*

Húsið er að gráta og jafnvel mygla

Rakaskemmdir og mygla í húsum eru líklega algengara vandamál en marga grunar. Og vandinn er ekki bara bundinn við gömul hús. Gæti lífsstíll okkar aukið vandann?

Húsið er að gráta og jafnvel mygla

„Ég var hálfsjokkeraður fyrst. Þetta var miklu meira vandamál en mig hafði órað fyrir.“ Þetta segir Björn Marteinsson, arkitekt og sérfræðingur hjá Rannsóknastofu byggingariðnaðarins. Hann hefur staðið fyrir könnunum á rakavandamálum og niðurstaðan er sú að 30-50% Íslendinga hafa orðið vör við rakavandamál á heimili sínu.

Hægt er að horfa á umfjöllunina hér eða halda áfram að lesa.

„Ég skildi svo sem alveg að það gætu verið mikil rakavandamál í eldri húsum. En þetta var ótrúlega algengt í nýbyggingum líka. Þannig að það var eitthvert kerfisvandamál“, segir Björn.

Kerfisvandamál er eitthvað allt annað en stöku gluggi sem grætur eða krani sem lekur. Á undanförnum árum hefur umræða um myglu og áhrif hennar á heilsuna jafnframt aukist, en mygla er algeng afleiðing rakaskemmda. Það er þó ekki alveg ljóst hvers vegna þessi aukning er.

Björn Marteinsson, arkitekt og sérfræðingur hjá Rannsóknastofu byggingariðnaðarins.

Björn nefnir að það hafi verið gerðar breytingar á húsum hjá okkur, til að mynda í frágangi á baðherbergjum. Upphengd salerni með allar lagnir inni í veggjum gætu spilað þar inn í, að minnsta kosti er ein helsta breytingin milli kannana sú að lagnir leka frekar á baðherbergjum. Að auki hefur lífsstíllinn breyst, Íslendingar baða sig miklu oftar núna en áður fyrr, með tilheyrandi rakamyndun.

„Síðan er þessi möguleiki að það séu loftslagsbreytingar. Og þá erum við aðallega að tala um loftslagsbreytingu þar sem útihiti hækkar og loftraki hækkar.“

Almennt eru heimili bara loftræst með því að opna glugga og láta trekkinn hreinsa inniloftið, en þar sem eru garðar með gott skjól, getur verið erfitt að ná hreyfingu á loftið.

Rakavandamál geta verið af öllu tagi og á flestum heimilum má finna einhvern raka eða myglu sem auðvelt er að gera við. Sé það ekki gert, er hætta á að vandinn vindi upp á sig. Viðgerð verður kostnaðarsamari og meiri líkur á að heilsan verði fyrir áhrifum.

Í öðrum tilvikum eru ástæðurnar aðrar og alvarlegri, eins og í tilfelli höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur sem vígðar voru 2003. Ári síðar varð fyrst vart við leka í húsinu. Og áratug síðar var húsið nánast ónýtt af raka og myglu.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, sagði í viðtali við Kveik að það væri mjög vont að þrátt fyrir tækniframfarir og þekkingu væru enn byggð hús sem væru stórgölluð og ónýt.

Endalaus her sérfræðinga, innlendra og erlendra, var að lokum fenginn til að skoða húsið. Dómkvaddir matsmenn eru enn að reyna að komast til botns í því hvernig svona gat farið, en heilt á litið má segja að allt hafi brugðist. Hönnunin var röng, hallandi útveggir eru meðal þess sem hentaði alls ekki aðstæðum. Rangt byggingarefni var valið og það sett upp rangt. Klæðningin hélt hreinlega ekki vatni. En eftirlit og viðhald brugðust líka.

Kostnaður Orkuveitunnar í dag vegna þessa er um sjö hundruð milljónir króna og enn er verið að meta hvort Orkuveitan geti sótt skaðabætur – og þá hvert. Bjarni er þungur á brún þegar hann lýsir skoðun sinni á húsinu og segir að honum þyki mjög sorglegt að sú ákvörðun hafi verið tekið á sínum tíma að byggja þetta hús.

