*

Ást, svik og peningar

Tugir Íslendinga tapa tugum, jafnvel hundruð milljóna árlega í hendur skipulagðra netglæpahópa. Flestir telja sig hafa fundið ást og hamingju á internetinu.

„Ég bara var dálítið óhamingjusöm á þessu tímabili. Ég hef gaman að að tala við fólk. Eða kynnast nýju fólki, kannski frekar. Um leið og einhver sýnir mér áhuga er ég alveg tilbúin að tala“, segir fínvaxin kona á miðjum aldri þar sem hún situr í stól og segir sögu sína. Við köllum hana Guðrúnu í þessari frásögn því hún vill ekki koma fram undir nafni. Til þess er skömmin of mikil. Enginn veit af því sem gerðist nema maðurinn hennar og börnin.

Guðrún fékk óvænt skilaboð og hóf samtal við manninn á hinum endanum. Skipulagðar glæpaklíkur höfðu af henni milljónir. 

Guðrún varð fórnarlamb ástarsvika. Svo nefnast svik glæpahópa á netinu sem notfæra sér einmanaleika og tilfinningasvelti venjulegs fólks til að hafa af því peninga, oft háar fjárhæðir.

Á óhamingjutímabili í lífi Guðrúnar bárust henni óvænt skilaboð á netinu, í gegnum Facebook.

„Hann sagðist vera Ítali sem byggi í Þýskalandi. Væri að vinna hjá skipafyrirtæki. Hann væri að leita sér að félagsskap. Hafði misst konuna sína fyrir fimm árum. Barnlaus og átti greinilega svolítið erfitt. Og þá náttúrulega var ég tilbúin að tala við hann áfram,“ heldur hún sögunni áfram.

Einföld en áhrifarík bellibrögð

Þessi lýsing er nánast eins og handrit að sögu, svona svik sem byggjast á einfaldri en árangursríkri gildru.

Oft byrjar þetta sem vinabeiðni á samfélagsmiðlum, skilaboð eða tölvupóstur. Sendandinn er oftast karlmaður á besta aldri, oftar en ekki verkfræðingur, læknir eða hermaður sem er við störf á svæði þar sem samskipti eru örðug, myndsímtöl til dæmis ómöguleg. Undantekningalítið eru þessir menn vinafáir, ekklar eða fráskildir. Oft segjast þeir eiga peninga en lenda svo fljótlega í ótrúlegum vandræðum sem enginn getur bjargað nema ein manneskja í öllum heiminum, manneskja uppi á Íslandi sem var að tengjast viðkomandi. Og þannig var það líka hjá Guðrúnu. Fyrr en varði fór samtalið að snúast um peninga.

„Mig minnti að það væri langur tími en það voru í raun ekkert margar vikur. Það voru bara einhverjar þrjár vikur. Þrjár, fjórar vikur. Frá því að við byrjuðum að tala saman og við töluðum saman á hverjum degi. Og svo segir hann meira að segja að hann sé að fara til Ástralíu. Með skipinu sínu, síðustu ferðina. Og þá fer þetta að byrja, eftir að hann er farinn í þessa ferð.“

Ítalski vinurinn í Þýskalandi ætlaði að sigla sem leið lá frá Hamborg til Ástralíu, þar sem hann ætlaði að hætta störfum hjá skipafyrirtækinu og hefja nýtt líf. Og af þeim sökum var hann með aleiguna um borð, sem kom sér heldur illa þegar dallurinn bilaði og það á hafsvæði þar sem sjóræningjar eru algengir.

