Missti röddina eftir að mygla fannst í vinnunni

Ragnheiður Sigurðardóttir var við hestaheilsu þar til framkvæmdir hófust við að laga rakaskemmdir á vinnustað hennar. Hún hefur nú misst röddina og á erfitt með hversdagsleg verk. Hún glímir við minnisleysi og stöðugan höfuðverk og á jafnvel erfitt með að lesa.

„Innan við klukkutíma eftir að framkvæmdir hefjast við vinnustöðina mína, þá missi ég röddina,“ segir Ragnheiður. Hún segir þetta hafa rjátlast af henni þegar heim var komið, en svo helltust óþægindin yfir hana þegar hún mætti til vinnu.

Ragnheiður vann hjá hugbúnaðarfyrirtæki sem leigði skrifstofuaðstöðu í húsi Orkuveitu Reykjavíkur.

Ári eftir að höfuðstöðvar Orkuveitunnar við Bæjarháls í Reykjavík voru vígðar varð í fyrsta sinn vart við leka í húsinu. Áratug síðar varð ljóst að vesturbygging hússins var nánast ónýt af rakaskemmdum og myglu. Fjöldi starfsmanna í húsinu hafði þá kvartað árum saman undan einkennum, allt frá þurrki í augum og hálsi til hjartsláttartruflana og svima.

Ragnheiður segist hafa orðið utangátta og gleymin. Hún fékk kippi í andlitið, ofsakláða á hálsinn og einkenni mögnuðust, þar til hún varð að hætta að vinna á skrifstofunni og fara að vinna heima.

Nokkru síðar var fyrirtækið flutt úr Orkuveituhúsinu yfir í annað húsnæði, og Ragnheiður sneri aftur til vinnu. Þar leið henni betur, einkennin hurfu og útlitið var bjart.

Ragnheiður kveðst finna fyrir botnlausri þreytu alla daga og segist vakna jafnþreytt að morgni og hún var þegar hún fór að sofa að kvöldi.

Þegar jólin nálguðust fór starfsmaður í Orkuveituhúsið og sótti þangað pappakassa með jólaskrauti sem hafði orðið eftir og kom með inn á nýja vinnustaðinn. Þá fann Ragnheiður óvænt fyrir gömlum einkennum.

„Ég finn að það hellast yfir mig þessi veikindi og röddin fer. Ég verð ringluð og það er eins og kerfið mitt panikki”, segir hún.

Ragnheiður rekur þessi stakkaskipti til þess að jólaskrautið var sótt: „Pappakassar binda og draga í sig öll eitrin sem eru í andrúmsloftinu. Og það er komið með þetta inn á vinnustaðinn,“ segir Ragnheiður.

Hún mætti til vinnu fram í janúar en náði ekki aftur heilsu. Hún missti röddina varanlega og á erfitt með hversdagsleg verk. Hún glímir við minnisleysi og stöðugan höfuðverk og á jafnvel erfitt með að lesa.

„Ég get ekki lesið bækur eða langan texta. Ég skil ekki textann,“ segir hún.

Ragnheiður kveðst finna fyrir botnlausri þreytu alla daga og segist vakna jafnþreytt að morgni og hún var þegar hún fór að sofa að kvöldi.

Þetta hefur áhrif á allt fjölskyldulíf. Þegar eiginmaður Ragnheiðar kemur frá vinnu verður hann að afklæðast og setja fötin í lokaðan plastkassa, því efnin sem hann er í snertingu við vegna starfa sinna kalla fram ofnæmisviðbrögð hjá Ragnheiði.

Að sama skapi getur hún lítið farið á mannamót, því þótt það sé bara ferð á kaffihús til að hitta vini eða fjölskyldu segist hún verða veik í nokkra daga á eftir.

„Ég verð alveg handónýt,“ segir hún. „Suma daga ræð ég varla við að vera móðir.“

Ragnheiður er þó ekki tilbúin að gefast upp.

„Suma slagi verður maður að taka. Ég get ekki tekið bernskuna af barninu mínu og bannað honum að koma með vini heim. En ég fer ekki í skólann hans eða á skólaskemmtanir, því ég get það ekki.“

Rætt er við Ragnheiði ásamt fleirum sem unnu í höfuðstöðvum Orkuveitunnar í Kveik í kvöld, þar sem fjallað verður um víðtæk áhrif rakaskemmda og myglu.