Annað hvort með náttúrunni eða byggð í liði

Í fámennasta sveitarfélagi landsins eru tvær kirkjur. Af hverju? Jú vegna þess að íbúarnir gátu ekki komið sér saman um hvort það ætti að gera upp gömlu kirkjuna eða reisa nýja. Þau gerðu því hvort tveggja. Nú klýfur annað mál sveitina; Hvalárvirkjun.

Í þetta sinn er ekki hægt að hvort tveggja virkja Hvalá og vernda ósnortin víðerni. En um hvað snúast deilurnar um Hvalárvirkjun? Hvað stendur til að gera og hvað mælir með eða á móti virkjun? Hvaða áhrif hefur umræðan haft á íbúa Árneshrepps?

„Þessi virkjun, þetta kom bara eins og ófreskja inn í samfélagið. Það er oft með svona fallandi samfélög að þau grípa eitthvert hálmstrá og hanga í því. En þessi fyrirtæki með þessa virkjunarframkvæmd, það er ekki að fara gera neitt fyrir hreppinn. Það er bara verið að eyðileggja. Hér á að eyðileggja allt,“ segir Elías Kristinsson, sem fæddist á Seljanesi og ólst upp og smalaði á Dröngum á Ströndum.

„Við erum alltaf svona fullir af hugmyndum en einhvern veginn alltaf stoppar þetta á rafmagni og samgöngum. Við væntum þess að með þessari virkjun verði hægt að koma hérna allt árið,“ segir Magnús Karl Pétursson vert í Djúpavík. Hann fluttist hingað úr Garðabæ til að taka við rekstri hótelsins.

Hálf öld síðan hugmyndir um virkjun kviknuðu

Árneshreppur á Ströndum var kannski ekki á hvers manns vörum fyrr en nýlega - en þar um slóðir er Hvalárvirkjun áformuð, í Ófeigsfirði. Þótt virkjunin hafi ekki komist í hámæli fyrr en nýlega, þá er næstum því hálf öld síðan fyrstu hugmyndir um hana voru settar fram árið 1974.  

Það var þó engin alvara í því fyrr en fyrir um það bil áratug þegar Vesturverk hóf undirbúning virkjunarinnar og gerði samninga við landeigendur í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði árin 2008 og 2009.  

Árið 2013 var Hvalárvirkjun sett í orkunýtingarflokk rammaáætlunar og stækkuð í 55 MW. Tveimur árum síðar veitti Orkustofnun Vesturverki rannsóknaleyfi á svæðinu.  

Umhverfismat var gert árið eftir og árið 2017 skilaði Skipulagsstofnun áliti sínu. Það var neikvætt í sjö flokkum af níu, og í einum var óvissa. Engu að síður fékk Vesturverk leyfi Árneshrepps til þess hefja undirbúningsframkvæmdir í ár.  

Virkjanaleyfi forsenda virkjunarinnar

Virkjanaleyfi frá Orkustofnun er forsenda þess að virkjunin sjálf fái að rísa. Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun hefur ekki verið sótt um það enn.  

Yrði Hvalárvirkjun að veruleika yrði hún 55 megavatta virkjun og gæti framleitt um 320 gígavattsstundir á ári. Til þess að setja þetta í samhengi þá samsvara 320 gígavattstundir orkunotkun ríflega helmings, eða 53 prósent, íslenskra heimila.

Afl Hvalárvirkjunar verður tæplega tíu prósent af afli Kárahnjúkavirkjunar, eða álíka mikið og Írafossstöð framleiðir. Stærsta stífla Hvalárvirkjunar verður 28 metra há, sem slagar hátt í hálfan Hallgrímskirkjuturn.  

Um hvað snúast virkjunaráformin?

En hvað felst eiginlega í þessum virkjunaráformum og hvað stendur til að gera, ef tekin verður ákvörðun um að virkja? Í stuttu máli snúast áformin um að virkja þrjár ár, Hvalá og Rjúkanda í Ófeigsfirði og Eyvindarfjarðará í Eyvindarfirði.

Á Ófeigsfjarðarheiði yrðu með fimm stíflum búin til þrjú miðlunarlón, sem samtals myndu þekja tólf ferkílómetra lands. Fjögur stöðuvötn og þrjú minni nafnlaus vötn færu undir lónin og rennsli í ánum þremur myndi skerðast verulega.  

Rennsli um fossinn Rjúkanda og aðra fossa í ánni Rjúkanda minnkar verulega og rennsli Hvalárfossa yrði um þriðjungur þess sem það er í dag. Fleiri fossar eru í Hvalá, þeirra hæstur er Drynjandi, um sjötíu metra hár. Eftir virkjun verða hann og aðrir fossar í nágrenni hans nær vatnslausir eða með um tvö prósent af náttúrulegu vatnsmagni. Fossaröð í Eyvindarfjarðará yrði gjörbreytt og næst ósum árinnar verðar vatnsmagnið um þriðjungur þess sem það er nú.