„Hún var ekki góð. Húsið er í fyrsta lagi of stórt. Það er mikill íburður í því. Ég tel að það hafi ekki verið vel farið með almannafé. Og það vill svo til að almenningur á þetta fyrirtæki.“

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.

Enn þann dag í dag er vesturhúsið tómt og hefur verið það frá 2017. Nú á að byggja nýja útveggi utan um þetta hús – sem bætir milljörðum ofan á kostnaðinn. En þá er ótalinn kostnaður fólksins sem varð fyrir heilsutjóni. Anna María Elíasdóttir var hraust þegar Orkuveitan flutti í nýjar höfuðstöðvar, en segist hafa fundið fyrir fyrstu einkennum um ári eftir að byggingin var vígð. Hún hafi þurft að taka astmalyf á ný, eftir að hafa verið án þeirra um árabil. Rakaskemmdir og mygla hafi henni ekki dottið í hug að gæti verið ástæða.

Linda Hauksdóttir Hammer byrjaði nokkrum síðar, 2006, en segir sömu sögu: Að um ári eftir að hún hóf störf í húsinu hafi hún fundið fyrstu einkenni, frá hjartsláttaróreglu til þyngsla í lungum. Þegar var byrjað að lagfæra bygginguna hafi allt farið á verri veg, með svima og verkjum um allan líkama.

Regína Sigurgeirsdóttir kom til Orkuveitunnar sem stjórnandi úr álagsstarfi en tók strax eftir því að starfsmenn á deildinni hennar voru oft frá vegna veikinda. Fólk saug upp í nefið og hóstaði. Hálfu ári eftir að hún hóf störf krafðist hún þess að húsnæðið yrði skoðað, sem varð að lokum ein ástæða þess að rannsókn var hafin. Það var þó of seint fyrir Regínu. Að lokum fór svo að hún veiktist sjálf og þurfti að láta af störfum.  

Stjórnendur Orkuveitunnar segja hins vegar að ekkert hafi verið vitað fyrr en 2015. Skýrslur frá 2009 greina samt frá leka og rakavandamálum, sem sannarlega geta leitt til myglu.

Bjarni segist sjálfur hafa hafið störf hjá Orkuveitunni nokkrum árum síðar og geti því ekki sagt til um hvað vitað var 2009.

Hann bendir þó á að tiltölulega stutt sé síðan almenn vitundarvakning varð um rakaskemmdir og myglu, sem og hættuna sem í því felst.

Engin af þeim skriflegu gögnum sem Kveikur hefur séð nefna myglu fyrr en 2015, þótt starfsmenn hafi kvartað. Ástandið var um skeið talið vegna loftræstingar.

En það sefar ekki fyrrverandi starfsmenn sem segja sögur af heilsuleysi og hafa í mörgum tilvikum ekki snúið aftur á vinnumarkað, mörgum árum eftir starfslok hjá Orkuveitunni.

Linda Hauksdóttir Hammer, Anna María Elíasdóttir, Ragnheiður Sigurðardóttir og Regína Sigurgeirsdóttir unnu allar í húsi Orkuveitu Reykjavíkur.

Anna María segir viðbrögð yfirmanna ekki hafa verið góð. Henni hafi verið sagt að engin mygla væri í húsinu. Samt hafi hún verið með vottorð frá lækni á vegum OR. „Hún sagði að ég mætti ekki vinna í húsinu. Ég sýndi það. Það var ekki pælt í því. ”

Linda Hauksdóttir Hammer lýsir viðbrögðunum sem þöggun.

