*

Aðeins fjögur komust aftur heim

Shreeraj Laturia, sem missti eiginkonu sína, barnunga dóttur og mágkonu í bílslysi við Núpsvötn, segir að sér líði stundum eins og gildra hafi verið lögð fyrir fjölskyldu hans. Hann vill þó ekki firra sig ábyrgð á því sem gerðist.

Aðeins fjögur komust aftur heim

Árið 2018 hafði reynst Shreeraj og fjölskyldu hans erfitt. Eiginkona hans missti móður sína um vorið og fleira kom til. Aftur á móti höfðu þau eignast barn í ársbyrjun, svo árið hafði líka verið erilsamt.

„Við töldum að það yrði frábært að enda árið með ferð til Íslands,“ segir Shreeraj. „Okkur langaði að sjá fegurð norðurljósanna.“

En Íslandsferðin reyndist fjölskyldunni örlagarík.

Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.

Shreeraj ferðaðist til Íslands ásamt eiginkonu sinni, Rajshree, og tveimur börnum þeirra, Shreerupa sem þá var átta ára, og litlu systur hennar, Shreeprabha sem var ellefu mánaða.

Með í för var einnig Supreme, bróðir Shreeraj, eiginkona hans, Khushboo, og Noble, sjö ára sonur þeirra. Shreeraj og Rajshree eru fædd á Indlandi en fluttu til Lundúna árið 2005 og þar fæddust börnin þeirra.

Sjömenningarnir komu til Íslands á aðfangadagskvöld og ætluðu að vera í fjórar nætur. Fjölskyldan leigði sjö manna Toyota Land Cruiser á Keflavíkurflugvelli.

Næstu tvo daga, á jóladag og annan í jólum, fór hún í dagsferðir frá Hvolsvelli, skoðaði helstu náttúruperlur og dáðist að norðurljósunum.

Síðasta heila dag ferðarinnar ætlaði fjölskyldan svo að fara að Jökulsárlóni. Þetta var fimmtudagur, það var hægviðri, hiti rétt yfir frostmarki og ennþá íslenskt vetrarmyrkur þegar fjölskyldan lagði af stað um klukkan sjö um morguninn.

Shreeraj með dóttur sína, Shreeprabha, í fanginu. Við hlið hans stendur Rajshree, eiginkona hans, og við hlið hennar er Supreme, bróðir Shreeraj. Fyrir framan þau standa börnin Shreerupa, dóttir Shreeraj og Noble, sonur Supreme. Á myndina vantar Khusboo, eiginkonu Supreme, sem tók líklega myndina.

„Þann 27. fórum við snemma á fætur, hvíld og endurnærð. Sú litla var í góðu skapi og við höfðum okkur öll til; borðuðum staðgóðan morgunverð og lögðum af stað klukkan sjö um morguninn,“ rifjar Shreeraj upp.

Dóttir hans, Shreerupa, sem er orðin ellefu ára, sat aftur í bílnum.

„Ég var frekar þreytt svo að ég sofnaði í bílnum og ég hlýt að hafa dottið út eftir það í langan tíma.“

Shreeraj var undir stýri, en man ekkert eftir akstrinum.

„Þegar ég skoða staðsetningar-skrána mína á Google-kortinu sé ég að ég ók í nærri tvo og hálfan tíma þennan dag þar til slysið varð; en ég man ekkert eftir akstrinum.“

Frá Hvolsvelli að Núpsvötnum eru 189 km, en það var sú leið sem fjölskyldan keyrði þennan örlagaríka morgun.

Um klukkan hálf tíu komu þau að brúnni yfir Núpsvötn. Brúin er byggð 1973, er einbreið, 420 metra löng og næstlengsta brú á Íslandi. Timburgólf er á brúnni og járngrindur lagðar ofan á það. Töluverð ísing var þennan morgun. Vegurinn að brúnni hækkar um nokkra metra þangað til komið er upp á hana, og því er útsýni yfir brúna mjög skert alveg þar til ekið er inn á hana.

Brúin yfir Núpsvötn er næstlengsta brú á Íslandi, 420 metra löng.

