Hvað verður um Afríkulönd í heimsfaraldri?

Það eru ekki allar þjóðir jafn vel búnar undir heimsfaraldur og Íslendingar. Mörg þau lönd sem eru verst í stakk búin eru í Afríku sunnan Sahara, og þar blasir við allt annar veruleiki en á Vesturlöndum.

Þótt árangur hafi náðst síðustu áratugi í að bæta lífskjör í þróunarlöndum, búa enn hundruð milljóna manna í Afríku við sára fátækt og aðstæður sem teljast óheilnæmar á venjulegum degi, hvað þá í heimsfaraldri.

Í Afríkuríkjum sunnan Sahara er áætlað að aðeins fjórðungur fólks hafi haft aðgang að einfaldri handþvottaaðstöðu með sápu og vatni heima hjá sér 2017.

Farsóttin hefur breiðst hratt um heiminn, en hingað til hefur mest mætt á löndum í Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku. Það kann þó að breytast, og óvíst hve áreiðanlegar tölur frá Afríku eru, eins og Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar benti, á á blaðamannafundi fyrir helgi.

„Undanfarna viku hefur staðfestum smitum fjölgað um 51 prósent í heimsálfunni minni, Afríku, og dauðsföllum fjölgað um 60 prósent,“ sagði Ghebreyesus.

„Nú þegar erfitt er að útvega sýnatökubúnað er líklegt að fjöldinn sé enn meiri.“

Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum og fyrrverandi landlæknir, segir að ef faraldurinn nái svipuðu flugi í mörgum löndum Afríku sunnan Sahara og hann hefur náð í öðrum löndum eigi eftir að fara „mjög, mjög, mjög illa.“

Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir og fyrrverandi landlæknir.

Sigurður hefur tekið þátt í þróunaraðstoð í Malaví, sem er annað af tveimur Afríkuríkjum þar sem Íslendingar stunda þróunarsamvinnu á vettvangi, ásamt Úganda. Í þeim heimshluta eru aðstæðurnar allt aðrar en á Landspítalanum.

„Það vantar tæki, það vantar tól, lyf, stundum mannskap,“ segir hann.

Líta megi til þess hvernig lönd á borð við Kína, Bandaríkin og jafnvel Svíþjóð hafi þjáðst af völdum farsóttarinnar og verið illa undir hana búin, og velta fyrir sér hvernig Afríka myndi standa á slíkum þröskuldi.

Þó segir Sigurður að líka sé hægt að spekúlera og vera bjartsýnn. Mögulega gæti hlýtt loftslag og lágur meðalaldur hjálpað Afríku.

„En ég held að það sé ekki á vísan að róa. Ungt fólk veikist líka verulega.“

Sigurður bendir á að varasamt sé að alhæfa um Afríku, enda gríðarstór heimsálfa með rúmlega 50 ríkjum, á landsvæði sem er um þrefalt víðáttumeira en Evrópa.

Hann segir alveg ljóst að sum lönd Afríku eigi eftir að fara mun verr út úr faraldri en önnur. Til að mynda sé styrkur samfélagsins meiri í löndum eins og Botsvana eða Rúanda en í mörgum öðrum.

Afríka er gríðarstór og þar eru rúmlega 50 ríki, svo varasamt er að alhæfa um ástandið þar. Mynd: Ragnar Visage.

Ísland rekur sendiráð bæði í Malaví og Úganda. Þeim hefur verið lokað vegna faraldursins og Unnur Orradóttir, sendiherra í Úganda, er því á Íslandi í bili. „Maður hefur óneitanlega mjög miklar áhyggjur af stöðunni í Afríku,“ segir hún.

„Maður er ekki farinn að sjá þennan veldisvöxt og óttast það mjög.“

Hún segist ekki sjá fyrir sér hvernig verði hægt að einangra fólk, því það búi í mjög smáum húsum, „stórar fjölskyldur kannski bara með eitt herbergi, og í þessum fátækrahverfum til dæmis í Kampala, höfuðborginni, þar býr fólk mjög þétt, og meirihluti íbúa býr í þannig hverfum.“

Unnur Orradóttir er sendiherra Íslands í Úganda.

Helsta samstarfshérað Íslands í Úganda, Buikwe, hefur þegar beðið Ísland um hjálp.