Bjarni forstjóri hafnar því: „Við óskuðum sérstaklega eftir, að allir létu vita.“ Öllum hafi verið boðið að færa sig í annan hluta hússins og síðar í annað hús sem var leigt. “Við fengum bestu sérfræðinga sem við gátum fundið, bæði í húsbyggingum og verkfræði, í myglumálum og síðan í lýðheilsu og áhrifum myglu á fólk í vinnu. Við horfðum aldrei í peninginn. Við sögðum að það eina sem skipti máli, að það er líðan starfsfólks okkar.“

Kveikur hefur rætt við nokkurn hóp starfsmanna, núverandi og fyrrverandi, sem segja umkvartanir starfsmanna hafa litlu skilað, bæði fyrir og eftir 2015. Þeim hafi mætt fálæti. Orkuveitan hafi ekki axlað ábyrgð á heilsubresti þeirra sem verst urðu úti og hafa jafnvel ekki getað snúið aftur á vinnumarkað, nokkrum árum eftir að þeir létu af störfum hjá OR. Bjarni segir því ósammála.

„Orkuveitan ber ábyrgð á öllum sínum viðbrögðum þegar svona mál koma upp. Og þau voru öll mjög fagleg. Gríðarlega fagleg.“

Honum þyki miður ef fólk hafi veikst alvarlega, en til þess verði að horfa að ekki hafi verið um ásetning að ræða af hendi vinnuveitanda. Hann bætir því við að Orkuveitan hafi greitt þeim starfsmönnum sem urðu að hætta vegna ástands hússins, fullan veikindarétt. Þó beri OR ekki að gera það, lögum samkvæmt.

„En almennt er það þannig í samfélaginu, að ef að fólk verður óvinnufært, að þá tekur hið almenna heilbrigðis- og tryggingakerfi við. Þannig virkar það.“

Stjórnendur Orkuveitunnar benda á að veikindadagar hjá fyrirtækinu séu nú sem fyrr færri en hjá flestum fyrirtækjum og stofnunum, að ánægja starfsmanna mælist mjög mikil og að Orkuveitan hafi hlotið hrós fyrir viðbrögð sín við myglunni.

Enn eru til sérfræðingar sem hafna því að mygla sé heilsuspillandi og bera því við að vísindalegar rannsóknir hafi ekki sýnt fram á skaðlega tengingu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur hins vegar viðurkennt vandann eins og yfirvöld víða í Evrópu og Ameríku.

„Þegar við erum að tala um myglu, þá erum við að tala um rakaskemmdir, ekki bara myglu”, segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur og lýðheilsufræðingur.

Gró myglu eru alls staðar og berast víða. Þau festast í fatnaði, berast með gæludýrum eða vindinum. Þau lenda því óhjákvæmilega í byggingarefni, til dæmis inni í veggjum eða undir gólfefni. Án raka gerist ekkert. En berist raki að þeim, til dæmis vegna leka eða ónógrar loftunar, vaxa gróin upp í myglusvepp.

80% okkar finna fyrir litlum sem engum einkennum af myglu og rakaskemmdum og þorri þeirra sem veikist hressist við mygluhreinsun eða að fara úr skemmdu húsnæði. En ekki allir, segir Sylgja Dögg.

„Það eru vísbendingar um það í rannsóknum að það kvikni einhver viðbrögð í kerfinu hjá okkur sem gangi það langt að þau verða krónísk og viðvarandi. Þannig að fólk er að finna til einkenna þótt það skáni við að fara úr húsnæði en eigi áfram við að etja veikindi. Og þetta þekkjum við bara ekki nógu vel, því miður. En þetta tengist eitthvað bólguviðbrögðum í ónæmiskerfinu.“

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur og lýðheilsufræðingur hjá Eflu.

En hvað veldur nákvæmlega? Einhver tiltekinn myglusveppur? Eða nálægð við rakaskemmdir? Eða sambland myglu og annarra efna? Eða erfðir? Eða undirliggjandi sjúkdómar?

„Þar sem við erum með rakaskemmdir, þar erum við með örveruefnasúpu“, segir Sylgja og útskýrir hvers vegna flókið er að gera beinar tilraunir til að sýna fram á áhrif og tengsl, til dæmis með því að biðja heilsuhraust fólk að búa í ár í mygluðu húsnæði. „Þannig að við þurfum að styðjast við faraldsfræðilegar rannsóknir, þar sem við fylgjumst með hópum. Við skoðum oft afturvirkt, ef fólk hefur búið í rakaskemmdu húsnæði á móts við fólk sem hefur búið í þurru húsnæði.“

Það sem er vitað er að frá þessum örverum berast eiturefni og að þar sem er rakaskemmd, þar er meira af ákveðnum tegundum myglusveppa en annars staðar.