Supreme, bróðir Shreeraj, sat í farþegasætinu við hlið ökumannsins. Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa er haft eftir honum að jeppinn hafi farið að rása skömmu eftir að honum var ekið inn á brúna. Shreeraj hafi reynt að ná stjórn á bílnum, án árangurs. Á miðri brúnni rakst jeppinn utan í vegriðið hægra megin, sem beyglaðist við höggið en brotnaði ekki. Bíllinn kastaðist hins vegar yfir vegriðið, fram af brúnni og lenti á hvolfi í grýttum aur um það bil átta metra fyrir neðan brúargólfið.

„Ég man skýrt að ég kallaði á mömmu og pabba, eiginlega öskraði.“

„Ég man að rétt áður en bíllinn fór út af brúnni þá vakna ég við högg,“ lýsir Shreerupa. „Ég missti svo meðvitund í fallinu og rankaði aftur við mér á bílgólfinu. Ég man skýrt að ég kallaði á mömmu og pabba, eiginlega öskraði." Hún gerði sér ekki grein fyrir því sem hafði gerst og varð ofsahrædd. Að lokum missti hún svo meðvitund.  

Þrjú létust í slysinu; Rajshree, 37 ára eiginkona Shreeraj, Shreeprabha dóttir þeirra sem var 11 mánaða og Khushboo, eiginkona Supreme sem var 33 ára. Hin fjögur slösuðust öll mjög mikið.

Kveikur heimsótti feðginin til Lundúna í maí. Þar hafa þau búið, tvö saman, faðir og dóttir, frá því að þau flugu heim frá Íslandi í janúar 2019. Hálf fjölskylda. Shreeraj segir að í huga sér sé mörgum spurningum ósvarað. Ekki aðeins um ökuferðina sem hann man ekki eftir, heldur ýmis önnur smáatriði, svo sem hvað gerðist síðustu sekúndurnar áður en bíllinn lenti á jörðinni: „Náði ég að líta á konuna mína á þessum tveimur sekúndum? Fóru einhver orð á milli okkar?“

Shreeraj fékk víðtækar blæðingar inn á heilann, svo læknar treysta sér ekki til að segja til um hvort minningarnar séu til staðar og gætu komið til baka, eða séu glataðar með öllu.

Þannig að þú átt mjög erfitt með að lýsa því sem gerðist þennan dag?

„Það er meira en erfitt; það er ógerlegt að muna hvað gerðist", segir Shreeraj og heldur áfram: „Ég hef varið umtalsverðum tíma, eins og þú getur ímyndað þér, fyrir mann sem glatað hefur næstum öllu til að lifa fyrir, í að hugsa um þennan örlagaríka morgun.“ Hann hafi reynt hvað hann getur að muna og púsla saman brotum, en nái samt ekki að koma öllu heim og saman.

Vegurinn að brúnni hækkar um nokkra metra þangað til komið er upp á hana, og því er útsýni yfir brúna mjög skert alveg þar til ekið er inn á hana.

Supreme, bróðir Shreeraj, náði að hringja í Neyðarlínuna þegar honum hafði tekist að komast út úr bílflakinu. Hann hafði ekki hugmynd um hvar hann var staddur og gat því ekki greint frá því hvar slysstaðurinn væri.

Neyðarlínan gat heldur ekki staðsett símann fyrr en búið var að senda sérstök skilaboð í hann sem var hægt að nota til að miða út staðsetninguna. Þetta var klukkan 9:42. 26 mínútum síðar, klukkan 10:08 kom Þorsteinn Matthías Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi, fyrstur á vettvang.

Þorsteinn Matthías Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi.

Þorsteinn var á bakvakt heima hjá sér þegar útkallið kom. Það var óljóst hvar þetta væri nákvæmlega en hann ók strax af stað í austurátt. Á leiðinni fékk hann sendar betri upplýsingar og þar var talað um brú. Honum datt þegar í hug að þetta gæti verið brúin yfir Núpsvötn.

Þegar hann ók yfir brúna var hins vegar ekkert að sjá, nema skarð í leiðara.

„En þegar ég kem á enda brúarinnar, þá stíg ég út og kíki niður fyrir brúna og sé þá að þarna er bíll og eitthvað fólk. Og ég hljóp þarna niður, undir brúna, í fyrstu hjálp,“ segir Þorsteinn.

