Erfitt að viðurkenna að maður geti þetta ekki lengur

Þegar Sara Hrund Helgadóttir hélt út á völlinn með félögum sínum í fótboltaliði Grindavíkur sólríkan ágústdag 2017 datt henni ekki í hug að leikurinn á móti ÍBV yrði síðasti fótboltaleikurinn hennar. En tveimur vikum síðar skrifaði hún færslu á Facebook og tilkynnti að hún yrði að leggja skóna á hilluna.

„Sjötti heilahristingurinn staðreynd og stöðug barátta við höfuðverki í 8 ár vegna rangra viðbragða vegna höfuðhöggs því miður niðurstaðan. Fótbolti hefur verið líf mitt síðustu 20 árin og þess vegna lét ég þetta ekki stöðva mig enda hefur fótboltinn gefið mér svo mikið, meðal annars að fara til USA og upplifa drauminn minn. En núna er tími til þess að stoppa og hlusta á líkamann, eftir að ég rotaðist í leik fyrir rúmum 2 vikum og hélt áfram að spila í rúmar 15 mínútur og eftir það hefur daglega lífið mitt raskast verulega. Á 2 vikum fór ég frá því að spila heilan fótboltaleik án vandræða í 10 mínútna göngutúr með vandræðum.“

Ákvörðun Söru Hrundar kom félögum hennar og knattspyrnuheiminum í opna skjöldu. Bráðung kona og algjört hörkutól lét höfuðhögg slá sig út af laginu. En höfuðhögg og heilahristingur eru ekkert grín, eins og nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós.

Þegar hópur íslenskra vísindamanna auglýsti eftir íþróttakonum til að taka þátt í rannsókn á heilahristingi, voru viðbrögðin margfalt meiri en nokkur bjóst við. Hlutfall kvenna sem glímt höfðu við erfiðar afleiðingar höfuðhögga var hærra en vísindamennina grunaði og nánari rannsókn á hormónastarfsemi íþróttakvennanna leiddi í ljós að hjá mörgum þeirra er óregla á hormónum, sem veldur enn frekari vandkvæðum. Þær glíma við þunglyndi og kvíða, höfuðverk og þrekleysi sem er á köflum svo slæmt að þær eru hættar íþróttum og geta hvorki stundað vinnu né nám.

Sara Hrund kannast við þetta og viðurkennir að það sé erfitt fyrir unga, fullfríska konu að hætta.

„Já, mjög, mjög erfitt. Og líka að horfa upp á alla í kringum sig vera á fullu í boltanum eða úti að hlaupa eða í vinnunni. Allir þessir sjálfsögðu hlutir voru orðnir eitthvað sem maður þráði svo mikið. Og það var mjög erfitt. Erfitt líka að viðurkenna fyrir sjálfri sér að maður geti þetta ekki lengur.“

Sara Hrund Helgadóttir hjá sjúkraþjálfara
Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson / Kveikur

Daglegt líf var Söru Hrund nánast ofviða fyrst eftir höfuðhöggið en afleiðingar heilahristings margfaldast fylgi annað höfuðhögg í kjölfarið, eins og raunin var hjá henni.

„Og þetta úthaldsleysi spilar mikið inn í þegar þú kemst ekki fram úr rúminu. Þess vegna var svona rosalega mikilvægt að fá þetta þrek aftur og geta gert þessa daglegu hluti. Bara að labba út í búð og hitta vinkonurnar í kaffibolla. Maður er ekki að tala um að fara á fótboltaæfingu. Maður er að tala um þessa pínulitlu hluti sem maður gat ekki gert. Þannig að bara það að geta haldið smá daglegri rútínu skiptir svo rosalega miklu máli og andlega heilsan jókst mikið með úthaldinu“ segir Sara, sem ber sig þó vel og hefur náð miklum framförum með meðferð.

Í Kveik í kvöld verður fjallað um nýja, íslenska rannsókn á höfuðhöggum íþróttakvenna, rætt við vísindamennina sem að henni standa og Söru og fleiri íþróttakonur sem glíma við erfiðar afleiðingar höfuðhöggs.