Farið verður í saumana á rannsókn lögreglu

Yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir miður hvernig komið var fram við aðstandendur ungrar stúlku sem lést úr MDMA-eitrun haustið 2019. Hann segir að farið verði í saumana á málinu.

Farið verður í saumana á rannsókn lögreglu

Kveikur fjallaði á fimmtudagskvöld um rannsókn lögreglu á andláti Perlu Dísar Bachmann Guðmundsdóttur sem lést aðeins 19 ára gömul á heimili kærasta síns.

Margt bendir til þess að rannsókninni hafi verið ábótavant og að veigamiklir þættir hafi aldrei verið skoðaðir.

Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur krafist skýringa á starfsháttum lögreglunnar, og ríkissaksóknari hefur einnig gert athugasemdir við rannsóknina.

Móðir Perlu lýsti því að vinnubrögð lögreglu hefðu litast af fordómum og vanþekkingu.

Margeir Sveinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir miður ef einhverjir starfsmenn lögreglu hafi sýnt af sér fordóma. Slíkt eigi ekki að eiga sér stað.

„Þetta er klárlega gegn gildum embættisins, og þetta er bara eitthvað sem við verðum að skoða sérstaklega,“ segir hann.

Sjáðu umfjöllun Kveiks um andlát Perlu Dísar í heild.

Í þættinum kom fram kona sem sagðist hafa leitað til lögreglu og lýst því hvernig reynt var að byrla henni nauðgunarlyf og henni svo nauðgað. Lögreglan hafi ekki séð ástæðu til að taka af henni skýrslu.

„Ef þetta hefur verið með þessum hætti þá er þetta eitthvað sem við þurfum að skoða alveg klárlega,“ segir Margeir.

Ríkissaksóknari sendi lögreglustjóra tillögur til úrbóta við rannsókn mála af þessum toga. Kveikur óskaði eftir að fá þær tillögur, en þeirri beiðni var hafnað.

„Það er alveg klárt mál að þarna eru þættir sem að koma frá og ábendingar frá, frá ríkissaksóknara sem að ég er alveg sammála að þurfi að skoða betur, eins og kom þarna fram í þættinum, með þætti sem að hefði mátt og við þurfum bara að skoða, þeir eru fjölmargir,“ segir Margeir.

Hann segir að meðal annars verði oftar haft samband við réttarmeinafræðing, og það sé eitt af því sem þegar hefur verið gert.

„Það er að taka sýni í öll skipti þegar einhver er grunaður á vettvangi. Það hefur verið matsatriði, sem og líka hvort það eigi að kalla til réttargæslumann og þess háttar, og fleiri svona atriði sem menn hafa metið á staðnum.“

Margeir Sveinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Margeir segir að í framtíðinni verði unnið öðruvísi.

„Þá munum við bara gera ákveðin atriði, framkvæma ákveðin atriði sem við höfum verið með sem lögreglumenn hafa metið á staðnum. Það er eiginlega það sem að má segja að stendur upp úr.“

Farið verði ofan í saumana á rannsókn andláts Perlu Dísar. „Það er klárt,“ segir Margeir.