Hvert sendum við þá sem mega ekki koma?

Agnarsmá kom stúlkan Berke í heiminn á Landspítalanum að morgni annars dags jóla. Þreyttir og stressaðir ungir foreldrar brostu út að eyrum yfir fallegu litlu stelpunni sinni. Berke og hin börnin sem fæddust milli jóla og áramóta voru umvafin kærleika og öryggi – svona að mestu.

Þegar starfsmaður spítalans lagði Berke í bílstól daginn eftir var kveðjan köld: „Ég hef ekkert meira aflögu af skattpeningunum mínum handa þessu fólki“, sagði hún við Kveiks-liða. Það yrði að fara að snúa þessu fólki við á flugvellinum.

Því Berke er kannski fædd á Íslandi, þar sem við göngum að ákveðnum réttindum og öryggi sem gefnum, og sannarlega til handa hvítvoðungum sem horfa saklausir í augun á okkur. En foreldrar Berke eru ekki Íslendingar, heldur hælisleitendur frá Afganistan, og það stendur til að vísa þeim, og Berke, úr landi.

Berke kom í heiminn á Landspítalnum á jóladag. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Flúðu frá Afganistan

Saga Afganistans er saga stríðsins endalausa. Á níunda áratugnum voru það Sovétmenn. Og í upphafi þessarar aldar Bandaríkjamenn ásamt bandamönnum þeirra, eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Enn er barist, í lengsta stríði sem Bandaríkin hafa háð.

Hundruð þúsunda liggja í valnum, hryðjuverk eru daglegt brauð, skólar og sjúkrastofnanir löngu rústir einar – eins og innviðir landsins í heild. Það er því afar vægt til orða tekið að segja ástandið bágt.

Foreldrar Berke, þau Ali og Razia, flýðu þetta ástand. Við hittum þau fyrir jól, áður en Berke fæddist, í gömlu herstöðinni á Miðnesheiði, þar sem hælisleitendum er útvegað húsnæði.

„Það vita kannski allir um talíbana, það vita allir um Daesh í Írak og Sýrlandi. Þeir hótuðu mér þegar ég var í Herat í Afganistan, að ef ég myndi ekki ganga til liðs við þá þá myndu þeir afhöfða mig og fjölskylduna mína,” segir Ali.

Hann segist hafa neyðst til að flýja ásamt fjölskyldunni, fjórtán daga leið, fótgangandi, til Írans. Þar tók ekki mikið betra við. Íranar veita Afgönum engin réttindi og misnota þá á atvinnumarkaði.

„Vinnuveitandinn var ekki að borga mér og hótaði mér að ef ég færi ekki myndi hann láta lögregluna vita að ég hefði ekki dvalarleyfi. Ég varð að fara að heiman snemma á morgnanna þegar það var myrkur og koma heim seint á kvöldin, svo lögreglan myndi ekki handtaka mig. Það voru of mörg vandamál til að búa í Íran og það var hægt að vísa mér aftur til Afganistan,“ segir hann.

„Geturðu ímyndað þér líf 15 ára drengs sem býr við svona aðstæður, eins og helvíti, og það er engin hamingja í lífi hans?“

Úr flóttamannabúðunum Moria á Lesbos, þar sem Ali og Razia höfðust við. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Eftir rúmt ár við þessar aðstæður sá Ali að hann gæti ekki tryggt velferð fjölskyldunnar, og þau lögðu aftur af stað. Á leiðinni voru móðir Alis og systkini  handsömuð og komust ekki frá Íran, en þau Razia komust til Tyrklands við illan leik, frosin inn að beini. Smyglarar földu þau í köldum kjallara í Istanbúl í nokkra daga, þar til komið var að svaðilför til Grikklands.

„Þegar við fórum frá Tyrklandi til Grikklands vorum við að ferðast um á gúmmíbát sem gat tekið 20 manns, en þeir tróðu 60 manns, konum og börnum, í þennan bát. Við vorum á siglingu í sjö tíma,“ segir hann.

„Þegar við komum til Grikklands, á eyjuna Lesbos, vorum við í flóttamannabúðum sem heitaMoria. Núna búum við á Ásbrú og búðirnar voru ekki einn sjötti hluti Ásbrúr en þar voru samt tólf þúsund flóttamenn.“

Koman til Grikklands

Grikkland hýsir þorra þeirra hælisleitenda sem vilja komast til Evrópu, flesta frá Afganistan, Sýrlandi og Írak. Flóttamannastraumurinn náði hámarki 2016 en þá var gert samkomulag við Tyrki um að stöðva för sem flestra. Þrátt fyrir það fjölgaði hælisleitendum á ný í Grikklandi í fyrra og þeir urðu fleiri en nokkru sinni frá 2016. Yfir 40 þúsund komu til Lesbos og næstu eyja.