Vesturverk boðar að sem mótvægi við minnkað rennsli um fossana verði því stýrt eftir þörfum til að bæta upplifum ferðafólks. Aðrennslisgöng yrðu gerð frá Hvalárlóni að stöðvarhúsi, og þaðan lægju svo frárennslisgöng út í Hvalárósa. Leggja þyrfti 25 kílómetra af nýjum vegum um framkvæmdasvæðið. Þá hefur Vesturverk boðað línuveg frá virkjuninni yfir Ófeigsfjarðarheiði í Ísafjarðardjúp.  

Með framkvæmdunum væri fjórtán prósentum óbyggðra víðerna á Vestfjörðum raskað. Ef raflínurnar sem tengja myndu virkjunina við flutningskerfi Landsnets eru teknar með í reikninginn færi hlutfall raskaðs svæðis upp í 21 prósent. Áhrifin yrðu minni ef línan yrði lögð í jörðu, en ekki hefur verið skorið úr um hvor leiðin yrði farin.  

Hvað er búið að gera?

Þetta eru áformin. En hvar er verkefnið statt? Hvað er búið að gera? Í raun og veru ekki ýkja mikið. Það eina sem er búið að gera eru lagfæringar á Ófeigsfjarðarvegi, fyrir einhverja tugi milljóna króna, sem hófust í sumar. Eftir að samgönguráðuneytið úrskurðaði í málinu í haust, Vesturverki og Vegagerðinni í hag, stendur til að ráðast í lagfæringar á veginum um Seljanes næsta sumar.  

Áður en hafist verður handa við sjálfa Hvalárvirkjun þarf að ljúka ýmsum rannsóknum á Ófeigsfjarðarheiði sem aðallega felast í að bora eftir kjarnsýnum. Til þess að það sé hægt þarf að reisa brú yfir Hvalá og leggja veg upp á heiðina. Þær framkvæmdir byggjast á sérstöku framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt upplýsingum frá Vesturverki er vegurinn enn á hönnunarstigi. Í sumar kom í ljós að fjöldi steingervinga er í nágrenni við fyrirhugað vegstæði.  Vesturverk fór þá í að kortleggja svæðið til að verja þá þar sem steingervingar eru alfriðaðir. Svo þarf að breyta og samþykkja seinni hluta aðal- og deiliskipulags Árneshrepps.

Fólki fækkar verulega á veturna

Norðurfjörður er eina þorpið í Árneshreppi ef svo má segja. Hér iðar allt af lífi á sumrin en á veturna fækkar fólki verulega og þjónusta er af skornum skammti. Þegar hreppsnefnin fundar gerir hún það hér í Kaupfélagshúsinu. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum fengu einstaklingar sem eru fygljandi Hvalárvirkjun meirihluta atkvæða eða 24 atkvæði af 43.

Árneshreppur hefur þótt henta vel til sauðfjárbúskapar og það hefur þótt gott að búa þar. Eitt sinn voru þeir miklu fleiri, bændurnir, nú er aðeins búskapur á fjórum bæjum. Yngsti bóndinn er á sextugsaldri sá elsti á níræðisaldri. Einn þeirra sem þar hefur stundað búskap í áratugi er Sigursteinn Sveinbjörnsson, bóndi í Litlu-Ávík.

„Ég er fæddur og uppalinn og alltaf átt heima hérna. Ég held að þetta myndi ekki ganga upp ef að það væri ekki gott samband, smalanir og svoleiðis. Það myndi bara ekki ganga upp. Ekki síst þegar það eru orðnir svona fáir.“

Í Árnesi 2 búa Hrefna Þorvaldsdóttir og Valgeir Benediktsson. Þar reka þau minjasafn. „Það var mjög gott að búa hérna og gott að ala upp börn hérna. Mjög gott. Börnin okkar eru mjög tengd, koma mikið og hér er alveg rosaleg samtrygging ef eitthvað gerist og eitthvað kemur upp á.“

Um hundrað kílómetrar í næsta bæjarfélag

Árneshreppur hefur aldrei verið fjölmennt sveitarfélag og kannski ekki að undra, um hundrað kílómetrar eru í næsta bæjarfélag. Hreppurinn nær frá Spena undir Skreflufjalli að Geirólfsgnúp.

Flestir voru íbúar Árneshrepps á síldarárunum um 1940. Þá bjuggu ríflega fimm hundruð manns í hreppnum. Næstu ár á eftir fækkaði þeim verulega og árið 1970 voru þeir 216.

Þessi þróun hélt áfram og íbúum fækkaði ár frá ári. Árið 1990 voru þeir 121. Nú eru 43 með skráð lögheimili í hreppnum. Það þýðir þó ekki að fjörtíu og þrjú búi í Árneshreppi árið um kring. Stór hluti þeirra sem skráðir eru til heimilis hér býr nefnilega annars staðar.

Í Djúpavík búa þrjú - í Litlu-Ávík búa tveir. Á Finnbogastöðum býr einn, Í Árnesi 1 og 2 búa fimm, á Melum þrjú, í Steinstúni býr einn, í Norðurfirði búa tveir, í Bergistanga tvö og á Krossnesi einn. Aðrir sem þar eiga lögheimili búa annars staðar en í hreppnum. Sumir, eins og Hrefna og Valgeir, búa bróðurpart ársins í Árneshreppi en fara stundum í burtu í tvo til þrjá mánuði yfir háveturinn.

