Fyrirtækin sem fengu ríkisstyrk eftir 19 milljarða króna arðgreiðslur

Stjórnvöld hafa styrkt fyrirtæki landsins um milljarða króna til að greiða laun starfsfólks á uppsagnarfresti. Sum fyrirtækjanna höfðu greitt hluthöfum sínum hundruð milljóna, jafnvel milljarða, í arð árin fyrir faraldurinn.

Fyrirtækin sem fengu ríkisstyrk eftir 19 milljarða króna arðgreiðslur

Eftir að áhrif heimsfaraldursins á efnahagslífið urðu ljós í fyrravor kynntu stjórnvöld nýja ríkisstyrki. Fyrirtæki í vandræðum vegna faraldursins gætu sagt starfsfólki upp án þess að þurfa að greiða laun á uppsagnarfresti að fullu — ríkið myndi hlaupa undir bagga. Holskefla uppsagna fylgdi.

„Markmiðið með aðgerðinni er að tryggja réttindi launafólks og draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir lagafrumvarpi um uppsagnastyrki á Alþingi í maí í fyrra.

Til að fyrirtæki gætu nýtt sér þennan nýja uppsagnastyrk þurftu tekjur þeirra að hafa minnkað um að minnsta kosti 75 prósent. Því kemur ekki á óvart að þegar listi yfir fyrirtækin sem hafa nýtt sér styrkina er skoðaður eru ferðaþjónustufyrirtæki mjög áberandi.

Kveikur skoðaði sérstaklega þau 50 fyrirtæki sem mest fengu í styrk vegna launakostnaðar á tímabilinu maí til október í fyrra. Í heild runnu um 80 prósent af uppsagnastyrkjum á tímabilinu til þeirra, um 9 af 11 milljörðum króna.

Langmest fór til Icelandair, tæplega 3,6 milljarðar króna. Næst komu hótelkeðjurnar Íslandshótel og Flugleiðahótel, með rúmlega 600 milljónir króna hvor og Bláa lónið með tæplega 600 milljónir.

Icelandair fékk langmest í uppsagnastyrki vegna launakostnaðar á sex mánaða tímabili í fyrra, tæplega 3,6 milljarða króna.

Kveikur skoðaði arðgreiðslur 50 efstu fyrirtækjanna samkvæmt ársreikningum, þrjú ár aftur í tímann. Gjaldtaka ríkisins fyrir aðgang að ársreikningum hefur lengi torveldað samantektir sem þessa, en um áramótin var gjaldið fellt niður — nú geta allir sótt ársreikninga á vef ríkisskattstjóra, ókeypis.

Samantekt Kveiks, sem er byggð á um 150 ársreikningum, sýnir að sum fyrirtækjanna 50 höfðu greitt hluthöfum sínum hundruð milljóna króna, jafnvel milljarða, í arð síðustu þrjú árin áður en faraldurinn skall á. Önnur greiddu minna og mörg ekkert.

Hér er hægt að horfa á sjónvarpsútgáfu umfjöllunarinnar.

Sextán fyrirtæki greiddu meira en 100 milljónir króna í arð á tímabilinu, Bláa lónið langmest. Hluthafar Bláa lónsins fengu samtals jafnvirði rúmlega 7,8 milljarða króna frá félaginu á þremur árum, sem er rúmlega þrettánfalt meira en uppsagnastyrkur fyrirtækisins.

Hér að neðan er birt yfirlit sem sýnir arðgreiðslur fyrirtækjanna 16 sem mest greiddu í arð, raðað eftir fjárhæð arðgreiðslnanna.

Samtals fengu þessi 16 félög um 6,1 milljarð króna í uppsagnastyrk á tímabilinu, en höfðu síðustu þrjú árin fyrir faraldurinn greitt hluthöfum sínum um 19,2 milljarða króna í arð, eða rúmlega þrefalda styrkfjárhæðina.

Einnig er í yfirlitinu fjallað um svör hvers og eins fyrirtækis sem svaraði fyrirspurn Kveiks um arðgreiðslurnar. Þar segir til að mynda forstjóri ferðaskrifstofunnar Atlantik frá því hvernig tekjur fyrirtækisins hurfu nær alveg í fyrra.

