Heimilisofbeldi í skugga kórónuveirufaraldurs

Heimilisofbeldi hefur aukist um 10% í kórónuveirufaraldrinum, samkvæmt nýjum tölum ríkislögreglustjóra. Þá hefur tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgað, og fleiri börn en áður hringja sjálf í barnavernd til að greina frá slæmum aðbúnaði sínum.

Á lögreglustöðinni í Kópavogi er Hafþór Gauti Kristjánsson varðstjóri á vakt sem á tímum COVID-19 er töluvert öðruvísi en áður.

„Við til dæmis reynum að fara í flest öll útköll með grímur og hanska. Bæði til að verja okkur og aðra. Þannig að þetta er alveg krefjandi.“

Hafþór Gauti hefur starfað í lögreglunni í 14 ár, og hann hefur margsinnis farið í útkall þar sem grunur leikur á heimilisofbeldi.

„Heimilisofbeldi er kannski ekki alveg eins og fólk heldur, að maki sé að lemja hinn makann eða ganga í skrokk á honum, oft eru þetta börn að ganga í skrokk á foreldrum, eða systkini að slást, það er mjög algengt. Þetta er bara alls konar.“

Hafþór Gauti Kristjánsson varðstjóri.

Heimilisofbeldi hefur aukist mikið um allan heim síðan kórónuveirufaraldurinn braust út.

Það hefur til dæmis þrefaldast í Kína, aukist um ríflega 30% í Frakklandi og um rúmlega 20% í Bandaríkjunum og á Spáni.

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt að verja þurfi konur sérstaklega gegn heimilisofbeldi.

Gerendur nýta jafnvel öryggisráðstafanir til að stjórna ferðum og daglegri virkni þolenda sinna. Þá er hætt við að áfengis- og fíkniefnaneysla aukist í einangrun.

Ofan á þetta allt saman takmarkar samkomubann möguleika þolenda á að komast á brott og nýta þau stuðningskerfi sem í boði eru.

Lögreglan þarf að vera með grímur og hanska í öllum útköllum.

Hér á landi hefur tilkynningum til lögreglu um heimilisofbeldi fjölgað um 10% samkvæmt nýjum tölum ríkislögreglustjóra, einkum á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Norðurlandi eystra og á Austurlandi.

Tvær konur hafa verið myrtar á heimilum sínum frá því að faraldurinn braust út, og grunur leikur á að bæði mál séu heimilisofbeldismál. Þá hefur tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgað.

„Eitt af því sem gerist í svona árferði eins og núna er að menn verða svo ofboðslega máttvana gegn því hverju þeir hafa stjórn á í sínu lífi,“ segir Andrés Ragnarsson, sálfræðingur hjá Heimilisfriði.

Hann segir að þá grípi fólk til þess með örþrifaráðum að hafa stjórn á einhverju öðru. „Þetta getur verið hluti af því sem að eykur ofbeldi.“

Andrés Ragnarsson, sálfræðingur hjá Heimilisfriði.

Eftir að samkomubann tók gildi um miðjan mars hafa tímasetningar á útköllum lögreglu vegna heimilisofbeldis breyst.

„Undanfarið höfum við verið að fara í mál bara af því að það eru allir heima,“ segir Hafþór. Eitthvað sem gerðist sjaldnar áður. „Ofbeldið er farið að eiga sér stað bara á virkum degi, bara í hádeginu, og eitthvað sem við vorum meira að eiga við á nóttunni eða á kvöldin þegar fólk var komið heim úr vinnu og svoleiðis.“

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að oft hafi það gefið þolendum grið frá ofbeldismönnum að þeir sæktu vinnu: „Þannig að vinnustaðurinn eða sá tími sem ofbeldismaðurinn er í vinnu hefur líka verið svona ákveðinn griðastaður fyrir konuna sem er ekkert endilega til staðar núna.“

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

En hvers vegna eykst heimilisofbeldi á tímum faraldurs?

Andrés segir að ástæðan sé sú að kvíði eykst, fólk sé meira lokað af og faraldurinn skapi óvissu og óöryggi.

„Fólk veit ekki hvað er fram undan og þar sem fyrir er eitthvað sem er að, þá eykst það, það ýkist,“ segir Andrés.

Heimilisfriður sérhæfir sig í meðferð gerenda í heimilisofbeldismálum og eftirspurn eftir meðferð þar hefur snaraukist.

