Börn með offitu komin með fitulifur og kæfisvefn

Börnum með offitu fer fjölgandi í landinu. Offita hrjáir nær tíunda hvert grunnskólabarn utan höfuðborgarsvæðis. Fleiri börn leita á Landspítala með alvarlega fylgikvilla, svo sem fitulifur, kæfisvefn og undanfara sykursýki. Stórtækari aðgerða er þörf til að snúa þróuninni við.

Börn með offitu komin með fitulifur og kæfisvefn

Barnalæknirinn Tryggvi Helgason hefur síðastliðin ár meðhöndlað börn sem glíma við offitu ásamt sérhæfðu teymi Heilsuskólans á Barnaspítala Hringsins. Þetta eru börn þar sem hlutfall þyngdar við hæð er tveimur staðalfrávikum fyrir ofan jafnaldra. Teymið nær ekki að hjálpa öllum sem til þeirra leita. Um eins og hálfs árs bið er eftir að komast að.

„Sá biðlisti hefur bara lengst á undanförnum fjórum eða fimm árum. Við erum svolítið komin að þakinu þarna,“ segir Tryggvi. „Ég hef verið að reyna að fá stækkun á teymið og ekki fengið.“

Á síðustu árum hefur þekkingu á offitu fleygt fram og nú er farið að líta á hana sem langvinnan efnaskiptasjúkdóm. Tryggvi segir að í grunninn sé offita sjúkdómur í birgðastjórnun líkamans.

Börnin eru í mínum huga komin með sjúkdóminn offitu þó að þau séu börn, það eru bara aðeins betri líkur á að lækna hann endanlega. Það eru til fínar tölur um að það er mjög sterkt samhengi milli þess að vera fimm ára og níu ára með offitu og vera svo með offitu sem fullorðinn ef ekkert er að gert.

Það er því til mikils að vinna að ná að hjálpa börnunum áður en þau verða fullorðin. Og það er ekki skrítið að biðlistinn lengist sífellt hjá Tryggva og teymi hans, því börnum með offitu hefur fjölgað á allra síðustu árum.

Á síðustu öld var fjölgunin afar hröð. Um það leyti sem byrjað var að reisa Hallgrímskirkju, eða 1948, var nánast ekkert níu ára barn með offitu í Reykjavík og fá börn yfir kjörþyngd. Fimmtíu árum seinna, rétt undir aldamót, hafði tíðnin margfaldast.

Upp úr aldamótum stóðu tölurnar að meðaltali í stað á höfuðborgarsvæðinu öllu. Nýjustu tölur sýna hins vegar svo ekki verður um villst að börnum með offitu er að fjölga í landinu á ný — og þá þarf að horfa út fyrir höfuðborgarsvæðið, því það skiptir máli í þessum efnum hvar á landinu börnin búa.

Hlutfall barna á höfuðborgarsvæðinu í 1., 4., 7. og 9. bekk grunnskóla, með offitu og yfir kjörþyngd, þróun 2014–2021. Heimild: Heilsuvernd skólabarna.

Á höfuðborgarsvæðinu var tæpur fimmtungur grunnskólabarna yfir kjörþyngd fyrir sjö árum en tæplega fjórðungur nú. Fjögur prósent voru með offitu, en 5,6% nú.

Tíunda hvert barn utan höfuðborgarsvæðis með offitu

Utan höfuðborgarsvæðisins blasir við öllu verri mynd. Þar er hlutfall barna yfir kjörþyngd að nálgast þriðjung. Hlutfall barna með offitu hefur aukist úr 6,5% í 9,4% á  sjö árum. Það er 45% aukning.

Hlutfall barna utan höfuðborgarsvæðis í 1., 4., 7. og 9. bekk grunnskóla, með offitu og yfir kjörþyngd, þróun 2014–2021. Heimild: Heilsuvernd skólabarna.

Staðan er svipuð í heilbrigðisumdæmum á landsbyggðinni. Á Norður-, Suður-, og Vesturlandi er hlutfallið rétt undir landsbyggðarmeðaltali. Á Austurlandi, Suðurnesjum og Vestfjörðum er það rétt yfir.

