Íslenskar jarðir frá Lúxemborg til Bretlands

Breski iðnjöfurinn Jim Ratcliffe hefur keypt nær allar laxveiðijarðir Jóhannesar Kristinssonar fjárfestis á Norðausturlandi. Eignatilfærslan virðist alfarið hafa farið fram í gegnum félög utan landsteinanna.

Íslenskar jarðir frá Lúxemborg til Bretlands

Ratcliffe hefur stóraukið umsvif sín á Norðausturlandi, eins og Kveikur fjallaði um á þriðjudag. Þar kom fram að Ratcliffe á nú meirihluta í 30 jörðum, sem er rúmlega tvöfalt meira en í ársbyrjun í fyrra. Að auki á hann minnihluta í níu jörðum. Alls 39 jarðir, þar af 24 í Vopnafirði. Þá á hann veiðirétt í tveimur þjóðlendum í Vopnafirði. Allt í allt réttindi á 41 jörð.

Ratcliffe keypti hluti í fjölda jarða í viðskiptum við Jóhannes Kristinsson, fjárfesti í Lúxemborg, sem var lengi stórtækur jarðakaupandi á Norðausturlandi.

Eignir Ratcliffes hér tengjast í gegnum flækju félaga en þær má allar rekja til sama breska móðurfélagsins, Halicilla Limited, sem Ratcliffe er skráður fyrir. Eignir Jóhannesar fóru hins vegar í gegnum lúxemborgska félagið Dylan Holding, sem Jóhannes er skráður fyrir.

Samkvæmt opinberum gögnum færðust hlutir í fimm félögum í fyrra frá Dylan Holding í Lúxemborg til Halicilla í Bretlandi. Svo virðist því sem þessar jarðir hafi allar skipt um hendur utan landsteinanna, eins og nánar var fjallað um í Speglinum í kvöld. Nú er því sú einstaka staða komin upp að eignarhlutir í 39 jörðum á Íslandi eru í óbeinni eigu sama félagsins í Bretlandi, og Ratcliffe gæti því í raun selt alla þessa hluti með einu pennastriki, ef hann vill.

Hér má sjá umfjöllun Kveiks um fjárfestingar Ratcliffes í heild sinni.