„Hvaða lýsingarorð á maður að nota yfir þetta, bara hræðilegt. Það er í einu orði sagt þannig.“

Stuttu eftir að Þorsteinn kom á staðinn kom þangað Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur frá Kirkjubæjarklaustri. Þriðji maður á vettvang var svo Adolf Ingi Erlingsson, leiðsögumaður, sem var í hringferð um landið með fulla smárútu af ferðamönnum. Kveikur fór með Adolf Inga að brúnni í maí.

„Þegar ég kom að Núpum hérna aðeins vestar, þá sá ég blikkandi blá ljós fyrir framan mig", segir Adolf Ingi. Þegar hann kom yfir brúna sá hann tvo bíla við enda hennar; Skoda og lögreglubíl. Hann ákvað að stoppa og kanna hvort hann gæti aðstoðað. Þar hitti hann Auðbjörgu Brynju, hjúkrunarfræðing, sem bað Adolf Inga að hjálpa sér að bera búnað úr bílnum, því það hefði orðið alvarlegt slys fyrir neðan brúna.

Adolf Ingi Erlingsson leiðsögumaður var á meðal þeirra fyrstu sem komu á vettvang.

„Þetta var náttúrulega nöturlegt. Bíllinn, sem var Land Cruiser, lá hérna á hliðinni, allur náttúrulega lemstraður. Þegar ég kom að voru fjórar manneskjur komnar út úr bílnum, þrjár ennþá inni í bílnum.“ Hann sá að Shreeprapha litla lá lífvana til hliðar við bílinn, auk þess sem hann sá mann og tvö illa slösuð börn. Þorsteinn gat sagt honum að enn væri þrennt inni í bílnum sem væri ekki alveg vitað með stöðuna á.

Adolf Ingi gerði hvað hann gat til að aðstoða við afar krefjandi aðstæður.

„Börnin voru auðsjáanlega nokkuð illa farin,“ rifjar hann upp. Þannig hafi Noble til dæmis verið mjög alvarlega slasaður. „Fóturinn eða fótleggurinn var auðsjáanlega brotinn. Hann var bara í vinkli. Og stelpan var rænulítil.“

Adolf Ingi bauðst til að skríða inn í bílinn til að huga að þeim sem þar voru. Að fengnu samþykki fór hann inn um afturgluggann og þreifaði fyrir sér í myrkrinu. Þar fann hann Khusboo í andarslitrunum, Rajshree sem þegar var látin og Shreeraj sem var fastur undir mælaborðinu en með einhverri rænu. „Ég reyndi að róa hann, tala aðeins við hann og segja honum að við værum komin og myndum ná honum út og bjarga honum.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir við Landspítalann 27. desember 2018.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar fluttu þau slösuðu á Landspítalann.

„Ég man eftir að vera á gjörgæsludeild fyrstu tvo dagana og ég gat ekki gengið,“ segir Shreerupa. Hún styrktist svo smám saman og komst á fætur.

Shreeraj var haldið sofandi í nokkra daga, en hann slasaðist meðal annars alvarlega á höfði og hálsi. Hann var á Landspítalanum í tæpar tvær vikur, en var svo fluttur á sjúkrahús í Lundúnum þar sem hann var í hálfan mánuð til viðbótar.

Það tók hann langan tíma að átta sig á því að hann hefði misst bæði eiginkonu sína og dóttur.

„Ég áttaði mig fyrst á því daginn sem flogið var með okkur til baka til Lundúna. Móðir mín, sem flaug frá Indlandi til Íslands, segir mér að hún hafi sagt mér að ég hefði misst eiginkonu mína og dóttur. Að ég hefði skilið það og kinkað kolli og grátið og hefði svo aftur beðið hana um að hringja í konuna mína því ég vildi ræða við hana. Það hlýtur að hafa verið hræðileg staða,“ segir Shreeraj.

Móðir Shreeraj flaug frá Indlandi til Íslands þegar slysið varð.

Það er auðvitað ómögulegt að setja sig í spor þeirra sem hafa lent í slíku áfalli og missi. En það ætti þó ekki að koma neinum á óvart að síðan hefur varla liðið dagur sem Shreeraj hefur ekki hugsað um slysið við Núpsvötn.