Ástandið er ömurlegt. Verst af öllu í Moria-búðunum, þar sem Ali og Razia voru.

Eins og þúsundir annarra bjuggu þau við illan aðbúnað, en fengu svo heimild til að fara upp á meginlandið með hæli – eða alþjóðlega vernd, eins og það heitir. Þau fengu þak yfir höfuðið en var sagt að að því loknu yrðu þau að bjarga sér sjálf.

„Þegar ég kom til Grikklands var ég undir lögaldri og þar af leiðandi gáfu yfirvöld mér stöðu flóttamanns, sem ég vildi ekki. Það var ekki hægt að vinna eða fara í skóla til að læra tungumálið. Það voru engin tækifæri til að fara í skóla. Eftir að við fengum stöðu flóttafólks, fengum við fimm mánuði til að yfirgefa íbúðina sem við bjuggum í. Það var ekkert húsnæði eða fjárhagsaðstoð. Svo við þurftum að flytja út og fara aftur í flóttamannabúðirnar, sem var ekki gott af því að konan mín var ólétt,“ segir Ali.

Eftir að hafa lesið um landið á netinu lögðu Ali og Razia af stað til Ísland. Í dag búa þau á Ásbrú. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Þau Ali og Razia lásu um Ísland á netinu og voru viss um að hér gætu þau hafið betra líf. Í Grikklandi fengu þau örlitla dagpeninga sem þau söfnuðu saman í nokkra mánuði til að kaupa sér farmiða til Íslands.

Hér sóttu þau um hæli, og réttum þremur vikum síðar barst svarið: Málið var ekki tekið til efnislegrar umfjöllunar, þar sem þau voru þegar skráð með alþjóðlega vernd í Grikklandi. Þangað skyldi þeim vísað aftur.

Þau kærðu þá ákvörðun og rétt fyrir jól barst niðurstaða kærunefndar útlendingamála, á sama veg: Ali og Razia ættu að yfirgefa landið og fara aftur til Grikklands. Það breytti engu þar um að barn væri á leiðinni.

Þau óttast að enda aftur í flóttamannabúðum.

„Við förum aftur til Grikklands. Þar fáum við ekki húsnæði eins og hér. Við þurfum að fara í flóttamannabúðirnar, eins og Moria á Lesbos,“ segir Ali.

Ekki einsdæmi

Í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn þingmanns í haust kom fram að á árunum 2013 til 2016 hefði 62 börnum verið synjað um svokallaða efnislega meðferð, það er að segja, mál þeirra var ekkert tekið til skoðunar. Þau ásamt fjölskyldum, í flestum tilvikum, voru send aftur þangað sem þau voru áður en þau komu hingað. Það er í hæsta máta umdeilt hvort þessi afgreiðsla stenst íslensk lög og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland hefur leitt í lög.

Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá UNICEF, segir svo ekki vera.

Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá UNICEF. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

„Í rauninni mætti segja að það geri það ekki. Af því að stjórnvöld hafa nú þegar tekið fyrir endursendingar þegar að fólk er ennþá umsækjendur um alþjóðlega vernd en hafa viljað endursenda fólk sem er nú þegar komið með alþjóðlega vernd í Grikklandi. Og þar, sýnist okkur, að þetta mat hefur ekki farið fram,“ segir hún.

„Vegna þess að í raunveruleikanum er enginn munur á stöðu þótt að lagaleg staða sé ólík. Að þá er munurinn á stöðu og lífi þessa fólks ekki ólíkt. Á það benda fjölmargar alþjóðastofnanir og hægt að finna þess stað bara mjög víða í opnum skýrslum.“

Eva segir að til þess að meta stöðu barnafjölskyldna þurfi ákveðið, formlegt og skjalfest verklag svo öllum sé ljóst hvað miðað sé við. En burtséð frá því mæli UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, algjörlega gegn því að fjölskyldur séu sendar aftur til Grikklands.

„Það er fyrst og fremst vegna þess að aðstæður fjölskyldna sem eru í þessari stöðu, eru flóttafólk, eru afar bágbornar. Um helmingur barnanna fær skólavist. Þar eru margir sem búa í tjaldbúðum. Og í tjaldbúðunum er mjög bágborin aðstaða að öllu leiti hvað varðar hreinlæti eða heilbrigðisþjónustu og annað slíkt,“ segir Eva.

