*

Óvissa og löng barátta framundan

Eftir ótrúlegan árangur í vor reis önnur bylgja síðsumars og svo skall þriðja bylgjan á um miðjan september og allt fór á hliðina. Hvernig gat Ísland verið komið í þessa stöðu?

Óvissa og löng barátta framundan

Árið 2019 er að renna sitt skeið.

Íslendingar koma saman í stórum hópum. Hlaupa til dæmis í gamlárshlaupi.

Fólk hópast líka saman og skýtur upp flugeldum og fer á brennu.

Og faðmast og kyssist í nýárssundi í Nauthólsvík.

Allir að fagna árinu 2020. Það er eins og það sé óralangt síðan. Samt er það innan við tíu mánuðir.

Þá grunaði líklega engan að þetta yrðu síðustu stórhátíðirnar í langan tíma sem hægt væri að fagna áhyggjulaust.

Aðeins nokkrum vikum síðar byrjuðu ógnvænlegar fréttir af berast frá Kína. Fjöldi fólks hafi sýkst af óþekktri veiru. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsti svo yfir neyðarástandi á heimsvísu. Útgöngubann var sett á í Evrópulöndum, ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna og samkomubann á Íslandi.

Eurovision var aflýst, forsætisráðherra Bretlands þurfti að leggjast á gjörgæsludeild og íslenskur almenningur var beðinn um að ferðast innanhúss.

Um vorið var svo byrjað að aflétta aðgerðum og skemmtistaðir voru opnaðir.

En draumurinn um veirulaust Ísland entist ekki lengi.

Eftir ótrúlegan árangur í vor reis önnur bylgja síðsumars og svo skall þriðja bylgjan á um miðjan september og það fór  allt á hliðina. Hvernig gat Ísland verið komið í þessa stöðu?

„Það varð bara stórslys. Það er bara þannig,“ segir Jóhanna Jakobsdóttir, líftölfræðingur og einn af höfundum spálíkans Háskóla Íslands um þróun faraldursins.

Þetta stórslys var margnefnd hópsýking á næturlífinu í miðborg Reykjavíkur sem ekki tókst að koma böndum á. En þetta slys — og annað af svipuðu meiði í líkamsræktarstöð í Kópavogi — varð ekki í tómarúmi.

Yfirvöld jafnt sem almenningur höfðu slakað á sóttvörnum.

„Við vorum bara með þannig aðstæður að það var hætta á að þetta myndi gerast,“ segir Jóhanna.

Með því að beita markvissum aðgerðum er hægt að ná tökum á faraldri eins og þessum. Það tókst í vor og skilaði því að stóran hluta sumarsins var Ísland nánast veirulaust.

Sumarið var líka gott á Nýja-Sjálandi, en í ágúst komu þar upp nýjar sýkingar. Þar var gripið fljótt til harðra aðgerða, sem báru þann árangur að þeim var aflétt að fullu nú í byrjun október.

Á Íslandi er staðan allt önnur.

Hefði þurft að bregðast fyrr við hér með harðari aðgerðum?

„Ég held að það sé óhætt að segja það að það hefði verið betra að bregðast fyrr við eftir, hérna, slysið, ef við skulum kalla það það, á Irishman Pub,“ segir Jóhanna.

„Við brugðumst við þessu tiltölulega hægt,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

„Við kannski hefðum átt að bregðast við því hraðar,“ segir hann. „En mér sýnist eins og þær ráðstafanir sem sóttvarnayfirvöld hafa gripið til séu farin að hafa áhrif.“

Kári þorir ekki að kalla þau teikn sem nú eru á lofti jákvæðar fréttir. „Ég vil frekar kalla þetta svo sem vísbendingu um að jákvæðar fréttir kunni að vera handan hornsins.“

Kári telur að menn þurfi að halda áfram að vanda sig „gífurlega,“ að minnsta kosti næstu sex vikurnar.

Kári leggur áherslu á að staðan væri verri ef núverandi aðgerðir á landamærunum væru ekki í gildi.

Síðustu daga hafa sést vísbendingar um hvað kynni að gerast hér ef svo væri ekki.

Fjöldi tilfella hefur greinst hjá farþegum frá Evrópu. Enda er ástandið þar víða að verða mjög slæmt, metfjöldi tilfella í ýmsum löndum og blikur á lofti.

Á meðan er allt annað ástand í löndum eins Nýja-Sjálandi.

„Mér finnst aðferðafræðin sem Nýsjálendingar hafa notað vera mjög aðlaðandi,“ segir Kári. „Mér finnst þetta mjög flott að grípa í þetta af þessum krafti. En það eru margar aðrar leiðir til.“

Það virðist alveg ljóst að lífið kemst ekki í samt lag fyrr en einhvers konar bóluefni er komið fram. Þannig næst hjarðónæmi.

