „helvítið“ byrjað. Siðferði Garibalda hafi fjarað út og að hann hafi orðið „annar einstaklingur.“

Stuttu síðar fékk Garibaldi 100 stykki af 80 mg oxycontin upp í hendurnar frá lækni.

„Og þá bara át ég þetta eins og Smarties. Ég kunni ekkert að reykja þetta þá. Og þá var ég mjög nálægt því að deyja sko. Alveg mjög. Og ég hef dáið alveg þrisvar sinnum.“

Út af oxý?

„Já. Það var rosalegt sko.“

Garibaldi fór í öndunarstopp eftir ofneyslu, en var endurlífgaður og náði aftur heilsu. Hann fékk lyfjunum ávísað eftir að hafa lent í bílslysi, og kennt sér meins í baki. Og það var ekkert smáræði sem hann fékk af oxy samkvæmt lyfseðli. Ívar segir að hann hafi fengið yfir hundrað pillur á þriggja vikna fresti, og að þá hafi hann verið búinn að finna „drauma-efnið sitt“.

Ívar segir að mörg hundruð 80 mg töflur hafi á því tímabili farið frá lækninum, til Garibalda og þannig áfram út á markaðinn.

„Þessar pillur hafa örugglega drepið einhvern eða farið illa með einhvern,“ segir Ívar.

„Þetta er bara galið. Það er bara ótrúlegt að þetta skuli eiga sér stað í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það eru engin viðvörunarljós, það er ekkert eftirlit, það er ekki neitt,“ segir Ívar.

„Þessar pillur hafa örugglega drepið einhvern eða farið illa með einhvern. Það er bara þannig, því miður.“

Logn í huganum

Við erum komin í kjallara bílastæðahúss í miðbæ Reykjavíkur. Þótt það henti Davíð vel að fá dagskammt af contalgini á hverjum morgni, og að sú lyfjaskömmtun haldi honum að einhverju leyti frá enn verri efnum, kemur enn fyrir að hann reyki oxycontin. Við fylgjumst með honum þar sem hann sker niður álpappír og býr til úr honum sérstakar rennur. Hann sker svo oxycontin-töfluna í fjóra parta og reykir hvern hluta í einu. Hann segir að ein svona tafla kosti í kringum 5.000 krónur á götunni, en að verðið geti farið alveg upp í 12.000 krónur.

Þegar Davíð byrjar að reykja töfluna stígur mjög sterk lykt upp, frekar sæt lykt sem minnir einna helst á bökunarlykt. Og Davíð þarf ekki að anda miklum reyk að sér áður en áhrifin koma í ljós, sem hann segir að séu róandi.

„Bara svona, bara logn í huganum á mér og líkamanum. Ég er fullkomlega bara, þú veist, rólegur. Hjartað á mér slær bara.“

Það er hins vegar ljóst að Davíð gerir sér fullkomlega grein fyrir því hversu hættulegt það er að reykja oxycontin, og hann lýsir því á meðan hann heldur áfram að reykja töfluna.

„Þetta er mest ávanabindandi vímuefni sem ég hef á ævi minni komist í tæri við.“

Og þú hefur prófað ansi margt?

„Já, ég held að ég hafi prófað allt sem hægt er að komast í á Íslandi.“

Þá segir Davíð að hann sé búinn að missa marga vini sína úr ofneyslu fíkniefna.

„Ég missti æskuvin minn, og besta vin minn, í fyrra. Hann var einmitt að reykja oxý þegar hann dó.“

Davíð klárar að reykja fjórða og síðasta hluta töflunnar, en alls tók þetta ferli um 20 mínútur.

„Mig langar bara að leggjast sko,“ segir Davíð. „Mér er ekki illt í bakinu, ég er búinn að vera með alveg rosalega tannpínu, það þarf einmitt að rífa úr mér tvær tennur.“

Þú finnur ekki fyrir því núna?

„Ég finn bara ekki fyrir neinu.“

Næstum drepinn

Þótt ýmislegt hafi gengið á í lífi Garibalda síðustu ár er óhætt að fullyrða að hann hafi aldrei upplifað neitt jafnslæmt og það sem gerðist í janúar. Þá rændu tveir menn honum og pyntuðu hann með hryllilegum hætti í húsnæði við Vatnagarða. Atburðarásin var öll tekin upp á myndband. Málið vakti eðlilega mikla athygli í fjölmiðlum.

„Ég var stunginn örugglega fimmtíu sinnum, laminn með leðurbelti og reynt að setja eitthvað upp í rassgatið á mér og ég var allur marinn hérna á milli,“ segir Garibaldi um leið og hann sýnir ör sem hann ber eftir árásina.