Hann sagði Guðrúnu að hann óttaðist um kistilinn með aleigunni og vildi reyna að bjarga henni. Úr varð að hann myndi senda kistilinn til Guðrúnar en til þess þurfti þyrla að sækja sendinguna um borð um vélarvana skip og hraðsendingarfyrirtæki að koma kistlinum í fylgd varða til Íslands. Guðrún hálfhlær þegar hún rekur þessa ólíklegu sögu. „Hver myndi taka með sér pening í kistli? Þú bara sendir þetta, millifærir þetta ef það er eitthvað sem þú ætlar að borga.“

En hún áttaði sig ekki á þeim tíma. Vandræði vinarins voru mikil, enginn tími til stefnu og miklir hagsmunir í húfi. Þá kom babb í bátinn. Greiða þurfti toll af sendingunni í Indónesíu. Guðrún fór í banka, millifærði 200.000 krónur og taldi víst að hún fengi endurgreitt innan tíðar. Vandræðin jukust hins vegar enn þegar tollayfirvöld í Indónesíu áttuðu sig á verðmæti sendingarinnar og kröfðust hærri tollagreiðslna.

Guðrún flettir bankayfirlitum. Á nokkrum vikum millifærði hún nærri fimm milljónir á „vin“í útlöndum. 

„Svo var ein milljón... Það er hræðilegt að tala um þetta. Þrettán hundruð þúsund. Tólf hundruð þúsund. Og svo tvær milljónir. Þetta er bara eins skammarlegt og hægt er. Í heildina var þetta tæpar fimm milljónir. Ég var náttúrulega með yfirdráttarheimild. Svo bara hækkaði ég yfirdráttarheimildina. Og í restina fékk ég lánaða peninga hjá foreldrum mínum. Sem er náttúrulega algjör skömm,“ segir Guðrún og horfir í gaupnir sér.

Þótt hún væri enn grunlaus vöktu bankaviðskiptin grunsemdir starfsfólks bankans, sem spurði hana hvort þetta væru ekki svik af einhverju tagi. Guðrún þvertók fyrir allt slíkt en ákvað samt að fara í annað bankaútibú næst.

„Hafa meiri áhuga en eðlilegt er í samböndum“

Saga Guðrúnar er dæmigerð og sjálfsblekkingin líka. Það tók glæpamennina innan við tvo mánuði að tæla hana og véla út úr henni peninga. Eitt aðalbragðið er nánast yfirþyrmandi áhugi og ástúð, sem Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður þekkir vel. „Sumir af þessum svindlurum standa sig betur en flestir eiginmenn á Íslandi gera. Hafa meiri áhuga á manneskjunni, virðist vera, heldur en er almennt eðlilegt í samböndum.“

Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður

Handbragðið sést vel í samskiptum annarrar konu, sem við köllum Margréti, við mann sem hafði samband við hana upp úr þurru.

Vinurinn sem þurfti að bjarga

„Þetta hefst þannig að ég fæ tölvupóst. Sem ég hundsa í nokkra daga. En mínar persónulegu aðstæður voru þannig að ég var mikið ein. Maðurinn minn var fjarverandi og var í vinnu í burtu. Það líða einhverjir dagar og ég í hálfkæringi svara þessum tölvupósti sem snerist aðallega um hól á mér. Hvað honum leist vel á prófílinn minn sem hann hafði fundið á netinu og vildi endilega eiga í frekari samskiptum við mig.“ Margrét segir söguna af innlifun og er öskuill yfir þessum glæpamönnum.

Margrét átti líka í samskiptum við „vin“ sem reyndist svikahrappur.

Samskiptin þróuðust fljótt úr kurteislegu spjalli um fótbolta, ferðalög, pólitík og dægurmál yfir í rýr skilaboð á Whatsapp, einni uppáhaldssamskiptaleið netþrjóta.

Rétt eins og vinur Guðrúnar var vinur Margrétar einn, í þessu tilviki ekkill sem átti eina dóttur en hún var á heimavistarskóla og hann í erfiðum verkefnum í löndum langt í burtu, vinafár og hjálparvana. Hljómar þetta kunnuglega?

„Hann gaf sér sex mánuði. Og mér skilst að það sé kannski jafnvel frekar stuttur tími. Margir gefa sér ár. Þannig að þeir eru bara að vinna. Þeir fá einhvern til að bíta á öngulinn. Og svo halda þeir áfram. Þetta snýst bara um tilfinningakúgun og að halda fólki alltaf á nálum.“

Og ekki leið á löngu áður en vinur Margrétar lenti líka í vandræðum, að þessu sinni vegna stórslyss á vinnusvæði þar sem hann stýrði verkefni í Tyrklandi.

