Atvinnuvegurinn sem hvarf

Íslendingar eru of háðir ferðaþjónustu og verða því lengur að komast upp úr efnahagskreppunni í kjölfar Covid-faraldursins en margar aðrar þjóðir, að mati hagfræðinga. Þeir eru þó ekki á einu máli um það hversu sársaukafullur samdrátturinn verði fyrir almenning.

Suðurnesin eru kanarífuglinn í kolanámunni þegar kemur að hagsveiflum og atvinnuleysi á Íslandi. Það gerist alltaf allt fyrst og harkalegast í Keflavík. Í dag er áætlað að um 24% Suðurnesjamanna séu komin á atvinnuleysisskrá, annað hvort í gegnum hlutabætur stjórnvalda, eða að fullu.

Gunnlaugur Sævarsson býr í Keflavík og er einn þeirra fjölmörgu sem misstu vinnuna hjá ISAVIA fyrir páska. Hann vann sem tækjamaður hjá rútudeild, ók stóru rútunum milli flugvéla og flugstöðvarinnar. Um tuttugu og fimm starfsmönnum deildarinnar var sagt upp á einu bretti.

Gunnlaugur var í vinnunni þegar ISAVIA sagði upp mörgum starfsmönnum sinna

„Ég var í vinnunni þegar okkur var sagt upp," segir hann. „Það var allt rólegt, engin vél á leiðinni eða neitt svoleiðis. Þetta gerðist hjá okkur bara einn tveir og þrír, við höfðum bara 20 mínútur til að koma okkur út. Passinn tekinn og lokað á póstinn, það var dálítið leiðinlegt.“

Gunnlaugur kveðst samt hafa fullan skilning á því að fyrirtækið hafi þurft að grípa til uppsagna. Hann er bjartsýnn að upplagi, segir að sér leggist eitthvað til.

„Staðan er í sjálfu sér er allt í lagi, en það erfiðasta er náttúrulega að hugsa fram á veginn því maður veit ekkert hvað er framundan,“ segir hann.

Lítið að gerast á Keflavíkurflugvelli

Síðasta kreppa hófst í bankahruninu fyrir tólf árum, og fór ekki fram hjá neinum. Hún var djúp, sársaukafull - og hávær. Þessi er allt öðruvísi, segir Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics.

„Allar krísur hafa sinn mismunandi eiginleika,“ segir Jón, sem hefur sérhæft sig í efnahagskreppum. „Krísan 2008 kom úr innviðum fjármálakerfisins, pípulagnir fjármálakerfisins hættu að virka og það truflaði efnahagsstarfsemi um allan heim. Þessi kreppa er allt önnur. Hún er fyrst og fremst eftirspurnarkreppa, fólk er bara hætt að kaupa og fólk getur ekki framleitt, og slíkar kreppur krefjast allt annarra viðbragða og spilast á allt annan hátt.“

„Fólk er bara hætt að kaupa"

Við lifum skrýtna tíma. Heimsbyggðin hefur numið staðar, heldur niðri í sér andanum á meðan Covid-faraldurinn gengur yfir. Hann ógnar lífi og heilsu fólks um víða veröld og hefur dregið tugi þúsunda til dauða. Án bóluefnis er til er fátt til ráða annað en að halda að sér höndum, setja á pásu, leggja sitt litla lóð á vogarskálarnar til að takmarka útbreiðsluna. En hversu lengi? Hversu mikið? Og hvaða afleiðingar hefur það fyrir efnahag okkar?

Sigríður Benediktsdóttir er lektor í hagfræði við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Hún sat í rannsóknarnefnd Alþingis um orsakir og aðdraganda bankahrunsins og var um tíma forstöðumaður fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands.

Sigríður Benediktsdóttir

Hún hefur tvenns konar svör við þessum spurningum. Eins undarlegt og það kunni að virðast séu Íslendingar betur undirbúnir fyrir nýja efnahagskreppu vegna þess hve illa við fórum út úr bankahruninu.