Aðspurður segist hann telja að nokkrir samverkandi þættir hafi valdið því að eins illa fór og raun bar vitni. Hann segist geta nefnt vegakerfið, bílinn sem þau leigðu, daginn og veðrið.

„En fyrst og síðast er það ég og örlögin og hlutskiptið. Mér er ómögulegt að kenna einhverju einu um, því það væri ákveðinn flótti, einkum fyrir mig sem ökumanninn,“ segir Shreeraj.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem kom út einu og hálfu ári eftir slysið segir að hraðaútreikningur gefi til kynna að bifreiðinni hafi verið „ekið á um 114 plús/mínus 8 km hraða fyrir slysið.“ Hámarkshraði á brúnni var 90 km/klst. þegar slysið varð.

Hvernig viltu svara því?

„Ég hef reyndar hugsað mikið um þetta“, segir Shreeraj og heldur áfram: „Þau sem eru farin koma ekki aftur. Ég verð að þola þann missi. En ég vil endilega geta skilið hvað gæti hafa gerst. Ég man ekkert eftir deginum, en ég veit hvernig ég keyri. Ég var með ellefu mánaða dóttur í bílnum og tvö önnur börn, frænda minn og dóttur mína. Ég ek ekki hratt. Við vorum ekki að flýta okkur, við vorum ekki of sein. Af frásögn bróður míns er ekki að ráða að ég hafi ekið of hratt,“ segir Shreeraj.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa vildi ekki veita Kveik viðtal þegar eftir því var leitað, og sagðist ekki tjá sig um einstök mál. Í skriflegu svari frá nefndinni segir hins vegar að ákveðin óvissa sé alltaf fylgjandi hraðamælingum eftir slys, þar sem einhver atriði geti verið óþekkt eða tormælanleg.

Shreeraj segist hafa verið meðvitaður um að 90 km hámarkshraði var á svæðinu. Honum hafi reyndar fundist það undarlegt. Svo hár hámarkshraði þekkist ekki annars staðar á svo þröngum vegum.

Skömmu áður en komið er að brúnni yfir Núpsvötn er hámarkshraðinn 70 km/klst, en á brúnni sjálfri er hámarkshraðinn 50 km/klst. Þegar slysið varð var hámarkshraðinn á brúnni 90 km/klst.

Daginn eftir slysið lækkaði Vegagerðin hámarkshraðann á brúnni úr 90 í 50 km/klst.

„Auðvitað biðum við ekki boðanna þegar þessi ósköp dundu á. Og í kjölfarið var farið í stórátak við að taka niður hraðann á öllum brúm sem höfðu ársdagsumferð yfir 300 bíla,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

En er ekki vont að það þurfi svona slys til að hraðinn sé lækkaður, hefði ekki þurft að gera það fyrr?

„Það er alveg afleitt. En ég held hins vegar að þetta sé ákveðið þróunarferli. Og við vorum búin að setja upp þennan aðvörunarbúnað, eða aðvörunarmerkingar og blikkljós. Hugmyndin var að það varaði menn við þessum stöðum. Og að menn drægju af því ályktanir og færu varlega“, segir Bergþóra.

Hámarkshraðinn á Núpsvatnabrúnni var lækkaður úr 90 í 50 km/klst daginn eftir slysið. „Auðvitað biðum við ekki boðanna þegar þessi ósköp dundu á,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Shreeraj er þrátt fyrir þetta mjög gagnrýninn á aðstæður á slysstað.

„Ég hafði ekið tvo daga samfellt, farið að Geysi og í Bláa lónið og víðar. Samt kom þessi brú mjög á óvart, bæði brött aðkoman að brúnni og svo hve þröng brúin sjálf er. Í skýrslunni stendur að hiti hafi verið við frostmark og að hálka hafi verið á brúnni og ekki hefur málmgólfið hjálpað", segir Shreeraj og bætir við:

„Það er fádæma grimmd að láta ferðamenn, sem ekki þekkja til slíkra aðstæðna, aka í slíkum kringumstæðum án viðunandi viðvarana.“

Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að þau sem lifðu slysið af hafi sennilega verið með öryggisbeltin spennt. Í upphaflegri útgáfu skýrslunnar sagði hins vegar:

Sennilegt er að ökumaður og þeir farþegar sem létust hafi ekki verið með öryggisbeltin spennt. Ungabarnið var ekki fest í barnabílstól eða annan öryggisbúnað þegar slysið varð.

