Hafa reynt í 15 ár að ná tali af stjórnmálamönnum

Formaður Stofnunar múslima á Íslandi furðar sig á því að stjórnmálamenn þekkist ekki boð um að mæta til Stórmoskunnar til að kynna stefnumál sín fyrir innflytjendum. Aðeins fjögur þúsund af þrjátíu þúsund kosningabærum erlendum ríkisborgurum kusu í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Hafa reynt í 15 ár að ná tali af stjórnmálamönnum

Kosningaþátttaka innflytjenda er mjög lítil. Fram kom í Kveik í gærkvöldi að aðeins fjórtán prósent kosningabærra erlendra ríkisborgara kusu í  sveitarstjórnarkosningunum í fyrra. Karim Askari segir innflytjendur ekki kjósa meðan þau þekkja ekki til stjórnmálamanna og -flokka. Hann hefur lengi reynt að fá þá til að eiga samtal við múslima sem sækja bænastundir í Stórmoskunni.

„Við höfum reynum og höfum nú gert í 15 ár að fá þá: Halló, við erum hér, við erum hluti af þessu samfélagi. Við getum lagt samfélaginu lið en fram til þessa hafa fáir þeirra hlustað á okkur,“ segir Karim Askari, formaður Stofnunar múslima á Íslandi.

Frá bænastund í Stórmoskunni.

Hins vegar hafi lögreglan og Barnavernd þegið heimboðið og átt mjög upplýsandi fundi með fólki í moskunni. Karim segir mörg í hópi innflytjenda hafa alist upp við vantraust á stjórnmálamönnum. Þess vegna vilji forráðamenn Stórmoskunnar fá stjórnmálamenn til samræðna og þýða efni þeirra á nokkur tungumál. Karim segir hóp innflytjenda fjölbreyttan - mörg í þeim hópi tali hvorki ensku né íslensku og sum séu ekki læs.

„Ef maður skrifar dreifibréf eða bæklinga og kemur á framfæri þá er ekki mikið gagn í því. En ef komið er upp vinnusmiðjum, rætt beint við þá og verið með skýran málflutning, þá náum við árangri. Þetta var áætlunin sem við lögðum fyrir þá en við bíðum enn svara,“ segir Karim.