Fjörutíu og þrjú komu í meðferð þangað í hverjum mánuði að meðaltali fyrstu þrjá mánuðina í fyrra, en á sama tíma í ár hafa þau verið 60 að meðaltali á mánuði.

„En svo í bara í apríl þá eru yfir 80 viðtöl. Þannig að já, það er greinileg aukning og það er mikið að við finnum þessa þungu undiröldu líka.“

Andrés bendir á að eingöngu hluti gerenda í heimilisofbeldismálum leiti til Heimilisfriðar. Sumir leiti sér aldrei hjálpar.

„Það eru bara þeir sem vilja taka ábyrgð. Þeir sem ekki vilja það þeir koma ekki.“

Fólkið sem leitar til Heimilisfriðar er eins misjafnt og það er margt, og sögur þess ólíkar. Flest, eða um 85%, hefur sjálft verið beitt ofbeldi sem börn, og algengt er að ofbeldi tengist áfengis- og vímuefnanotkun.

„Að hafa upplifað ofbeldi sem barn, það er engin afsökun, það gefur þér ekkert leyfi til að lemja neinn að þú hafi verið laminn, ofbeldi er bannað, skilurðu. Það bara liggur fyrir,“ segir Andrés.

Um fjórðungur þeirra sem leita til Heimilisfriðar eru konur og 75% karlar.

Mesti munurinn á ofbeldi kvenna inni á heimilum og karla er líklegast sá að ofbeldi karla gegn konum er oft hættulegra en ofbeldi kvenna gegn körlum og ógnar oft lífi kvennanna sem verða fyrir því.

Sigþrúður segir að um helmingur kvennanna sem komi í athvarfið hafi óttast um líf sitt einu sinni eða oftar í sambandinu, og nærri helmingur þeirra hafi verið tekinn kyrkingartaki.

Heimilisofbeldi er ofbeldi sem fólk verður fyrir af hálfu einhvers sem er því nákominn, skyldur eða tengdur. Því er gjarnan skipt í fimm flokka: Líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi, kynferðisofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi og stafrænt ofbeldi.

„Aðstæður í heimilisofbeldi eru oft bara mjög skelfilegar,“ segir varðstjórinn Hafþór. Fólk sé að leita eftir aðstoð lögreglu vegna einhvers nákomins, ættingja, maka eða systkina, og hafi ekki í önnur hús að venda.

„Fólk er mjög oft bara grátandi með tárin í augunum og það er bara því líður mjög illa,“ segir hann.

Lögreglan lendi stundum í slagsmálum þegar hún komi á staðinn og þurfi að stía fólki í sundur, og þá sé til í dæminu að lögreglu sé ógnað með hnífum. „Ég hef alveg farið í heimilisofbeldi sem hefur endað í andláti. Það er svona já, botninn.“

Ágústa Ágústsdóttir var í ofbeldissambandi í 14 ár. Hún segir ofbeldismanninn hafa haft einhvers konar tangarhald á henni allan þennan tíma.

„Þetta var náttúrulega búin að vera gríðarleg vanlíðan, það var náttúrulega gríðarlegt andlegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. Maður er svo brotinn og þegar maður sýndi einhvern styrk, fór að sýna sjálfstæði, þá finnur hann einhverja leið til þess að brjóta það niður.“

Þannig hafi hún alltaf verið dregin inn í sambandið aftur á samviskubiti og niðurbroti og alltaf átti allt að lagast.

„Það er alltaf nóg til af afsökunum, og maður heldur svo mikið í þessa von, sérstaklega eftir því sem tíminn í sambandinu lengist, þá er miklu erfiðara einhvern veginn að sleppa tökunum og sérstaklega þegar það eru komin börn,“ segir Ágústa.

„Svo er einhvern veginn með tímanum bara einfaldara að halda friðinn. Maður verður svo tómur og orkulaus og svo ofboðslega þreyttur.“

Ágústa Ágústsdóttir var í ofbeldissambandi í 14 ár. Hún segir ofbeldismanninn hafa haft einhvers konar tangarhald á sér allan þennan tíma.

Ágústa segir að maðurinn hafi sem dæmi nýtt sér viðkvæmar upplýsingar um hana til að koma höggi á hana.

„Öll þessi rifrildi, lygarnar náttúrulega alveg svakalegar, minnstu smáhlutir, alltaf stóð maður samt sem áður í hárinu á honum sem endaði alltaf þannig að maður brotnar, maður fer inn og svo grætur hann, kemur, skríður, fyrirgefðu, elskan mín, ég ætlaði ekki að gera þetta, ég bara elska þig svo mikið, ég er bara svo hræddur um að þú farir frá mér, eða þú misskildir mig og þú ert miklu klárari en ég að tjá þig.“

Margar konur sem leita til Kvennaathvarfsins hafa svipaða sögu að segja, og oftar en ekki enda slíkar kvöldstundir á sáttakynlífi eða kynferðisofbeldi.

