*

Í öndunarvél eftir tvö neikvæð próf

Kristján Gunnarsson taldi sig fylgja fyrirmælum sóttvarnalæknis og fannst hann ekki hafa náð nægilega háum aldri til að hann teldist í áhættuhóp vegna COVID-19.

Í öndunarvél eftir tvö neikvæð próf

Kristján var 63 ára og í fínu formi. En um miðjan mars fann hann fyrir stingandi höfuðverk. Fyrst var verkurinn í enni, nokkrum augnablikum síðar í hnakka og svo færðist hann á milli.

Þegar þessi einkenni hurfu ekki leitaði Kristján til læknis sem mældi hann með 40 stiga hita. Eftir strokupróf til að meta hvort kórónuveira fyndist fór Kristján heim.

Prófið skilaði neikvæðri niðurstöðu, svo Kristjáni leið betur, en hitinn lækkaði ekki svo hann fór á ný á fund læknis. Enn var tekin stroka og enn var hún neikvæð.

Kórónuveira fannst hvorki í nefi né hálsi hjá Kristjáni.

Þegar hann hafði verið með 40 stiga hita í nokkra daga leist honum hins vegar ekki á blikuna, ekki frekar en lækni á bakvakt sem vildi fá Kristján til frekari skoðunar.

„Hann hafði fengið einhverja bakþanka. Að þótt ég væri neikvæður þyrfti kannski að skoða mig,“ sagði Kristján í viðtali við Kveik.

„Þá var ég drifinn inn á bráðadeild og beint þaðan inn á Hringbraut. Svæfður og settur í öndunarvél.“

Það var ekki fyrr en lungnaberkjupróf var tekið sem kórónuveiran fannst og staðfest var að Kristján væri með COVID-19.

Kristján Gunnarsson var lengi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans, en þessa mynd tók hann í einangrun á lungnadeild.

Við tóku erfiðir dagar á gjörgæslu og síðar í einangrun á lungnadeild, en Kristján hafði betur í baráttunni við kórónuveiruna. Hann er nú kominn í endurhæfingu á Reykjalundi.

Kristján Gunnarsson er meðal viðmælenda í Kveik, þar sem fjallað er um það sem tekur við hjá kórónuveirusjúklingum eftir að veiran finnst ekki lengur í þeim.

Einnig er fjallað um rannsóknir á langtímaafleiðingum veikinnar sem nú eru hafnar á Landspítalanum.

Hér er hægt að sjá umfjöllun Kveiks í heild.