„Þannig að með því að senda fólk til baka eru mjög miklar líkur að þú sért að senda fólk í afar bágbornar aðstæður. Ýmist á götuna eða í tjaldbúðir, eða eitthvað slíkt. Þannig að allar slíkar ákvarðanir þyrftu mjög mikla ígrundun og rannsókn.“

Í himnalagi?

Á árunum 2015 til 2019 voru 35 einstaklingar sendir frá Íslandi til Grikklands, flestir frá Afganistan og Sýrlandi. Á Grikklandi nýtur fólk þess sem kallað er „alþjóðleg vernd“. Það er að segja: þau hafa sótt um hæli eða hlotið það. Og þá þýðir ekkert að sækja líka um hæli á Íslandi. Kerfið segir nei og vill senda þig til baka. Því í Grikklandi er allt í himnalagi.

En er það svo?

Flóttafólk og hælisleitendur búa margir hverjir á götunni í Aþenu. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Grikkland glímir enn við afleiðingar efnahagshruns sem var mun alvarlegra en hrunið á Íslandi. Í hlíðum Akropolis, rétt frá 2.500 ára gömlu Meyjarhofinu, kemur heimilislaus Grikki sér fyrir í skjóli ólífutrjánna. Atvinnuleysi er um 20 prósent í Grikklandi, svo það þarf ekki að koma neinum á óvart að hælisleitendur eigi erfitt með að fá vinnu og húsaskjól.

En við fundum samt eina af heppnu fjölskyldunum.

Þau Rashid Habash og Toulin Jindi flýðu frá Sýrlandi ásamt sonum sínum, Muhammad og Fathi. Þau eru Kúrdar og hafa því sætt bæði árásum Tyrkja, sýrlenska stjórnarhersins og hryðjuverkamanna Íslamska ríkisins. Þau segja að á flóttanum hafi dauðinn verið allt um kring, alla leið til eyjarinnar Lesbos, þar sem þau dvöldu þrjá mánuði í tjaldbúðum. Eftir komuna til Aþenu fengu þau aðstoð í fimm mánuði.

„Stofnunin sem útvegaði húsnæðið gaf okkur þrjátíu daga til að fara út. Það gekk erfiðlega að finna aðra íbúð. Ég reyndi allt en ekkert gekk, en svo fann ég þessa íbúð að lokum. Á meðan ég var að leita að íbúð var ég líka í atvinnuleit. En svo fékk ég vinnu fyrir þrjár evrur á tímann og þetta bjargar okkur frá degi til dags. Svona er lífið, bara að redda sér og vinna og lifa áfram,“ segir Rashid.

Rashid Habash og Toulin Jindi í íbúðinni sem þau leigja í Aþenu. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Fjölskyldan býr nú í íbúð, tæplega 25 fermetra stórri, sem var ekki auðvelt að finna, þótt þau borgi fulla leigu. Og Rashid vinnur tólf til sautján klukkustundir á dag í fatahreinsun sem er í  klukkutíma fjarlægð, fyrir þrjár evrur á klukkustund.

„Til að finna þessa íbúð hafði ég samband við 300 leigusala. En enginn vill leigja okkur, hælisleitendum og flóttafólki. Enginn vill leigja öðrum en Grikkjum. Eða eins og sagt er hér: No Greek, No House.“

En launin hrökkva vart til. Strákarnir eru báðir með langvarandi heilsuvandamál en fá enga heilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir að hælisleitendur eigi að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu til jafns við grískan almenning, er raunin sú að þeim er neitað um allt nema bráðaþjónustu.

Og þessi fjölskylda býr samt við langtum betri aðstæður en flestir hælisleitendur og flóttamenn í Grikklandi.

Toulin segist dreyma um hefðbundið líf.

„Mig dreymir um að lifa eins og annað fólk. Að börnin okkar fái að ganga í skóla. Við flúðum heimili okkar og stefndum lífi okkar í hættu til að eiga von um framtíð og að börnin okkar gætu lært og átt framtíð. Að þau fái að upplifa annað en við höfum upplifað. Það er allt og sumt,“ segir hún.

Börn þeirra Rashid og Toulin. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Á götunni í Aþenu

Þar til í fyrra voru margir hælisleitendur í Aþenu í raun hústökumenn. Bjuggu í ólöglegu, tómu húsnæði þar sem annað var ekki að finna. Ný ríkisstjórn tók við í sumar og ákvað að taka harðar á flóttafólkinu en gert hafði verið.