Margrét segir frá neyðarsímtalinu sem henni barst: „Það er búið að  handtaka mig. Ég er hérna í fangelsi. Það er búið að taka af mér símann, það er búið að taka af mér allt og lögfræðingurinn minn er að vinna í því að ég fái símann minn. Og gæta að mínum mannréttindum. Þeir eru meira að segja búnir að taka vegabréfið mitt þannig að ég kemst ekki til þín.“ Þannig að menn spila á allan tilfinningaskalann í þessu. „Geturðu sent mér peninga? Mig vantar fjórtán þúsund evrur til að borga lögfræðingnum og tryggingu.“ Og ég segi bara: „Nei, því miður. Ég á þær ekki til. Því miður, ég bara á þær ekki til.“

Símtölin og skilaboðin héldu áfram linnulaust í heilan dag. Margrét segir að þetta hafi verið hrein tilfinningakúgun.

„Af hverju sendirðu mér ekki peningana?“ „Af því ég á þá ekki til. Ég get ekki sent peninga sem ég á ekki til.“ Og svo fór það út í það: „Þér er alveg sama um mig.“

Eftir þetta fékk Margrét nóg, sleit samtalinu en ákvað að kynna sér betur manninn sem hún átti að hafa verið í samskiptum og sambandi við. Hún notaði meðal annars myndir sem vinurinn hafði sent henni og gat rakið þær til Instagram-síðu hóteleiganda í Amsterdam.

Myndir og skilríki sanna ekki neitt

Ljósmyndir og myndskeið, jafnvel skannaðar myndir af skilríkjum eða meintum opinberum pappírum eru nefnilega engin sönnun þess að vinurinn á hinum endanum sé raunverulegur. Mun líklegra er að skilríki séu fölsuð og myndirnar stolnar. Og jafnvel að hvort tveggja sé frá fólki sem hefur áður orðið  fórnarlamb netsvika.

Einfalt er að falsa skilríki og stela myndum til að blekkja á netinu. Stundum eru myndirnar og skilríki frá fórnarlömbum sem svindlararnir náðu að svíkja mánuðum eða árum áður.

Stundum bæta glæpamennirnir gráu ofan á svart til að ná síðustu krónunum út úr fórnarlömbum, eins og Hákon Lennart Aakerlund, netörygissérfræðingur hjá Landsbankanum, útskýrir.

„Við erum með dæmi  þar sem voru sviknir peningar út úr einstaklingi. Allt í einu fékk hann aðstoð frá ytri aðilum við að endurheimta þetta fé. Það átti bara að kosta einhvern smávegis pening, 2.000-3.000 dollara, að fá þetta endurheimt. En þetta er svona síðasti hnykkurinn í þessu, að taka alla peninga sem þú átt.“

Hákon Lennart Aakerlund, netöryggissérfræðingur hjá Landsbankanum

Það virðist sem fáir sem lenda í þessum gildrum átti sig á því. Sjaldgæft er að viðskiptavinir Landsbankans snúi sér til bankans vegna svona mála, oftast er það í hina áttina. Þá getur reynst erfitt að sannfæra fólk um að það sé fórnarlamb svika. Sumir bregðast jafnvel ókvæða við og þvertaka fyrir að vinurinn á hinum endanum sé mögulega svikari, en ekki stóra ástin.

Hvernig er hægt að tala um fyrir ástvinum og grípa inn í?

Þegar örvæntingarfullir ástvinir snúa sér til Leifs Runólfssonar, lögmanns, ráðleggur hann í fyrsta skrefi samtal við þann sem verður fyrir svikunum. Mikilvægt sé að ættingjar og ástvinir standi saman í slíku samtali. Þá sé rétt að snúa sér til regluvarða bankanna. Þeir hafi ýmis úrræði sem sé þó vonlítið fyrir aðra að fá staðfest að hafi verið beitt, vegna bankaleyndar og persónuverndar. „Og svo er hægt að svipta viðkomandi fjárræði, hugsanlega. Það þarf að ganga í gegnum dóm ef það á að gera slíkt. Það er fræðilegur möguleiki, stundum. Og það er alltaf erfiðast. Og fólki finnst gríðarlega erfitt að gera það. En stundum er það það besta sem þú getur gert fyrir viðkomandi einstakling,“ segir Leifur.

Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður, þekkir vel til ástarsvika og hversu flókið er að rannsaka slík mál.

Úrræði lögreglu eru fá í svona erfiðum tilfellum því auðvitað hefur sjálfráða og fjárráða manneskja fullt frelsi til að ráðstafa fjármunum sínum og eignum að vild.

„Og það er fyrir mig sem lögreglumann alveg sérstaklega vont því ég veit að það eru glæpamenn sem eru að fara að fá þessa peninga,“ segir Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður. „Þú ert oft með einstaklinga sem eru komnir nálægt lífeyrisaldri, þetta er jafnvel allur sparnaðurinn þeirra sem hverfur og svo eru þau jafnvel farin að taka lán í viðbót við sparnaðinn sinn. Og hvernig ætlarðu að borga lánið til baka ? Kannski í þeirra huga er það þannig að þessi ágæti maður, þegar allt gengur upp þá komi hann til þín með peningana og þá verði allt gott. En þegar þú ert farinn að slá lán hjá nágrönnum, ættingjum þínum. Farinn að taka veð í húsinu þínu...“

Málum hefur fjölgað mikið í COVID-19 faraldrinum.

Málum af þessu tagi hefur fjölgað mikið undanfarið ár, að sögn Jökuls sem er á því að það megi rekja til COVID-19 faraldursins. Fólk sé frekar einangrað og einmana, hafi meiri tíma til að flækjast um á netinu og sé því oftar berskjaldað fyrir því sem helst megi kalla áhlaup. Hjá Landsbankanum lætur nærri að eitt mál komi upp í hverri viku og á liðnu ári var upphæðin sem vitað er að hrappar af þessu tagi komust yfir, í kringum 70 milljónir króna. Fæst málanna koma inn á borð lögreglu.

„Við erum með á annan tug mála sem við höfum fengið inn til rannsóknar. Meðaltjónið er í kringum fjórar milljónir. En það gefur samt mjög skakka mynd. Því oft erum við að fá einstaklinga sem eru mjög snemma í ferlinu og hafa kannski tapað einhverjum hundruðum þúsunda. Sem þýðir að á móti erum við með einstaklinga sem hafa tapað á annan tug milljóna,“ segir Jökull og bætir við að þótt fjárhagslega tjónið sé augljóst sé tjón hvers einstaklings oft annað og meira. „Því að þetta er svo mikið sálrænt álag sem þessir einstaklingar verða fyrir. Og þeir sem eru að svindla á þér, þeir beita mörgum aðferðum til að komast að þér í hvert sinn. Stundum eru þeir að nota hálfgerða hunangsköku til að laða þig fram og draga fram, og allt verður frábært. En svo geturðu lent í fasa þar sem þeir eru farnir að beita hótunum.“

Fórnarlömb þessara glæpa eru af báðum kynjum og á öllum aldri. En þeir sem eru vel tæknilæsir eru betur vörnum búnir. Er það þá kannski einkum eldra fólk sem er í hættu?

„Já, við getum alveg sagt það. Að hópurinn sem er kominn nálægt eftirlaunaaldri, þar í kring, sé sannarlega hópur sem er líklegri. Og það er kannski eitthvað sem við verðum að hafa í huga, því að við sem eigum börn vitum að við þurfum að kenna börnunum örugga netnotkun. En við þurfum jafnvel að taka samtalið lengra inn í fjölskylduna. Og tala líka við  foreldra okkar. Ættingja. Og aðeins gera þau meðvituð um að það er hópur þarna úti sem lítur á alla sem mögulegar féþúfur í einhvers konar svindli.“

Jökull segir að það séu afar litlar líkur á að hægt sé að endurheimta peninga sem fólk tapar í svona svindli. Skipulagðir glæpahópar kunna að fela slóð sína með því að beina peningunum í gegnum bankareikninga strax fyrsta sólarhringinn. Þeir breyta greiðsluleiðinni reglulega svo að lögregla geti ekki sett upp tálma og svo nota þeir myndir, jafnvel afrit af skilríkjum sem fórnarlömb hafa deilt með þeim, til að stofna bankareikninga í þeirra nafni fyrir næsta svindl. Helsta vörnin er í raun forvörn; að tryggja að allir þekki fingraför þrjótanna og sleppi því einfaldlega að samþykkja vinabeiðnir.

