Lára Ómarsdóttir, Ingólfur Bjarni Sigfússon

Fjölda mörg fyrirtæki og stofnanir hafa hlutverki að gegna í áætluninni en gert er ráð fyrir að allt að helmingur starfsfólks gæti þurft að vera frá vinnu. Og það er ekki bara hægt að skella í lás.

Sum fyrirtæki gegna nefnilega lykilhlutverki í að halda samfélaginu gangandi. Þess vegna þurfa fyrirtæki eins og bankar, lyfjafyrirtæki, matvælaframleiðendur, fjarskiptafyrirtæki og matvöruverslanir, svo eitthvað sé nefnt, að tryggja eins og hægt er að þau geti starfað áfram.

„Eftir kvöldið í kvöld þá er þetta er eini staðurinn sem þið megið vera á, þið megið ekki fara á milli staða,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþónn hjá ríkislögreglustjóra, þegar Kveikur fylgdi honum eftir daginn áður en tilkynnt var um samkomubann.

„Svo eru þessar sóttvarnarráðstafanir hússins að byrja, taka á gildi á miðnætti, þá verður allt lokað húsið sko, þannig að það eru engir - þetta var síðasti dagurinn sem við gátum gert þetta sko.“

Allir verða að taka þátt

Samkvæmt lögum ber öllum að fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis eða Almannavarna þegar kemur að smitvörnum. Fari fólk ekki eftir tilmælunum má sem dæmi handtaka fólk og færa í einangrun gegn vilja þess.

„Auðvitað eru einhverjar lagaheimildir en eins og oft þegar við erum að tala um krísur þá þurfum við yfirleitt ekkert að beita þeim heldur vilja allir bara vera með.,“ segir Víðir.

Í neyðaráætluninni er tekið á því hvernig tryggja skuli matvælaöryggi í landinu. Ákveðnar skyldur hvíla á framleiðendum matvæla sem og um dreifingu matvæla. Þannig þurfa til dæmis matvöruverslanir að hafa opið eins og lengi og auðið er, dreifa matarpökkum til heimilia í sóttkví í samvinnu við björgunarsveitir og leigubílafyrirtæki og tryggja öryggisgæslu við innganga í samvinnu við lögreglu ef nauðsyn krefur.

„Við ákváðum að hafa þetta inni til þess að bara ef það kæmi eitthvað slíkt ástand en matið okkar svona þegar líður á þennan tíma að samkenndin í samfélaginu er með þeim hætti að þetta var svo sem auðvitað fjarlægur möguleiki áður og mér finnst hann bara ennþá fjarlægari núna og áætlanir okkar gera ráð fyrir því að reyna að tryggja matvæladreifingu eins og hægt er þannig að ég hef ekki trú á að þetta sé eitthvað sem við þurfum að hafa sérstækar áhyggjur af,“ útskýrir hann.

Ætti fólk að byrgja sig upp af mat og vera undir það búin að bara verslanir loki?

„Það er hluti náttúrulega af áætluninni að hvetja fólk til þess að það eigi mat ef það lendir í sóttkví það er kannski fyrst og fremst það sem við höfum verið að horfa á,“ svarar Víðir.

Gætu skipt landinu upp

Einn möguleiki í heimsfaraldri er að það þurfi að stúka landið af, setja upp sóttvarnasvæði, afkvía landið eins og það er kallað í viðbragðsáætluninni. Landinu er skipt í sóttvarnaumdæmi og ef til þess kæmi að hefta þyrfti útbreiðslu um landið allt taka almannavarnanefndir og umdæmislæknar við stjórn svæðanna.

Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn á Egilsstöðum, segir áætlanirnar vissulega til staðar.

„Menn hafa ekki rætt það mjög opinskátt ennþá en áætlanir um það vissulega eru til. Og, og þetta hvílir, hvílir að hluta til á bara heimamönnum í raun að láta þetta ganga nákvæmlega eins og við erum að gera, gera hér,“ segir Kristján.

Og þótt fámenni og dreifbýli geti auðveldað sóttvarnir þá eru annars konar vandamál sem kunna að koma upp.

„Bara að færa fólk á milli staða bæði mögulega sjúka og eins bara liðið sem við erum að með undir okkar merkjum, það er líka áskorun. Það er um langan veg að fara og við höfum til dæmis þurft að skoða með sóttvarnarhús ekki bara á einum stað á svæðinu heldur á fleiri stöðum mögulega vegna þess að við erum ekki viss um að koma fólki á milli hreinlega vegna aðstæðna, veðurfarslegra og svo framvegis.“

Víðir segir að þetta sé til staðar ef upp kemur svipuð staða og á Ítalíu.