Hlutfall barna í 1., 4., 7. og 9. bekk grunnskóla með offitu, eftir landsvæðum. Heimild: Heilsuvernd skólabarna.

Að meðaltali er nær tíunda hvert barn utan höfuðborgarsvæðisins með offitu.

„Það er ofboðslega há tala ef þú horfir á það að 10% af börnunum okkar skili sér út í fullorðinslífið með offitu,“ segir Tryggvi barnalæknir. „Það er eiginlega svolítið sláandi há tala.“

Tryggvi segir að ekki sé einfalt að útskýra af hverju offita er algengari hjá börnum utan höfuðborgarsvæðisins. Margir þættir hafi áhrif. Sums staðar sé verra aðgengi að ferskvöru á landsbyggðinni og sums staðar minna úrval af hreyfingu fyrir börnin. Einnig sé sums staðar lægra menntunarstig og meiri fátækt. „Þetta eru allt þættir sem, sérstaklega úti í heimi, er búið að staðfesta vel að hafa áhrif,“ segir hann.

Ekki viljaleysi eða leti sem veldur offitu

Eitt af því sem komið hefur í ljós eftir því sem þekking á offitu eykst er hversu margþættar orsakir liggja að baki. Í grunninn hafa allar manneskjur í sér hæfileikann til að safna fituforða. Offita þróast í flóknu samspili þessa líffræðilega eiginleika við samfélag — vestrænt samfélag og menningu sérstaklega — og einstaklingsbundna þætti. Meðferð og forvarnir þurfa því að beinast að öllum þessum þáttum.

„Það eru heilu hormónakerfin sem við erum búin að finna í líkamanum á þessum 25 árum sem við vissum ekki að væru til,“ segir Tryggvi. „Og þetta er auðvitað hluti af því að við erum að hlaupa á eftir í þekkingu, líka heilbrigðisstarfsfólk.“

„Við erum að læra að þetta er flókið kerfi sem stýrir birgðastjórnuninni okkar og það er ekki bara viljaleysi einstaklingsins eða leti eða hvaða orð menn hafa notað í gegnum tíðina sem valda því að fólk þyngist. Það eru miklu stærri samfélagsbreytingar á bak við það.“

Erfðir leika líka stórt hlutverk. „Við erum með tölur um að 70-80% af birgðastýringunni sé tengd erfðafræði,“ segir Tryggvi. „Það er lykilþáttur. Þú ert með hæfileikann í þér að þyngjast.“

Þessi hæfileiki manneskjunnar til að safna fituforða varð ekki heilsufarslegt vandamál fyrr en í eldfimu samspili við nútíma vestrænan lífsstíl, með ofgnótt af mat, mikilli kyrrsetu, tímaskorti og streitu. Til viðbótar geta ákveðnar aðstæður, álag og áföll gert suma sérstaklega viðkvæma.

Fyrsta viðtalið sem Tryggvi á við skjólstæðinga sína snýst að miklu leyti um þetta.

Að ræða álag á fjölskyldu, svefn og allt mögulegt. Það sýnir sig að þegar eitthvað breytist í vexti hjá barninu þá er það kannski að flytja af einum stað á annan, eða það verður skilnaður eða dauðsfall eða áfall í fjölskyldunni. Ef að börn, af einhverjum ástæðum, eru í þeirri stöðu að þeim líður ekki vel er auðvelt að gleðja mann í nokkrar sekúndur með því að borða.

Tryggvi segir að margir hafi lært á sínum barnsárum að þetta sé jákvætt. „Ömmur og afar eru til dæmis oft föst í þessu,“ segir hann. „Það eru allskonar svona þættir sem þarf að taka inn í reikninginn og skoða í heildarjöfnunni.“

Sólveig Sigurðardóttir er forseti Evrópusamtaka fólks með offitu og berst fyrir auknum skilningi á sjúkdómnum og betri heilbrigðisþjónustu.

Notaði mat til að deyfa sig sem barn

Meðferðin í Heilsuskólanum á Landspítalanum er sniðin að hverju barni og fjölskyldu þess, frá mörgum hliðum. Litið er til næringar, lífsstíls, hreyfingar, sálfræðilegra og félagslegra þátta með miklum stuðningi. Sólveig Sigurðardóttir er ein af þeim sem hefðu viljað fá slíka aðstoð sem barn.