„Rannsóknirnar, sem liggja fyrir, þær segja okkur faraldsfræðilega að það eru auknar líkur á ákveðnum kvillum í rakaskemmdu húsnæði“, segir Sylgja.

Myglusveppir geta verið stórhættulegir, eins og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, doktor í sveppafræðum hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, staðfestir, þar sem hún sýnir Kveik fjölda sýna sem ræktuð hafa verið í mygluskála Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins.

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

„Aspergillus fumigatus eða súlufrugga, er mjög varasamur sveppur og einn af þeim sem getur vaxið við 37 gráður og jafnvel hærra. Þannig að hann á það til að vaxa í fólki, sérstaklega ef menn eru með lélegt ónæmiskerfi. Og ef að maður til dæmis andar að sér of miklu af aspergillus fumigatus, eða súlufrugguefni, gróum og svoleiðis, að þá geta lungun  jafnvel fallið saman. Þetta er alveg stórhættulegt“, segir Guðríður Gyða.

Hún segir til svepp fyrir hvaða efni og aðstæður sem er, svo lengi sem það sé bleyta til staðar. Og það sé ekki nóg að drepa sveppinn, heldur verði að hreinsa hann burt. Hann geti áfram valdið heilsutjóni og mengun innanhúss.

Rannsóknir í mygluskála Rannsóknastofu byggingariðnaðarins leggjast að óbreyttu af í núverandi mynd upp úr áramótum, því þá stendur til að leggja niður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins, sem er hluti Nýsköpunarmiðstöðvar. Rannsóknarstofan er eina opinbera stofnunin sem sinnir einhvers konar rannsóknum á byggingarefnum, þar með talið afleiðingum og ástæðum rakaskemmda og myglu.

Kveikur óskaði skriflegra svara Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins á því hvað tæki við, en tilkynnt var um fyrirhugaða lokun snemma árs. Í löngu svari ráðuneytisins var farið yfir samráð og mat á verkefnum. Þá var lýst margskonar hugmyndum um framhald rannsókna, meðal annars að til standi að stofna samkeppnissjóð. Þangað mætti sækja fé til rannsókna og einnig mætti fela fyrirtækjum á einkamarkaði margs konar rannsóknir, helst hjá faggildum prófunarstofum.

Í fyrirætlunum ráðherra felst þó að ná fram um 350 milljóna króna sparnaði, sem er um helmingur þeirrar upphæðar sem ríkið leggur til Nýsköpunarmiðstöðvar árlega. Enn er þó verið að greina verkefnin sem sinnt er hjá Rannsóknarstofunni og endanleg útfærsla sjóðsins óljós.

Segja má að rannsóknir í þessum geira hafi verið máttlausar hér á landi, þrátt fyrir að veðurfar og aðrar aðstæður kalli eftir þeim. En að óbreyttu er að sjá að þar verði dregið enn frekar úr um áramótin.

Alma D. Möller landlæknir hefur orðið fyrir barðinu á myglu.

Læknar voru meðal helstu efasemdarmanna um langt skeið, en þeim fer fækkandi í læknastéttinni sem ekki viðurkenna áhrif rakaskemmda og myglu á heilsuna. Breytinguna hérlendis má ef til vill rekja til eigin reynslu lækna. Landspítalinn hefur ítrekað ratað í fréttir vegna myglumála.

Alma D. Möller, landlæknir, er meðal þeirra sem veiktust. Þegar hún hóf störf sem yfirlæknir gjörgæslunnar fór hún að verða mjög pestargjörn og þurfti meira að segja í skurðaðgerð vegna tíðra sýkinga í ennis- og kinnbeinsholum.