Unnur segir að héraðið hafi óskað eftir hlífðarbúnaði, tækjum og alls kyns nauðsynjum, en líka aðstoð við að skipuleggja aðgerðir á staðnum og vera með eftirlit og fleira. „Þannig að í rauninni vantar allt.“

Sjúkdómar eins og malaría og berklar eru nú þegar skæðir í Afríkulöndum, og drepsóttin ebóla hefur endurtekið herjað á afmörkuð svæði frá því hún sást fyrst á áttunda áratugnum, nú síðast í Kongó.

Nú bætist kórónuveiran þar við, í landi þar sem ofbeldi, spilling og vantraust til stjórnvalda eiga vafalítið eftir að hamla aðgerðum.

„Það er mikið áfall að fá þennan sjúkdóm líka,“ segir Katungo Methya, sjálfboðaliði Rauða krossins í Kongó.

„Við höfum misst svo marga vegna ebóluveirunnar og nú bætist kórónuveiran ofan á. Allir eru hræddir. Allir eru skelfingu lostnir.“

Katungo Methya, sjálfboðaliði Rauða krossins í Kongó.

En hverjar sem beinar afleiðingar kórónuveirunnar verða í Afríku virðast þær óbeinu ætla að verða miklar.

Engilbert Guðmundsson þróunarhagfræðingur telur að að lokum séu allar líkur á því að efnahagslegar afleiðingar veirunnar eigi eftir kosta miklu fleiri mannslíf í Afríku en veiran sjálf.

„Við deyjum úr hungri áður en veiran drepur okkur“ sé frasi sem gangi frá manni til manns um alla Afríku núna.

Engilbert vann við þróunarsamvinnu í áratugi, var framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands frá 2011 þar til hún var lögð niður 2015, og áður meðal annars umdæmisstjóri Alþjóðabankans í Vestur-Afríkuríkinu Síerra Leóne. Nú er hann ráðgjafi fyrir utanríkisráðuneytið.

„Það er svo gífurlega stór hópur af fólki sem að vinnur í óformlega hagkerfinu, hefur lífsviðurværi sitt frá degi til dags. Það sem ég þéna í dag er það sem ég nota til að borða á morgun og svo framvegis.“ Þetta fólk þoli enga röskun.

Engilbert Guðmundsson þróunarhagfræðingur vann í þróunarsamvinnu í áratugi, meðal annars hjá Alþjóðabankanum.

En lífi margra hefur einmitt verið raskað. Í Naíróbí, höfuðborg Kenía, varð ringulreiðin svo mikil við matarúthlutun á föstudaginn langa að fólk tróðst hvert undir fótum annars.

Langtímaáhrifin gætu líka orðið skelfileg og árangur sem hefur náðst í að útrýma fátækt tapast.

„Því að þarna er allt að fara í stopp,“ segir Engilbert. Verðmætakeðja í landbúnaði hafi stöðvast, útflutningur á olíu og hrávörum hafi meira og minna stöðvast og sama megi segja um dagleg viðskipti, jafnvel þótt fólk stelist út.

Í skýrslu þróunarhagfræðistofnunar Háskóla Sameinuðu þjóðanna er því spáð að vegna farsóttarinnar gæti fátækt í heiminum aukist í fyrsta skipti í áratugi, og að fólki sem lifir við sára fátækt gæti fjölgað um tugi eða hundruð milljóna.

Engilbert segir að þegar sárafátækt aukist séu það konur og börn sem fyrst og fremst finni fyrir því.

Hann segist bíða eftir að sjá tölur um fjölda barna sem hafi fallið aftur í sára fátækt og vannæringartölur fyrir börn í framhaldi af faraldrinum.

„Það verða mjög ljótar tölur,“ segir Engilbert. „Ég er alveg sannfærður um það.“

Hann telur að ef hundruð milljóna manna falli í sára fátækt geti alveg tekið tíu eða tuttugu ár að snúa því til baka.

Það sem eyðileggist á stuttum tíma geti tekið langan tíma að setja saman aftur.

Áhöfn Gullborgar, breiðþotu Icelandair, á Keflavíkurflugvelli við heimkomuna á föstudag.

Stjórnvöld um allan heim hafa síðustu vikur leitað logandi ljósi að hlífðarbúnaði og tækjum til að berjast við faraldurinn. Landspítalinn á nú lager af hlífðarbúnaði, en það eru ekki öll ríki í jafngóðri stöðu og Ísland.

Gullborg, Boeing 767-breiðþota Icelandair, lenti á Keflavíkurflugvelli á föstudaginn eftir rúmlega hálfs sólarhrings flug frá Shanghai, með 16 tonn af varningi fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Það var ferð númer tvö til að sækja vörur til Kína.