„Ég er manneskja sem er með sjúkdóminn offitu og hef lifað nánast allt mitt líf með offitu,“ segir Sólveig. „Og það hefur ekki verið breiður vegur að fá hjálp og þjónustu. Ég var leitandi í mörg, mörg ár.“

Sem forseti Evrópusamtaka fólks með offitu beitir Sólveig sér nú fyrir fyrir auknum skilningi á sjúkdómnum og betri heilbrigðisþjónustu.

„Ég var með offitu sem barn, ég man eiginlega ekki öðruvísi eftir mér en með offitu. Svona um tíu ára aldurinn byrja ég að þyngjast töluvert hratt,“ segir hún. „Ég var bara vigtuð og hæðarmæld og send heim með skömm og skít og sagt að fara heim með miða til mömmu og láta hana hjálpa mér. Barnið er of feitt og þú þarft að fá hjálp. En engin hjálp var til staðar.“

„Ég fór að bera mig saman við börnin á ströndinni, ég var á Spáni,“ segir Sólveig Sigurðardóttir sem glímdi við offitu sem barn.

Eitt atvik situr sem greipt í minni Sólveigar: „Ég man eftir því þegar ég byrjaði að þyngjast, þá man ég eftir að maginn byrjaði að stækka svo. Og ég gleymi því ekki að ég var í bikiníi og ég hugsaði: Af hverju er maginn minn hangandi svona? Ég fór að bera mig saman við börnin á ströndinni, ég var á Spáni. Ég hugsaði: Af hverju er ég svona en hin börnin öðruvísi?

Sólveig segir að með árunum hafi hún orðið þyngri og þyngri, hún hafi ekki passað í föt og hafi byrjað að fela hvað hún borðaði.

„Þegar ég er tíu ára gömul þá verð ég fyrir áreitni, kynferðislegri misnotkun, af hendi manns sem var í fjölskyldunni,“ segir hún. „Í dag tengi ég þetta voðalega mikið því. Það verður mikil röskun á mínu lífi og ég bjó við mikla skömm og leyndarmál sem mátti ekki tala um. Og barn kann ekkert á svona.“

Sólveig segist hafa notað mat til að deyfa sig. „Stundum gat ég borðað mér til óbóta,“ segir hún. „Ég sat úti í hrauni hérna í Hafnarfirði með fullan poka af mat og einhverju sem mér fannst rosalega gott, nammi og alls konar, og ég borðaði og borðaði þar til ég stóð ekki upp.“

Þetta var þegar Sólveig var um tíu eða ellefu ára gömul, segir hún. „Þarna vissi enginn af þessu. Og þetta var bara eitthvað sem ég átti með sjálfri mér í mörg mörg ár. Og þarna um unglingsaldurinn, þegar ég var búin að eldast aðeins, þá missi ég bara tökin.“

Sólveig segist hafa skammast sín fyrir holdafar sitt.

Maður fer að vera í víðari fötum, maður fer að fela sig, vera meira hokinn, og vilja ekki vera sýnileg. Maður skammast sín, því þú ert svo pínulítið að fá þessa offitufordóma og stríðni. Þú reynir bara að fela þig.

Svelti sig til að komast í „normið“

Barnið Sólveig reyndi og var látin reyna margs konar matarkúra og jafnvel sveltikúra — aðferðir sem í dag er vitað að gera sjúkdóminn bara verri.

„Enginn spáði í þessa litlu stelpu sem var búin að svelta sig til að reyna að komast inn í normið,“ segir Sólveig.

„Ég man þegar ég var í 9. bekk, sem er 10. bekkur í dag, þá náði ég að léttast mjög mikið með því að svelta mig niður,“ segir Sólveig. „Og hrósin sem ég fékk. Frá kennurum og nemendum og öllum. En enginn spáði í þessa litlu stelpu sem var búin að svelta sig til að reyna að komast inn í normið,“ segir hún.

