Alvarleg mistök í heilbrigðiskerfinu í hverri viku

Að minnsta kosti einn sjúklingur á viku, að meðaltali, verður fyrir alvarlegum mistökum, óhappi, eða vanrækslu í heilbrigðiskerfinu, sem getur valdið varanlegum örkumlum eða dauða. Tilkynningum um slík atvik hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum.

Alvarleg mistök í heilbrigðiskerfinu í hverri viku

Árlega verða meira en tíu þúsund atvik á öllum heilbrigðisstofnunum landsins þar sem sjúklingur verður fyrir heilsutjóni, eða hefði getað orðið fyrir því, vegna mistaka, vanrækslu eða óhapps. Langflest atvikanna flokkast ekki sem alvarleg. 51% eru byltur eða föll en 14% tengjast lyfjagjöf, samkvæmt ársskýrslum Embættis landlæknis.

Alvarlegu atvikin, þau sem ollu eða hefðu getað valdið varanlegum örkumlum eða dauða, voru 64 tilkynnt á síðasta ári, sem er hlutfallslega sambærilegt við það sem gerist á Vesturlöndum. Tilkynningar um slík atvik hafa nærri tvöfaldast á undanförnum árum.

Heimild: Ársskýrslur Embættis landlæknis

Eitt meginhlutverk Embættis landlæknis er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og ber að tilkynna alvarleg atvik til embættisins.

Alma Möller, landlæknir, segir að aukning geti annars vegar stafað af því að alvarlegum atvikum sé að fjölga, og hinsvegar af því að fólk sé meira meðvitað og viljugra til að skrá atvik.

„En þau gerast af því að að heilbrigðisþjónustan er svo óendanlega flókin. Í rauninni hefur tæknin og getan vaxið hraðar en okkur tekst að halda í við með þekkingu og öryggi,“ segir Alma.

„Það er erfitt að koma í veg fyrir atvik, en það er búið að reyna að áætla það og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er hægt að koma í veg fyrir helming atvika.“

Alma segir markvisst unnið að því að fækka atvikum.

Í Kveiksþætti kvöldsins verður fjallað um öryggi sjúklinga og mál Bergþóru Birnudóttur sem örkumlaðist við fæðingu eins stærsta barns sem fæðst hefur á Íslandi á síðustu áratugum. Hún undirbýr nú stefnu á hendur ríkinu vegna mistaka sem hún segir hafa átt sér stað í mæðravernd og á fæðingardeild Landspítala í hennar tilviki.

Bergþóra Birnudóttir örkumlaðist við fæðingu eins stærsta barns sem fæðst hefur á Íslandi.

Bergþóra er sjálf hjúkrunarfræðingur og telur tregðu meðal heilbrigðisstarfsmanna við að viðurkenna mistök.

„Við þurfum að taka þessi mál í gegn og búa til miklu betra verklag utan um hjúkrunarfræðinga og lækna sem eru að starfa þannig að það verði í rauninni bara eðlilegur hluti af starfinu að viðurkenna mistök,“ segir Bergþóra.

Kveikur er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20:05.