„Og það er kannski daglegur viðburður í þeirra lífi að, hérna, hafa tekið þátt í kynferðislegum athöfnum bara af skelfingunni yfir því sem gerist ef þær gera það ekki,“ segir Sigþrúður og bætir við: „Þá geti þetta klárast án þess að börnin vakni og fari að gráta og þurfi einhvern veginn að vera áhorfendur að nauðgun.“

Ágústa segist skilja vel þegar fólk velti fyrir sér hvers vegna hún hafi verið svona lengi í ofbeldissambandi. „Og það sem maður heyrir stundum fólk segja, ja, bíddu, af hverju fer hún þá alltaf aftur til hans, fyrst það er svona ofbeldi?“

Niðurbrotið sé hins vegar svo mikið og sjálfsmyndin léleg að erfitt sé að slíta sambandinu.

„Maður er með stanslausan efa og þú kannski líka búin að eyða mörgum árum í að berjast fyrir sambandinu, þú ert að berjast fyrir að laga hluti, alltaf, þá er þessi tilfinning svo sterk líka að ef að þú ferð þá ertu búin að sýna öllum hvað þú ert misheppnuð.“

„Oft segja konur það að ef þær hafa búið við bæði líkamlegt og andlegt ofbeldi að þá sé kannski andlega ofbeldið það sem fylgir þeim lengst,“ segir Sigþrúður hjá Kvennaathvarfinu.

Það sé vegna þess að andlegt ofbeldi geti átt sér stað alltaf, hverja einustu vökustund. „Þær lýsa oft mjög miskunnarlausu niðurbroti.“

Það getur verið erfitt fyrir margt fólk að átta sig á að það sé beitt ofbeldi, sérstaklega ef ofbeldið er af andlegum toga eða ef það er beitt kynferðisofbeldi, en einnig eru margar konur sem átta sig ekki á að þær séu beittar líkamlegu ofbeldi. Þetta kemur til dæmis fram í viðtölum við konurnar sem leita til Kvennaathvarfsins.

Konur segi sumar frá því að þær hafi ekki verið beittar líkamlegu ofbeldi en þegar þær eru spurðar um áverka þá segjast þær vera með þá en tengja þá ekki við líkamlegt ofbeldi.

„Af því að það áverkarnir komu eiginlega ekki út af ofbeldi heldur út af því að hún hafi hagað sér heimskulega og hún hafi gert, hérna, eitthvað sem varð til þess að hann ýtti henni og hún datt niður stigann og handleggsbrotnaði eða eitthvað slíkt. Við getum ímyndað okkur að ef það er erfitt að skilgreina líkamlegt ofbeldi hvað hversu erfitt er að skilgreina andlegt ofbeldi sem er beitt að manns nánasta sem veit alveg hvernig er hægt að ringla í hausnum á manni.“

„Það á að miklu frekar að beina athyglinni að meðvirkninni en ekki endilega gerandanum,“ segir Ágústa.

„Meðvirknin hún laðar að sér ofbeldismann. Meðvirkni og ofbeldi, þetta er svona einn eitraður kokteill og þú getur fyrirfundið og svo mallar sambandið og þetta verður einhver drullupollur.“

Eru einhver svona merki sem er hægt að líta til, einhverjar viðvörunarbjöllur? Andrés segir að svo sé. „Það eru það alltaf, auðvitað hávaði, læti, ótti, kvíði, einangrun er eitt af atriðunum sem oft verður mjög áberandi. Ofbeldismanneskja vill gjarnan einangra heimilið því að besti vinur ofbeldisins er alltaf leyndarhyggja um leið og versti óvinur ofbeldisins er í raun og veru umræðan og umtalið,“ segir Andrés.

Ofbeldi gegn börnum hefur aukist á tímum faraldursins. Sérstaka athygli vekur að töluvert fleiri börn höfðu samband sjálf við nefndirnar nú í mars en í venjulegu árferði. Þá tilkynna fleiri um en áður að börn kunni að vera í bráðri hættu.