„Og það finnst mér líka svo erfitt í dag, þegar fólk er að hrósa of mikið fyrir þyngdartap. Það hefur ekki hugmynd um hvað er í gangi með manneskjuna, hvort það eru veikindi eða bara hálfgert svelti eða hvort að manneskjan er að gera þetta á allt annan hátt.“

Sólveig var komin á fullorðinsár þegar hún fann hjálpina sem virkaði: marghliða aðstoð læknis, sálfræðings, sjúkraþjálfa og heilsuþjálfa hjá Heilsuborg. Þó að hún sé ekki of þung í dag er hún með offitusjúkdóminn fyrir lífstíð.

„Það tók mig langan tíma að skilja að maður getur verið með sjúkdóminn offitu í hvaða stærð sem er. Þú getur lést, þú getur verið í öllum stærðum, en þú situr ennþá uppi með sjúkdóminn offitu, af því að líkaminn sækir alltaf í hærri þyngd aftur.“

Sólveig segir offitu að mörgu leyti enn vera tabú.

„Það eru svo fáir sem þora að tala um svona hluti. Enn í dag situr fólk í skömm vegna þess að það þyngdist eða glímir við offitu. Og ég hitti brotið fólk um allan heim og við eigum öll þessa sömu sögu, við erum öll svo brotin. En við höfum mörg staðið upp af því við höfum fengið góða þjónustu og útskýringar á hlutunum. Hugsaðu þér að ganga með sjúkdóm sem er ógreindur og svo er verið að gefa þér allskonar ráð sem láta sjúkdóminn versna. Þetta þekkist ekki varðandi aðra alvarlega sjúkdóma.“

Garðar Eyfjörð, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Kíló (#KiloKefCity).

„Stjúppabbi kallaði mig alltaf hvalinn“

Garðar Eyfjörð, betur þekktur sem rapparinn Kíló, og samfélagsmiðlastjarnan KílóKefCity, hefur einnig glímt við offitu frá barnsaldri. Hann fjallar um erfiða æsku sína á nýjustu plötu sinni, „The Serenade of Solitude“.

Stjúppabbi minn var alltaf að nefna hvað ég var feitur. Kallaði mig alltaf „hvalinn“. Það var eitt sumar sem hann læsir ísskápnum. Ég var með sérísskáp. Ísskápurinn minn var í þvottahúsinu,  ísskápurinn hans var inni í eldhúsinu. Einn daginn ákvað hann að ég væri orðinn of feitur svo hann hætti að gefa mér morgunmat. Ég er ekki að grínast. Svo þegar hann var farinn í vinnuna þá þurfti ég alltaf að brjótast inn í húsið. Þú gast svona rennt hurðinni og smellt henni úr, og þá gat ég skriðið inn og fengið mér morgunmat.
„Stjúppabbi minn var alltaf að nefna hvað ég var feitur. Kallaði mig alltaf hvalinn,“ segir Garðar.

Offitan fylgdi Garðari fram á fullorðinsár. Vendipunkturinn var hjartaáfall sem hann fékk fyrir tveimur árum. Með sjálfsvinnu og þolinmæði breytti hann lífsstílnum, hefur lést um tugi kílóa og er mörgum innblástur.

„Offita er bara barátta, alla ævi. Mig langar til að geta séð um sjálfan mig þegar ég er fimmtugur, skilurðu. Þetta er miklu erfiðara því eldri sem þú verður. Ég mæli með að fólk reyni að breyta lífsstíl sínum sem fyrst. En þetta er ekki auðvelt.“

„En það þurfa ekkert allir að vera tággrannir?“ er hann spurður.

„Nei, auðvitað ekki. Auðvitað ekki,“ segir hann. Það sé til heilbrigt þybbið fólk. „En ég er að segja: Því eldri sem þú verður þá er þetta hættulegra og fer illa með þig. Ég ætti ekki einu sinni að vera hérna, fattarðu. Ég er bara mjög heppinn að vera á lífi,“ segir Garðar.

Ég veit ekki, mér finnst líkamsvirðingarhreyfingin á Íslandi mjög jákvæð, sérstaklega hjá kvenfólki. Ég elska hvað konur og stelpur eru bara: Hérna er ég. I'm a chubby bitch. I love it. Ég elska þetta. Þetta er á leiðinni í rétta átt.