Ívar segist hafa fundið það á sér þetta kvöld að eitthvað væri í gangi. Hann sendi því Garibalda skilaboð.

„Og hann sagði „pabbi treystu mér, ég er að koma heim“. Og hann var edrú og ég treysti honum. Og hann var að koma heim.“

En svo reyndist ekki vera. Garibalda var haldið í húsnæðinu í þrjár til fjórar klukkustundir.

„Síðan átti að nauðga mér og ég var bara settur á fjórar og ég var allur teipaður og eitthvað. Síðan var ég bara á fjórum og hann bara: „Bíddu hérna“. Fór eitthvað út, slökkti ljósið og ég náði einhvern veginn að rífa mig úr þessu.“

Garibaldi á sjúkrahúsi eftir árásina.

Garibaldi hljóp af stað yfir í næsta atvinnuhúsnæði þar sem hann reyndi að brjóta upp glugga til þess að koma þjófavarnarkerfinu af stað.

„Síðan komu þeir og fundu mig og þá var byrjað að blæða það mikið að ég var bara nærri því dauður sko.“

Ívar segir að Garibaldi hafi hringt í sig klukkan hálf fimm um nóttina, og sagt að sér væri að blæða út.

Hann hefði getað dáið hreinlega?

„Já. Hann var mjög nálægt því að deyja,“ segir Ívar.

Í frétt um málið frá því í apríl er atburðarásinni lýst svona:

Þolandinn var keflaður og bundinn á bæði höndum og fótum. Hann var látinn afklæðast, var ítrekað hýddur með belti, skorinn með spegilsbrotum, laminn og stunginn með stálröri og kýldur margsinnis, auk þess sem skótá var sparkað eða troðið í endaþarm hans, sem gæti flokkast sem kynferðisbrot.
Maðurinn náði á endanum að slíta sig lausan og hlaupa fáklæddur á brott. Hann braut rúðu í nærliggjandi húsi í von um að setja af stað þjófavörn eða vekja athygli á sér með öðrum hætti.
Árásarmennirnir eltu hann á bíl, náðu honum og fleygðu honum inn í bílinn. Þar tóku þeir eftir því að honum hefði blætt svo mikið úr slagæð á handlegg að hann væri í bráðri lífshættu. Við svo búið skildu þeir hann eftir og létu hann hafa símann sinn, sem hann notaði til að hringja á lögreglu.

Garibaldi segir að árásin hafi verið framin vegna þess að skömmu áður hafi hann misst það út úr sér að hann hafi verið nýbúinn að selja hlutabréf. Mennirnir tveir hafi einfaldlega ætlað að ræna hann.

Þeir ætluðu bara að kúga út úr þér pening þarna?

„Já. Þá vantaði pening fyrir kílói af kókaíni og 10.000 oxý-pillum,“ segir Garibaldi.

Annar mannanna sem pyntuðu Garibalda er æskuvinur hans. Það segir sitt um grimmdina og vægðarleysið í þessum heimi og hvernig fíknin trompar allt í senn vinskap, siðferði og samvisku.

Myndir af fólki sem hefur notað fentanýl í Bandaríkjunum hafa vakið mikla athygli, enda eru þær eins og úr vísindaskáldsögu.

Fentanýl-faraldur byrjaður annars staðar

Skæður fentanýl-faraldur hefur geisað í Bandaríkjunum að undanförnu. Fentanýl er ópíóíða-lyf eins og oxycontin, en margfalt sterkara. Fentanýli er blandað saman við önnur fíkniefni, og tugþúsundir hafa látist af þeim völdum vestanhafs. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum eru fentanýl-eitranir sjaldgæfar á Íslandi, en Garibaldi segir að neyslan á því sé að aukast.

„Það er farið að pressa þetta með fentanýli, oxý-pillur. Og fólk deyr bara út af því.“

Garibaldi segist hafa prófað að reykja fentanýl-plástra, en þeir eru settir á sjúklinga til þess að lyfið fari jafnt og þétt í gegnum húðina og inn í blóðrásina.

„Og þetta var bara eins og að taka fimm oxý-pillur, eða tíu oxý-pillur. Bara pínu reykur af þessu. Og ég hugsaði bara: „Nei takk, þetta er ekki fyrir mig.“ Ég vissi að þetta væri að fara að taka yfir líf mitt.“

„Nei nei, þeim er drullusama, það kemur bara annar. Þeir eru ekki með neina samvisku sko. Ekki neina,“ segir Garibaldi um þá sem selja fíkniefni.

Fentanýl er bráðdrepandi efni ef það er ekki notað með réttum hætti. Þegar við spyrjum Garibalda hvers vegna þeir sem selja eiturlyf ákveði að selja slíkt efni stendur ekki á svörum.