Þegar upp hafi verið staðið í lok árs 2020 hafi tekjufall ferðaskrifstofunnar orðið rúmlega 99%, segir hann. „Tekjur fóru úr 2800 milljónum árið 2019 í 10 milljónir 2020.“

  • Bláa lónið hf.
  • Uppsagnastyrkur: 591 milljón kr.
  • Arðgreiðslur: 7,8 milljarðar kr.

Forstjóri Bláa lónsins vísaði á framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem sagði að Bláa lónið hefði verið einn stærsti skattgreiðandinn á Íslandi svo árum skipti, og skattspor þess árin 2017-2019 hefði verið rúmlega 13 milljarðar króna.

  • Icelandair ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 3,6 milljarðar kr.
  • Arðgreiðslur: 4,3 milljarðar kr.

Icelandair segir að arðgreiðslur flugfélagsins hafi verið hluti af tilfærslu innan samsteypu. Móðurfélagið Icelandair Group hafi greitt hluthöfum út talsvert minni arð á tímabilinu. Félagið bendir líka á að eigendur hafi lagt fyrirtækinu til nýtt fé. Icelandair Group hafi skapað mikil verðmæti fyrir íslenskt hagkerfi og samfélag og greitt háar fjárhæðir í ríkissjóð.

Lesa meira

Í svari frá upplýsingafulltrúa Icelandair er bent á að engir fjármunir fari út fyrir Icelandair Group-samstæðuna í tengslum við arðgreiðslur flugfélagsins, Icelandair ehf. Eini arðurinn sem fari til hluthafa sé það sem Icelandair Group greiðir. Arðgreiðslustefna Icelandair Group sé skýr og gagnsæ. Frá árinu 2011 hafi stefnan hjá félaginu verið að greiða um 20-40 prósent hagnaðar hvers árs í arð, og að endanleg arðgreiðsla hvers árs ráðist af fjárhagslegri stöðu félagsins, fjárfestingaþörf og markaðsaðstæðum. Á árunum 2017 og 2018 hafi arðgreiðslur samsteypunnar verið innan við 10 prósent af hagnaði áranna að undan. Enginn arður hafi verið greiddur út úr samsteypunni 2019.

Samsteypan hafi fylgt íhaldssamri stefnu um lykilhlutföll í efnahagsreikningi og hafi viðhaldið sterkri lausafjárstöðu og eiginfjárstöðu undanfarin ár, allt þar til COVID-19 skall á.

Á árunum 2017-2019 hafi félagið greitt 144 milljarða króna í laun, launatengd gjöld og tekjuskatt á Íslandi. Þar af hafi tryggingagjald numið um 9,1 milljarði króna. Ljóst sé að verulegur hluti af þessum 144 milljörðum hafi runnið beint í ríkissjóð í formi tekjuskatts einstaklinga og annarra opinberra gjalda. Líklegt sé að um 50% af fjárhæðinni hafi runnið beint í ríkissjóð eða yfir 70 milljarðar króna. Arður til hluthafa samsteypunnar hafi á sama tíma numið um 1,6 milljarði króna.

„Ekki þarf svo að fjölyrða um jákvæð hliðaráhrif á ríkissjóð af starfsemi Icelandair Group á þessum árum,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi. „Jafnframt er rétt að benda á í þessu samhengi að Icelandair Group safnaði um 23 milljörðum í nýju hlutafé sl. haust frá fjárfestum, þar á meðal voru margir sem hafa verið hluthafar í félaginu lengi.“

Í svarinu segir að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til vegna heimsfaraldursins til að verja mikilvæga innviði, til dæmis í ferðaþjónustu, muni skipta sköpum í viðspyrnunni eftir COVID og skila sér margfalt til baka á næstu árum.

  • Keahótel ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 187 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 1,7 milljarðar kr.

Keahótel segja að arðgreiðslur félagsins hafi verið hluti af tilfærslu innan samsteypu. Hluthafar móðurfélags Keahótela hafi engan arð fengið. Keahótel benda líka á að eigendur hótelkeðjunnar hafi lagt henni til nýtt fé, annars vegar um áramótin 2019-2020 og hins vegar í desember 2020. Það hafi verið gert til að mæta þeim mikla rekstrarvanda sem samstæðan standi frammi fyrir.

Lesa meira

Í svari frá forstjóra Keahótela segir að með arðgreiðslum Keahótela til móðurfélagsins hafi verið gerðar upp viðskiptastöður milli félaganna. Sumar rekstrareiningar séu reknar í sér félögum innan samstæðunnar sem hafi svo gert upp sín á milli með arðgreiðslum. „En ég vil ítreka aftur að engin arðgreiðsla hefur átt sér stað frá móðurfélagi samstæðunnar til eigenda,“ segir Páll L. Sigurjónsson forstjóri.