„Þegar það var orðið svoleiðis að hér var orðið svona fátt fólk. Það er búið að loka skólanum, það er engin búð þá bara gat ég ekki eiginlega, þegar samfélagið var orðið svona þröngt, þá bara gat ég eiginlega ekki verið hérna allt árið,“ útskýrir Hrefna.

Hrefna og Valgeir hættu búskap fyrir nokkrum árum. „Við létum dóttur okkar og tengdason, sem bjuggu hérna, hafa allan fjárstofninn og eða nánast allan. Af því að við vorum að reyna að yngja upp í sveitinni. En svo kom að þeim tímapunkti að þau þurftu að fara líka. Það var mjög mikið áfall þegar þau fóru,“ segir Valgeir.

Á Melum búa Björn Torfason og Bjarnheiður Júlía Fossdal. Þau eru sauðfjárbændur. „Það verður alltaf erfiðara þegar þetta eru orðnir svona fáir, það má lítið koma upp á held ég,“ segir Björn. Þá reynir meira á samheldnina, segir hann.

Björn er fæddur í Finnbogastaðaskóla og þau Badda eiga fimm börn. Ekkert þeirra býr í hreppnum en eitt er hér með lögheimili. Aðspurður um hvort eitthvert þeirra hafi prófað, eða viljað setjast að á Melum svarar hann: „Ekki ennþá alla vega, maður er alltaf eitthvað að ýja að því við þau.“

Sigursteinn bóndi segir eflaust engan taka við þegar hann hætti búskap. „Það lítur ekki út fyrir það. Það er bara hræðilegt. Já já, það er bara svona,“ segir hann. „Maður reynir bara njóta eins lengi og maður hefur hefur sæmilega heilsu og þrek,“ svarar hann aðspurður um hvort það sé sárt að sjá ævistarfið hugsanlega verða að engu.

Sumir aðfluttir í hreppinn

Á Seljanesi er verið að taka niður mongólskt tjald sem Elín Agla Briem reisti þar. Því þótt margir hafi flutt frá Árneshreppi þá er til í dæminu að fólk hafi flutt í hreppinn. „Þessi staður bara kallaði á mig. Auðvitað er þetta gríðarlega fallegur staður en ég held að það var þetta samspil fólksins hérna, og hvernig þau voru sem heild, sem að eiginlega náði mér, og ég hef bara eiginlega ekki losnað undan þeim álögum síðan,“ segir Elín Agla.

Hún á eina barnið sem skráð er með lögheimili í sveitarfélaginu. „Við gerðum það síðasta vetur fyrst, að þá fórum við hérna í næsta sveitarfélag Kaldrananeshrepp, og fengum að vera í skólanum þar og ég leigði hús þar yfir veturinn. Svo kom ég hérna í vor til að vera að vinna á bryggjunni að landa og við vorum hérna í sumar og svo byrjar skólinn aftur og þá fórum við aftur þangað. Þannig að þetta er svona svolítið tvískipt líf eins og er.“

Í Djúpavík býr aðfluttur Garðbæingur. „Ég er að reka hótel Djúpavík og tók við af henni tengdamóður minni fyrir fjórum árum og ég hef eiginlega ekkert farið aftur,“ segir Magnús Karl Pétursson hótelstjóri. Magnús segir að hann reyni að hafa hótelið opið allt árið. „En það er erfitt að komast til okkar. Svo lengi sem við erum heima þá tökum við á móti gestum.“

Margir hafa mótmælt áformunum

Umhverfisverndarsamtök og nokkrir landeigendur í Árneshreppi hafa mótmælt fyrirhugaðri Hvalárvirkjun og kært ýmist deiluskipulag eða framkvæmdaleyfi til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þremur málum hefur verið vísað frá, eitt var fellt niður og sjö var frestað.

Kærurnar og mótmælin hafa að einhverju leyti tafið framkvæmdir Vesturverks en upphaflega átti vinnu við Ófeigsfjarðarveg um Seljanes að vera lokið á haustmánuðum.

Þá hefur meirihluti landeigenda Drangavíkur kært deiliskipulag og framkvæmdaleyfi fyrsta áfanga virkjunarinnar. Þeir krefjast ógildingar framkvæmdaleyfis og telja að ekki sé hægt að búta leyfisveitingar niður. Málið er til meðferðar dómstóla og þegar það er til lykta leitt getur úrskurðarnefndir kveðið úrskurð i málunum sjö sem frestað var.

Í undirbúningi eru líka málaferli landeigenda Drangavíkur sem telja að fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir byggist á röngum landamerkjum. Að þeirra mati er vatnasvið Eyvindarfjarðarvatns innan jarðarinnar Drangavíkur en ekki Engjaness eins og stuðst hafi verið við.  

Til að flækja þessi landamerkjamál enn frekar þá er næsta jörð norðan við Drangavík, jörðin Drangar, í friðlýsingarferli hjá Umhverfisstofnun. Að auki hefur íslenska ríkið gert kröfu um að sá hluti Drangajökuls sem er innan Árneshrepps verði þjóðlenda.