„Þetta reddast“ voru skilaboðin á þessum kassa sem var í sendingu frá Kína með búnað fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi.

Það var sérstakt andrúmsloft á vellinum, þar sem floti Icelandair stóð óhreyfður, og hlaðmenn mokuðu pappakössum út úr vélinni.

Þegar komið var um borð tók við sjón sem maður á ekki að venjast í farþegaþotu. Búið að fjarlægja sessurnar úr sætunum og stafla kössum aftur eftir allri flugvélinni.

Allt pláss var nýtt, þar með talin farangurshólfin fyrir ofan sætin. Í allt munu hafa verið fluttir 1.778 kassar í þessari ferð.

Landspítalinn hefur nú látið flytja inn um 50 tonn af búnaði í þremur ferðum frá Kína.

„Að þessu loknu þá er staða birgða í landinu metin góð á öllum liðum hlífðarbúnaðar og einnig varðandi aðra þætti,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á upplýsingafundi Almannavarna á mánudag.

„Og þá er eðlilegt að spyrja hvort að við Íslendingar höfum þá verið að sanka að okkur umfram það sem að við þurfum, og svarið við því er nei,“ sagði Páll.

„Það sýndi sig líka að við vorum, þegar faraldurinn hófst, á rauðu með ýmsar birgðir framan af, og mátti litlu muna.“

Þótt þessar þrjár þotur af búnaði dugi til að koma litlu landi eins og Íslandi í ágætis stöðu, að minnsta kosti eitthvað áfram, væri það dropi í hafið í fjölmennum ríkjum Afríku. Og það er ljóst að mikið þarf til að tryggja að Afríkuríki hafi nauðsynlegan búnað, og að hann skili sér til allra.

Sigurður Guðmundsson segir að á meðan Vesturlönd bítist innbyrðis um lyf, hlífðarbúnað og fleira finnist honum „mjög ólíklegt að Afríka verði sett ofarlega á listann“ þegar kemur að því að úthluta þeim gæðum. „Því miður.“

Afríkuríki þurfa líka efnahagsaðstoð. Samtökin Oxfam, sem berjast gegn fátækt í heiminum, hafa komið með tillögu að björgunaráætlun sem kallar eftir útgjöldum upp á að minnsta kosti 2.500 milljarða dollara á heimsvísu.

Það er eitthvað í kringum hundraðföld árslandsframleiðsla Íslands.

„Þessi tala verður aldrei að lokum það sem að gerist,“ segir Engilbert. En allir séu sammála um að það þurfi átak sem sé stærra en nokkurn tímann hafi sést áður.

Unnur Orradóttir segir „gríðarlega mikilvægt“ að Vesturlönd stígi fram og aðstoði Afríku.

Það sé hagur allra að aðstoða Afríku, „því hún getur það ekki ein og sér. Það er alveg klárt.“ Vesturlöndum beri líka siðferðisleg skylda til að hjálpa Afríkuríkjum.

Engilbert segir að fyrir Íslendinga skipti „mestu máli að taka góðan þátt í alþjóðlegum ákvörðunum, að þær verði myndarlegar.“ En síðan eigi Ísland líka að leggja sitt á vogarskálarnar beint.

Spurð hvort komi til greina að Íslendingar sendi mögulega eitthvað af þeim búnaði sem hingað hefur verið keyptur út, segist Unnur ætla að vona að eitthvað verði afgangs og það verði hægt.

„Ef að við erum aflögufær, sem kannski ýmislegt gæti bent til að við verðum og jafnvel séum, þá er svarið já,“ segir Sigurður Guðmundsson. „Ég myndi íhuga það mjög, mjög sterklega.“

Engilbert segir að ríku löndin geti ekki leyft sér að sitja á búnaði „eins og ormur á gulli.“

„Við eigum líka dálítið undir því að það fari ekki allt í vitleysu,“ segir hann.

Ef efnahagslíf í Mið-Austurlöndum og Afríku, þeim heimshluta sem sé okkur næstur, hrynji af einhverjum ástæðum, séu allar líkur á að þar verði upplausn og nýr straumur flóttamanna „eða eitthvað viðlíka.“

Möguleikar Vesturlandabúa á að skilja faraldurinn að baki geti því truflast af sífelldri nýrri smitun út úr Afríku eða Mið-Austurlöndum.