„Þeim er drullusama. Þetta er bara peningur fyrir þeim.“

Já, en þeir vilja væntanlega halda viðskiptavininum á lífi?

„Nei nei, þeim er drullusama, það kemur bara annar. Þeir eru ekki með neina samvisku sko. Ekki neina.“

„Stjórnvöld þurfa bara að vakna, til að byrja með. Þau eru ekki vakandi,“ segir Ívar.

Óboðlegt ástand

Heilt yfir telur Ívar að stjórnvöld hafi ekki staðið sig nógu vel í baráttunni við fíkniefnadjöfulinn.

„Stjórnvöld þurfa bara að vakna, til að byrja með. Þau eru ekki vakandi. Síðan þurfa þau bara að hlusta á fagfólk og stýra þessum peningum. Þetta eru ekkert miklir peningar, sem slíkt. Bara setja pening í þetta, ef þeim er annt um líf ungs fólks. Það er ekki flóknara en það.“

Ívar bendir á að biðlistar í meðferð séu langir. Hann hafi sent Garibalda til Danmerkur til að koma honum að um leið og hann var tilbúinn að fara í meðferð. Í Krýsuvík er þetta þekkt vandamál. Tveir hafa dáið á þessu ári á meðan þeir voru á biðlista. Elías framkvæmdastjóri segir að um 100 manns séu á biðlista og að af þeim séu 60-70 virkir, sem þýðir að þeir tilkynna sig inn í hverri viku. Elías segir að þetta þýði að það sé hálfs árs bið í meðferðina.

Er það boðlegt í okkar samfélagi að það séu 100 manns á biðlista eftir meðferð?

„Nei, það er það ekki,“ segir Elías.

Um 100 manns eru á biðlista eftir að komast í meðferð í Krýsuvík. Biðin er um hálft ár.

Eina neyslurýminu lokað

Eina neyslurými landsins fyrir fólk í fíkniefnaneyslu var lokað í mars, þegar samningur Reykjavíkurborgar og Rauða krossins rann út. Þar gat fólk notað fíkniefni undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks. Á Landspítalanum hefur þetta haft áhrif, því þangað kemur nú fleira fólk en áður með alvarlegar sýkingar.

„Við erum að fá hingað einstaklinga í bæði skemmri og lengri innlagnir, sem voru hér um bil daglegir gestir í neyslurýminu. Því það sem gerist þegar fólk getur ekki komið í neyslurýmið, þá fer það bara aftur í bílakjallarana eða þá staði. Og þar er ekkert eftirlit og enginn sem grípur,“ segir Kristín hjúkrunarfræðingur.

Hún bendir á að sólarhringurinn á bæði gjörgæslu og legudeild sé mjög dýr, og því sé til mikils að vinna að koma í veg fyrir að fólk í neyslu fái til dæmis alvarlegar sýkingar.

„Og svo held ég að við ættum líka að setja stórt spurningarmerki við af hverju eitt sveitarfélag eigi að bera hitann og þungann af öllum úrræðum, sem tengjast þessum hópi. Sem gerir það að verkum að einstaklingar flytja mjög gjarnan lögheimili sitt til Reykjavíkur, því þar er þjónustuna að fá. Á meðan aðrir geta verið stikkfrí,“ segir Kristín.

Eitt af herbergjunum á meðferðarheimilinu í Krýsuvík.

Elías í Krýsuvík segir að nýr veruleiki blasi við. Sú neysla sem þekktist fyrir 30 árum hafi stökkbreyst með tilkomu ópíóíða og sterkara amfetamíni.

„Lyf eru orðin miklu sterkari, þetta er orðinn miklu hættulegri heimur, og afleiðingarnar eru orðnar miklu verri.“

Því telur Elías að heildarstefnu og heildarsýn skorti í málaflokknum. Það væri til dæmis ágætis byrjun ef afeitrun væri alltaf í boði fyrir fólk með fíknisjúkdóma, en afeitrun er oft fyrsta skrefið í meðferð. Langir biðlistar eru í afeitrun, sem tekur aðeins nokkra daga. Þá segir Elías að stofnunin geti að sjálfsögðu alltaf notað meira fjármagn, meðal annars til þess að geta stytt biðlistann.

Gefst aldrei upp

Á Íslandi, eins og víða annars staðar, hafa yfirvöld áratugum saman rekið harða stefnu gegn fíkniefnum, án þess að neinn sérstakur sigur hafi unnist. Ragnar lögreglufulltrúi vill þrátt fyrir það ekki meina að þetta sé tapað stríð.