Og hvað ætli sé þá langt í þetta bóluefni?

„Ég held að það sé dálítið langt eftir,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.

Már kveðst ekki segja þetta vegna þess að hann sé svartsýnn. Þvert á móti sé hann bjartsýnn að eðlisfari.

Hann telur hins vegar að væntingar fólks til bóluefnis og þess sem það muni gera séu óraunhæfar.

Allir viðmælendur Kveiks voru sammála um að mörgum spurningum um árangur bóluefnis, aukaverkanir, framleiðslugetu, dreifingu og fleira væri ósvarað.

Yfir 200 tegundir bóluefnis eru í þróun, en almennt er horft til um tíu gerða sem eru komnar á þriðja stig tilrauna. Frétta af þeim er jafnvel að vænta fyrir jól, en hingað til hefur svona ferli tekið mörg ár.

„Þetta eru galdrar, í rauninni, að þetta skuli vera hægt,“ segir Már um hve hratt þróunin hefur gengið.

En þótt gögn úr fyrstu prófunum geti borist fyrir árslok, er björninn ekki þar með unninn.

Margaret Harris, talskona Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, segir við Kveik að mjög mikil og ítarleg greiningarvinna þurfi að fara fram til að átta sig á því hvaða tegundir bóluefnis bjóði upp á „þá vernd og öryggi sem við viljum hafa í bóluefni.“

Og þótt bóluefni komi fram er óvíst um virkni þess.

Almennt er talið að fyrstu tegundir bóluefnis verði ekki þær bestu, kalli til dæmis kannski fram ónæmi hjá um helmingi þeirra sem verða bólusettir.

Og fremstir í röðinni verða aldraðir, veikir og framlínustarfsfólk í heilbrigðiskerfinu.

Aðrir, aðallega yngra fólk, þurfa að líkindum að bíða til 2022.

Þetta er langhlaup.

Í vor var ekki síst talað um að COVID-19  væri arftaki SARS, farsóttarinnar sem herjaði á Asíu upp úr aldamótum og var oftast kölluð bráðalungnabólga.

Umræða og meðferð sjúkdómsins endurspegluðu að hann væri fyrst og fremst öndunarfærasjúkdómur.

En nú er alveg ljóst að veiran sem veldur COVID-19 hefur áhrif á annað og meira en bara lungun.

„Ég get vissulega sagt að veira þessi kemur á óvart,“ segir Margaret Harris hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.

„Hver dagur dregur fram óvænta útúrdúra hjá þessari nýju viðbót við fólksfjöldann.“

Hún segir rétt að lýsa veirunni sem svo að hún sé ekki beint öndunarfæraveira.

Það kemur á daginn móttakarnir sem veiran notar til að komast inn í líkamann eru ekki bara vítt og breitt um öndunarfærin og slímhimnuna í augunum, segir Már Kristjánsson.

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.

„Þessir viðtakar eru víðar í líkamanum. Til dæmis í meltingarveginum, í lifur. Og í nýrum jafnvel.“

Færri hafa þurft að leggjast inn á gjörgæsludeild nú en í fyrstu bylgjunni. „Þetta kann að vera bara tilviljun, og að við eigum eftir að súpa seyðið af þessu síðar,“ segir Már.

„Eða þá að kannski er þetta einhvers konar vitnisburður um það að okkur er að ganga betur að eiga við þennan sjúkdóm.“

Eitt lykilatriði er COVID-19 göngudeildin, þar sem fylgst er með þeim sem veikjast eða greinast sýktir. Hægt er að grípa inn í og beita nýjum lyfjum með sem áhrifaríkustum hætti.

Gamalt steralyf sem heitir dexamethasone, nýtt japanskt veirulyf sem heitir favipiravir og svo annað nýtt lyf, remdesivir, hafa gefið besta raun. Reyndar segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin nú að remdesivir hafi engin áhrif — en aðrir eru því ósammála.

Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að veiran sjálf sé vægari nú en í vor.

Þá mátti rekja flest smit til afmarkaðs hóps sem kom úr skíðafríi í útlöndum.

Nú er smitið dreifðara og erfiðara að rekja. Og fleiri af yngri kynslóðum hafa veikst, sem er enn ein skýringin á því hvers vegna margir hafa á tilfinningunni að bylgjan nú sé vægari.

En jafnvel þótt meðalaldur þeirra sem eru smitaðir sé lægri hafa hlutfallslega fleiri aldraðir þurft að leggjast inn á sjúkrahús nú en í fyrstu bylgjunni, segir Már.