„Sárustu sögurnar finnst mér vera sögur þar sem ofbeldi beinist að börnunum eða þar sem að ofbeldið hefur kannski gert líf barnanna að algjöru helvíti,“ segir Sigþrúður. Börnin hafi jafnvel engan stað til að leita á eða engan til þess að hlífa sér.

Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að rannsóknir sýni að heimilisofbeldi hafi mjög alvarleg áhrif á börn.

„Það að búa við heimilisofbeldi, jafnvel þó að ofbeldið beinist ekki að barninu, hefur svipuð áhrif á heila barna og búa og alast upp á stríðssvæði. Þannig að það er ótrúlega mikilvægt að bregðast við og grípa inn í ef að barn upplifir að það er heimilisofbeldi á heimilinu,“ segir Heiða Björg.

Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu.

Mörg ár geti tekið að vinna úr slíku, og sumir glími við vandamál langt fram á fullorðinsár, jafnvel alla ævi.

„Heilinn hann hreinlega þroskast öðruvísi, og ef það er ekki gripið inn í og veittur stuðningur þá getur það haft mjög langvarandi og jafnvel varanleg áhrif á barnið og framtíð þess,“ segir Heiða Björg.

Allt ofbeldi gagnvart börnum hefur skaðleg áhrif á þau, líka andlegt ofbeldi. Og tilkynningum um andlegt ofbeldi gagnvart börnum er líka að fjölga.

Heiða Björg segir að börnum finnist oft andlega ofbeldið verra en það líkamlega: „Þannig að þau glíma kannski lengur við afleiðingar andlegs ofbeldis heldur en til dæmis rassskellingu.“

Nýverið fóru svo að berast inn á borð til barnaverndarnefnda mál sem tengja má beint við samkomubannið sem tók gildi um miðjan mars, þótt skammt sé liðið.

„Það eru svona fyrstu málin sem við segjum að séu svona púra COVID-mál sem eru að koma inn í Barnahús þessa dagana, þar sem börn eru að greina frá ofbeldi og það er engin saga eða grunur um ofbeldi fyrir samkomubannið,“ segir Heiða Björg.

Búist er við því að álag á barnaverndarkerfið eigi eftir að aukast þegar frá líður. Það gerðist eftir efnahagshrunið 2008.

Heiða Björg óttast að tilkynningum eigi eftir að fjölga mikið þegar samkomubannið verður rýmkað 4. maí. Þá fara skólarnir í eðlilegt horf, og börn geta greint frá aðbúnaði sínum.

„Við vitum það bara að þegar að álag eykst á heimili, þegar að kvíði eykst, þegar að óvissa eykst, þegar að það koma fjárhagsáhyggjur, þá eru auknar líkur á ofbeldi og auknar líkur á vanrækslu inni á heimilu,“ segir Heiða Björg. „Og við vitum að við erum í akkúrat þannig ástandi í dag,“

Í tilfellum þar sem börn eru á heimilum ofbeldismanna ætti alltaf að hafa samband beint við barnavernd, jafnvel þótt aðeins sé grunur um ofbeldi gegn barni.

Heiða Björg segir að það sé einmitt hlutverk barnaverndarnefnda að rannsaka mál, og í langflestum tilfellum reyni nefndirnar að styðja við fjölskylduna þannig að aðstæður batni.

Andrés hjá Heimilisfriði bendir á að sé fólk í vafa geti það haft samband við lögregluna.

Þá sé hægt að hringja í Heimilisfrið eða í Bjarkarhlíð, og eins sé gott að hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717.

Sími Kvennaathvarfsins er einnig opinn allan sólarhringinn, og þar er hægt að leita ráða.

„En undir öllum kringumstæðum, ekki gera ekki neitt,“ segir Andrés.

Gerendur í heimilisofbeldi geta ýmislegt gert til að breyta hegðun sinni. Það er nefnilega hægt að fá hjálp, og mjög margir sem leita til að mynda til Heimilisfriðar hætta alfarið að beita ofbeldi.

„Hver einasta manneskja sem hefur komið til mín er bara svona venjulegt fólk eins og ég og þú sem hefur misst sig og gert erfiða og ljóta hluti jafnvel. Fólk sem á sér fína von um að geta breytt sinni hegðun, lagað og breytt,“ segir Andrés.

„Þegar við tökum á móti fólki þá lítum við alltaf fyrst og fremst svoleiðis á að þarna sé um að ræða einstaklinga sem kunna ekki annað en akkúrat þetta. Mitt hlutverk verður alltaf að kenna að þú átt að gera öðruvísi.“

Andrés segir að árangursmat Háskóla Íslands á starfsemi Heimilisfriðar hafi leitt í ljós að eftir meðferð hjá þeim hætti líkamlegt ofbeldi mjög fljótlega og taki sig ekkert endilega upp aftur.