Inn í þetta mál fléttast deilur um landamerki allra jarðanna þarna, það er að segja Skjaldabjarnarvíkur, Dranga, Drangavíkur og Engjaness. Hvenær úr þeim deilum fæst skorið er ómögulegt að segja en fari svo að niðurstaðan verði sú að stuðst hafi verið við röng landamerki þegar framkvæmdirnar voru teiknaðar upp setur það allt ferlið í nokkurt uppnám.

Þjónusta af skornum skammti

Í Árneshreppi er þjónusta af skornum skammti; Enginn skóli, enginn leikskóli, engin heilsugæsla, engin hárgreiðslustofa, engin vínbúð eða veitingastaður á veturna og erfiðlega hefur gengið að halda úti heilsársverslun.  

„Þetta var svona hálfgert vandræðaástand síðastliðinn vetur af því að fá þetta að sunnan eða nota ferðafólk til þess að kaupa eitthvað fyrir mann. Það kom fyrir að maður gerði það,“ segir Sigursteinn Sveinbjörnsson bóndi.

Í fyrravetur var búðin lokuð og það þótti heimamönnum ótækt. Því var stofnað hlutafélag um rekstur hennar „sem heitir Verslunarfélag Árneshrepps sem verður til húsa í gamla Kaupfélagshúsinu. Fjöldi manns kom í hreppinn til að vera við vígsluna. Ég hef heyrt nefnda töluna sjötíu áttatíu manns,“ segir Sigursteinn.

Í haust tók Frakkinn Thomas Elguezabal við rekstri búðarinnar. Hann hafði kynnst íbúum Árneshrepps á ferðalögum sínum. „Þegar ég heyrði af möguleikanum á því að vera hér yfir vetrartímann og jafnvel reka þessa verslun sannfærði ég sjálfan mig um það. Nú get ég sagst búa á Norðurfirði og ég er stoltur af því. Lífið hérna er ótrúlegt. Það er svo ólíkt öllu öðru í heiminum,“ segir Thomas.  

„Það er eiginlega bara ekki búandi hérna án þess að hafa verslun svo það var bara frábært. Svo skemmir ekki þessi brosandi afgreiðslumaður,“ segir Hrefna Þorvaldsdóttir, sem rekur minjasafn í hreppnum.

Árneshreppur glímir líka við húsnæðisskort. Jarðir hafa farið úr hefðbundnum búskap og í stað þess að á þeim sé heilsársbúseta hafa þær breyst í sumaróðöl og þannig veikt byggðina enn frekar og engin áform eru um húsbyggingar í hreppnum. Fólk sem hefur sýnt því áhuga að flytja hingað, barnafólk, getur það því ekki.

„Þetta er mjög fallegur staður. Náttúran er mjög kraftmikil og okkur líður vel þegar við erum hérna,“ segir Stephan Gehringer-Kalt, aðspurður um það hvers vegna hann og kona hans Stephanie og börn þeirra tvö vilji búa í Árneshreppi.

Þegar þau könnuðu það hvort þau gætu flutt í hreppinn fengu þau það svar að búið væri að loka skólanum. „Við eigum tvö börn og það eldra er á skólaaldri. Sveitarfélagið var ekki tilbúið til að taka við henni og opna skólann. Það var líka spurning hvort einhverja vinnu væri að fá.“  

Hverjir hagnast fjárhagslega á Hvalárvirkjun?

En aftur að virkjunaráformunum. Hverjir hagnast fjárhagslega á Hvalárvirkjun og hvaða fyrirtæki og einstaklingar eiga hér hlut að máli? Áætlaður hagnaður af Hvalárvirkjun, samkvæmt minnisblaði Hagfræðistofnunar, verður einn og hálfur milljarður króna til að byrja með en eykst þegar frá líður.  

HS-Orka á ríflega sjötíu prósent í Vesturverki en um þriðjungur er í eigu þriggja Vestfirðinga í gegnum félag sem heitir Gláma. HS Orka er eina orkufyrirtækið á Íslandi sem er í einkaeigu. Helmingur fyrirtækisins í höndum Ancala Partners, sem er sjóðastýringafyrirtæki. Hinn helmingurinn er í eigu Jarðvarma, sem er samlagshlutafélag í eigu fjórtán lífeyrissjóða.

Vestfirðingarnir eiga einnig hlut í jörðinni Ófeigsfirði. Einstaklingar hagnast líka á Hvalárvirkjun. Leigutekjur af vatnsréttindum í  Ófeigsfirði og Eyvindarfirði eru tengdar brúttótekjum virkjunarinna og fara stigvaxandi og hefur verið reiknar út að þær geti numið þrjátíu milljónum á ári til að byrja með en verði allt að 160 milljónir ári eftir tuttugu ár.

Pétur Guðmundsson, sem kenndur er við Ófeigsfjörð, á sjötíu prósent í jörðinni. Restin er í eigu ellefu annarra. Engjanes í Eyvindarfirði er í eigu ítalska vínbarónsins Felix Von Longo-Liebenstein. Lítið annað er vitað um hann en að hann á einnig þrjár jarðir í Ásahreppi og fjárfesti á sínum tíma í United Silicon.  