„Ég skildi bara ekkert í þessu og tengdi þetta ekkert vinnustaðnum fyrst“, segir Alma. Síðan kom að því að hún fór bæði í sumarleyfi og þurfti í aðgerð á hné og var því fjarri vinnustaðnum í 6-8 vikur. Henni leið mjög vel þegar hún kom aftur til starfa, en skildi svo ekkert hvað fjaraði fljótt undan starfsorkunni.

„Skömmu síðar kom í ljós að þarna voru miklar rakaskemmdir“, segir Alma. „Lak bæði með glugga og svölum. Það voru tekin sýni og staðfest að þarna var mygla. Þá loksins fór ég að leggja saman tvo plús tvo. Í ljós kom að við vorum þarna margir læknar sem vorum með svipuð einkenni.“

Saga Ölmu er ekkert einsdæmi en reynslan kom henni að gagni þegar hún tók við embætti Landlæknis, því húsnæði embættisins reyndist illa farið af rakaskemmdum og myglu. Þriðjungur starfsmanna fann fyrir einkennum og tíundi hver gat ekki unnið í húsinu. Embættið flutti á nýjan stað og ástandið batnaði.

Ragnheiður Sigurðardóttir missti röddina eftir að mygla fannst þar sem hún vann.

Ragnheiður Sigurðardóttir var ekki jafnheppin. Ragnheiður, sem alla jafna er kölluð Heiða, vann hjá fyrirtæki sem leigði aðstöðu í húsi Orkuveitunnar. Hún veiktist þar eins og fleiri en braggaðist þegar hún hætti að mæta á skrifstofuna og vann heima. Fyrirtækið flutti að lokum annað og þar fann Heiða ekki fyrir neinum einkennum, þar til pappakassi með jólaskrauti var sóttur í kjallarann á Orkuveituhúsinu.

„Ég finn að það hellast yfir mig þessi veikindi. Og röddin fer. Og ég verð bara ringluð og það er eins og kerfið mitt panikki í þessum aðstæðum,“ segir Heiða. Hún mætti til vinnu fram í janúar en missti þá röddina varanlega. Röddin er rám og raddstyrkurinn takmarkaður. Í dag eru liðin nokkur ár en hún glímir enn við margháttuð einkenni.

„Höfuðverk. Endalausan höfuðverk. Minnisleysi. Ég er með mjög skerta úrvinnsluhæfni. Ég á erfitt með að lesa. Ég get ekki lesið bækur. Ég get ekki lesið langan texta. Ég skil ekki textann.“

Öll bein samskipti eru henni erfið og ef hún lætur eftir sér að fara á mannamót geldur hún það dýru verði: „Ég verð veik í þrjá til sjö daga á eftir. Ég verð alveg handónýt. Suma daga ræð ég varla við að vera móðir.“

Þetta hefur líka áhrif á allt fjölskyldulífið. Þegar eiginmaður Heiðu kemur frá vinnu verður hann að afklæðast og segja fötin í lokaðan plastkassa, því efnin sem hann er í snertingu við starfa sinna vegna kalla fram ofnæmisviðbrögð hjá Heiðu. Og hún fer ekki í skólann hjá syni sínum eða á skólaskemmtanir, því einhver efni í húsnæðinu kalla fram sterk ofnæmisviðbrögð.

Foreldrar í Fossvogsskóla í Reykjavík voru ósáttir við borgaryfirvöld vegna veikinda barna þar og lélegs viðhalds á skólahúsnæðinu.

Það er víða sem fólk upplifir lítil viðbrögð við ákalli um aðgerðir vegna veikinda. Foreldrar í Fossvogsskóla voru ósáttir við borgaryfirvöld vegna veikinda barna þar og lélegs viðhalds á skólahúsnæðinu. Helga Dögg Björgvinsdóttir gekk sjálf í skólann og á nú börn þar. Henni fannst merkilegt að sjá enn sömu skemmdir þegar hún kom með elsta barnið sitt í skólann, tuttugu árum síðar.