  • Guide to Iceland ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 40 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 1,3 milljarðar kr.

Ferðaþjónustuvefurinn Guide to Iceland segir í yfirlýsingu að fyrirtækið hafi á undanförnum árum greitt meira en tvo milljarða króna til ríkissjóðs í formi skatta og annarra gjalda. „Stuðningur frá ríkisstjórninni á þessum erfiðu tímum hefur ekki verið í neinu samræmi við það,“ segir í yfirlýsingunni. Eigendur og stjórnendur Guide to Iceland hafi veitt og muni áfram veita félaginu allan þann stuðning sem þurfi til þess að það vaxi og dafni á ný: „Allt samfélagið græðir á því.“

  • Straumhvarf ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 219 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 928 milljónir kr.
  • Íslandshótel hf.
  • Uppsagnastyrkur: 642 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 600 milljónir kr.
  • Indín ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 31 milljón kr.
  • Arðgreiðslur: 325 milljónir kr.

Indín ehf., sem rekur hótelið Reykjavík Lights við Suðurlandsbraut, er í eigu Keahótela. Í fyrrgreindu svari forstjóra Keahótela til Kveiks segir að arðgreiðslur Indíns hafi runnið til Keahótela ehf. „Tilgangur arðgreiðslunnar var að gera upp viðskiptastöður milli félaganna,“ segir Páll L. Sigurjónsson, forstjóri Keahótela.

  • Drífa ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 99 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 324 milljónir kr.
  • Ferðaskrifstofa Íslands ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 43 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 285 milljónir kr.

Ferðaskrifstofa Íslands rekur líka ferðaskrifstofurnar Úrval Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir. Í svari frá framkvæmdastjóranum segir að fyrirtækið hafi orðið fyrir algjöru tekjufalli á árinu 2020 og það sem af er ári 2021 vegna áhrifa faraldursins. „Tekjufall Ferðaskrifstofunnar er í kringum 99% á þessum tíma,“ segir Þórunn Reynisdóttir framkvæmdastjóri.

Lesa meira

„Þá hafa stöðugar aðgerðir og varúðarráðstafanir miðað að því að draga algjörlega úr ferðalögum utan landsteinanna,“ segir Þórunn. Tekjustofn félagsins og atvinnuskapandi starfsemi þess sé því alvarlega sköðuð og óljóst hversu lengi ástandið varir.

Aðgerðir íslenska ríkisins byggi á jafnræðisreglu. Engin ákvæði séu um það í lögum um uppsagnastyrki að félag sem greitt hafi arð til hluthafa á undanförnum árum falli utan þeirra. „Enda fæst ekki séð hvernig framkvæmanlegt væri að útfæra slíka reglu,“ segir í svarinu.

„Um lögin ríkti pólitísk sátt við afgreiðslu þeirra á Alþingi. Ferðaskrifstofa Íslands hefur farið í einu og öllu eftir ákvæðum þeirra og viðheldur enn ráðningarsambandi við hluta af starfsmönnum sínum. Ein af forsendum þess eru þeir styrkir sem félagið hefur fengið.“

  • Atlantik ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 53 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 276 milljónir kr.

Í svari frá ferðaskrifstofunni Atlantik segir að fyrirtækið hafi verið fjölskyldufyrirtæki allt frá stofnun árið 1978 og félagið hafi starfað á sömu kennitölu frá upphafi. Atlantik hafi oftast verið í farsælum rekstri undanfarin 20 ár og arðgreiðslur hafi verið miðaðar við rekstrarárangur. „Rekstrarhagnaður hefur verið nýttur til uppbyggingar í rekstrinum um árabil,“ segir Gunnar Rafn Birgisson, forstjóri og eigandi Atlantik.

Lesa meira

„Á árunum 2016 og 2017 var umtalsvert tap vegna óhagstæðrar gengisþróunar sem þá var fjármagnað af eiginfé. Betri rekstur og hagnaður varð hjá félaginu árin 2018 og 2019. Eigið fé hefur smám saman byggst upp innan fyrirtækisins í áranna rás þrátt fyrir sveiflur í rekstri,“ segir Gunnar Rafn.