„Þar af leiðandi eru bæði heimili og fyrirtæki minna skuldsett heldur en ella,“ segir Sigríður. „Þjóðarbúið í heild er heldur ekki sérlega skuldugt við erlenda aðila. Nettó höfum við verið að lána erlendum þjóðum upp á síðkastið. Það gerir það að verkum að við erum með hagkerfi sem stendur þetta mögulega af sér vel. Á hinn bóginn er ég verulega svartsýn um ferðamannaiðnaðinn.“

Lóan kvakar á Keflavíkurflugvelli

Keflavíkurflugvöllur er ekki bara flugvöllur. Hann er hlið Íslands, upphafsreitur stærstu atvinnugreinar þjóðarinnar, uppspretta meirihluta gjaldeyristekna okkar. Nú er hann hljóðlátur staður, lóukvak ómar yfir flugbrautunum. Flugvélar Icelandair standa kyrrar, það hefur verið breitt yfir hreyflana.

Brúin er á sínum stað en breitt yfir hreyflana

Þetta eru viðbrigði. Í fyrra fóru meira en 7 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll. Þá var talað um hrun frá fyrra ári þegar næstum 10 milljónir farþega fóru þar um. Enginn veit hvað dýfan er djúp í ár, en útlitið er vægast sagt dökkt. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, var bjartsýnn þegar Kveikur ræddi við hann fyrir páska, og gerði þá ráð fyrir að flugumferð yrði aftur farin af stað um mitt sumar.

Isavia hefur síðan endurskoðað forsendur sínar og gerir nú ráð fyrir talsvert færri farþegum á Keflavíkurflugvelli í ár en áður var talið. Fyrirtækið segir ljóst að myndin hafi dökknað talsvert síðustu vikurnar og mikilvægt að gera ráð fyrir að niðursveiflan verði dýpri og vari lengur en búist var við.

Það getur varla verið gaman að horfa upp á þetta svona?

„Nei, það er sorglegt, það er alveg klárt mál," segir Sveinbjörn. „Við erum bara með það markmið að fylla þetta hús aftur.“

Sveinbjörn Indriðason

Halla María Svansdóttir opnaði veitingastaðinn Hjá Höllu í Leifsstöð í október 2018. Síðan hefur ýmislegt gengið á.

„Wow Air fór náttúrulega í mars í fyrra og svo komu Max-vélarnar ekki inn hjá Icelandair eins og við vonuðumst eftir, svo var það áfall fyrir okkur þegar flugfreyjurnar hættu að fara hér í gegn, og náttúrulega veðrið í janúar, og nú þetta,“ segir Halla og brosir: „Þetta er búið að vera ágætis ár hjá okkur.“

Hún er með um 25 fasta starfsmenn og hefur eins og margir atvinnurekendur tekið hlutabótaleið stjórnvalda fegins hendi. Starfsfólkið er komið í 25% vinnu, en ríkið bætir því upp afganginn af laununum upp að vissu marki. Veitingastaðnum í Leifsstöð hefur verið lokað tímabundið, en Halla rekur enn veitingastað í Grindavík og selur fyrirtækjum hádegisverð.

„Það verður - innan gæsalappa - gaman að sjá hvernig næstu mánaðamót koma út, en það lifir þetta náttúrlega enginn af í langan tíma án þess að þurfa að segja upp fólki,“ segir hún.

Halla María Svansdóttir: „Það verður „gaman" að sjá hvernig næstu mánaðamót koma út"

Stærri fyrirtæki, eins og Isavia og Bláa lónið, hafa sagt upp samtals á þriðja hundrað manns. Það er mikið högg fyrir fólkið á Suðurnesjum.

„Við höfum aðallega orðið vör við miklar uppsagnir og mikið um að fólk sé að fara í hlutastörf,“ segir Guðbjörg Kristmundsdóttir formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. „Og þetta er mikið okkar hópur sem hefur lent í þessu því að þetta eru félagsmenn mínir sem eru starfandi á hótelunum og bílaleigunum og veitingastöðunum.“

Hún áætlar að um helmingur félagsmanna hennar, um 2500 manns, hafi misst vinnuna eða sé kominn í skert starfshlutfall vegna kreppunnar.

Margir þeirra eru útlendingar, því einn af hverjum fjórum íbúum Suðurnesja er innflytjandi.

Monika Dorota Krus heldur námskeið þar sem hún kennir útlendingum að fóta sig í íslensku þjóðfélagi. Hún kemur sjálf frá Póllandi og þekkir marga sem eru í vanda staddir, líka þeir sem hafi farið niður í 25% starf í gegnum hlutabótaleið stjórnvalda.

