Harmur milljarða­mæringsins

Hann hefur vakið athygli sem einn óvenjulegasti auðmaður landsins: maðurinn sem óskaði þess að borga sem hæstan skatt og byggir hjólastólarampa um landið. En sagan nær lengra og er auðvitað flóknari. Bakgrunnur Haraldar Þorleifssonar litast af atburðum sem fáir vita um.

Það er betra að vera ríkur en fátækur. Það er betra að geta gert hluti sem mann langar til að gera. En það leysir hins vegar ekki nærri öll vandamál sem maður hefur. Það eru mjög margir dagar þar sem mér líður mjög illa og allskonar vandamál sem þetta leysir ekki.

Það vakti mikla athygli þegar Haraldur Þorleifsson seldi einum stærsta samfélagsmiðli heims, Twitter, tækni- og hönnunarfyrirtæki sitt. Söluverðið hleypur á milljörðum þó að nákvæm tala fáist ekki gefin upp.  

„Fyrir langflest fólk þá er þetta mjög mikill peningur,“ segir Haraldur. „En söluverðið var samt þannig að fyrirtækið sem ég átti gekk mjög vel. Söluverðið var ekki mjög hátt miðað við það.“

Haraldur valdi að fá kaupverðið greitt sem laun á Íslandi, að hans sögn til að borga sem hæsta skatta og styðja við heilbrigðis- og skólakerfið sem studdi hann sjálfan ungan. Honum varð að ósk sinni: var krýndur skattaprins í fyrra sem næst launahæsti Íslendingurinn með 1 300 milljónir í árslaun.  Hann starfar nú fyrir Twitter og sinnir auk þess ýmsum mannúðar- og menningarmálum.

„Það voru ekki til miklir peningar á heimilinu“

Haraldur ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og býr nú í hverfinu með fjölskyldu sinni, Margréti Rut Eddudóttur myndlistarkonu og tveimur börnum þeirra.  

„Það voru ekki til miklir peningar á heimilinu,“ segir Haraldur. „Pabbi var dúkari og mamma var búningahönnuður í leikhúsi og fyrir bíómyndir.“

Faðir Haraldar er Þorleifur Gunnlaugsson og móðir hans hét Anna Jóna Jónsdóttir.

Anna Jóna Jónsdóttir, móðir Haraldar. Mynd: Úr einkasafni.

„Ég held að hún hafi verið eins og mjög margar mömmur: besta mamma í heimi. Ótrúlega ljúf. Og hlý og skilningsrík. Ég man aldrei eftir að hafa séð hana reiða. Ég finn bara fyrir hlýju þegar ég hugsa um hana,“ segir hann og minnist barnæskunnar sem afar gleðiríkrar.

„Við vorum bara eins og hvolpar að hlaupa út um allt. Bara með lykla. Í minningunni var þetta mjög gott,“ segir Haraldur.

Heimurinn brotnaði

Það sem gerðist við ellefu ára aldur olli því að lífið varð aldrei samt. Þá var Haraldur í sinni fyrstu stóru utanlandsferð, í Disney World með föður sínum.

„Og það var náttúrulega rosaleg upplifun því ég hafði bara farið á róló, hérna á Íslandi,“ segir Haraldur.

Haraldur í Disney World í Flórída árið 1988. Mynd: Úr einkasafni.

„Síðan þegar við komum heim þá sagði hann mér að mamma hefði dáið meðan við vorum úti. Hún hafði lent í bílslysi.“

Haraldur segir að fráfall móður sinnar hafi verið sér ólýsanlegt áfall, og sé það eiginlega enn.

„Þetta er eiginlega enn þá mikið áfall fyrir mig. Stundum er talað um að tíminn lækni öll sár, en ég er ekki sammála því. Þegar ég hugsa um þetta þá finnst mér eins og heimurinn hafi bara brotnað, eða myndin hafi brotnað. Og hún hefur aldrei aftur komið til baka,“ segir Haraldur.

Haraldur hefur fest kaup á æskuheimili sínu við Norðurstíg, en býr þó ekki þar.