Andlega og kynferðislega ofbeldið sé snúnara sem og óbeina ofbeldið, þ.e. að brjóta, eyðileggja og hóta.

„Það er oft snúnara og tekur mikið lengri tíma og það hefur mikið meiri tilhneigingu til að koma aftur.“

Fólk átti sig frekar á því að það þurfi að hætta að beita líkamlegu ofbeldi heldur en því andlega.

„Vegna þess að líkamlegt ofbeldi er býsna auðvelt að skilgreina. Ef þú slærð einhvern þá ertu búinn að beita hann ofbeldi, það er enginn millivegur á því. Andlega ofbeldið á sér grátt svæði.“

Heiða Björg bendir á að foreldrar sem beita ofbeldi séu ekki sjálfkrafa vondir foreldrar og það sé alltaf hægt að leita sér hjálpar.

„Og það er gríðarlega mikilvægt að við fordæmum ekki foreldra þó það verði mistök. Það er alltaf hægt að leita hjálpar og barnaverndin er í því númer eitt, tvö og þrjú að bæta aðstæður inni á heimili, svo börnin geti búið þar áfram þannig að fólk þarf ekki að óttast það að börn verði tekin af þeim í stórum stíl.“ Gerendur ættu hiklaust að hafa samband sjálfir.

Á heimasíðu Kvennaathvarfsins er að finna gátlista fyrir bæði gerendur og þolendur heimilisofbeldis. Með því að svara spurningunum er hægt að komast nær því að skilja hvað á sér stað innan veggja heimilisins.

„Við þurfum að sá þessum fræjum líka. Við þurfum að koma fram og tala,“ segir Ágústa. Það sé ekkert einfalt en það sé mikilvægt: „Þetta er kannski líka til að stíga þetta skref og segja: ég var þarna. Ég var þarna þar sem þið eruð, og ég var örugglega holdgervingur alls sem væri hægt að kalla meðvirkni. Samt komst ég út.“

„Ég varði hann alltaf eins og ljón,“ segir Ágústa Ágústsdóttir.

Ágústa segir að þótt það virki kannski ekki til að byrja með að nefna það við þolanda ofbeldis að viðkomandi þurfi hugsanlega hjálp, þá holi dropinn steininn.

„Ég varði hann alltaf alveg eins og ljón, þrátt fyrir að ég vissi innst inni betur. Þetta er svo ólýsanlegt einhvern veginn, þessi ofboðslega. Þú ætlar bara að láta þetta ganga. Þetta er búið að ganga svona í öll þessi ár, einhvern tímann hlýtur þetta að lagast, jú, núna fer þetta að koma, kannski á ég ekkert betra skilið. Ég var svo hörð að ég meira að segja hélt því á tímabili fram að sumar konur leituðu í svona athvarf eða annað, að þetta væru oft konur sem væru bara að ljúga upp á mennina sína til þess að fá forræði yfir börnunum. Maður var svo veikur í hausnum og það er allt svo órökrétt, og þú ert svo hrædd um það að ef þú slakar á taumunum í smástund að þá fer allt í klessu.“

Ágústa segir að það hafi hins vegar ekki orðið raunin. Hún hafi loks áttað sig á að hún þyrfti að gera eitthvað til að losna undan ofbeldismanninum og hafði samband við Aflið á Akureyri.

„Og hvað segir maður? Þegar þú ert að hringja fyrsta símtalið, þú veist. En á móti svaraði kona sem var alveg dásamleg. Og að upplifa sig allt í einu að vera komin í sömu spor og konurnar sem þú kannski gagnrýndir áður, þetta er alveg svakalega þungt spor.“

Ágústa fékk tíma í viðtal og þótt það hafi reynst henni mjög erfitt að mæta þar þá varð upplifunin allt önnur.

„Og svo var þetta bara eins og að setjast í sófa með einhverjum í vinkonuspjall og kaffi og allt í einu sat maður í herbergi með einhverri sem vissi nákvæmlega hvað þú varst að segja. Og mikið ofboðslega var þetta þungur baggi þegar maður fór inn en mikið ofboðslega var þetta mikill léttir. Þetta var svona alger frelsun, reiðin hún hvarf. Og ég get ekki lýst hvað þetta var dásamleg tilfinning þó allt væri í rúst.“