„Þeir fá auðvitað atvinnuleysisbæturnar, en það eru allt önnur laun en þeir eru vanir. Og fólk hefur tekið lán hérna, það á húsnæði eða þarf að borga leigu. Það er mjög erfitt að takast á við það.“

Monika Dorota Krus er sérfróð um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði

Monika tekur dæmi um frænda sinn í Keflavík sem missti vinnuna.

„Hann býr með vinum sínum, þeir deila með sér lítilli íbúð vegna þess að það er ódýrara. Hann er í atvinnuleit en það er erfitt að finna vinnu, meira að segja í frystihúsunum.“

Hún heldur að flestir ætli að búa hér áfram þrátt fyrir efnahagsþrengirnar.

„Þeir sem fóru aftur til Póllands voru hér einir síns liðs, áttu kannski eiginkonur og börn í Póllandi. Þeir fóru flestir heim á meðan þeir gátu, þeir sem komust ekki eru líklega ekki mönnum sinnandi.“

„Það munu ekki allir lifa þetta af“

Atvinnurekendur á svæðinu eiga heldur ekki sjö dagana sæla. Northern Lighs Inn lætur ekki mikið yfir sér að utan; lágreistar, viðarklæddar byggingar kúra í hrauninu skammt frá Bláa lóninu. Inni er þó bjart og vítt til veggja, gluggarnir ramma inn útsýnið yfir hraunbreiðurnar og jarðhæðin skartar veglegri heilsulind með gufuböðum, slakandi vatnsskúlptúrum og tveimur flottönkum þar sem gestir geta gleymt stund og stað.

Northern Light Inn

Hótelið hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar í 25 ár, og Friðrik Einarsson, sem rekur það ásamt systur sinni, áætlar að þau hafi fjárfest um 400 milljónir í því frá árinu 2013. Og nú eru tekjurnar horfnar.

„Strax í mars byrjuðu lætin og tekjurnar fóru niður í núll,“ segir Friðrik. „Við erum reyndar með þrjá karla í húsi í dag, en þegar þeir fara á morgun, þá er þetta farið alveg niður í núll.“

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hótelið kemst í hann krappann, en systkinunum tókst að sigla því ósködduðu út úr bankahruninu 2008.

„Og svo kom Eyjafjallajökulsgosið 2010 og ferðamaðurinn fylgdi í kjölfarið. Og þá hófust góðir tímar, sem við höfum í raun notað mjög vel og höfum verið að fjárfesta í húsinu, í starfseminni,“ segir Friðrik.

En þið grædduð líka á tá og fingri á meðan vel gekk?

„Hver einasta króna, í 25 ár, hefur farið í reksturinn,“ segir Friðrik. Hann er tekið að lengja eftir svörum um það hvernig bankinn ætlar að koma fyrirtækinu til hjálpar, og telur að næstu mánuðir verði erfiðir. „Auðvitað verður það þannig að það munu ekki allir lifa þetta af. En þegar þessu lýkur, sem það mun gera, og við vitum að þetta er spurning um einhverja mánuði, þá verður Ísland aftur eftirsóknarverður staður að koma á.“

Friðrik Einarsson: „Það munu ekki allir lifa þetta af"

Hvernig verður kreppan?

En hvenær gerist það? Það fer eftir því hvernig kreppan, og faraldurinn sem veldur henni, hegða sér.

Jón Daníelsson segir hægt að flokka efnahagskreppur í þrennt, eftir því hversu hraður batinn verði. Hann notar til þess bókstafi. Í V-laga kreppum fer efnahagurinn hratt niður og upp aftur. Þá tekur kannski ár að komast aftur á sama stað og fyrir kreppu. Í U-laga kreppum berst hagkerfið í bökkum í 2-3 ár. L-laga kreppur eru versti kosturinn, þá er hagkerfið í kröggum mjög lengi.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir 7,2 prósenta samdrætti á þessu ári, en 6 prósenta hagvexti á því næsta.  Jón er sammála þeirri spá.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir 7,2% samdrætti á þessu ári, 6% hagvexti á því næsta

„Það er mín skoðun að þetta verði V-laga kreppa, við munum ná okkur á sama stig tiltölulega hratt,“ segir hann. „Hluti af íslensku efnahagslífi er tiltölulega vel settur, en vandamálið er að við höfum byggt allt of mikið á ferðamönnum, og ferðamenn eru kannski sú stærð sem verður lengst að taka við sér. Þannig að ef við hefðum borið gæfu til að byggja upp styrkari efnahagsstarfsemi þá myndum við standa tiltölulega vel, en miðað við hvað við erum háð ferðamönnum þá mun þetta hafa meiri áhrif á Ísland en á flest lönd í kringum okkur.“

Jón Daníelsson er í hópi bjartsýnna hagfræðinga. Sigríður Benediktsdóttir er á öðru máli.