Stundum er augljóst að meintir vinir eru ekki til í alvörunni. Páll Georgsdóttir finnst í það minnsta ekki í þjóðskrá.

Helst má líkja þessu við fíkn, að mati Jökuls. „Í upphafi er kannski ákveðin spenna, ákveðin hamingja, ákveðin lífslöngun. En eftir því sem líður á svona svindl verður það meira og meira íþyngjandi. Þú ferð að hafa fjárhagsáhyggjur. Þú veist ekki alveg hvernig þú ætlar að ná þessum greiðslum. Því það sem er búið að lofa þér margoft hefur aldrei gengið eftir.“

„Erfitt að koma fram og viðurkenna þetta“

Að lokum rann upp fyrir Guðrúnu að eitthvað væri bogið við vininn á bilaða skipinu úti á rúmsjó.

„Á tímapunkti var ég komin á þann stað að ég var að hugsa um að óska eftir skilnaði. Maðurinn minn fann að það var greinilega eitthvað að. Ég var ekkert eins og ég átti að mér að vera. Og hann bara gengur á mig,“ segir hún og minningin er henni greinilega þungbær . Eiginmaðurinn fékk að lesa póstsamskiptin og honum varð strax ljóst að þarna væri verið að svindla á Guðrúnu.

„Það var rosalega erfitt meðan á því stóð. Jesús minn, það var bara hræðilegt. En eftir á var þetta léttir, að vera laus úr þessu.  Af því að allan tímann sem þetta var, þá var ég lystarlaus, ég borðaði ekki og var stressuð. Það er rosalega erfitt að koma fram og viðurkenna þetta. Eins og hjá mér, þá var þetta ekki bara að ég væri búin að tala við einhvern mann heldur var ég búin að sólunda næstum því fimm milljónum af fjármunum fjölskyldunnar. Það er ekkert auðvelt að horfast í augu við það.“

Guðrún vill ekki koma fram undir nafni því hún hefur einungis sagt allra nánustu fjölskyldu frá málinu og skammast sín fyrir það.

Vinurinn á skipinu gafst þó ekki upp. Frá því að samskipti þeirra Guðrúnar hófust var síma- og netsamband aldrei nógu gott fyrir símtal, hvað þá spjall í mynd. En í lokin var símasambandið þó allt í einu nógu gott til að hringja, gera eina lokatilraun til að telja Guðrúnu hughvarf. Miðaldra Ítali reyndist þá hljóma eins og ungur maður með frekar afrískan hreim. Guðrún sleit samskiptunum en segist bæði hafa í fengið trekað skrítin skilaboð frá öðrum, ugglaust á sömu vegferð og vinurinn á bilaða skipinu. Meinta hraðsendingarfyrirtækið í Indónesíu hafi líka reynt að rukka hana.

En erfiðast segir hún að fyrirgefa sjálfri sér. Aðspurð segist hún ekki vita að hún vita hvað þurfi til að hún geti það.

Heilræðin

Sérfræðingar sem Kveikur ræddi við sögðu mikilvægt að hafa nokkur heilræði á bakvið eyrað:

  • Forvörn er besta vörnin - þekkið fingraförin
  • Verið tortryggin á vinabeiðnir
  • Sendið aldrei peninga til ókunnugra
  • Myndir og skjöl er auðvelt að falsa
  • Ræðið við ástvini sem gætu verið í hættu
  • Ekki bera skömmina
  • Grunur á broti? Hafið samband við lögreglu