Ólöglega húsnæðið var rýmt. Sumir lentu á götunni, aðrir í nýjum búðum víðsvegar um landið. Grískir aðgerðasinnar segja þetta í raun fangabúðir, þótt fólk geti komið og farið. Þetta er það húsaskjól sem er í boði í Grikklandi.

En það eru ekki allir sem geta búið í svona úrræði og þetta úrræði, af þessu tagi, er bara til nokkurra mánaða. Að því loknu á fólk annað hvort að vera búið að koma undir sig fótunum eða finna einhverja aðra leið til þess að lifa lífinu. Og það tekst ekki öllum.

Á bakvið málmmúr og svo gaddavírsklæddan múrvegg, í gámahúsnæði, byrjar þrautagangan á meðan fólk þarf að bíða eftir að fá að vita hvort það fær yfirhöfuð hæli. Og margir óttast að enda hér aftur. Eða að enda á götunni, eins og Ahmad Ata.

Hann er nýkominn aftur hingað eftir að hafa verið vísað frá Íslandi.

Ahmad Ata flýði til Íslands – í þrígang. Í hvert skipti var niðurstaðan sú sama: hann hefði fengið hæli í Grikklandi og þangað ætti hann að fara aftur.

Sunnudagskvöldið 19. janúar komu því lögreglumenn og sóttu Ahmad, settu hann í fangaklefa yfir nótt og fylgdu honum út á flugvöll snemma á mánudegi. Íslenskur lögreglumaður fylgdi honum til Aþenu, þar sem gríska lögreglan tók við honum. Eftir þriggja klukkustunda skýrslutöku var honum hleypt út fyrir múra lögreglustöðvarinnar, og þar hittum við hann.

Ahmad er frá Palestínu og lagði á flótta eftir að uppljóstrari ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad reyndi að fá hann til að gerast sjálfur uppljóstrari. Yrði hann ekki við því, yrði komið á framfæri upptöku sem ætti að sýna hvernig hann segði yfirvöldum frá vinum sínum.

Ahmad vildi ekki gerast uppljóstrari en óttaðist viðbrögð vina og fjölskyldu við hugsanlegu myndbandi, svo hann flýði til Amman í Jórdaníu og keypti flugmiða til Tyrklands með millilendingu í Aþenu. Þar var för hans stöðvuð, að sögn þar sem hann vantaði vegabréfsáritun, og til að komast hjá því að verða sendur til baka óskaði Ahmad eftir hæli í Grikklandi.

„Frá þessari stundu vissi ég ekkert. Ég vissi ekki hvert ég ætti að fara, ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Hvernig ég gæti byrjað lífið mitt á ný alveg frá byrjun,“ segir Ahmad.

Eftir fjögurra mánaða vist, sem hann lýsir sem vítisdvöl, leitaði hann að öruggri höfn á netinu og fann Ísland.

Ahmad þegar hann var nýkominn aftur til Grikklands eftir að hafa verið vísað frá Íslandi. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Hann kom í fyrsta sinn til Íslands snemma árs 2018. Umsókn um hæli var ekki tekin til efnislegrar meðferðar og Ahmad var vísað úr landi í ársbyrjun 2019. En Ahmad segist hafa verið öruggur á Íslandi og hann vildi komast hingað aftur.

Hann var því mættur hálfum mánuði síðar, ferlið hófst á ný og honum var vísað úr landi í ágústlok. Aftur leið hálfur mánuður og Ahmed kom til Íslands enn á ný, umsókn hans um hæli var ekki metin heldur var honum vísað úr landi og var honum að auki bannað að koma aftur.

„Mér leið eins og fólkið á Íslandi , ég væri einn af þeim. Mér leið eins og þarna væri fjölskylda mín. Þegar þau hitta mig þá er ekki eins og ég sé ekki öðruvísi en þau,“ segir hann.

„Ég elska landið og var öruggur þar. Mér leið eins og væri öruggur þar, ég elskaði fólk, elskaði veðrið. Elskaði allt við það. Mér leið og eins og manneskju þar. Þegar ég kom aftur hingað leið mér eins og ég væri köttur á götunni, eða hundur.“

Í hlýjunni á flugvellinum

Þessa fyrstu nótt eftir endurkomuna dvaldi hann á flugvellinum, til að forðast kuldann á götum Aþenu. Sólarhring síðar er Ahmad kominn í miðbæinn, þar sem hann býr sig undir að sofa úti. Hann hefur ekki nein tengsl við samfélagið og veit ekki hvert hann á að leita.