Kveikur hefur undir höndum sérstaka skýrslu, sem hægt var að keyra út úr svokallaðri loftpúðatölvu bílsins. Í þeirri skýrslu kemur skýrt fram að belti ökumannsins hafi verið spennt, þvert á það sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Í skýrslu sem hægt var að keyra út úr loftpúðatölvu bílsins kemur skýrt fram að belti ökumannsins hafi verið spennt, þvert á það sem kemur fram í upphaflegri útgáfu af skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Eftir að Kveikur benti nefndinni á þetta misræmi var skýrslunni breytt, og þar segir nú að Shreeraj hafi sennilega verið í belti.

Eins og áður segir vildi nefndin ekki veita Kveik viðtal um málið, en í skriflegu svari frá henni segir hins vegar:

Rannsóknarnefndin harmar að þessi mistök hafi átt sér stað og hefur bæði leiðrétt skýrsluna á heimasíðu nefndarinnar og sent ökumanninum afsökunarbeiðni.

Það er hins vegar ljóst að þau þrjú sem létust voru ekki með öryggisbeltin spennt. Eins og áður segir man Shreeraj ekkert eftir akstrinum þennan morgun, en hann efast um að hann hafi verið meðvitaður um að þrír farþegar aftur í bílnum hafi ekki verið með beltin spennt.

„Því miður voru kona mín og barn og mágkona ekki í öryggisbeltum,“ segir hann. „En við höfðum ekið stanslaust í tvo hálfan tíma, ekkert stoppað. Á einhverjum tímapunkti hlýtur barnið að hafa grátið, kannski var það svangt og konan mín tekið það í fangið til að gefa því. Það er möguleiki. En ég get ekki sagt að það sé ástæðan því ég man það ekki“, segir Shreeraj.

Aðspurður segir Shreeraj að fjölskyldan sé vön að nota bílbelti.

„Auðvitað, alltaf. Það er inngróinn vani að spenna beltið um leið og maður sest upp í bílinn.“

Í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar segir einnig:

Bifreiðin var búin nýlegum negldum vetrardekkjum.
Bifreiðin var tekin til bíltæknirannsóknar eftir slysið og kom ekkert fram í þeirri rannsókn sem skýrt getur orsakir slyssins.

Þrátt fyrir þetta gerir Shreeraj alvarlegar athugasemdir við bílinn, sem var 2006 árgerð og því 12 ára gamall þegar slysið varð.

„Það var ekki fyrr en eftir slysið, þegar ég las mig í gegnum skýrslurnar, að ég sá að bíllinn var yfir tíu ára gamall og var ekinn yfir 340 þúsund kílómetra. Hvaða bíll sem er, sem hefur verið ekið svo mikið getur ekki talist öruggur,“ segir hann.

Hann nefnir sem dæmi að í nýrri bílum hljómi aðvörunarhljóð ef farþegarnir eru ekki með beltin spennt. Það hafi ekki verið tilfellið með þennan tólf ára gamla bíl.

Í leigusamningnum sem Shreeraj skrifaði undir sést að bíllinn var keyrður 340.600 km.

Bergþór Karlsson, framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar, var formaður bílaleigunefndar Samtaka ferðaþjónustunnar í mörg ár. Hann telur ekki eðlilegt að hér séu leigðir út þetta gamlir bílar sem eru keyrðir mörg hundruð þúsund kílómetra.

Fyrir nokkrum árum sat hann í nefnd sem ætlað var að móta löggjöf um bílaleigur. „Þar vildum við að það yrði settur einhver hámarksaldur og hámarksakstur á bíla til útleigu en því miður var því ekki vel tekið“, segir Bergþór.

Hvers vegna var því ekki vel tekið?

