Má ekki vanmeta mikilvægi neyðarbirgða

Líta verður til reynslu annarra þjóða í neyðarbirgðahaldi, að mati sérfræðings í fæðuöryggi. Sáralitlar neyðarbirgðir eru á Íslandi ef stóráföll dynja yfir.

Má ekki vanmeta mikilvægi neyðarbirgða

Heimsfaraldur, eldgos og stríð í Evrópu hafa vakið spurningar um fæðuöryggi þjóðarinnar. Í síðasta mánuði kom fram í skýrslu á vegum forsætisráðuneytisins að engar reglur eru til í landinu um lágmarksneyðarbirgðir af matvælum, olíu, eða öðrum aðföngum sem þarf til að halda matvælaframleiðslu gangandi ef stóráföll dynja yfir.

Þjóðaröryggisráð benti síðast á það í fyrra að sjávarútvegurinn myndi lamast án olíu. Truflanir eða stöðvun á innflutningi myndi raunar valda vandamálum í allri framleiðslu matvæla í landinu.

Það hefur verið metið sem svo að þrátt fyrir skort á aðföngum sé hægt að tryggja að stór hluti íslenskrar matvælaframleiðslu haldi áfram í einhver misseri eða jafnvel nokkur ár ef öryggisbirgðir eru viðunandi.

Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, ritstýrði ásamt öðrum úttekt á fæðuöryggi landsins fyrir stjórnvöld.

„Við höfum ekki mikla reynslu af því að halda neyðarbirgðir,“ segir Jóhannes.

„En við hljótum að líta til reynslu annarra þjóða. Til dæmis Finnar, þeir eru nú ýmsu vanir og hafa átt erfiða nágranna og lent í krísum.“

Finnsk stjórnvöld hafa í áratugi lagt mikla áherslu á að halda neyðarbirgðir. Á síðustu árum hafa þau einbeitt sér meira að því að tryggja fæðuöryggi með sjálfbærni í innlendri framleiðslu og viðskiptasamböndum, í samstarfi stjórnvalda og viðskiptalífsins.

„Þeir eru samt núna, í ljósi þeirra atburða sem hafa átt sér stað í heiminum undanfarið, að fara aftur í meira neyðarbirgðahald,“ segir Jóhannes.

„Og við erum náttúrulega eyja hérna úti í miðju Atlantshafi og við erum ekki með jafn fjölbreytta framleiðslu og Finnar til dæmis, hvað þá aðrar stærri þjóðir. Þannig að ég held að við megum ekki vanmeta það, án þess að við þurfum endilega að hafa neyðarbirgðir til margra ára eða á hverju heimili, heldur svona að hafa einhvern lágmarksviðbúnað.“

Jóhannes segir að á Íslandi séu sáralitlar neyðarbirgðir.

„Það eru auðvitað birgðir í ýmsum aðföngum sem eru bara vegna þess að það er flutt inn ákveðið magn í einu, varla hægt að kalla það neyðarbirgðir.“

Stjórnvöld hafa rétt nýhafið vinnu, þvert á ráðuneyti, við að meta hvað þarf mikið af neyðarbirgðum af matvælum, eldsneyti, og öðrum aðföngum til framleiðslu á mat. Þá er unnið að því að ákveða skipulag þeirra og gera viðbragðsáætlanir varðandi dreifingu. Þessari vinnu á að ljúka fyrir næsta vor.

Fjallað verður um fæðuöryggi landsins í Kveik í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.