Enn bendir allt til þess að langflestir Íslendingar séu næmir fyrir veirunni. Fréttir af fólki sem sýkist tvisvar eru hrollvekjandi, en á heimsvísu skipta þau tilfelli bara tugum af 40 milljónum greindra smita.

Rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar gefur sterklega til kynna mótefnasvar hjá langflestum sem ætti að útiloka aðra sýkingu.

En þótt enn sé ekki til nein lækning eða bóluefni getur samtakamátturinn áorkað miklu.

„Ef það væri þannig að allir fylgdu alltaf tveggja metra reglunni og myndu alltaf þvo sér um hendur og alltaf vera heima þegar þeir fyndu fyrir minnstu einkennum, þá værum við alveg í allt annarri stöðu,“ segir Jóhanna Jakobsdóttir, einn af höfundum spálíkans Háskólans.

Ein leið til að hefta útbreiðsluna er að nota grímu, sem nú verður æ algengara. Bandarísk sóttvarnayfirvöld hafa gengið hvað lengst í að hvetja til almennrar grímunotkunar.

„Þessar andlitsgrímur eru mikilvægustu og öflugustu almennu heilsuvarnirnar sem við höfum,“ sagði Robert R. Redfield, forstjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, fyrir þingnefnd.

„Ég held áfram að biðla til allra Bandaríkjamanna, allra í landinu, að nota þessa hlíf. Ég hef sagt, að gerðum við það í sex, átta, tíu, tólf vikur, þá næðum við stjórn á faraldrinum.“

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með grímunotkun við tilteknar aðstæður, til dæmis þar sem erfitt er að tryggja fjarlægð milli fólks. Og það er í takt við skilaboð íslenskra sóttvarnayfirvalda.

„Ég hef miklu meiri trú á grímunni heldur en félagi minn og fóstbróðir hann Þórólfur,“ segir Kári Stefánsson.

„Mér finnst að það ætti að vera grímuskylda í samfélaginu, alls staðar.“

Jóhanna segir um grímunotkun að í tilfelli kórónuveirunnar, sem virðist vera mjög smitandi, skipti allar aðgerðir sem gripið er til máli.

„Ein aðgerð, hún nær ekki að koma smitstuðlinum undir einn. Sóttkví nær því ekki, skimunin nær því ekki, þannig að við þurfum fullt af aðgerðum sem vinna saman, og engar af þeim eru fullkomnar einar og sér,“ segir hún.

Við höfum nú búið við faraldurinn í alllangan tíma og hann verður líklega talsvert lengri.

Fólk er orðið þreytt á öllum þessum sóttvarnaráðstöfunum, en þá gildir líklega að sýna langlundargerð.

Jóhanna telur að einhverjar aðgerðir þurfi að vera í gangi í samfélaginu þangað til komin er betri meðferð eða bóluefni.

Hún telur að á meðan veiran er í samfélaginu sé aðeins hægt að taka þá áhættu að hafa krár og líkamsræktarstöðvar opnar „með mjög ströngum skilyrðum um fjarlægð á milli fólks.“

Jóhanna Jakobsdóttir, einn af höfundum spálíkans Háskóla Íslands um þróun faraldursins.

Er hægt að leyfa áhorfendum að mæta á fótboltaleiki?

„Ég held ekki,“ segir Jóhanna. „Ekki 500 manns sko. Það verður að vera þannig að það verði tveir metrar á milli fólks.“

„Ég held að það sé bara of mikil áhætta,“ segir hún.

Kári Stefánsson segir að hægt sé að draga lærdóm af þessari síðustu bylgju: Vafasamt sé að byrja að anda miklu léttar bara af því að tilfellum sem greinast á hverjum degi sé farið að fækka mjög mikið.

„Það er snúið fyrir fólk sem hefur vanist því að komi upp neyðarástand eða áföll dynji yfir þá sé því kippt í liðinn,“ segir Margaret Harris hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.

„Veruleikinn, þegar nýr sjúkdómsvaldur tekur sér bólfestu í fólki, krefst þess að við vinnum saman til lengri tíma til þess að leysa vandann.“

Það eru aðeins rúmlega tveir mánuðir eftir af árinu 2020.

Guði sé lof, segja sjálfsagt margir — farið hefur fé betra en þetta ár.

En það er ljóst að Íslendingar geta ekki haldið jól og áramót eins og þeir eru vanir— og það verður örugglega ekki aragrúi erlendra ferðamanna í Reykjavík að fylgjast með sprengjuglöðum Íslendingum að faðmast og kyssast og fagna nýjum áratug.

En svo kemur nýtt ár, 2021 — og þá er hætta á að komi fjórða bylgja, fimmta bylgja og sú sjötta.

Hversu stórar þær verða ræðst auðvitað af því í hvers konar aðgerðir verður farið en líka hvort almenningur tekur þátt í þeim.