Og, það er kannski ekki víða sem hann getur leitað. Þannig að hann er úti á Sintagma-torgi, í miðri Aþenu, í skugga þinghússins, ásamt öðrum flóttamönnum og hælisleitendum, fíklum og þeim sem ekki eiga í önnur hús að venda.

Með hjálp snjallsímaforrits getum við talað saman og hann lýsir fyrir okkur aðstæðum fólks eins og hans. Við göngum í átt að gosbrunni þar sem hann segist sofa. Og viti menn: Við gosbrunninn er brík eða þröskuldur þar sem hægt er að fela sig fyrir öðrum. Þarna, segir Ahmad, eru minni líkur á að hann sjáist og verði fyrir aðkasti lögreglu eða þrjóta.

Við höldum út af torginu, í áttina að þinghúsinu. Það er hrollkalt úti og rakt. Ahmad sýnir okkur hvar hægt er að sækja örlítinn yl. Við loftræstistokk fyrir neðanjarðarkerfið. Þar sem volgt, ekki heitt, loft blæs upp. Ekki nóg ti lað halda á manni hita en þegar það er orðið kalt úti er það sannarlega betra en ekkert. Hingað kemur Ahmad þegar hann er að frjósa í hel.

Þaðan förum við með honum í lítinn garð við þinghúsið. Hálfgerðan Hljómskálagarð.

Þar dregur upp símann sinn til að sýna okkur myndir sem eru bara tveggja ára gamlar en sýna allt annan mann en þann sem við erum með í garðinum. Hann segist bara vilja vera góður maður. Hvar sem hann gæti. Og ekki vera flækingur á flótta.

Treystir á lögfræðinginn

Á bekkjunum í kring liggur fólk og sefur. Sumir hafa meira að segja komið sér upp híbýlum, hreysum, á litlum blettum. Bak við trén skjótast skuggaverur sem fylgjast grannt með ferðum okkar. Fólkið sem ræðst á mig og aðra, rænir okkur og lemur, segir Ahmad.

Ahmad segist binda vonir við að lögfræðingurinn hans á Íslandi, sem er að fara með mál hans fyrir dómstóla, geti bjargað honum. Og ég spyr hann hvort hann ætli að þreyja þorrann og góuna hér á götum Aþenu. Hann segist efast um það, hann hafi varla þol og getu í það. Hér sé hættulegt að vera á næturnar. Hann sé ekki stór maður eða mikill um sig.

Hann segir okkur að hann hafi orðið fyrir árásum fíkniefnaneytenda sem hafi viljað að hann léti þá fá peninga. En hann ætti einfaldlega enga peninga. Og hann er ekki vongóður um að hann geti beðið, eða lifað hreinlega af biðina, eftir niðurstöðu á Íslandi.

Ahmad bendir okkur á svefnstaði sem hann hefur notað áður en hann finnur lítið skot með götuljósi. Þar dregur hann upp krumpaða, íslenska fánann sinn og býr sig undir að leggjast til svefns. Reynirðu að lesa við ljósið eða veitir það þér öryggi, spyr ég hann. Nei, svarar Ahmad. Ljósið fælir frá götuhundana og rotturnar þannig að kannski get ég sofið smástund í friði.

Ahmad er ekki einn um að eiga ekki í nein hús að venda. Líklega skipta þeir flóttamenn þúsundum, jafnvel tugum þúsunda. Við höldum sambandi við hann í gegnum skilaboðaapp. Hann er ennþá á götum Aþenu. Kaldur, blautur og vonlaus.

Ljósið fælir frá götuhunda og rottur og varð þetta því svefnstaður Ahmad. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Pólitískur og félagslegur vandi

Læknar án landamæra eru meðal þeirra sem reyna að sinna flóttamönnum og hælisleitendum í Aþenu og Grikklandi í heild. Í einu af fátækustu hverfum Aþenu er sálfræðistofa á vegum samtakanna og þar hittum við fyrir Melanie Vassilopoulou, sálfræðing. Hún segir að ástand flóttamannanna sé hörmulegt og fari versnandi.

„Hér er tekið á móti fólki og ef það er heppið fær það húsaskjól. En, ef það fær hæli, þá er þeim neitað um skjól. En það er nákvæmlega ekkert plan um að taka við öllu þessu fólki sem fær ekki skjól. Fjölskyldur með börn, veikt fólk, hvað sem er, það skiptir ekki máli,“ segir hún.