„Fyrir tilviljun þá benti vinur minn mér á það að íbúðin sem ég ólst upp í var til sölu þannig að við stukkum til og náðum að kaupa. Síðast fyrir nokkrum dögum þá vorum við hérna nokkrir gamlir vinir mínir sem voru vinir mínir líka þegar ég var lítill. Við komum hérna og spiluðum spil.“

Tónlistin berskjaldar

Á sínum yngri árum var Haraldur virkur í íslensku tónlistarlífi og hefur nú snúið sér aftur að því. Fyrsta sólóplatan, „The Radio Won’t Let Me Sleep“ er að koma út, fyrsta smáskífan er væntanleg nú í nóvember. Lögin á plötunni eru bæði ný og gömul.

„Ég var mjög mikið að semja og spila tónlist svona í kringum tvítugsaldur og aðeins fram eftir, og eiginlega byrjaði ekkert aftur fyrr en núna fyrir ári síðan,“ segir Haraldur.

Hann segir að fyrir sér sé það mjög persónulegt ferli að semja tónlist.

„Það er persónulegt að skrifa texta og syngja sína eigin texta. Og það getur verið mjög afhjúpandi, það er erfitt að fela sig á bak við eitthvað annað, eins og með fyrirtæki eða hvað sem er annað sem ég hef verið að gera. Í tónlist þá fer allt annað í burtu. Og þá er maður bara einn eftir. Og það er erfitt að vera dæmdur þegar maður er berskjaldaður.“

Og hvernig líður þér þá að vera að gefa út heila plötu?

„Ég reyni bara að hugsa ekki of mikið um það.“

Sigurður Guðmundsson er upptökustjóri og einn hljóðfæraleikara á plötunni. Sigurður kynntist Haraldi þegar hann var hljóðmaður á Grand Rokk í kringum 2004. Haraldur var þá stundum að spila á staðnum.

„Og ég var alltaf svo hrifinn af því sem hann var að gera“ segir Sigurður. „Það var eitthvað við röddina og eitthvað einlægt við þetta. En það sem mér finnst spennandi er að heyra hvað fólki á eftir að finnast og hvernig móttökurnar verða þegar það eru ekki endilega tengsl við það hver gæinn er, heldur þú heyrir bara eitthvað lag. Ég er svolítið spenntur að heyra hvað gerist þá,“ segir hann.

„En það er ekki hægt að neita því að röddin er einstök og það er eitthvað heillandi við þetta „sound“ í honum,“ bætir hann við, og lýsir tónlistinni sem einlægri og rólyndislegri.

Lætur sjúkdóminn ekki stjórna sér

Haraldur byrjaði að nota hjólastól í kringum tuttugu og fimm ára aldur.

„Ég er að verða fjörutíu og fimm. Þannig að það eru kominn tuttugu ár,“ segir hann.

Hann er haldinn meðfæddum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem þróast frekar hægt.

„Þetta gerist mjög hægt. Það eru til alls konar vöðvarýrnunarsjúkdómar. Og minn sjúkdómur er þannig, allavega hefur þróast þannig, að hann byrjaði í löppunum. Og síðan er hann búinn að færast upp í efri hlutann á líkamanum og er svona smám saman að taka af mér kraftinn í höndunum.“

Það er því ljóst að sjúkdómurinn mun há honum meira með hverju árinu.

„Ég er samt enn þá í afneitun, sko,“ segir hann. „Dag frá degi einhvern veginn bara þróast þetta. Ég held að það hafi verið gott og vont fyrir mig að ég hef aldrei hugsað um að hafa lífið þannig að þetta sé hluti af því, þannig að ég hef alltaf farið út í hluti sem ég kannski hefði ekki farið út í ef ég hefði verið alltaf að hugsa um þetta.“

Allt breyttist við að verða edrú

Haraldur hætti að drekka áfengi fyrir ellefu árum og segir nánast allt hafa breyst til hins betra við það.

„Dóttir mín fæddist nánast upp á ár eftir að ég hætti að drekka. Tveimur árum seinna stofnaði ég fyrirtækið og við fluttum til útlanda.“

Hann segist hafa notað áfengi sem deyfilyf.

„Fyrir suma er áfengi bara allt í lagi, en fyrir sum okkar sem erum með okkar vandamál þá er þetta rosalega mikið deyfandi. Og það er auðvitað það sem maður er að sækjast eftir. Það er eitthvað vandamál sem við erum að reyna að laga. Og ég var bara mjög deyfður í mörg, mörg ár,“ segir Haraldur.