Sveitarfélagið fær svo fasteignagjöld af virkjuninni en þau eru talin nema allt að þrjátíu milljónum króna á ári. Þá er viðbúið að á framkvæmdatímanum muni tekjur sveitarfélagsins aukast verulega þegar allt að tvö hundruð manns verða við störf í Ófeigsfirði. En þetta verður tímabundið ástand. Um leið og virkjunin er risin verður hún alla jafna mannlaus og henni fjarstýrt.

Umræðan um virkjunina hefur tekið sinn toll

Þrátt fyrir að íbúar Árneshrepps hafi alla tíð verið mjög samheldnir hefur umræðan um Hvalárvirkjun tekið sinn toll. Rúmlega helmingur þeirra sem hér eiga lögheimili eru með virkjun og tæplega helmingur er á móti henni. Margir leiða því umræðuna um virkjunina hjá sér.

„Við tölum ekki um þetta sem erum ekki sammála. Við tölum ekki um þetta. En þetta er alltaf þarna. Okkur hefur gengið bara þokkalega að sneiða framhjá þessu og halda samfélaginu og taka saman þátt í því sem er að gerast hérna en maður finnur það, og það hljóta allir að finna það, að það er eitthvað sem truflar sem er ekki gott,“ segir Hrefna.

„Fólk sem var vinir er hætt að tala saman, sem mér finnst svo sorglegt. Það er harmleikur að sjá þetta. Það eina sem ég hef séð koma út úr þessu er ósætti og það er erfitt í svona örsmáu samfélagi,“ segir Thomas.

„Alveg sama hvaða skoðun þú hefur á því tiltekna máli þá held ég að þetta hafi reynt gríðarlega á okkur öll hérna. Bara verið erfitt og ákveðinn klofningur sem að kom og fyrir mig persónulega bara ákveðin sorg sem liggur hérna yfir,“ segir Elín Agla.

Aðspurður um hver hann telji að áhrif virkjunarinnar verði fyrir hreppinn í framtíðinni segist Thomas telja sig eiga að vera hlutlausan í þessum málum. „Mín afstaða er...Þetta er erfitt. Ég vil ekki kynda undir sundurlyndi eða þannig. Það sem ég sé fyrir mér að virkjunin hafi í för með sér...Ég elska þennan stað og þessa ósnortnu náttúru. Þó að sumum finnist þetta ekkert merkilegt þá sé ég svo margt hérna, fullt af lífi og öllu. Ég óttast að staðurinn verði lagður í rúst af eintómri peningagræðgi,“ segir hann.

Virkjunin skipti máli fyrir orkuöryggi Vestfjarða

Þegar Hvalárvirkjun var sett í nýtingarflokk í öðrum áfanga Rammaáætlunar var rökstuðningurinn sá að hún væri eini virkjunarkosturinn á Vestfjörðum sem metinn var og að hún skipti máli fyrir orkuöryggi Vestfjarða. Til þess að svo megi verða þarf að tengja Hvalárvirkjun við Vesturlínu.

Vesturlína er línan sem tengir Vestfirði við flutningskerfi Landsnets og er eins konar botnlangi. Raforkuframleiðsla á Vestfjörðum er minni en notkunin sem gerir það að verkum að truflanir á raforkuflutningi frá Hrútafirði í Mjólká hafa áhrif á rafmagnið á Vestfjörðum. Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum er það lakasta á landinu.

Með tengingu Hvalárvirkjunar við Vesturlínu í gegnum tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og þaðan í flutningskerfi Landsnets í Kollafirði og þaðan inn á Mjólkárlínu 1 eykst afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum að því er fram kemur í framkvæmdaáætlun Landsnets.

Þá er tengipunkturinn talinn auka möguleika á nýrri orkuvinnslu á Vestfjörðum. Nokkrir virkjanakostir hafa verið skoðaðir eins og Skúfnavötn og Austurgil. Á framkvæmdaáætlun Landsnets er gert ráð fyrir að framkvæmdir við tengipunktinn hefjist síðla árs 2022.

Eins fasa rafmagn dugir til heimilisbrúks ekki atvinnuþróunar

„Það er enginn heilvita maður sem flytur hingað með lítið fyrirtæki eða eitthvað þannig sem þarfnast rafmagns þegar hann er með eins fasa rafmagn og rafmagnsöryggi þetta slæmt eins og það er. Þannig að hérna þetta mun gagnast öllum Vestfjörðum alveg án efa,“ segir Magnús Karl hótelstjóri.  

Í Árneshreppi er eins fasa rafmagn en ekki þriggja fasa eins og til dæmis á höfuðborgarsvæðinu. Víða um land er einfasa rafmagn. Enda þarf venjulegur notandi ekki meira. Það dugir vel til alls kyns heimilisbrúks eins og að elda og blása á sér hárið.

Það skiptir hins vegar máli ef notandi vill nota mjög öfluga mótora eins og eru í rennibekk eða færibandi og getur staðið atvinnuþróun í sveitum fyrir þrifum. „Ég hef engan sérstakan áhuga á því að virkja allt sem er hægt að virkja sko en ef einhvers staðar er þörf á almennilegu rafmagni og breyttum og bættum samgöngum þá er það í Árneshreppi og á Vestfjörðum yfir höfuð,“ segir Magnús.

