Ekki hægt að stunda rekstur á afsláttarkjörum

„Í mínu tilfelli var það þannig svona undir lokin að ég vann myrkranna á milli, alveg fleiri hundruð klukkutíma í mánuði, tók sjaldan frí og gat ekki borgað mér laun. Þannig að það fór eiginlega svona botninn af ástæðunni fyrir því að vera að reka veitingastað.“

„Ég held að flestir veitingamenn eða matreiðslumenn sem opna veitingastað séu að gera það til þess að fá að leika sér og fá að skapa. Svo er það náttúrlega þetta grunnatriði að sjá sér lífsviðurværis.“

Kveikur fylgdi eftir Sveini Kjartanssyni, matreiðslumanni og rekstraraðila veitingarstaðarins Aalto Bistro í Norræna húsinu, og starfsfólki hans, þegar tæp vika var í að staðnum yrði lokað.

„Það var fyrir þrem mánuðum síðan sem ég sagði öllum upp og settist niður og talaði við hvern og einn og rétti honum uppsagnarbréf.“

Sveinn segir að forsendur fyrir einyrkjaveitingahúsarekstri séu brostnar að vissu leyti. Lítið sé um hagræðingarmöguleika. Þá stjórni milliliðir í ferðaþjónustu því hvaða veitingahús eru valin.

„Þau eru mjög fylgin sér í því að fá mjög góða díla fyrir sjálf sig. Sumir voru að tala um eina fría máltíð á móti hverjum tíu máltíðum. Svo mættu kannski ekki einu sinni tíu. Að reka veitingastað á afsláttarkjörum er bara ekki hægt.“ Ekki sé gefinn afsláttur af öðrum rekstrarkostnaði, bætir Sveinn við.