„Ég held að svona þessi tvö stóru mál sem sækja alltaf á mig er náttúrulega að mamma hafi dáið þegar ég var svona ungur og síðan sjúkdómurinn sem ég er með. Báðir þessir hlutir höfðu þau áhrif að ég missti einhvern veginn tengsl við raunveruleikann,“ segir hann.

Haraldur segist hafa skipt út áfengi fyrir vinnu.

„Og allavega á þeim tíma, og kannski enn þá, þá fannst mér það alla vega skárri kostur. Ég notaði það eiginlega sem deyfingu, að vinna bara rosa mikið. Og þá þarf maður ekki að hugsa um alls konar annað.“

Glaður stundum

Hvernig heldurðu þér hamingjusömum?

„Þá gerirðu ráð fyrir því að ég sé hamingjusamur?“

Ertu það ekki?

„Nei, ég held ekki. Ég er oft glaður. Mér finnst gaman stundum. Hamingjan er held ég eitthvað stærra konsept sem ég hef ekki alveg náð að höndla.“

Aldrei?

„Jú. Þegar ég hugsa um þegar ég var krakki, þegar ég hugsa um þetta hugtak hamingjuna þá hugsa ég um svona fyrstu tíu árin mín. Þá fannst mér eins og ég væri hamingjusamur.“

Já. En eftir það: glaður stundum.

„Glaður stundum. Stundum ekki glaður. Það er erfitt að vera til.“

Vill ekki að börnin noti snjalltæki

Þrátt fyrir að Haraldur starfi nú fyrir Twitter og lifi og hrærist í heimi snjalltækja, vilja hann og kona hans, Margrét Rut Eddudóttir, ekki að börn þeirra noti slík tæki.

„Dóttir okkar er tíu ára. Ég held hún sé bara ein af fáum í sínum bekk sem er ekki komin með snjallsíma og ég held að það verði ekkert næstu árin,“ segir Haraldur.

Með þessu tekur Haraldur undir með fjölmörgum stjórnendum og frumkvöðlum í tæknigeiranum, svo sem Steve Jobs, stofnanda Apple; Bill Gates, stofnanda Microsoft, og Sundar Pichai, framkvæmdastjóra Google, sem hafa lýst því hvernig þau takmarka eða koma alveg í veg fyrir notkun barna sinna á snjalltækjum.

„Þessi tæki eru mjög erfið fyrir fullorðna,“ segir Haraldur. „Við verðum mjög auðveldlega háð þessu, og börn þá bara enn þá frekar. Ég held að við séum ekki enn þá búin að gera okkur grein fyrir því hvað við erum búin að búa til í þessum geira.“

Hann bendir á hversu stutt er síðan snjalltækin urðu til.

„Og á svona fimmtán árum þá er allt lífsmynstrið breytt hjá fólki. Það kæmi mér ekki á óvart að einhvern tímann í framtíðinni yrðu settar einhverjar takmarkanir á það hvernig þessi tæki eru notuð,“ segir Haraldur og ber saman við þær miklu takmarkanir á tóbaksreykingum sem hafa verið settar.

„Ég var aldrei hræddur þegar ég var með henni”

Í minningu móður sinnar nefndi Haraldur kaffihús sem hann er að opna í Tryggvagötu nafni hennar: Anna Jóna. Þar standa nú yfir framkvæmdir og stefnt að opnun fyrir jól. Og listamannsnafn Haraldar er einnig vísun í móðurina, tónlistarmaðurinn gefur út undir nafninu Önnu Jónu Son.

„Ég var búinn að vera að leita eftir því hvernig ég ætti að minnast hennar. Og tónlistin er svolítið hliðarspor í því sem ég hef gert. Mér fannst eins og það væri gott að hafa einhvern sér hjúp yfir því. Einhverskonar „imposter syndrome“ pæling: ef ég set þetta undir annan hatt þá kannski þori ég að gera meira.“

Hann segir að minningin um móður sína hjúpi sig og verndi.

„Eins og margar mömmur þá var mamma náttúrulega besta mamma í heimi. Og ég var aldrei hræddur þegar ég var með henni. Þannig að með því að hafa hana sem skjöld, þá get ég gert miklu meira,” segir Haraldur.