En hann óskar þess að hann hefði breytt um lífsstíl fyrir tíu, fimmtán árum. „Þá hefði þetta verið miklu auðveldara. Því eldri sem þú verður því erfiðara verður að grennast. Ég er enginn sérfræðingur. Ég get bara sagt frá minni reynslu.“

Vísað frá tannlækni vegna þyngdar

Þrautaganga Sólveigar og Garðars við að finna leiðir til að bæta heilsuna er að mörgu leyti dæmigerð lýsing á fordómum og vanþekkingu á offitu sem enn er algeng.

Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að fólk með offitu verður fyrir miklum fordómum og smánun vegna holdafars síns, bæði meðal almennings, þar sem staðalmyndin er að feitt fólk skorti viljastyrk, og ekki síður í heilbrigðiskerfinu, sem veldur því að fólk leitar sér síður hjálpar.

Garðar segir að mestu fordómar sem hann hafi mætt hafi komið innan úr heilbrigðiskerfinu. „Sérstaklega frá læknum. Ef það var eitthvað að, þá var það alltaf: Þú þarft bara að grenna þig. Ég er með klemmda taug. Nei, þú þarft bara að grenna þig. Það var ekkert hlustað á mann.“

Hann segir að þegar hann fór til nýs tannlæknis á þessu ári hafi hann lent í því sem hafi verið einna mest niðurlægjandi. „Ég er búinn að eyðileggja tennurnar mínar með sykuráti og kæfisvefni. Ég er mjög óöruggur með tennurnar mínar,“ segir hann.

Tannlæknirinn stoppar mig þegar ég kem og spyr hvað ég sé þungur. Ég er 167 kíló, segi ég. Já, stóllinn minn höndlar bara 150 kíló, segir hann. Og ég bara, þarf ég að labba hérna út? Ég fór út í bíl og mig langaði bara til að gráta. Maður er hræddur við að fara til lækna og tannlækna. Það eru svona litlir hlutir sem að grannt fólk skilur ekki.
Tryggvi Helgason barnalæknir er sérfræðingur í offitu barna.

Holdafarsfordómar útbreiddir í heilbrigðiskerfinu

Tryggvi Helgason barnalæknir segir mörg dæmi um fordóma í heilbrigðiskerfinu gagnvart þeim sem eru með offitu. „Það eru mýmörg svona dæmi enn þá til, því miður.“

Hann segir mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk horfist í augu við þessa fordóma.

„Þetta er eitt af því sem við erum að breyta. Með yngri kynslóðinni, eftir því sem við fáum meiri fræðslu um offitu, og með því að uppfræða eldri kynslóðina, þá smám saman er þetta að breytast, sem betur fer. Ég held, vona, að þessum dæmum fari fækkandi“ segir Tryggvi.

Við vitum að það er eitthvað í þessari birgðastjórnun sem veldur því að fólk safnar á sig of miklum birgðum og það er hálfskrítið að vera með einhverja fordóma gagnvart því. Þegar við vitum að það er ekki val einstaklingsins. Þess vegna er svo mikilvægt að við lærum að horfa á offitu sem miklu líffræðilegra fyrirbæri heldur en við höfum gert hingað til, það hefur verið dæmt svolítið útlitslegt og ekki nógu mikill viljastyrkur og svo framvegis – en í raun er þetta miklu líffræðilegra en við höfum haldið.

Fleiri börn með fylgikvilla offitu

Tryggvi hefur miklar áhyggjur af fjölgun barna með offitu, sérstaklega þar sem með hverju árinu leita til hans fleiri börn í verra heilsufarsástandi.

„Við sjáum alveg ofboðslega háar tölur um að þetta hafi bein efnaskiptaáhrif á börnin,“ segir Tryggvi. „Við erum að sjá breytingu á síðustu sjö, átta árum sem er sú að við sjáum hærra hlutfall af börnum sem er með álag á sykurkerfið sitt.“

Þannig er um helmingur barna yngri en tíu ára sem koma í Heilsuskólann með alvarlega skerðingu á insúlínnæmi sem getur verið undanfari sykursýki. Meðal eldri barna er þetta hlutfall 90%. Á síðasta ári greindust að minnsta kosti fimm börn með áunna sykursýki.