„Þá get ég hætt að mæta í vinnuna. Ég vil ekki hætta að mæta og segja „þetta er bara búið, við eigum að gefast upp.“ Ég held ekki. Við erum að sjá þjóðir þar sem allt er komið á versta veg. Ég held að það sé sú mynd sem við getum aldrei sætt okkur við. Aldrei nokkurn tímann.“

Og undir þetta tekur Ívar, pabbi Garibalda. Uppgjöf er ekki í boði, og hún hefur aldrei verið í boði.

Af hverju ekki?

„Það er bara svo mikið í húfi.“

Maður gerir allt, alveg fram í rauðan dauðann?

„Já. Allt saman,“ segir Ívar. „Ég gefst aldrei upp.“

Þegar við spyrjum Garibalda hvers vegna hann hafi verið tilbúinn til þess að segja sína sögu segist hann vilja hjálpa öðrum og dreifa boðskapnum.

„Þetta er hræðilegur faraldur sem er í gangi í samfélaginu. Þetta er alveg ömurlegt. Og ég bara vona að þetta bjargi einhverjum mannslífum.“

Þetta sagði Garibaldi í maí, daginn áður en hann fór í meðferðina til Danmerkur. Þremur mánuðum síðar, í ágúst, heimsótti Ívar son sinn á meðferðarheimilið. Líðan Garibalda var þá gjörbreytt, hann leit mun betur út en þremur mánuðum áður, og hljómaði einnig mun betur.

„Ég vil bara segja að það er von fyrir alla,“ segir Garibaldi eftir að hafa lokið þriggja mánaða meðferð í Danmörku. 

„Ég er kominn hérna inn, búinn að hreinsa mig. Ég er búinn að vera í þrjá mánuði núna, og það er mikið af fólki sem stólar á mann til dæmis. Og maður er búinn að setja allan tímann í þetta og þá er maður auðvitað skíthræddur við að þetta mistakist allt,“ segir Garibaldi.

„En með hverjum hól sem ég kemst yfir, og með hverjum degi sem ég næ að kenna sjálfum mér að takast á við þessar hugsanir sem koma, það verður bara betra og betra. Það verður léttara og léttara að takast á við þetta.“

Garibaldi útskrifaðist í síðustu viku, en hann ætlar að vera á meðferðarstöðinni í allavega mánuð í viðbót, og hjálpa fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í meðferðinni.

„Ég vil bara segja að það er von fyrir alla. Það er enginn sem þarf að lifa og vera þræll þessarar neyslu,“ segir Garibaldi.

Davíð fer oft á Borgarbókasafnið á daginn. Þar horfir hann meðal annars á bíómyndir.

Vill vera betri maður

En að losna úr þrældómnum er ekki auðvelt. Garibaldi á öflugt bakland og foreldra sem geta borgað fyrir dýra meðferð. Davíð er hins vegar á götunni, en vonast samt til þess að geta brotist úr sínum hlekkjum. Ekki bara sjálfs síns vegna, heldur einnig vegna þess, að hann á fjögurra ára gamla dóttur.

„Ég hef bara fengið að tala við hana í síma. Eða í svona myndsímtölum,“ segir Davíð. „Það er bara mjög erfitt, að vera heimilislaus og eiga lítið barn sem er í fóstri hjá ömmu sinni og afa. Það er samt gott að vita að henni líður vel. Hún er á góðum stað.“

En gefur hún þér kannski tilgang og hvatningu?

„Já, algjörlega. Hún er það sko. Hún er hvatinn minn fyrir því að vera á lífi sko. Og ástæðan fyrir því að ég vil vera betri maður.“

En hvað heldurðu að gerist ef þér tekst ekki að hætta?

„Ég veit það ekki. Þá bara gerist ekki neitt, nákvæmlega ekkert. Þetta heldur bara áfram, þangað til maður gefur upp öndina.“

Þau sem glíma við alkóhólisma geta leitað til AA-samtakanna:

aa.is

Neyðarsími AA-samtakanna er 895-1050 á Stór-Reykjavíkursvæðinu og 849-4012 á Akureyri.

Aðstandendur alkóhólista geta sótt sér aðstoð hjá Al-Anon samtökunum:

al-anon.is

Þá eru NA-samtökin fyrir þau sem hafa átt í miklum erfiðleikum með fíkniefni:

nai.is

Ef þig vantar aðstoð eða ráð sem þolandi ofbeldis, aðstandandi eða til að breyta ofbeldisfullri hegðun þinni er hægt er að hafa samband á 112.is. Einnig er alltaf hægt að hafa samband í síma 112.

Á vef Neyðarlínunnar má líka sjá úrræði sem eru til staðar víða um land.