„Margir hugsa sem svo: ég fæ hæli og þá er mér bjarga. Ég þarf ekki að fara aftur til heimalandsins, ég er öruggur núna. En þeir eru það ekki. Og skilaboðin eru: ef þú kemur hérna þá munum við gera þetta eins erfitt og við getum.“

Melanie nefnir líka aukna hörku nýrrar ríkisstjórnar, sem hefur frá því í september neitað að gefa út kennitölur fyrir hælisleitendur og önnur auðkenni eru ekki í boði. Kennitala er, rétt eins og á Íslandi, lykillinn að hvers kyns þjónustu.

Án hennar hafa hælisleitendur ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu, nema í algjörri neyð. Börn fá því ekki bólusetningu – sem er skilyrði þess að fá að ganga í skóla. Án kennitölu er ekki hægt að leigja húsnæði. Það er varla hægt að kalla þetta annað en kerfisbundnar hindranir og mismunun.

Melanie Vassilopoulou, sálfræðing á vegum Lækna án landamæra. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

„Fólk sem að öllu jöfnu er talið heilbrigt og þá á ég ekki við þá sem glíma við geðsjúkdóma heldur heilbrigt fólk, sem áður en það fékk að reyna átökin, lifði venjulegu lífi án vandamála. Án geðrænna vandamála en því er svo ekki lengur að heilsa. Það þjáist af ýmsum sjúkdómseinkennum. Og þá yfirleitt af einkennum
síðáfallastreitu eins og martröðum, viðvarandi ótta, endurupplifunum, þar sem fyrri atvik endurtaka sig. Og svo auðvitað af streitu og að sjálfsögðu af þunglyndi,“ útskýrir hún.

„Þetta er þrennt það helsta. Það kemur ætíð á óvart hve margir jafna sig fljótt með smávægilegum breytingum á lífskilyrðunum eins og að komast í skjól, fá lyf hér og meðferð. Þá kemst það aftur í gang og aftur af stað. Það er ánægjulegt að sjá það að með tiltölulega litlu inngripi má hafa... Það alveg ljóst að þetta er félagslegur vandi og snýst ekki um geðræna heilsu. Þetta er ekki læknisfræðilegur vandi helur verður læknisfræðilegur vandi vegna þess hvernig við meðhöndlum þetta fólk bæði félagslega og pólitískt.“

Stór hluti flóttafólksins eru bara börn, við heyrðum dæmi um allt niður í átta ára drengi sem höfðu komist frá Afganistan til Grikklands – og voru augljóslega mun yngri þegar þeir lögðu af stað. Talið er að um fimmtán hundruð flóttabörn séu á götum Aþenu. Læknar án landamæra hafa tekið höndum saman við fleiri samtök til að finna þessa krakka og sinna þeim.

„Við teljum að mörg þessara fylgdarlausu barna neyðist í vændi til að lifa af. Með það í huga höfum við tekið fyrstu skrefin til að ná til þeirra, að ná tengslum við þau. Það kemur í ljós hvernig það fer,“ segir Melanie.

Úr kennslustund flóttabarna í grískum skóla reknum af hjálparsamtökum. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Kenna lykilinn að samfélaginu

Það er óhugnanleg tilhugsun að börn og unglingar þurfi að borga mansalsmönnum fyrir að smygla þeim frá stríðssvæðum til Evrópu, og vinni fyrir greiðslunni með því að selja sig. En þetta er raunin. Nokkur grísk hjálparsamtök reyna að hjálpa börnum og halda úti tveimur skólum þar sem krakkar geta komið, fengið leiðsögn um gríska kerfið og lært grísku, sem er lykillinn að samfélaginu.

Elisa Gimitzoudi er ein af þeim sem starfar sem kennari við skóla hjálparsamtaka í Grikklandi.

„Eftir nokkra mánuði tala þau flest grísku. En þar fyrir utan sér maður að þeim líður eins og þau séu örugg. Svo koma þau hingað og mynda tengsl við aðra nemendur. Þau búa sér til litla fjölskyldu og almennt sér maður þau lifa eðlilegu lífi, eða eðlilegra en þau lifðu áður,” segir Elisa.

Og hún tekur undir með Melanie: Oft þarf ótrúlega lítið til að líðan krakkanna breytist mikið til hins betra.