„Við getum alveg ímyndað okkur að upp kæmi gríðarlega mikið smit bara á einum stað í einu sveitarfélagi getum alveg séð það bara eins og við vorum að sjá þarna á Ítalíu þar sem er mjög afmarkað svæði sem mesta smitið verður, þá gæti verið hægt að grípa til þess að það mætti enginn fara inn eða út af því svæði í einhvern tíma það er alveg hluti af plönunum,“ segir hann

Kæmi líka til greina að hólfa niður höfuðborgarsvæðið þá?

„Það verður örugglega bara mjög snúið að gera það bara vegna samskipta og vinnustaða og annað þá er ertu farin kannski að ganga miklu lengra heldur en bara svona nokkurs konar samkomubann, en að loka samfélaginu alveg er lausn sem við höldum að virki ekkert sérstaklega og sé ekki þörf á henni í faraldri sem þessum,“ svarar Víðir.

Megum enn knúsa börnin okkar

Stór þáttur áætlunarinnar nú er að verja eins og framast er unnt þá sem eru viðkvæmir. Og þetta er stór hópur, sem dæmi búa um 44 þúsund eldri borgarar á Íslandi.

Ættu eldri borgarar og þeir sem eru í viðkvæmri stöðu að gæta sérstaklega vel að smitvörnum og jafnvel setja sjálfa sig í sóttkví?

„Já við höfum verið að mælast með því að fólk fólk passi sig sérstaklega sem að tilheyrir þessum eldri hóp og sérstaklega fólk sem er með undirliggjandi sjúkdóma. Að passa sig sérstaklega vel með handþvott og annað slíkt en líka þá að passa það vel hverjir eru að koma til þeirra. Að einangra sig alveg er ekki gott en það þarf aðeins að passa sig hverjir eru koma,“ svarar Víðir.

Á fólk að hætta að hitta annað fólk?

„Nei, nei við verðum að hittast við verðum að halda áfram að vera til. Þetta verður á þessu tímabili á næstu þremur mánuðum verður þetta allt saman frekar erfitt og á því tímabili eru örugglega margir sem að vilja bara vera heima hjá sér í rólegheitum og mun ekkert hitta fólk en við þurfum auðvitað að hittast og við þurfum að halda áfram að lifa og við komumst bara í gegnum þetta,“ segir Víðir.

Þannig að við getum ennþá knúsað makann og börnin?

„Já já já, við hættum því ekki,“ segir hann brosir.

Eru einhverjar stofnanir sem verður aldrei, það er ekki hægt að loka? Verða alltaf að starfa í gegnum svona krísu?

„Já við getum tekið sem dæmi þetta hús hérna. Við erum hér með Neyðarlínuna, við erum hér með stjórstöð landhelgisgæslunnar og fjarskiptamiðstöð lögrelgunnar þetta eru þrjár varðstofum sem mega aldrei loka og er ákveðinn kjarni í eða hjartað í viðbraðgsstarfsseminni við getum aldrei látið þær loka og það er fullt af slíkri starfssemi, heilbrigðisþjonustna getur ekkert lokað og slíkt þannig að það er jú fjölmargar þannig sem að þurfa að gera allt sem þær geta til þess að fara í gegnum þetta án þess að loka.“

Íslensk sjúkrahús undirbúin

Þrotlaus undirbúningur hefur staðið á Landspítalanum og öðrum sjúkrahúsum landsins frá því um miðjan janúar, skömmu eftir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varaði við COVID-19. Viðbragðsáætlanir voru uppfærðar, lyfjastaða tekin, hlífðarbúnaður yfirfarinn og fleira í þeim dúr. Stjórnendur Landspítalans telja sig nokkuð vel undir það búna að takast á við það sem koma skal.

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir að það sé þeirra hlutverk að reyna að stýra faraldrinum. „Þannig að við getum sinnt þeim veikindum sem koma upp í faraldrinum. Og þetta eru þá annars vegar veikindi vegna veirunnar, og svo hins vegar veikindi sem koma taktvist í okkar samfélagi. Hjartaáföll, heilaáföll, krabbamein og svo framvegis,“ segir hann.

Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri hjá Landspítalanum, segir að þau undirbúi sig undir það versta. „Við vitum ekki alveg á hvaða leið við erum. Það er, við vitum ekki alveg á hverju við eigum von,“ segir hún.

Landspítalinn er í raun eina hátæknisjúkrahúsið á landinu og fært um að sinna þeim sem verða alvarlega veikir og þurfa gjörgæsluþjónustu. Sjúkrahús víða um land gætu sinnt minna veikum en þau gætu líka hugsanlega tekið við einhverjum verkefnum sem fresta verður á Landspítalanum vegna ástandsins, þó ekki hverju sem er.

„Það er snúnara með skurðaðgerðir og slíka starfsemi, þar sem að það er orðið svo sérhæft. Það er erfiðara um vik að flytja það. En sannarlega er verið að gera alls kyns aðgerðir á þessum stöðum og, og þau, mögulega gætu þeir bætt einhverju við sig af því,“ útskýrir Hildur.

Flestir fá þjónustu í heimabyggð

En hvað með getuna víða um land til að takast á við COVID-19, eftir því sem smit berast út fyrir höfuðborgarsvæðið?

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir að líklega muni langstærsti kúfurinn vera heima hjá sér.

„Því fólki verður þá sinnt með heimavitjunum. Og við erum vel í stakk búin til þess að takast á við það. Ef að ástandið fer svo að verða alvarlegra en það, þá myndum við væntanlega á Patreksfirði senda fólk til Reykjavíkur, eftir því sem að, eftir því sem að Landspítalinn getur tekið við,“ segir hann.

„En hér á Ísafirði erum við með verulega meira af tækjabúnaði og þjálfuðum mannskap til þess að takast á við alvarlegri veikindi. Tvær öndunarvélar og, og, og fleira sem að því tengist. Þannig að við gætum þá sinnt fólki lengur. En gjörgæsluþjónustu veitum við ekki þannig að hún yrði þá veitt fyrir sunnan ef að, eins langt, eins lengi og það er hægt.“

Fyrir norðan býr á fjórða tug þúsunda á svæðinu sem sjúkrastofnanir þar sinna.

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á sjúkrahúsinu á Akureyri, segir takmörk á því hversu margir alvarlega veikir geti verið á sjúkrahúsinu.

„Við erum með áætlun sem gerir ráð fyrir að við getum tekið við, í stigvaxandi mæli, fólki sem þarf að leggjast inn á sjukrahús. En það sem er kannski mest takmarkandi þátturinn, myndi maður segja, væru þeir sem væru allra veikastir. Og þyrftu til dæmis á gjörgæslu og þá öndunarvélameðferð að halda. Og þegar að við erum komin upp í þrjá svoleiðis, þá held ég að mörkum okkar sé alveg náð,“ segir hann.

Takmarkaðar bjargir

Og hversu lengi ræður Landspítalinn við, ef ekki tekst að hægja á útbreiðslunni eins mikið og hægt er?

Már, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, segir kerfið ekki ráða við ef stór hluti smitaðist í einu.

„Ef að útbreiðsluhraðinn verður geigvænlegur, segjum að það kæmu kannski 30% af þjóðinni eða, eða 50% af þjóðinni sem að myndu sýkjast sko á næstu tveimur, þremur mánuðum. Að þá er alveg viðbúið að það myndi kafsigla okkar kerfi. Þess vegna er það svona mikilvægt að, að þessar aðgerðir sóttvarnarlæknis og okkar til þess að vernda sem sagt starfsmenn, starfsemi og að draga úr útbreiðsluhraða, þetta er svo mikilvægt,“ segir hann.

„Það náttúrulega segir sig sjálft að ef að við erum bara með takmarkaðar bjargir og erum með umframeftirspurn eftir björgunum, þá þurfum við með einhverjum hætti að forgangsraða.“

Í sjálfu sér þarf starfsfólk sjúkrahúsanna að taka svona ákvarðanir á hverjum degi. En aðstæður eru öðruvísi nú og Már segir jafnvel tímabært að fjölskyldur eigi samtöl um það sem kunni að gerast.

„Sem sagt, hverjar eru óskir fólks, ef að það kemur til alvarlegra veikinda, einkum og sér í lagi hjá, hjá afar öldruðum einstaklingum og þeim sem eiga við mjög mörg heilsufarsvandamál að stríða,“ segir Már.

Enginn á að hætta við að koma

Hildur ítrekar þó að enginn eigi að neita sér um heilbrigðisþjónustu þó þeir séu ekki með COVID-19 eða grunur þar á.

„Nei, alls ekki. Ef þú þarft að koma á bráðamóttöku eða eru bráð veikindi eða kemur eitthvað fyrir þig, eitthvert slys, þá, þá gerirðu það. Og þú leitar hiklaust til spítalans eins og áður. Fólk má alls ekki neita sér um heilbrigðisþjónustu,“ segir hún.

Fyrsti viðkomustaður ætti þó að vera heilsugæslan, nema í bráðatilvikum. Veðrið hefur ítrekað sett strik í reikninginn í vetur og gæti gert það enn um einhverra vika skeið. Hvað ef erfitt verður að flytja veika á Landspítalann?

Gylfi segir það í raun vera viðfangsefni sem þau fáist reglulega við. „Mjög reglulega. Að vera kannski með alvarlega veika sjúklinga sem að þarf að sinna á meðan að beðið er eftir flugi. Bæði á meðan að beðið er, við venjulegar aðstæður en líka ef að það er ófærð,“ segir hann.

Hildur segir að þetta muni taka langan tíma.

„Við erum að horfa til þess að þetta er langhlaup. Þetta er ekki spretthlaup og þetta klárast ekki á nokkrum vikum. Við erum að horfa alla vega fram á vorið, sumarbyrjun,“ segir hún.

Fyrri hluti:
← Áhrif veirunnar

Næsti hluti:
Ráðleggingar →