Eflir raforkuöryggi á kostnað ósnortinnar náttúru

Svo Hvalárvirkjun mun líklega efla raforkuöryggi á Vestfjörðum en á kostnað hvers? Jú, ósnortinna víðerna og náttúru. Með Hvalárvirkjun verður umfangsmikil skerðing á óbyggðum víðernum og eyðijörðum segir í áliti Skipulagsstofnunar. Það sé það neikvæðasta við virkjunina. Tiltölulega fágæt stöðuvötn fara undir lón og rennsli í ánum minnkar verulega sem hefur áhrif á fossa sem í ánum eru meðal annars Drynjanda sem nú fellur tignarlegur og hár niður í Hvalárgljúfur.  

„Talsvert neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist,“ segir þá þar. Þar sem nú eru engin ummerki eftir menn verða raflínur og vegir sem eiga líklega eftir að hafa neikvæð áhrif á skynjun ferðamanna á þessum slóðum. Skipulagsstofnun bendir á að framkvæmdirnar raski vistkerfi og landslagi sem nýtur verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Þeim ætti ekki að raska nema brýna almannahagsmuni beri til.  

„Ég held að þetta séu mistök. Ef við horfum í kringum okkur í heiminum á alla eyðilegginguna í náttúrunni þá finnst mér ósnortin náttúra vera mjög mikilvæg. Þetta er ekki bara spurning um þetta svæði hérna, ekki einu sinni spurning um Ísland í heild. Við þurfum að hugsa í hnattrænum skilningi,“ segir Tómas.  

Elías Kristinsson á Dröngum segir að rísi Hvalárvirkjun, verði ekkert nema tjón. „Alveg eins og við Kárahnjúkavirkjun.“ Ferðamenn hætti að koma í hreppinn. „Hvað heldurðu að þeir vilji skoða hérna, virkjun? Heldurðu að menn fari frá Evrópu og Ameríku til þess að skoða virkjun?“

„Í fyrsta lagi vil ég alls ekki láta eyðileggja þetta. Ég hef nú bréf frá Vesturverki sem þeir bjóða okkur í þennan dans, okkur Drangamönnum. Ég hef bara uppáskrifað bréf kóperað og allt. Ég sel ekki föðurarfinn arfleifðina eða hvað það nú er kallað í biblíunni fyrir baunadisk,“ segir Elías.  

Ólíkt Elíasi telur Magnús Karl hótelstjóri ekki að virkjunin fæli í burtu ferðamenn sem vilji skoða ósnerta náttúruna. „Nei í raun og veru alls ekki, já í tæplega 35 ára sögu þessa hótels þá hefur ekki mikið af fólki farið á þetta svæði sem hefur verið hér.“

Eigi að kanna hvort aðrar leiðir séu færar

Landvernd hefur bent á að í stað Hvalárvirkjunar eigi að skoða aðrar leiðir til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum. Tífalda megi raforkuöryggi með því að setja hluta Vesturlínu og fleiri línur á sunnanverðum Vestfjörðum í jörð. Helsta ástæða þess að rafmagntruflanir verði á Vestfjörðum sé að línurnar séu ofanjarðar og því séu þær viðkvæmar fyrir veðri og vindum. Rafmagnslínur frá Hvalárvirkjun muni ekki leysa þann vanda.  

Nýverið kortlagði svo Náttúrusetrið Wildland Research, að beiðni náttúruverndarsamtakanna Ófeigs, óbyggð víðerni Ófeigsfjarðarheiðar og komst að þeirri niðurstöðu framkvæmdirnar hefðu meiri áhrif á óbyggð víðerni en áður hafi verið talið. Óbyggð víðerni myndu minnka um 45 til 48 prósent.

„Það er ekki til ómerkara land en Ófeigsfjarðarheiðin. Ég hef ekki komið akkúrat á það svæði sem að er virkjun. Ég hef komið aðeins sunnar á heiðina áður fyrr og þetta er nú bara grjót og urð og klettar og einhverjar tjarnir þarna sem bara stækka, sameinast. Ég sé engan skaða í því,“ segir Sigursteinn bóndi í Litlu-Ávík.

Samgöngum helst um að kenna

Vandamál Árneshrepps eru margslungin. Íbúar eru samt á einu máli um að samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, sé helsta ástæða þess að fólk flyst í burtu frá hreppnum. Vegurinn sem var lagður hingað seint á sjöunda áratug síðustu aldar er enda all hrikalegur.

Þetta er malarvegur sem er oft ófær vikum eða mánuðum saman yfir vetrarmánuðina. „Þótt fólk sé stundum að brjótast þarna á milli að þá er þetta er ekki boðlegt. Engan veginn,“ segir Valgeir Benediktsson í Árnesi 2. Þegar þannig háttar er flogið með vistir á Gjögurflugvöll. En það dugir ekki öllum því erfitt getur verið fyrir fólk í Djúpavík að komast þangað þegar snjóþungt er og hætta á flóðum.