„Ég held að ég sé frekar svartsýn,“ segir hún. „Ég tel að næstu 6-12 mánuðir eigi eftir að verða verulega erfiðir. Ég er ekkert frá því að það sem að spár erlendra banka hérna eru að segja sé nærri lagi, það er 25-30% samdráttur í þjóðarframleiðslu fyrir ársfjórðunginn.“

Ertu þá að tala um U-vöxt, að við verðum með sléttu þarna niðri í jafnvel nokkur ár áður en við förum að byggja okkur upp aftur?

„Ég vona nú ekki. Ég vona við verðum 6-12 mánuðum á eftir öðrum þjóðum en ekki 2-3 ár. Svoleiðis að okkar V verði bara aðeins lægra. En þá er ég frekar bjartsýn þegar ég tala um það. Það er algerlega ljóst að við verðum að reyna að fá ferðamenn inn í landið aftur,“ segir Sigríður.

„Við verðum að reyna að fá ferðamenn inn í landið aftur"

Forstjóri ISAVIA er á sama máli.

„Stóra óvissan snýr að því hvenær flugumferð fer af stað aftur,“ segir Sveinbjörn. „Hvenær farþegar fara að treysta sér til að ferðast aftur, og sem skiptir kannski meira máli í mínum huga, hvenær flugfélögin fara að koma með framboð inn á markaðinn.“

Sveinbjörn segir að reynslan sýni að það þýði ekki að bíða eftir að fólk vilji ferðast til Íslands, heldur þurfi fyrst að tryggja að flugfélögin bjóði upp á hagkvæmar ferðir hingað. Nú, þegar Wow hefur lagt upp laupana, þurfi að beita öllum ráðum til að laða hingað erlend flugfélög.

„Við erum með hvatakerfi á flugvellinum sem á að auðvelda flugfélögum að taka ákvörðun um að fljúga til og frá Íslandi, það hvatakerfi verður áfram við lýði, við sjáum fyrir okkur að til viðbótar við þetta markaðsátak sem íslenska ríkið ætlar að fara í til að markaðssetja Ísland sem áfangastað, þá höfum við tök á því að markaðssetja Keflavíkurflugvöll gagnvart flugfélögum,“ segir Sveinbjörn.

En hvenær er raunhæft að markaðurinn lifni við? Þar liggur stóra óvissan. Sigríður telur að ekki sé hægt að gera ráð fyrir að efnahagsbatinn byrji áður en heimsbyggðinni tekst að ná stjórn á Covid-faraldrinum.

„Þá er ég að tala um eitthvað sem gerist vonandi eftir 12-18 mánuði, þegar við erum búin að finna bóluefni. Og við þurfum ekki bara að finna bóluefni, við þurfum að finna bólefni og gefa öllum! Öllum!“ segir Sigríður og bendir á hvað verkefnið sé stórt.

„Heima á Íslandi erum við kannski búin að mæla 10% af þjóðinni hvort þeir séu með Corona-veiruna, og við hrósum okkur fyrir það og erum í fararbroddi með það, alveg hreinar línur. En ef við ætlum að fara að gefa 330.000 eða 350.000 bóluefni? Þetta er bara á stærðargráðu sem við getum ekki gert okkur í hugarlund.“

Og þá eigum við eftir að bólusetja heimsbyggðina þannig að hún geti farið að ferðast til Íslands aftur.

„7,7 milljarðar manna,“ segir Sigríður og kinkar kolli.