„Menn voru að horfa á að þetta væri samkeppnisatriði þar sem væri verið að hefta fólk í að koma inn í greinina.“ Bergþór segir þetta ekki þekkjast annars staðar, að svona gamlir og mikið eknir bílar séu leigðir út.

„Þetta þekkist bara ekkert í öðrum löndum,“ segir Bergþór Karlsson, framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar, um að hér á landi séu leigðir út gamlir og mikið keyrðir bílar.

Bergþór segir fulltrúa hins opinbera hafa lagst gegn ákvæðum um hámarksaldur og -akstur á þeim forsendum að það væri samkeppnishamlandi.

Málefni bílaleigna heyra undir menningar- og viðskiptaráðuneytið. Kveikur hafði samband við ráðuneytið og fékk þau svör að það hafi ekki verið til formlegrar skoðunar að setja ákvæði um hámarksaldur eða hámarksakstur inn í lögin „þrátt fyrir umræðu á vegum stærri bílaleigufyrirtækja.“ Rökin gegn því séu þau að bílaleigubílar ættu að hafa staðist bifreiðaskoðun.

„Ég held að flestir setji einhverjar skorður. En hver sem er getur í raun og veru farið út í bílaleigu með hvaða bíl sem er, virðist vera,“ segir Bergþór og telur ýmsar hættur fylgja því að leigja misreyndum, erlendum ferðamönnum gamla bíla:

„Ef við horfum á „airbag“ og skriðvörn og alla þessa öryggisþætti sem eru í nýjum bílum, þá skipta þeir náttúrulega gífurlegu máli ef eitthvað kemur upp á.“

„Hver sem er getur í raun og veru farið út í bílaleigu með hvaða bíl sem er,“ segir Bergþór.

Í orsakagreiningu Rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem er eins konar niðurstaða nefndarinnar, segir meðal annars:

„Ökumaður virti ekki hámarkshraða né viðvörunarmerki við brúna, ók of hratt inn á hana og missti þar stjórn á bifreiðinni.“

„Vegrið á brúnni lét undan þar sem bil var í því yfir þenslurauf í brúnni.“

„Sennilega var veggrip á brúnni skert vegna ísingar.“

Þá segir í sérstakri athugasemd í skýrslunni:

Brúin yfir Núpsvötn var opnuð fyrir umferð árið 1973. Hönnunarstaðlar hafa breyst síðan þá og brúin stenst ekki núverandi staðla.

„Það er afar óheppilegt að svo sé,“ segir Shreeraj um að brúin standist ekki öryggisstaðla. „En það er einnig óheppilegt að þegar erlendir gestir koma til lands þíns, þá séu þeir ekki upplýstir um slíkar aðstæður. Stundum, og mér þykir leitt að segja það, finnst mér eins og gildra hafi verið lögð fyrir fjölskyldu mína.“

Bergþóra segir að brúin yfir Núpsvötn hafi verið ofarlega á forgangslista Vegagerðarinnar þegar slysið varð.

„Og hún hafði verið það um nokkurn tíma. En það er alveg klárt að þessar brýr, þessar einbreiðu timburbrýr með útskotum, eru barn síns tíma“, segir Bergþóra og bætir við að þar sé enginn sveigjanleiki, geri ökumenn mistök. Það hafi verið búið að ákveða að skipta brúnni út sem allra fyrst.

Á hinn bóginn sé vegakerfið byggt upp af samgöngumannvirkjum frá ýmsum tímum og þau lúti þeim stöðlum sem voru í gildi við byggingu þeirra. Það sé útilokað að endurnýja allt samgöngukerfið þegar nýir staðlar taki gildi. Það sé ekki sér-íslenskt, þannig sé það alls staðar í heiminum. „Þannig eru vegakerfi byggð upp“, segir Bergþóra.

„Vegriðið á þessari brú er bara eins og vegrið voru á þessum brúm 1973,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, um vegriðið á brúnni yfir Núpsvötn.

Það vakti furðu margra að vegriðið á brúnni skyldi ekki koma í veg fyrir að bíllinn þeyttist fram af. Aðspurð segir Bergþóra að brúin sé svo gömul að hún hefði ekki borið nútíma vegrið sem hefði mögulega stöðvað bílinn.