„Við höfum greint börn undir tíu ára með fitulifur. Við gerðum mælingu á 30 börnum og 10% af þeim voru með kæfisvefn, skilgreindur eftir fullorðinsskilmerkjum,“ segir Tryggvi.

„Ef við skilgreindum þau eftir barnastöðlum þá voru nánast öll börnin með kæfisvefn. Mjög mörg af þeim eru komin með líkamlega fylgikvilla þess að vera með offitu, jafnvel þó að þau séu ung að aldri,“ segir hann.

Ása Sjöfn Lórensdóttir er fagstjóri heilsuverndar skólabarna hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Úrræði misjöfn eftir búsetu

Heilsuskólinn á Landspítalanum, með tæplega eins og hálfs árs bið, er eina sérhæfða úrræðið fyrir þessi börn. Að öðru leyti er foreldrum sem hafa áhyggjur af þyngdaraukningu barna sinna eindregið bent á að hafa samband við heilsugæsluna.

Í grunnskólum landsins er skimað fyrir frávikum í vexti og þroska með hæðar- og þyngdarmælingu — og foreldrum gefin ráð. Ása Sjöfn Lórensdóttir, fagstjóri heilsuverndar skólabarna hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, segir dæmi um að vigtunin sé viðkvæmt mál hjá börnunum.

„Já, við höfum alveg orðið vör við það. Bæði frá foreldrum og síðan frá unglingum, ekki hjá yngri börnum. En hjá unglingum, já,“ segir Ása Sjöfn.

„En vigtun er ekki hættuleg, ekkert frekar en að mæla hæð eða gera sjónpróf,“ segir hún. Niðurstaðan sé ekki rædd við börnin. Ef frávik sjáist sé það rætt við foreldrana. „Ef barn er með frávik á vaxtarkúrfu þá ber okkur að bregðast við því. Rétt eins og ef barn er með frávik í sjónprófi þá ber okkur líka að bregðast við því.“

Tryggvi segir að heilsugæslustöðvar landsins séu misjafnlega í stakk búnar til að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra með offituvandamál.

„Sumar heilsugæslur eru mjög góðar í þessu. Aðrar heilsugæslur eru komnar styttra á veg í lífsstílsmóttökum og svoleiðis,“ segir hann. „Hins vegar varðandi offitu myndi maður stundum vilja að það væri meiri þekking, meiri sérhæfing, á mörgum heilsugæslum. Og það er eitthvað sem við erum að reyna að vinna í að hjálpa til við að kenna.“

Þannig geta úrræðin og hjálpin verið misgóð eftir því hvar barnið býr.

Sólveig Sigurðardóttir fékk loks þegar hún var orðin fullorðin hjálp sem virkaði: marghliða aðstoð læknis, sálfræðings, sjúkraþjálfa og heilsuþjálfa.

Sólveig segir þessa stöðu óviðunandi.

Við verðum að gera betur. Þetta má ekki verða þannig að fólk missi bara heilsuna.

Hún segist ráðleggja þeim sem hafa áhyggjur af þyngd barna sinna fyrst og fremst að sækja sér fræðslu.

„Lykilatriði er að fræða sjálfan sig,“ segir hún. „En hvar ætlarðu að fá fræðsluna. Það er oft erfitt.“

Hún segist fá „illt í hjartað“ vegna þess að fólk þurfi að leita sér þjónustu á heilsugæslu. „Þá þarftu að vera í heppna hlutanum varðandi það hvort þú lendir á góðum fagaðila sem tekur á móti barninu eða fjölskyldunni sjálfri,“ segir Sólveig.

„Ég vil hafa fjölskylduhjálp. Ég vil að það geti verið fjölskylduráðgjöf strax inni á heilsugæslu. Ég vil ekki að barnið þurfi að bíða í einhver ár eftir því að komast í Heilsuskólann á Landspítalanum til að fá almennilega hjálp.“

Brýn þörf á markvissum aðgerðum

Viðmælendur Kveiks benda á að til að snúa þróuninni við þurfi mun skýrari stefnu, meiri fræðslu og forvarnir, en líka markvissari og stórtækari aðgerðir.