Offjárfesting í ferðaþjónustu

Það ríkir ekki mikil bjartsýni þessa dagana um framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi. Vongleði fyrri ára er hinsvegar áþreifanleg í miðborg Reykjavíkur. Við gömlu höfnina, við gaflinn á Hörpu, er enn verið að byggja fimm stjörnu, 250 herbergja hótel undir merkjum Marriot Edition. Á Austurvelli er félagið Lindarvatn, í helmingseigu Icelandair, að byggja 143 herbergja lúxushótel. Framkvæmdir eru í fullum gangi, þótt engir séu ferðamennirnir í bili. Og við Tjörnina, á Íslandsbankareitnum, eru Íslandshótel að byggja 125 herbergja, fjögurra stjörnu hótel. Það er óvíst hvað verður um þessar stóru byggingar og milljarðana sem hafa verið festar í þeim ef ferðamennirnir snúa ekki aftur. Þær henta illa undir íbúðarhúsnæði, og það er offramboð af skrifstofuhúsnæði í miðborginni.

„Það er óheppilegt að í raun vorum við að sjá áður en þetta áfall reið yfir að ferðamannafyrirtækin voru að missa fótanna,“ segir Sigríður. „Það hafði verið ofvöxtur, menn höfðu byggt of mikið af hótelum. Við gætum mögulega verið með offjárfestingu í greininni sem við verðum að spá í líka.“

Í fyrra voru útflutningstekjur þjóðarinnar af ferðaþjónustu um 466 milljarðar króna, örlítið lægra en samanlagt af útflutningi á fiski og áli. Ferðamennirnir sáu þjóðinni fyrir 35% prósentum af útflutningsverðmætum, og talið er að um 25.000 manns hafi haft atvinnu af þjónustu við þá. Nú er þessi atvinnuvegur algerlega lamaður.

Jón Daníelsson segir að gera megi ráð fyrir að það taki nokkur ár fyrir ferðaþjónustuna að taka við sér. Því þurfi þjóðin að upphugsa leiðir til að framfleyta sér án þess að hafa ferðamenn.

Jón Daníelsson: „Við getum notað okkar hátækni."

„Við getum notað okkar hátækni, okkar menntuðu þjóð, kannski háskólarnir geti farið að mennta fólk á sviðum sem henta til nýrrar tegundar af starfsemi. Við höfum gert þetta áður og getum gert það aftur, en til þess þarf ákveðið átak,“ segir Jón.

Sigríður tekur í sama streng; þjóðinni hafi tekist það síðast, þegar hún reisti við hagkerfið með hjálp ferðamannanna.

„Og það eru að koma tækifæri núna, eins og í líftækniiðnaðinum og DeCode er að koma út með ótrúlegar greinar um þessa veiru og fleira, svo ég held að þarna muni líka reyna á hvað Íslendingar eru duglegir að finna sér nýja farvegi,“ segir hún.

Íslenskur heimilisiðnaður

Þessir nýju farvegir geta sprottið upp heima við eldhúsborðið. Fjölskylda Ingunnar Ingimarsdóttur hefur haft tekjur af þjónustu við fluggeirann, en nú ríkir þar töluverð óvissa. Ingunn hefur líka um nokkurra ára skeið verið að þróa hugbúnaðarlausn, sem hefur fengið óvæntan byr undir báða vængi.

Memaxi varð til við eldhúsborðið hjá Ingunni Ingimarsdóttur

Tengdafjölskylda Ingunnar býr saman í stóru fjölskylduhúsi í Þingholtunum, og þurfti að taka höndum saman fyrir nokkrum árum þegar tengdaforeldrar hennar veiktust bæði af minnisglöpum.

„Þetta var orðið dálítið þannig að við hittumst hérna á kvöldin og skiptum með okkur verkum, hver væri að fara að gera hvað. Mágkona mín er hjúkrunarfræðingur og skipulagnin lenti mikið á henni, og við vorum að reyna að finna út hvernig við gætum skipt með okkur verkum án þess að þetta lenti á einum. Líka þannig að það hefðu allir aðgang að sömu upplýsingum og gætu hjálpast að. Við leituðum lausna og reyndum að skrifa þetta niður á pappír en síðan kom þessi setning einhvern tímann á sunnudagskvöldi: þetta er ekki svona flókið, þetta er bara dagatal. Og þannig kviknaði hugmyndin, að við ætluðum bara að gera þetta sjálf, forrita eitthvað sjálf.“

Þannig varð Memaxi til, einfalt samskiptaforrit fyrir aldraða, og aðra sem þurfa aðstoð. Ættingjar og fagfólk til dæmis í heimahjúkrun geta talað við þá, skipulagt umönnun og skipt með sér verkum, komið í veg fyrir að gamla manneskjan verði einangruð – og skyndilega er þörfin fyrir þessar nýju samskiptaleiðir orðin mjög brýn.

