Ótrúlegt að vegriðið hafi ekki haldið

Lögreglumaður, sem kom fyrstur að slysi á brúnni yfir Núpsvötn þar sem þrír létust, segir ljóst að vegakerfið hafi brugðist í slysinu.

Ótrúlegt að vegriðið hafi ekki haldið

Eitt versta bílslys sem hefur orðið á Íslandi varð milli jóla og nýárs 2018. Þrír breskir ferðamenn létust, þar á meðal ellefu mánaða gamalt barn, þegar vegrið á brúnni yfir Núpsvötn í Skaftafellssýslu gaf sig og bílaleigubíll, sem í voru sjö manns, steyptist niður á áreyrarnar.

Þorsteinn Matthías Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, kom fyrstur á vettvang. „Það er bara ótrúlegt,“ segir Þorsteinn um að jeppinn hafi farið yfir vegriðið.

„Þær þurfa að vera þannig búnar, brýrnar, að leiðararnir haldi bifreiðum ef einhver mistök verða, sem var greinilega ekki í þessu tilfelli. Þarna hreinlega opnaðist skarð í leiðarann sem olli því að bifreiðin fór út fyrir.“

Þorsteinn Matthías Kristinsson segir ótrúlegt að vegriðið hafi gefið sig og jeppinn farið yfir það.

Þorsteinn bendir á að brúin sé einbreið og að á þessum tíma hafi verið ekið hratt yfir hana, en daginn eftir slysið var hámarkshraðinn á brúnni lækkaður úr 90 í 50. Undirlagið sé líka járngrindur sem oft séu hálar og vegrið á brúnni séu ekki mjög há.

„Þannig að hún var hættuleg allan tímann,“ segir Þorsteinn. „Ég tala nú ekki um fyrir þessa umferð sem var komin á í kringum allan þennan ferðamannastraum sem var kominn.“

Adolf Ingi Erlingsson leiðsögumaður var þriðji maður á vettvang, á eftir Þorsteini og Auðbjörgu Brynju Bjarnadóttur, hjúkrunarfræðingi frá Kirkjubæjarklaustri.

„Auðvitað er hrikalegt að koma að svona löguðu,“ segir Adolf Ingi. „Ekki síst að sjá þarna látið barn og síðan, inni í bílnum, að komast að því að önnur konan var dáin og alveg ljóst að hin var í andarslitrunum.“

Leiðsögumaðurinn Adolf Ingi Erlingsson var einn af þeim fyrstu sem komu að slysinu.

Adolf Ingi segist oft hugsa um slysið. „Ég er náttúrulega ennþá í þessum bransa og ég keyri mjög reglulega yfir þessa brú,“ segir hann. „Ég held að ég keyri aldrei yfir hana án þess að hugsa um þennan dag.“

Í fyrsta Kveiksþætti vetrarins, sem er á dagskrá RÚV klukkan átta í kvöld, verður fjallað um slysið við Núpsvötn og umferðaröryggi á Íslandi. Rætt verður við feðgin, sem lifðu slysið af, um harmleikinn og afleiðingar hans.

Þátturinn verður sýndur samtímis með enskum texta á RÚV 2.