„Í ljósi persónulegra breytinga (hjónaskilnaðar) hjá eigendum félagsins var fyrirtækinu á árinu 2019 skipt upp milli eigenda og sú skipting fól í sér útgreiðslu arðs í framhaldi af sölu á helmings eignarhluta. Vert er að árétta að 250 milljóna króna arðgreiðsla árið 2019 var einskiptisgjörningur vegna framangreindra breytinga á eignarhaldi félagsins og á sér ekki hliðstæðu í rekstrarsögu þess,“ segir í svarinu. Með þeirri arðgreiðslu hafi verið greitt út úr fyrirtækinu og gert upp við þann eiganda sem yfirgaf eigendahópinn, en án þess að það hefði frekari áhrif á starfsemina eða starfsfólk.

Atlantik hafi meðal annars sérhæft sig í skipulagningu hópferða fyrir erlendar ferðaskrifstofur, hvataferðahópa, ráðstefnur og skipulagt ferðir gesta af skemmtiferðaskipum. Félagið sé þekkt innan ferðaþjónustunnar sem traust fyrirtæki og hafi alltaf verið í skilum á opinberum gjöldum og greitt sínum birgjum og samstarfsaðilum á tilsettum tíma. Rekstur Atlantik hafi vaxið með ferðaþjónustunni og í upphafi árs 2020, rúmum 42 árum frá stofnun fyrirtækisins, hafi verkefnastaða verið mjög góð og 40 sérhæfðir starfsmenn hafi verið í fullu starfi hjá fyrirtækinu. „Áætluð velta í upphafi ársins 2020 var um 3.000 milljónir.“

„Rekstaraðstæður breyttust hinsvegar á stuttum tíma til hins verra. Í byrjun árs 2020 grunaði engan hversu mikið hrun yrði á tekjum fyrirtækisins og hversu langvinnt það yrði,“ segir Gunnar Rafn. Stjórnvöld hafi kynnt fyrirhugaðar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum og í framhaldi af því hafi verið beðið með óumflýjanlegar uppsagnir starfsmanna hjá Atlantik mun lengur en ella hefði verið.

„Síðan hefur reksturinn verið þrautaganga, gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana til þess að verja fyrirtækið og halda því í rekstri á árinu 2020, viðhalda viðskiptasamböndum og undirbúa mögulega viðspyrnu,“ segir hann. Í dag starfi sjö manns í hlutastarfi hjá fyrirtækinu þrátt fyrir algjört tekjufall. Í ljósi aðstæðna sé áfram gert ráð fyrir litlum tekjum á árinu 2021 og áætlað að reksturinn verði enn um sinn fyrst og fremst fjármagnaður af eigendum þess, jafnvel allt fram til sumarsins 2022.

Þegar upp hafi verið staðið í lok árs 2020 hafi tekjufall félagsins orðið rúmlega 99%. „Tekjur fóru úr 2800 milljónum árið 2019 í 10 milljónir 2020,“ segir Gunnar Rafn. Laun og launatengd gjöld árið 2020 hafi verið 180 milljónir króna á meðan tekjur ársins hafi verið 10 milljónir.

„Á árinu 2020 greiddi Atlantik engu að síður tekjuskatt, staðgreiðslu og tryggingagjald til ríkis og sveitarfélaga að upphæð 62 milljónir, á sama tíma var stuðningur frá ríkinu 53 milljónir.“ Miklu skipti að mati Atlantik að þrátt fyrir algjört hrun í tekjum hafi fyrirtækið engu að síður skilað meiri beinum tekjum til hins opinbera en það hafi fengið í stuðning.

Gunnar Rafn segir að fyrirtækið muni áfram sækjast eftir þeim stuðningi sem það hafi rétt til. „Án stuðnings ríkisins hefði bæði þurft að segja upp fleiri starfsmönnum og jafnframt að segja öðrum starfsmönnum upp mun fyrr en gert var í ljósi þeirrar óvissu sem var í gangi á árinu 2020 og er enn fyrir hendi. Auk þess má gera ráð fyrir þeim möguleika að án stuðnings hefði í ljósi aðstæðna einfaldlega þurft að stöðva rekstur fyrirtækisins á síðastliðnu ári.“

„Við væntum þess að með endurreisn ferðaþjónustunnar muni fyrirtækið ná sterkri stöðu sinni á nýjan leik. Við vonumst til að geta veitt fjölda starfsmanna vinnu og orðið enn á ný mikilvægur hlekkur við öflun gjaldeyristekna og tekið virkan þátt í endurreisn íslenska hagkerfisins.“

  • Iceland Travel ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 150 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 269 milljónir kr.