Zainab Safari ásamt vinum sínum á leið í dómsmálaráðuneytið. (Mynd RÚV)

Í fyrrasumar stóð til að senda Zainab Safari og fjölskyldu hennar frá Íslandi til Grikklands. Og sama stóð til með afgönsku feðgana Asa-dullah, Mahdi og Al Sarwary. Á síðustu stundu skilaði barátta almennings sér í breyttri afstöðu yfirvalda. Þannig hefur raunar farið með allar fjölskyldur sem hefur átt að senda til Grikklands – en það hafa sannarlega ekki allir verið jafnheppnir.

Og fleiri fjölskyldur bíða þess nú á Íslandi að verða sendar úr landi.

Í niðurstöðu kærunefndar útlendingamála vegna Raziu, Alis og Berke, er aðeins farið yfir stöðu mála í Grikklandi. Meðal annars að hælisleitendur búi við ofbeldi, jafnvel af hálfu lögreglumanna. Að þeir séu á útjaðri samfélagsins, hafi lítið aðgengi að húsnæði, jafnvel ekki einu sinni gistiskýlum. Að þeir hafi lítið aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Og að einungis helmingur barna hælisleitenda sé í skóla. Svona mætti lengi telja. En ástandið sé samt ekki þannig að það megi ekki vísa fólki hingað.

Hafa ekki farið til Grikklands

Þorsteinn Gunnarsson, settur forstjóri Útlendingastofnunar, segir að þó að erfiðleikar séu hjá flóttafólki og hælisleitendum í Grikklandi sé ekki verið að brjóta kerfisbundið á réttindum þeirra.

„Við vitum það náttúrulega og það eru engin dul dregin á það að okkar hálfu að það eru ákveðnir erfiðleikar sem að steðja að þessum hóp á Grikklandi. Það getur verið mjög erfitt að koma undir sig fótunum og nýta þessa þjónustu. En að okkar mati er almennt í öllum grundvallaratriðum er verið að virða þessi réttindi sem að þurfa að vera til staðar. Þó það geti verið einhvers konar erfiðleikar á köflum að nýta sér þau. En þar er ekki um að ræða að það sé verið að kerfisbundið að brjóta á réttindum þessara einstaklinga,“ segir Þorsteinn.

Hvernig hafið þið gengið úr skugga um það, fyrir utan að lesa skýrslur, og Rauði krossinn les sömu skýrslur og kemst að þeirri niðurstöðu að Grikkland sé einmitt alls ekki staður sem ætti að senda fólk á. Hefur einhver á ykkar vegum farið og skoðað aðstæður fólks í Grikklandi?

„Það hefur enginn á okkar vegum farið til Grikklands,“ svarar hann.

Ég flý stríð í Afganistan, eða Írak eða Sýrlandi. Og hlýt vernd í Grikklandi. Og þá er ég ekki lengur í hættu á að vera drepinn í stríði. En það að ég búi á götunni, eigi ekki fyrir mat, finni ekki atvinnu, hafi takmarkað eða jafnvel ekkert aðgengi að heilbrigðisþjónustu, börnin mín komist ekki í skóla. Þá er þetta orðið efnahagslegt mál og þá er ekki lengur forsenda fyrir því að sækja um hæli á hefðbundnum grundvelli?

„Í þessari upptalningu hjá þér þá erum við kannski í einhverjum grundvallaratriðum ósammála um túlkun á aðstæðum. Eins og staðan hefur verið hjá okkur, við höfum með það, þá hefur fólk átt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og að skólavist fyrir börnin. En vissulega hafa efnahagslegar aðstæður verið erfiðar og erfitt aðgengi að húsnæði eða atvinnu hefur hefur hingað til og er skýrt tekið fram í reglugerð um útlendinga, á raunverulega ekki að hafa vægi inn í þessi mál,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn Gunnarsson, settur forstjóri Útlendingastofnunar. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Telja sig virða barnasáttmálann

En hvað með gagnrýni á úrvinnslu mála barna og barnafjölskyldna? Málsvarar hælisleitenda hafa gagnrýnt Útlendingastofnun harðlega fyrir að fara á svig við skilmála Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, um sérstakt mat á hagsmunum barna og segja ákvarðanir oft teknar án þess að öll gögn máls liggi fyrir – jafnvel þótt þau gögn séu á leiðinni.

Fyrir jól féll raunar dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem kærunefnd útlendingamála fékk ákúrur fyrir að hafa kveðið upp úrskurð án þess að öll gögn lægju fyrir.

