Frétt um rúnnstykki ein sú mest lesna

„Fréttir eru eitt form afþreyingar. Við erum að segja sögur af alls konar hlutum í þjóðfélaginu. Sumar eru mikilvægari en aðrar, en svo má alveg deila um það. Hápólitísk mál eru kannski ekkert mikilvægari en einhverjar mannlegar sögur úr lífi fólks.“

Frétt um rúnnstykki ein sú mest lesna

Þetta segir Birgir Þór Harðarson, forsíðuritstjóri á vef RÚV á fréttastofunni, í nýjasta þætti hlaðvarps Kveiks. Meðal mest lesinna frétta á árinu sé umfjöllun um rúnnstykki og hann útskýrir hvað býr þar að baki.

Þessi aukaþáttur í hlaðvarpi Kveiks er með aðeins öðru og árstíðabundnu sniði. Rætt er við fólk sem kemur að framleiðslu Kveiks, aðra en umsjónarmenn og pródúsenta, svo sem ritstjóra, tæknimann, grafíker, aðstoðarpródúsent, þýðanda og málfarsráðunaut. Kannað er í hverju starf þeirra felst og hvernig þau koma að Kveik.

„Mig langar að segja að þá fái ég að ráða öllu, en það er ekki alveg þannig. Þetta er lítill hópur og það hafa allir ýmislegt um hlutina að segja. En jú ég í rauninni er sú sem þarf að taka úrslitaákvarðanir,“ segir Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV og ritstjóri Kveiks, þegar hún er spurð að því hvað felist í ritstjórnarstarfinu.  

„Það er kannski svona mitt starf að það sé einhvers konar samhæfni í þáttunum í heild, sem þáttaröð, í raun og veru að búa til umgjörðina um þáttinn, það er þá bæði grafíkin og ljósmyndunin, svona hvernig þetta lítur út út á við,“ útskýrir Ragnar Visage, grafískur hönnuður Kveiks.

Hilmar Ramos þýðandi segist aðeins nota forritið Google Translate í störfum sínum í algjörri neyð. „Hjá mér persónulega er það oftast ef ég heyri einhverja erfiða norsku eða sænsku að þá reyni ég að skrifa það upp í Google Translate bara til að fá einhverja hugmynd og síðan fer ég svona hefðbundnari leiðir.“

Þá gefur Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðunautur áhorfendum góð ráð. „Mitt ráð er að njóta þess að hlusta á hvað fólk hefur að segja í staðinn fyrir að hlusta alltaf á það hvernig það segir það, og í staðinn fyrir að láta málvillur og málbreytingar fara í taugarnar á sér, að velta fyrir sér af hverju. Af hverju breytist málið og hver er ástæðan fyrir því?“

Að allri alvarlegri umfjöllun slepptri voru nokkur veigamikil jólamál borin undir viðmælendur og þau spurð út í jólahefðir og jólalög - og sitt sýndist hverjum. Á meðan sumir töluðu um að þurfa að sitja á sér og sýna mikinn sjálfsaga með að bíða með að hlusta á jólalög fram í desember voru aðrir sem sögðust alls ekki þola þau.

Þá bar á landflótta yfir hátíðirnar og nokkrir viðmælenda sögðust ætla að verja jólunum á ströndinni. Rakel Þorbergsdóttir sagði að jólalögin væru ómissandi til að kalla fram jólaandann á Kanarí og Atli Fannar Bjarkason, verkefnastjóri númiðla RÚV, sagðist vona að það yrði fastur liður hjá fjölskyldu sinni að flýja land og komast í sól í desember.

Einnig var flett ofan af ýmsum óhefðbundnum jólahefðum. Anna Sigríður greindi frá því að í forrétt á aðfangadagskvöld hjá hennar fjölskyldu væri réttur úr ORA fiskibollum í dós. Ekki fengust frekari upplýsingar um réttinn aðrar en þær að sósan er græn á litin. Uppskriftin sé háleynileg. Þá gaf Úlfhildur Eysteinsdóttir tæknimaður það upp að hún gæti vel hugsað sér að borða indverskan mat á aðfangadagskvöld, sem sumir hverjir myndu eflaust kalla jólalast.

Hlaðvarp Kveiks hefst á ný á nýju ári. Hlaðvarpið er í öllum helstu hlaðvarpsöppum og í appi og á vef RÚV. #Kveikur er fyrir alla þá sem vilja taka virkan þátt í umræðunni og [email protected] fyrir ábendingar.