Ferðaskrifstofan Iceland Travel er í eigu Icelandair Group. Í svari upplýsingafulltrúa Icelandair er bent á að arðgreiðslur milli Iceland Travel og Icelandair Group séu færslur innan samstæðu og engir fjármunir fari út fyrir samstæðuna til hluthafa í tengslum við þær. Eini arðurinn sem fari út úr samstæðunni til hluthafa sé það sem móðurfélagið Icelandair Group greiðir. Nánar er gerð grein fyrir svari upplýsingafulltrúans undir Icelandair ehf. hér að ofan.

  • Fosshótel Reykjavík ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 155 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 240 milljónir kr.
  • Sena ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 47 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 200 milljónir kr.
  • Terra Nova ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 49 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 187 milljónir kr.

Terra Nova bendir á að eigandi ferðaskrifstofunnar um margra ára skeið hafi verið Primera Travel Group hf., sem hafi orðið gjaldþrota á síðasta ársfjórðungi ársins 2018. Allur arðurinn sem Terra Nova greiddi á tímabilinu var greiddur árið 2017 og fór til gamla eigandans. Í svari Terra Nova segir að tjón fyrirtækisins í formi tapaðra krafna á móðurfélagið Primera eftir gjaldþrot þess hafi verið mjög mikið, alls um 4,1 milljón evra. Eigið fé Terra Nova hafi verið neikvætt um 1,8 milljón evra í árslok 2018.

Lesa meira

Í svari Bjarna Hrafns Ingólfssonar, framkvæmdastjóra Terra Nova, er rakið að eftir gjaldþrot Primera Travel Group hafi Terra Nova verið í eigu félagsins TravelCo Nordic A/S þar til í júní 2019 þegar Arion banki hafi tekið móðurfélagið TravelCo Nordic yfir vegna skulda þess við bankann.

Í janúar 2020 hafi félagið Nordic Visitor hf. keypt Terra Nova af Arion banka. „Svo að það sé skýrt að þá hefur þessi arðgreiðsla árið 2017 ekkert með núverandi eiganda eða stjórnendur að gera,“ segir Bjarni Hrafn.

Félagið hafi nú verið nær tekjulaust í upp undir ár. Enginn rekstur geri ráð fyrir slíku í sínum áætlunum. „Aðstoð frá ríkinu hefur því nýst okkur gríðarlega vel og gert að verkum að við höfum náð að halda fleirum í vinnu en ella.“ Jafnframt hafi aðstoðin aukið mikið líkurnar á að félagið komist í gegnum núverandi ástand „þannig að við getum haldið áfram að greiða skatta og gjöld til samfélagsins.“

„Hvað varðar önnur ferðaþjónustufyrirtæki að þá vitum við að styrkir frá ríkissjóði hafa án efa komið í veg fyrir fjölda gjaldþrota, það er kannski besti mælikvarðinn á árangurinn,“ segir í svari forstjórans.

  • ALP hf.
  • Uppsagnastyrkur: 176 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 175 milljónir kr.
  • Lagardère travel retail ehf.
  • Uppsagnastyrkur: 65 milljónir kr.
  • Arðgreiðslur: 147 milljónir kr.

Lagardère travel retail rekur veitingastaði og verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í svari frá fyrirtækinu segir að uppsagnastyrkir hafi verið nýttir til að styrkja réttindi starfsmanna þegar kemur að endurráðningu og áunnum réttindum og til að draga úr því fjárhagslega áfalli sem faraldurinn hafi valdið.

„Þeir styðja þannig við viðspyrnu fyrirtækisins þegar opnast fyrir flugumferð til og frá landinu,“ segir Sigurður Skagfjörð Sigurðsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Lesa meira

Kveikur spurði um orðalag í skýrslu stjórnar Lagardère travel retail sem fylgir ársreikningi ársins 2019. Þar segir að áhrif faraldursins séu talin verða langvinn, en fyrirtækið sé vel í stakk búið að mæta áfallinu þar sem efnahagur sé sterkur og lausafjárstaðan góð. Áætlanir stjórnenda gefi til kynna að félagið hafi aðgang að nægu lausafé til þess að vera tekjulaust til lengri tíma. „Áætlanir stjórnenda gera ráð fyrir að tekjustreymi félagsins muni aukast verulega næsta vor og að næsta sumar muni félagið skila afgangi af sínum rekstri á ný,“ segir í skýrslu stjórnarinnar, sem er dagsett 14. september 2020.

