Ný staða getur gagnast Íslandi

Ísland er á miðju því svæði sem er þungamiðja norðurslóða, segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. Hugsanlega verði togstreitan og kapphlaupið á norðurslóðum þannig á næstu áratugum að það skapi Íslandi ógnir, en hann telur það ekki gerast í bráð.

Ísland er á miðju því svæði sem er þungamiðja norðurslóða, segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. Hugsanlega verði togstreitan og kapphlaupið á norðurslóðum þannig á næstu áratugum að það skapi Íslandi ógnir, en hann telur það ekki gerast í bráð.

Á fremur skömmum tíma hefur staða Íslands á alþjóðasviði breyst mikið. Segja má að brotthvarf bandarískra hersveita frá herstöðinni á Miðnesheiði 2006 hafi sýnt glögglega, hversu mikið hernaðarlegt mikilvægi Íslands hafði breyst frá lokum kalda stríðsins. En nú hefur staðan breyst á ný, ekki síst vegna ört vaxandi áhuga stórveldanna á Norðurheimskautinu.

Kínverskar sendinefndir eru fastir gestir á landinu í hverjum mánuði, að heimsækja stjórnvöld og fyrirtæki. Og á rúmu hálfu ári hafa utanríkisráðherra, orkumálaráðherra og varaforseti Bandaríkjanna komið til Íslands. Allir hafa þeir viljað ræða það sama: Norðurheimskautið, Kína og Rússland.

Fáir Íslendingar hafa fylgst jafngrannt með framvindunni á norðurslóðum og Ólafur Ragnar Grímsson, sem veitir Hringborði Norðurslóða, eða Arctic Circle, nú forystu. Að hans mati er Ísland í áhugaverðri stöðu.

„Ég hef stundum, til þess að útskýra þessi tækifæri og þessa stöðu, skipt norðurslóðum upp í þrjú svæði. Þetta er náttúrulega svo stór hluti af hnettinum, þar er nánast útilokað að fjalla um það þannig að allt passi við alla. Þetta er eins og Afríka, ef það er allt saman lagt saman. Það er vestursvæðið, sem er svæðin í Kanada og Alaska. Það er austursvæðið, sem er fyrst og fremst Rússland með sjö tímabelti í norðurhluta Rússlands. Og svo er miðsvæðið. Sem er þetta hafsvæði sem leiðir upp í íshafið. Þar erum við, Grænlendingar, Færeyingar og nú Skotar og Norðmenn sem mynda þennan þríhyrning. Og það eru engir aðrir.“

„Siglingarnar verða að fara þessa leið. Leiðin að auðlindunum verður með einhverjum hætti að vera tengd þessu svæði. Rannsóknirnar á hafsvæðunum og áhrifunum á hafstraumana í hnettinum, golfstrauminn og hvernig gæti hægt á honum, er líka bundið þessu svæði. Og í vaxandi mæli gerir umheimurinn sér grein fyrir því, að þungamiðja norðurslóðanna er einmitt þetta svæði.“

„En það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að við áttum okkur á því hvað felst í þessari nýju stöðu. Við gerum okkur í stakk búna til þess. Við eigum líka vísindamenn: Jöklafræðinga, náttúrufræðinga, verkfræðinga og aðra, sem menn munu sækjast eftir að eiga samvinnu við. Og hafa tekið virkan þátt í þessari umræðu. Fyrirtæki eins og Eimskip hafa sýnt hvernig hægt er að byggja nýjar siglingaleiðir. Til Bandaríkjanna, til Rússlands, til Noregs, til Grænlands, til Evrópu, til Bretlands. Svo við sjáum á ótalmörgum sviðum hvernig þessi nýja staða getur gagnast Íslandi.“

„Auðvitað er það hugsanlegt að einhvern tíma á næstu áratugum verði togstreitan og kapphlaupið á norðurslóðum þannig að það geti skapað okkur ógnir og hættur sem verða erfiðar. En ég held ekki að það gerist í bráð. Ég held að við höfum núna alla vega nokkur ár, þennan næsta áratug, til þess að vanda okkur vel varðandi uppbyggingu og stöðu Íslands á þessu svæði.“

Fjallað verður um áhuga Kínverja á norðurslóðum, harkaleg viðbrögð Bandaríkjamanna og stöðu Íslands í Kveik í kvöld.