„Samgöngurnar eru náttúrulega aðal ástæðan fyrir því að fólk hefur flutt héðan í burtu,“ segir Magnús Karl hótelstjóri. „Þetta er algjör vetrarparadís þessi staður og hérna og eiginlega bara sorglegt hve fáir hafa séð hann um í vetrar vetrarklæðum.“

Vegagerðin sinnir viðhaldi og mokstri á Strandavegi. og öðru veghaldi. Vegurinn er G-merktur sem þýðir að frá 1. nóvember og fram til 5. janúar er miðað við mokstur einu sinni í viku ef veður leyfir. Frá þeim degi og fram til 20. mars er vegurinn ekki mokaður nema sveitarfélagið óski eftir því og taki þátt í kostnaði.

Einn farartálminn inn í hreppinn er Veiðileysuháls. Lagfæringar á honum eru á samgönguáætlun og átti framkvæmdum að ljúka 2022. Nú liggur fyrir þingi tillaga um fresta því um nokkur ár.

Ekki hægt að bjóða fólki upp á að festast í hreppnum

„En það tryggir ekki heilsárssamgöngur inn í Árneshrepp fyrir því. Þá er erfiðasta leiðin eftir. Það er sem sagt vegurinn hérna í kringum Reykjarfjörðinn og Kjörvogshlíðina og það. Það er miklu meiri flöskuháls í samgöngum heldur en sjálfur Veiðileysuhálsinn,“ segir Valgeir.

Kjörvogshlíðin er snarbrött og á ákveðnum kafla er þar mikil snjóflóðahætta. Lagfæringar á Veiðileysuhálsi myndu því gagnast fólki í Djúpavík sem hefur stundum lokast þar inn en ekki endilega þeim sem búa annars staðar í hreppnum. Verði Veiðileysuhálsinn lagaður verður hins vegara fljótlegra að moka hann og Kjörvogshlíðina sem drægi úr kostnaði við mokstur.

„Við trúum því að þetta muni lagast með því að það komi svona mikil innspýting hérna inn í sveitina,“ segir Magnús Karl. „Ég bara fagna hverjum mokstri sem þetta er að fá og það sem snýr að ferðaþjónustu eða sem sagt ferðir í kringum þennan mokstur. En í dag get ég ekki gert það. Ég get ekki boðið neinum það að koma hingað í óvissuferð og vera fastur hérna í tvo, þrjá mánuði,“ segir hann.

„Það verður aldrei vetrarvegur um Kjörvogsveginn. Til þess að það verði alvöru vetrarsamgöngur hingað þá verður að gera jarðgöng úr Árnesdalnum í Reykjarfjörð,“ segir Sigursteinn.

Friðlýsing og nýr þjóðgarður í myndinni?

Vesturverk segist ætla að taka þátt í ýmsum samfélagsverkefnum í Árneshreppi og segja að meðal þeirra verkefna séu tenging þriggja fasa rafmagns frá Hvalárvirkjun í Norðurfjörð, ljósleiðaratenging í hreppinn, hitaveita frá Krossnesi í Norðurfjörð, endurnýjun klæðningar á Finnbogastaðaskóla og uppsetning ýmissa áningastaða með bekkjum, borðum og skiltum.  

Í svari við fyrirspurn Kveiks segir að enn hafi ekki verið gert samkomulag við hreppinn um þessi verkefni. Þó hafi verið ráðist í endurbætur á planinu við Norðurfjarðarhöfn.  

Að auki er talið að aukatekjur sveitarfélagsins verði á annað hundruð milljóna króna á framkvæmdatímanum og tækifæri skapist til atvinnusköpunar. Samgöngur muni batna tímabundið en ganga til baka þegar framkvæmdum lýkur. Þó verði hægt að nýta nýjan jeppaslóða yfir Ófeigsfjarðarheiði og veg í Ófeigsfjörð á sumrin.

Landvernd hefur hins vegar bent á að betra væri að friðlýsa svæðið og stofna þar þjóðgarð. Við það myndu skapast eitt til tvö heilsársstörf og yfir sumartímann þyrfti töluverðan fjölda fólks í landvörslu. Hægt væri að tengja svæðið Hornströndum.

Í sama streng tekur Náttúrufræðistofnun sem Í fyrra lagði til við Umhverfisráðherra að stækka friðlýst svæði í námunda við Drangajökul. Tillagan er enn í vinnslu hjá Umhverfisstofnun. Í skýrslu sem unnin var fyrir samtökin Ófeig segir að friðlýsing Drangajökulsvíðerna sé til þess fallin að skapa ný atvinnutækifæri til langs tíma, bæði í ferðaþjónustu, opinberri þjónustu og í afleiddum greinum og stuðla þannig að eflingu byggðar.

Deyjandi byggð verði ekki aðhafst strax

Það ríkir ákveðin svartsýni meðal íbúa Árneshrepps um framtíð sveitarfélagsins. Flestir átta sig á að þetta er deyjandi byggð og þess ekki langt að bíða að hún fari í eyði, verði ekkert að gert mjög fljótt.