Í svari forstjórans segir að skýrsla stjórnar hafi verið rituð í júní 2020 og formlega undirrituð í september. „Þegar skýrslan var skrifuð þá voru væntingar þess efnis að ferðaþjónustan myndi taka við sér það sumarið. Gengið var út frá því að vandamálið væri bundið við árið 2020 og sjóðir félagsins og utanaðkomandi aðstoð myndi duga til að fleyta félaginu í gegnum ástandið.“

Landamæri Íslands hafi verið „opnuð“ á ný 15. júní, „en framhaldið er þekkt og höfðu ferðatakmarkanir og heimsfaraldurinn bein og skörp áhrif á félagið og hafa enn.“

Tekjur félagsins árið 2020 hafi dregist saman um 95,4% á tímabilinu mars til desember, samanborið við árið 2019. Tap félagsins fyrir skatta á árinu 2020 hafi verið 347,8 milljónir króna. Enginn arður hafi verið greiddur fyrir rekstrarárin 2019 og 2020. Arðgreiðsla í júní 2019 hafi verið vegna rekstrarársins 2018.

„Þetta horfir þannig við mér að það voru náttúrulega gerð mjög alvarleg mistök við þessa lagasetningu,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.

„Það hefði þurft að setja miklu strangari skilyrði gagnvart fyrirtækjum til að þiggja þessa styrki,“ segir hún. Hún bendir á að ekki hafi verið vitað þegar arðgreiðslurnar voru greiddar út á sínum tíma að staðan yrði sú sem hún er í dag, „en við lögðum upp með það að það þyrftu að vera mjög, mjög rík skilyrði fyrir því að opna sjóði okkar almennings til að styðja við einstaka fyrirtæki. Þeim var ekki mætt.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að skoða verði þetta í „einhvers konar heildarsamhengi.“

Hann bendir á launagreiðslur fyrirtækjanna á árunum 2017-2019. „Til dæmis þessi fyrirtæki sem eru tíu efst á þessum 50 lista sem þú ert með, að launagreiðslur þeirra á þessu árabili eru einhvers staðar á bilinu 230-250 milljarðar króna,“ segir Halldór Benjamín.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, telur að mjög alvarleg mistök hafi verið gerð við lagasetninguna.

Samkvæmt lögum þurfa fyrirtæki sem fá uppsagnastyrk að uppfylla tiltekin skilyrði áður en þau geta á ný byrjað að greiða sér arð. En fortíðararður skiptir þar ekki máli.

Drífa Snædal segir að arðgreiðslur til fortíðar skipti máli „í stóra samhenginu.“ Ekki sé sjálfsagt að fyrirtæki sem greitt hafi milljarða króna í arð hafi aðgang að almannafé.

„Hins vegar er þetta náttúrulega snúið, af því að við vildum verja störf, við vildum verja fyrirtæki að einhverju leyti, þannig að þau gætu risið fljótt og örugglega upp,“ segir Drífa. „Það er ekki samfélagslega til hagsbóta að fyrirtæki hefðu farið unnvörpum á hausinn.“

Í samantekt Kveiks er bara horft á arðgreiðslur sjálfra félaganna sem fengu styrkinn, en sum þeirra eru hluti af stærri fyrirtækjasamsteypu, og bæði Icelandair og Keahótel sögðu að arðgreiðslur þeirra væru hluti af tilfærslu innan samsteypu. Icelandair benti á að móðurfélagið Icelandair Group hefði greitt hluthöfum út talsvert minni arð á tímabilinu og Keahótel sögðu hluthafa móðurfélags hótelkeðjunnar engan arð hafa fengið.

Icelandair og Keahótel benda á að eigendur þeirra hafi lagt fyrirtækjunum til nýtt fé. Ferðaþjónustufyrirtækið Guide to Iceland segir líka að eigendur og stjórnendur hafi veitt og muni áfram veita félaginu nauðsynlegan stuðning.

Icelandair bendir líka á að samsteypan hafi skapað mikil verðmæti fyrir íslenskt hagkerfi og samfélag og greitt háar fjárhæðir í ríkissjóð. Guide to Iceland segist hafa greitt meira en tvo milljarða króna í skatta og gjöld í ríkissjóð undanfarin ár, en stuðningur ríkisins hafi ekki verið í neinu samræmi við það.

