Fimmta þáttaröð Kveiks að hefjast

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fer aftur í loftið á RÚV á þriðjudagskvöld. Í vetur verður þátturinn á dagskrá annan hvern þriðjudag klukkan 20:05.

Fimmta þáttaröð Kveiks að hefjast

Í fyrsta þætti vetrarins verður fjallað um fjölgun barna með offitu, stöðuna nú, úrræði og úrræðaskort. Offita barna hefur aukist mjög undanfarin ár eftir að tölurnar stóðu í stað á fyrstu árum nýrrar aldar.

Birtar verða niðurstöður nýjustu heilsufarsskimunar grunnskólabarna skólaárið 2020-2021. Þar kemur í ljós að nær tíunda hvert barn utan höfuðborgarsvæðisins glímir við offitu. Á sumum svæðum er hlutfallið tvöfalt á við höfuðborgarsvæðið.

Í seinni hluta þáttarins fjallar Kveikur um fólkið sem afþakkaði kóvid-sprauturnar, og spurt er hvaðan vantraust til bóluefnanna kemur. Rætt verður við fólk sem hefur mótmælt bólusetningum á Austurvelli og líka fólk sem er hikandi en hefur kannski ekki haft sig mikið í frammi.

Talað verður við tvo erlenda sérfræðinga um vantraust til bóluefna og spurt hvort óbólusettir séu ógn við samfélagið. Því er að sama skapi velt upp hvort bólusetningarumræðan hafi verið nógu upplýst.

Hægt er að lesa umfjallanir úr fyrstu fjórum þáttaröðum Kveiks og horfa á þætti í heild sinni hér á vefnum.

Áhorfendur eru sérstaklega hvattir til að senda ritstjórn Kveiks ábendingar um umfjöllunarefni.

Hægt er að hafa samband beint við frétta- og dagskrárgerðarmenn í gegnum Signal-appið sem er hægt að sækja ókeypis fyrir Android-síma og iPhone. Samskiptin eru dulkóðuð og upplýsingar aðeins vistaðar hjá notendunum sjálfum, en ekki á netþjónum Signal. Með Signal er bæði hægt að senda skilaboð í símanúmer og hringja.

Einnig er hægt að hafa samband með því að senda línu á netfangið [email protected] eða á netföng einstakra frétta- og dagskrárgerðarmanna.

Kveikur er líka á Facebook, Instagram og Twitter, og þar er hægt að fylgjast með og senda ritstjórninni skilaboð.