Fljótlega eftir slysið árið 2018 var ákveðið að byggja nýja brú yfir Núpsvötn. Sú vinna er langt komin og gert er ráð fyrir því að brúin verði tekin í notkun síðar á þessu ári. Nýja brúin verður steinsteypt, með akreinar í báðar áttir og byggð samkvæmt nýjustu stöðlum.

Þegar svona slys verður, eins og við Núpsvötn, þar sem vegakerfið á sinn þátt í því hvernig fer, finnst þér að Vegagerðin beri einhverja ábyrgð?

„Ég held að við berum fyrst og fremst ábyrgð á því að vinna vinnuna okkar rétt og vel miðað við þær fjárveitingar sem við höfum. Við ráðum ekki við meira,“ segir Bergþóra.

Verið er að byggja nýja brú yfir Núpsvötn, en hún mun standast nýjustu öryggisstaðla.

Saga Shreeraj og fjölskyldu hans er því miður langt frá því að vera einsdæmi hér á landi, þótt slysið við Núpsvötn sé vissulega eitt það hörmulegasta sem hefur orðið á Íslandi á síðari árum.

Á árabilinu 2012-2021 létust 119 í umferðarslysum hér á landi.

Þar af voru 78 Íslendingar, 18 erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi og 23 erlendir ferðamenn.

Það sem af er þessu ári hafa orðið átta banaslys til viðbótar.

Alls létust 119 manns í umferðarslysum frá 2012 til 2021. Átta hafa látist það sem af er þessu ári.

Þá hafa um 1800 slasast alvarlega í umferðinni á síðustu 10 árum; um 1400 Íslendingar, 140 erlendir ríkisborgarar og 265 erlendir ferðamenn. Þegar slysin eru skoðuð eftir landshlutum kemur í ljós að flest þeirra verða á höfuðborgarsvæðinu, eða 42%, enda umferðin langmest þar. Næstflest slysin verða á Suðurlandi, 17%. Færri slys verða í öðrum landshlutum.

Flest alvarleg slys verða á höfuðborgarsvæðinu, næstflest á Suðurlandi.

En hvernig stendur Ísland sig í alþjóðlegum samanburði? Ef skoðuð eru árin 2017 til 2021 kemur í ljós að Ísland er í 8. sæti af 29 Evrópulöndum þegar kemur að fjölda banaslysa í umferðinni á hverja 100.000 íbúa. Tvö þessara ára markast auðvitað af COVID-19, þegar fjöldi ferðamanna hrundi.

Ísland er í 8. sæti af 29 Evrópulöndum.

Og þótt ekki sé hægt að meta mannslíf til fjár er slysakostnaður umferðarinnar reiknaður sérstaklega. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni kosta umferðarslys samfélagið um 50 milljarða króna á ári.

Aðspurð segir Bergþóra að markvisst sé unnið að því að fækka slysum í umferðinni.

„Í umferðaröryggisáætlun eru sett töluleg markmið sem tengjast fækkun slysa. Og markmiðið er að slys, að við verðum á meðal fimm bestu Evrópuþjóðanna, og að slysum, alvarlega slösuðum og látnum fækki um 5% á ári,“ segir Bergþóra.

Þá bendir hún á að langflestu slysin sem verða í umferðinni hér á landi verði við útafakstur. Næstflest slysin verði svo við framanákeyrslur.

„Og þar af leiðandi eru þær aðgerðir sem við förum í í kjölfar svartblettagreiningar oftast þar sem verið er að laga axlir, gera þær meira aflíðandi, gera veginn meira fyrirgefandi og þá vegrið ef það er ekki hægt,“ segir Bergþóra.

Þorsteinn Matthías segir mikilvægt að aðskilja akstursstefnur sem allra víðast.

Þorsteinn Matthías segir að einn mikilvægasti þátturinn í því að fækka umferðarslysum sé að passa að ökumenn fari eftir þeim lögum og reglum sem gilda í umferðinni.

„Svo að auki þarf náttúrulega smátt og smátt að byggja samgöngukerfið upp þannig að það fyrirgefi smá mistök í umferðinni. Þá er ég náttúrulega að tala um einbreiðu brýrnar sem eru stórhættulegar, sérstaklega þessar styttri. Vegirnir eru náttúrulega almennt of mjóir, alveg frá Markarfljóti og austur, og of lítil öryggissvæði sem grípa bílinn ef eitthvað gerist. Og draumaheimurinn er náttúrulega sá að menn aðskilji akstursstefnur,“ segir Þorsteinn.

„Vegirnir eru náttúrulega almennt of mjóir, alveg frá Markarfljóti,“ segir Þorsteinn Matthías.

Þó að tilfinningar Shreeraj til Íslands séu blendnar, tók hann þá erfiðu ákvörðun að heimsækja landið aðeins rétt tæpu ári eftir slysið.

„Annars vegar varð ég fyrir sorglegri reynslu á Íslandi en hins vegar, þegar ég hugsa um slysið og eftirleikinn, þá er ég óumræðilega þakklátur landi ykkar og þjóð“, segir Shreeraj.

Hann er þakklátur viðbragðsaðilum á vettvangi, heilbrigðisstarfsfólki, starfsmönnum sendiráðanna og fyrir þá góðu umönnun og stuðning sem þau fengu: „Ég vildi hitta alla sem ég mögulega gæti, og fór þess vegna til Íslands árið 2019.“

Í því ferðalagi fór Shreeraj að Núpsvötnum, þar sem slysið varð. Þegar hann er spurður hvers vegna hann ákvað að fara alla leið þangað gerir hann örlítið hlé á máli sínu, og það er augljóst að það er honum mjög erfitt að rifja þá ferð upp.

„Ég fór til Núpsvatna ef svo færi að eitthvað kynni að rifjast upp fyrir mér. Mig langaði að vita hvort ég skynjaði sál eiginkonu minnar, hlátur barnsins míns í landslaginu þar. Og ég vildi taka með jarðveg frá staðnum, að eiga minningu um staðinn þar sem við áttum síðustu stund okkar saman, á stað þar sem við síðast
drógum andann saman.“

Feðginin halda minningarstund 27. hvers mánaðar, til þess að minnast þeirra sem létust.

Hann segist ekki vænta þess að jafna sig nokkru sinni þannig andlega að það tóm sem kona hans og dóttir skildu eftir verði nokkru sinni fyllt.

Eins segist hann skynja að Shreerupa hafi elst fyrir aldur fram. Hún var bara átta ára þegar hún missti bæði móður sína og litlu systur. Það hafi að einhverju leyti tekið frá henni æskuna.

Sjálf segist Shreerupa, sem nú er ellefu ára, leggja sig fram um að tala um þá sem hún hefur misst. Jafnvel þótt sumum finnist það óþægilegt. „Með því að rifja upp kærar minningar um fólk þá heldur maður anda þess á lífi“, segir hún.  

„Á vissan hátt hefur það tekið frá henni æskuna,“ segir Shreeraj um áhrif slyssins á Shreerupu.

Það er erfitt fyrir feðginin að rifja upp þennan hræðilega morgun við Núpsvötn milli jóla og nýárs árið 2018. Shreeraj segir hins vegar að með því að tala um slysið vilji hann koma ákveðnum skilaboðum á framfæri.

„Þegar þú hafðir fyrst samband við mig tók ég góðan tíma í að svara þér, eins og þú manst. Ég varð að hugsa mjög vel um þetta,“ segir hann, og heldur svo áfram:

„Að ræða hér við þig er svolítið eins og endurtekning á þessum hræðilega morgni. En mér finnst mikilvægt að Íslendingar viti til hvílíkra hörmunga svona slys leiða. Við lesum öll fréttir, heyrum um slys, að einhver hafi dáið, og við höldum bara áfram í okkar, og svo kemur nýr dagur og allt er gleymt. Ég er engin undantekning frá því. En því miður, þegar gjald er greitt fyrir eitthvað með lífinu, þá er það óafturkræft,“ segir Shreeraj.

„Það sem ég á við er að ég sit hér og er að tala við þig svo að þessi boðskapur hljómi hátt og snjallt: Að ef við getum komið í veg fyrir eitt slys, með einni breytingu, þá myndi ég halda að við höfum gert rétt.“