„Að þá voru ennþá sömu föturnar að grípa lekann undan þakinu. Mér fannst það svolítið áhugavert, að það skyldi ennþá vera að leka á sömu stöðunum, tuttugu árum seinna.“

Yfirvöld í borginni virtust hins vegar ekkert sjá að. Fjórum mánuðum áður en harðfylgi foreldra varð til þess að úttekt var gerð og viðgerðir hafnar, komst Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu, að allt væri í himnalagi í skólanum. Hann fékk fjórar stjörnur af fimm í úttekt.

En viðgerðirnar tókust reyndar ekki betur en svo að þegar húsnæðið var tekið í notkun á ný urðu bæði kennarar og nemendur veikir aftur. Viðgerðin var ekki nógu vönduð. – Til að mynda var þannig gert við lekt og myglað þak, að það lak aftur og mygla myndaðist á ný. Helga og foreldrar barna í skólanum hafa gagnrýnt borgaryfirvöld fyrir viðbrögð – eða skort á þeim.

„Það er talað um eitt en svo er ekki farið kannski alla leið í að gera þetta fyrr en í fulla hnefana. Og það hefur þurft að berjast ansi hart fyrir því að þetta verði gert almennilega.“

Fossvogsskóli er dæmi um aðgerðir sem  heppnuðust illa. Um vantrú, ónóga upplýsingagjöf og einstaklinga sem eru svo viðkvæmir að þeir finna eftir sem áður einkenni. Nokkrum vikum eftir að kennsla hófst í skólanum á ný í haust hitti Kveikur nokkra foreldra á fjarfundi. Börnin þeirra urðu aftur veik við að fara í skólann. Og viðgerðir halda áfram.

En Fossvogsskóli er ekkert einsdæmi. Stjórnendur Hagaskóla hafa kvartað undan myglu, í Breiðholtsskóla ollu rakaskemmdir myglu, kvartað hefur verið undan loftgæðum í Ártúnsskóla og Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Ástandið er raunar þannig, að Reykjavíkurborg hefur boðað úttekt á öllu skólahúsnæði borgarinnar. Vandinn er heldur ekki bundinn við höfuðborgina. Skólar í Mosfellsbæ, Kópavogi og Akureyri hafa líka verið í fréttum vegna myglu. Á Akureyri og í Kópavogi var ákveðið að rífa byggingarnar frekar en að reyna viðgerðir.

Hús Orkuveitunnar og Fossvogsskóli eru dæmi um hús sem eru illa farin, þar sem rakaskemmdir og mygla leiða til veikinda og þar sem gríðarháar fjárhæðir hafa farið í skýrsluskrif, ráðgjöf, hreinsun og fleira. En hvernig á að meta myglu rétt og laga rakavanda? Engar opinberar leiðbeiningar eru til um slíkt á Íslandi. Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins gerir ákveðnar rannsóknir á byggingarefnum en hún verður lögð niður um áramótin.

Og hvað með þá sem fá sérfræðinga á einkamarkaði til að taka út húsnæði? Ætli þeir séu allir ánægðir með skýrslu með ábendingum um vandamál og kostnaðarsamar viðgerðir? Eða vilja þeir sem borga fyrir skýrslu fá niðurstöðu sem hentar þeim? Ætli Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir hafi verið beðin um að breyta niðurstöðum sínum?

Hún andvarpar og hugsar málið áður en hún svarar. „Þetta var svolítið erfið spurning. En… já, við höfum verið beðin um það“, segir Sylgja.  „Og það er ekki einn, og ekki tveir og ekki þrír. Við höfum verið beðin um að hagræða niðurstöðum þannig að þær komi ekki fram.“

Hún leggur áherslu á að aldrei hafi verið orðið við þessari beiðni. Sá sem eigi í hlut sé hvattur til að takast strax á við vandamálið og auka þannig verðmæti hússins sem um ræðir.

Hvernig stendur á því að ástandið er svona? Að nýjar risabyggingar, opinbert húsnæði, skólar og lúxusíbúðir séu skemmd af völdum raka og erfiðlega gangi að laga það? Um það verður fjallað í Kveik fimmtudagskvöldið 3. desember.