„Það þarf miklu stærri samfélagslega ákvörðun til að þetta breytist, heldur en að við hér í Heilsuskólanum séum að hitta einhver 70 eða 100 börn á ári,“ segir Tryggvi.

„Við náum ekki að hjálpa öllum sem við mögulega vildum. En það er ekki heldur endilega lausnin að hjálpa þeim þegar þau eru komin svona langt,“ segir hann. Við viljum grípa inn í fyrr, áður en þessi börn eru farin að vaxa of hratt. Og ef þau eru nýbyrjuð að vaxa hratt, að grípa strax inn í.“

Fagstjórinn Ása Sjöfn segir að þetta sé fyrst og fremst samfélagsleg áskorun. „Það er í höndum okkar sem samfélags að styðja við og efla heilsu allra, þar á meðal barnanna okkar,“ segir hún. „Við vitum til dæmis að félagslegur ójöfnuður getur haft áhrif á þróun þessa heilsuvanda. Og börn hafa mismunandi aðgengi að heilbrigðum lífsvenjum. Það eru margar lýðheilsuaðgerðir sem hægt er að ráðast í til að efla heilsu. Og ég vil sjá þetta svolítið áþreifanlegra.“

Sólveig segir þörf á mun meiri fræðslu og þekkingu. „Ég vil meiri vitneskju innan heilbrigðiskerfis,“ segir hún. „Ég kalla eftir því. Að fólk geti leitað sér þekkingar á offitu, innan kerfis, innan samfélags, bara alls staðar. Að við séum ekki með þetta sem eitthvað tabú, að við getum rætt þetta. Þetta er engin skömm, það er engin skömm að vera með aukakíló, sama hvað mörg þau eru.“

Forgangsaðgerðir frá 2013 fæstar komnar til framkvæmda

Tryggvi hefur knúið á um að heilbrigðisyfirvöld leggi meiri áherslu á að sporna gegn vandanum. Hann bendir á að í sumum Evrópulöndum hafi tekist að hægja verulega á eða stöðva fjölgun barna með offitu.

„Ef maður horfir á tölurnar og þróunina á Íslandi þá er offita barna að vaxa áfram hérna þó að hún sé í sumum Evrópulöndum aðeins að hætta að aukast,“ segir hann.

„Ég hef alveg tjáð mig við yfirvöld um það að ég myndi vilja sjá meira um offitu barna í forvarnaraðgerðum og ég myndi vilja sjá meira starf í heilsugæslu, ungbarnavernd, skólaheilsugæslu og svo framvegis. Og síðan í stærri heildarmyndinni að sjá samfélagsbreytingar þar sem er tekið tillit til þess að maður getur ekki leyft börnum og fullorðnum að þyngjast óhindrað án þess að lenda í vandræðum með það seinna.“

Á undanförnum árum hafa heilbrigðisyfirvöld staðið fyrir ýmsum heilsueflandi aðgerðum og verkefnum. Samt fjölgar börnum með offitu — og misskiptingin eftir búsetu er augljós.

Í aðgerðaáætlun sem vinnuhópur á vegum þáverandi velferðarráðherra skilaði árið 2013 eru lagðar til forgangsaðgerðir til að draga úr tíðni offitu á Íslandi. Síðan eru liðin átta ár en meirihluti þess sem lýtur að börnum hefur ekki komið til framkvæmda.

Í janúar á þessu ári sendi Alma Möller landlæknir minnisblað til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra þar sem Alma vekur athygli ráðherrans á umfangi vandans og leggur til að skipaðir verði tveir hópar sérfræðinga til að gera tillögur að aðgerðum, bæði á sviði forvarna og meðferðar. Ekki hefur verið skipað í starfshópana enn, en sú vinna er sögð standa yfir.

Tryggvi barnalæknir segist hafa hvatt til áherslubreytinga hjá landlækni, heilsugæslunni og víðar.

„Það er margt sem við getum gert en erum ekki að gera,“ segir hann. Ástæða sé til að reyna „að leggja aðeins meira í þetta, þannig að við stöndum þó alla vega við það sem við höfum sett okkur sem markmið, að það aukist ekki hlutfallið af börnum sem eru með offitu,“ segir Tryggvi. „Ég veit að það er hægt.“