Gjóskufall og móða gætu valdið verulegum truflunum á lífi fólks

Kvikusöfnun og jarðskjálftar við Grindavík gætu verið upphafið að nýju eldvirknitímabili á Reykjanesskaga, með endurteknum eldgosum á þéttbýlasta svæði landsins.

Fimm virk eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga. Þegar byrjar að gjósa hefur gosið á þeim öllum, með hléum, á margra áratuga tímabili.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir að kerfið sem kennt er við Krýsuvík geti valdið einna mestum óþægindum.

„Hér höfum við fengið gos sem sendir hraun í báðar áttir, sem þýðir að þá skerum við af hluta skagans frá Reykjavíkursvæðinu og samskipti okkar meðan á eldgosi stendur og hraun renna yrðu þá á ferjum,“ segir Ármann.

Eldgos á landi yrðu að líkindum hraungos, en ekki hættuleg sprengigos. Verði gosin úti í hafi geta þau valdið miklu gjóskufalli.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að mannfjöldinn á Reykjanesskaga geti sett strik í reikninginn - tveir af hverjum þremur Íslendingum búa á svæðinu.

„Ef það verður gos, þá verður hugsanlega af því gjóskufall. Það myndast hraun sem fer yfir landsvæði og mun skemma allt sem á vegi þess verður. Svo er móða, brennisteinsmóða, hversu mikil hún er og útbreidd, það fer eftir stærð gossins. Bæði gjóskufall og móða geta valdið verulegum truflunum á lífi fólks á Stórreykjavíkursvæðinu, í Keflavík, Þorlákshöfn, jafnvel á Selfossi og því svæði,“ segir Þorvaldur.

Fjallað er um málið í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld.