*

Breytti útliti sínu til að komast til Afrín

Vopnabræður Hauks Hilmarssonar, sem börðust með honum í Sýrlandi í fyrra, segja hann hafa fallið í Afrín-héraði í tyrknesku sprengjuregni.

Breytti útliti sínu til að komast til Afrín

Nýtt myndband sýnir hvernig Haukur breytti meðal annars útliti sínu til að komast til Afrín í gegnum svæði sem voru undir yfirráðum stjórnarhers Assads Sýrlandsforseta og Rússa.

Það kom flestum í opna skjöldu þegar fregnir bárust af því að Hauks, þekkts, íslensks aðgerðasinna, væri saknað eftir harða bardaga í Afrín-héraði í Norðvestur-Sýrlandi.

Barðist við Daesh

Arnar Þórisson, dagskrárgerðarmaður í fréttaskýringaþættinum Kveik, fór á slóðir Hauks í haust. Hann ræddi þar við marga vini og vopnabræður Hauks úr frelsissveitum Kúrda, YPG, en Haukur fór til að leggja baráttu þeirra lið.

Hann barðist meðal annars við Daesh í Raqqa mánuðum saman, þar til samtökin hrökkluðust þaðan haustið 2017. Afrín-hérað var hins vegar undir stjórn frelsissveita Kúrda þar til snemma árs í fyrra, þegar tyrkneskar hersveitir réðust þar inn.

Haukur var stöðvaður á leið þangað af sveitum Assads og Rússa því hann var ljós yfirlitum. Með því að lita hárið svart og andlitið dökkt, tókst honum á endanum að komast í gegn.

Reyndu að sækja líkið

Tyrkir náðu yfirráðum í Afrín í mars, eftir þriggja mánaða harða bardaga. Hauks hefur nú verið saknað í tæpt ár. Liðsforingi í YPG-sveitunum sem rætt er við í Kveik í kvöld barðist með Hauki í Afrín.

„Í framhaldinu, daginn eftir að Sahin féll, reyndi hópur félaga okkar að sækja lík hans. Þeir reyndu að komast að svæðinu en það var að stórum hluta undir yfirráðum vígahópa og Tyrklandshers. Þeir höfðu komið þar fyrir skriðdrekum og fallbyssum og ekki var nokkur leið að komast þar að aftur,“ segir hann.

Tyrkir hafa ekki leyft neinum að sækja líkamsleifar fallinna, þótt það sé brot á Genfarsáttmálanum. Rætt er við Arnar Þórisson í Kastljósi hér strax eftir fréttir og ítarlega fjallað um ferð hans til Sýrlands í Kveik klukkan 20:00.