Og svo er það staða barna, sem UNICEF og fleiri hafa gagnrýnt. Á undanförnum árum hefur Umboðsmaður barna meðal annars óskað skýringa á því hvernig umsóknir barna um alþjóðlega vernd eru metnar hjá kærunefnd útlendingamála, og fundað með dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar um endursendingar fjölskyldna til Grikklands.

Umboðsmaður hefur líka kallað eftir skýrum verklagsreglum um þetta og að ný þingmannanefnd hafi hagsmuni barna í fyrirrúmi við endurskoðun laga. En Þorsteinn er ekki sammála gagnrýninni.

„Við erum í dag að taka viðtöl við börn allt niður í sex ára aldur, sem koma í fylgd. Þar sem við erum að leitast eftir að upplýsa hvaða sjónarmið barnið hefur fram að færa. Og hvað því finnst um þessar aðstæður sem það er í.  Og allar ákvarðanir okkar, eins og annarra stjórnvalda, þurfa að vera teknar með bestu hagsmuni barnsins að leiðarljósi.“

Þannig að þú telur að það, hvernig þið vinnið úr þessum málum, til dæmis með hliðsjón af því að börn geta stundum verið í viðkvæmari stöðu en foreldrarnir, að hún sé í samræmi við þau viðmið sem sett hafa verið, þar sem til dæmis Barnasáttmálinn kveður á um?

„Já, það teljum við,“ svarar hann.

Úr flóttamannabúðum sem Kveikur heimsótti. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Þorsteinn segir að það sé löggjafans að ákveða breytingar sé vilji til að breyta því vinnulagi sem Útlendingastofnun hefur viðhaft. Lög og reglur eru mannanna verk, endurspegla vilja meirihlutans á hverjum tíma – og þeim má auðvitað líka breyta. Það stendur raunar til og breytingar á lögum um útlendinga eru nú til umræðu.

Hverju myndi það breyta?

„Ja, miðað við síðustu drög að því frumvarpi sem ég sá, þá var gert ráð fyrir að frestun réttaráhrifa yrði felld niður að því er varðar ákvarðanir þar sem einstaklingurinn er með vernd í öðru aðildarríki. Ef þú ert að vísa til þess. Það myndi eflaust breyta einhverju varðandi þann málsmeðferðartíma sem er í gangi. En það eru lög sem eru nú til umsagnar,“ segir Þorsteinn.

Í kynningu með lagadrögunum segir að brýnt þyki að auka skilvirkni í afgreiðslu og hraða henni, fyrst og fremst til hagsbóta umsækjendum um alþjóðlega vernd en jafnframt til að draga úr kostnaði ríkissjóðs.

Foreldrarnir Razia og Ali nýkomin heim með dóttur sína. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Jólabarnið sem býður niðurstöðu

Á jóladag fann Razia að nú væri barnið á leiðinni, en óttinn við brottvísun, flensa og streita vöktu ugg hjá þeim sem sinntu henni og hún var send með sjúkrabíl til Reykjavíkur. Þar fæddist Berke að morgni annars í jólum.

Hefðu þessar lagabreytingar verið gengnar í gegn, hefði þessari fjölskyldu verið vísað úr landi áður en Berke fæddist, í aðstæður sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna telur óboðlegar – en íslensk stjórnvöld ekki.

Og samkvæmt lögum breytir það engu að Berke fæddist hér á landi. Því fylgja engin réttindi. Einungis Bandaríkin og Kanada hafa annan hátt á.

Ali og Razia eru nú með lögmann á sínum snærum og það kemur að lokum til kasta dómstóla að skera úr um hvort málsmeðferðin hafi verið rétt – og hvort þau fái að vera áfram á Íslandi. Það gæti tekið allt að ár að fá botn í málið.

Stóra spurningin er ekki hvort Ali og Razia fá að vera með Berke áfram á Íslandi. Eða hvort Ahmad Ata fær að koma til Íslands. Eða hvort hægt er að breyta reglugerðum um helgi þegar almenningur æsir sig. Stóra spurningin er hvernig við viljum hafa þessi mál. Hvar eru þröskuldar mannúðar, mannréttinda, náungakærleika, eða hvað sem við viljum kalla það. Hver er ábyrgð okkar og vilji. Eftir að hafa sýnt ykkur stöðuna skiljum við þá spurningu eftir hjá ykkur.

Umfjöllun okkar um þessi mál er hins vegar ekki lokið, því í Kveik innan skamms fjöllum við um ástandið á grísku eyjunni Lesbos, þar sem flóttafólk rekur nánast á land.