„Landbúnaður er á völtum fótum. Hann er mjög tæpur. Við erum bara fjórir núna eftir og ég er kominn yfir áttrætt,“ segir Sigursteinn í Litlu-Árvík. „Það sem hefði þurft að gera, það hefði þurft að gerast fyrir dálítið löngu síðan. Fyrst og fremst er þetta samgönguleysi,“ segir Hrefna á Árnesi 2.

„Þetta samfélag sem ég svona varð bara mjög heilluð af eða bara ástfangin af og flyt til það er samfélag þar sem er fólk sem að fæðist hérna og hefur alltaf verið hérna. Það samfélag er að klárast núna. Það er bara alveg, það er augljóst,“ segir Elín Agla.

Ekki allir sammála um hvað þurfi að gerast

Íbúar Árneshrepps eru allir sammála um að eitthvað þurfi að gera. Bara ekki hvað það eigi að vera.

„Við væntum þess að með þessari virkjun verði hægt að koma hérna allt árið og að þetta svæði verði þjónustað og að vegurinn verði lagaður og við trúum því. Við verðum náttúrulega bara illa svikin ef það gerir það ekki,“ segir Magnús Karl.

„Þetta mun einungis bara hjálpa okkur með ferðaþjónustu og hérna alla vega hingað til hefur ekki þurft á ferðamönnum sem ætla að fara þarna uppeftir og ég tala nú ekki um ef það kemur þarna sumarvegur yfir í Djúp þá erum við loksins orðið af hringnum hérna og auðveldara fyrir fólk að ferðast til okkar,“ segir hann.

„Það væri gaman að þróa annars konar ferðaþjónustu, vistvæna ferðaþjónustu því Ísland er fullkomið til að sýna áhrifin sem við getum haft á náttúruna,“  segir Thomas verslunarstjóri.

„Ég hitti margt fólk, meira að segja ferðamenn og sumir vilja helst flytja hingað en til þess vantar okkur nokkrar fjölskyldur. Ef nokkur börn flytja hingað væri hægt að fá skólann opnaðan á ný,“ bætir hann við.

„Þetta er góður staður fyrir börn, já. Þetta er afskekkt en hér er þessi náttúra og þetta litla samfélag. Fólkið er ekki langt undan. Þetta er fjarri streitunni sem fylgir búsetu í borgum og bæjum,“ segir Stephanie Gehringer-Kalt.

„Fólk vill fara aftur í einfaldara líf. Það vill komast útúr stressi og hætta að vera alltaf að lenda í kulnun og öllu þessu,“ segir Elín Agla.

Með náttúrunni eða byggð í landinu í liði

Í sinni allra einföldustu mynd mætti segja að í umræðunni um Hvalárvirkjun sé fólk annað hvort með náttúrunni í liði - eða byggð í landinu.

„Ég hef lagt mig eftir því að geta skilið báðar hliðar. Ég veit alveg hvað það er sem fólk vill sem vill þessa virkjun, hvað það er að hugsa um. Það eru ákveðnir peningar sem koma inn, það eru framkvæmdir og þetta gæti kannski laðað fólk að, eða þetta er alla vera eitthvað,“ segir Elín Agla.

Sigursteinn, bóndi í Litlu-Ávík, segir áform um fyrirhugaða virkjun í Hvalá koma allt of seint og efast um hvað hún muni gera fyrir Árneshrepp. „Ja, ekki þriggja fasa rafmagn. Þetta kemur bara allt of seint. Hún kemur bara allt of seint ef af verður. Hún hefði þurft að vera komin fyrir all mörgum árum. Hún kemur vonandi að notum fyrir Vestfjarðarkjálkann,“ segir hann.

„Ég fór að skoða þetta núna 2017 þegar þetta fór að vera svolítið meira til umfjöllunar og maður fékk að vita meira um framkvæmdina. Ég get ekki séð að þessi samfélagslegu jákvæðu áhrif séu nógu mikil til þess að að það sé ráðist í svona mikið inngrip í þessa náttúru,“ segir Elín Agla.

Björn Guðmundur Torfason, bóndi á Melum, segist hafa verið hlynntur virkjuninni. Hún muni skapa sveitarfélaginu tekjur „og svo vonar maður að það verði samgöngubætur líka.“

„Ég sé ekki hverju þetta á að skila, það er ekkert á borðinu, og á sama tíma er byrjað að skemma svona mikið,“ segir Hrefna.

Eftir standa stórar spurningar

Eftir standa þá kannski stórar spurningar. Getur Hvalárvirkjun leitt til þess að vegasamgöngur batni í Árneshreppi? – Nei, það veltur meira á þeim sem útdeila peningum í viðhald og mokstur til Vegagerðarinnar.

Getur Hvalárvirkjun bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum? Já, en það eru einnig aðrar leiðir færar til að gera það. Í hvað á orkan að fara? Það fáum við ekki að vita, fyrir utan það að tryggja raforkuöryggi þá daga sem Vesturlína klikkar.  

En stærsta spurningin er líklega; Hvort verður ofan á; fólkið eða náttúra landsins? Eða er kannski einhver leið til þess að hlúa að báðum í einu?