Halldór Stefánsson er einn fyrsti Reykvíkingurinn sem notar Memaxi

„Við erum að vinna gegn félagslegri einangrun með því að íbúar geti sjálfir fylgst með deginum og fengið myndsímtöl eða myndheimsóknir, og núna vegna Covid er meiri þörf á því en áður. Bæði ef íbúar sjálfir vilja ekki fá fólk inn til sín eða fá heimsóknir, og eins ef starfsfólk er í sóttkví og kemst ekki sjálft, en með tækninni er hægt að halda þessari þjónustu gangandi og það hefur náttúrulega hjálpað mjög mikið núna,“ segir hún.

Memaxi er ekkert deCode, en mjór er mikils vísir. Reykjavíkurborg og fleiri stór sveitarfélög hafa tekið það í sína þjónustu, og markaðsstarf er hafið í útlöndum.

Meira atvinnuleysi en við höfum vanist

Og nú er að komast í gegnum skaflinn. Sjö til átta prósenta atvinnuleysi næstu tvö árin að minnsta kosti, samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

„Við getum búist við töluvert mikið meira atvinnuleysi en við höfum haft, en hitt má líka líta á að 7-8% er ekkert gríðarlega mikið,“ segir Jón Daníelsson. „Íslenska ríkið stendur vel og getur vel tekið á því áfalli sem leiðir af því að hafa svona atvinnuleysi. Þetta er ekki há tala á heimsvísu.“

En Sigríður bendir á að svo mikið atvinnuleysi geti haft gríðarleg áhrif á einstaka fjölskyldur.

„Heima á Íslandi eru það fyrst og fremst fjölskyldur sem eru með báða aðila sem missa vinnuna eða meirihlutann af sínum tekjum, til dæmis íferðamannaiðnaðinum. Ef báðir einstaklingar á heimili eða einstætt foreldri missa atvinnuna og missa laun, þá getum við rétt ímyndað okkur hvað það þýðir,“ segir hún.

Jón telur að fæstir muni finna verulega fyrir áhrifum kreppunnar.

„Langflestir munu halda sínum störfum, langflestir munu halda tekjum í gegnum þetta. Það getur kannski ekki eytt peningum í sömu hluti og áður eða verið í sömu neyslu og áður. En ég held að sá hópur sem verður fyrir áfalli verður tiltölulega lítill miðað við allt samfélagið, og það er mikilvægt að hjálpa því fólki sem verður fyrir áfalli. En ég held að langflestir Íslendingar muni finna mjög lítið fyrir þessu, alla vega efnahagslega.“

Sennilega þurfum við að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf, láta af þeim ósið að setja alltaf of mörg egg í eina körfu.

Forstjóri ISAVIA tekur undir að Íslendingar þurfi að finna fleiri leiðir til að framfleyta sér. Hann kveðst þó fullviss um að fólk taki aftur að ferðast, og þá þurfi Ísland að vera tilbúið.

„Það sem við þurfum að gera núna er að passa upp á að innviðirnir séu til staðar þegar flug hefst á ný. Ég held að það sé lykilatriði núna og það sem við þurfum að einblína á til skemmri tíma litið. Fólk mun ferðast og Ísland er æðislegur áfangastaður, það er ekkert land sem er í líkingu við Ísland, og það er ekkert að fara frá okkur,“ segir Sveinbjörn.

Flugumferðarstjórn hjá ISAVIA

Gunnlaugur, fyrrverandi starfsmaður ISAVIA, er sammála.

„Ég er bjartsýnn. Það heldur manni gangandi. Svartsýnn, neinei, ég sé bara fram á að þetta lagist sem fyrst.“

Monika bendir á að allir þurfi að taka þátt í að endurreisa efnahaginn.

„Þetta verður erfitt fyrir okkur öll. Pólverja, Íslendinga, enskumælandi fólk, þetta verður okkur öllum erfitt. Og nú þurfum við öll að taka höndum saman og ferðast um Ísland í sumar. Það heldur okkur gangandi, öllum litlu fyrirtækjunum, veitingahúsunum, hótelunum. Ég segi við fólk: Ferðist um Ísland. Fyrir hagkerfið. Hvers vegna? Vegna þess að hér er hugsað vel um ykkur.“