Bláa lónið er í sérflokki þegar kemur að arðgreiðslum árin 2017-2019 hjá þeim 50 fyrirtækjum sem mestan styrk hafa fengið.

Kveikur óskaði eftir viðtali við Grím Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, til að ræða arðgreiðslurnar, en líka stöðu fyrirtækisins og hverju ríkisstuðningur hefur breytt. Forstjórinn vildi ekki koma í viðtal og sagðist ekki telja viðeigandi að blanda saman umræðu um arðgreiðslur og stöðu ferðaþjónustunnar. Hann vísaði á Samtök atvinnulífsins.

„Allir þessir styrkir hafa skipt talsverðu máli fyrir þessi fyrirtæki,“ segir Halldór Benjamín, framkvæmdastjóri samtakanna. „Ég veit fyrir víst að rekstur þessara fyrirtækja á þessum lista árið 2020 hefur verið skelfilegur.“

Hann segir að Bláa lónið hafi verið einn stærsti skattgreiðandi á Íslandi svo árum skipti. „Skattspor þess á því tímabili sem þú vísar til, sem er 2017-2019, hefur verið rétt ríflega 13 milljarðar króna,“ segir Halldór Benjamín.

Spurður hvort hátt í átta milljarða króna arðgreiðslur Bláa lónsins séu þá ekki atriði í hans huga, segir Halldór Benjamín að menn vilji að fyrirtæki landsins greiði arð: „Það er hraustleikamerki.“

„Aðalatriðið okkar sem samfélags er að tryggja að þessi stóru og mikilvægu fyrirtæki í þessari mikilvægu atvinnugrein, að þau nái vopnum sínum á nýjan leik.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það vera hraustleikamerki þegar fyrirtæki greiða hluthöfum sínum arð.

Spurður hvort þá væri nokkuð óeðlilegt að hluthafar, sem hafi virkilega notið ávaxtanna af góðum rekstri, kæmu með fé inn í fyrirtækin áður en leitað væri á náðir ríkisins, segir Halldór Benjamín að fyrirtækin eigi eftir að greiða til baka „hverja einustu krónu“ sem þau hafi fengið í ríkisstyrk.

„Enda er það veðmálið sem að ríkisstjórnin og Alþingi eru að taka,“ segir hann. „Að með því að veita tímabundna fyrirgreiðslu muni þetta koma margfalt til baka í gegnum rekstur fyrirtækjanna, skattgreiðslur og launagreiðslur.“

Næstum öll þeirra 50 fyrirtækja sem mest hafa fengið í uppsagnastyrk eru í ferðaþjónustu. Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir/RÚV.

Nær öll fyrirtækjanna 50 eru í ferðaþjónustu, en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra vildi ekki koma í viðtal. Ekki fékkst heldur viðtal við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra.

Samantekt sem þessi segir auðvitað bara takmarkaða sögu. Þótt fyrirtæki hafi haft svigrúm til arðgreiðslna í fortíðinni þýðir það ekki endilega að staðan hafi verið jafngóð þegar faraldurinn skall á. Arðgreiðslur sýna hins vegar hvernig verðmæti hafa runnið til hluthafa.

Spurður hvort mögulega væri réttara út frá gildum frjáls markaðar að þau fyrirtæki sem ekki geta lifað af lifi ekki af, segir Halldór Benjamín að því miður verði það örlög fjöldamargra fyrirtækja.

„Hagsmunamatið sem á sér stað bæði hér og í stjórnmálum og í launþegahreyfingunni er þetta: Að fórnarkostnaður samfélagsins við það að missa heila atvinnugrein í gjaldþrot er einfaldlega meiri en svo að styðja við hana tímabundið,“ segir hann.

En hefur stuðningurinn náð því markmiði að bæta stöðu launafólks? „Ég hugsa að það hafi tekist að einhverju leyti,“ segir Drífa Snædal.

„Fólk fer ekki beint inn á atvinnuleysisskrá, af því að þetta er orðið svo langt tímabil atvinnuleysis þá skiptir rosalegu máli að lengja í afkomuöryggi fólks.“

VR birti í janúarlok auglýsingar þar sem kallað er eftir aðgerðum fyrir heimili. Mynd: VR/YouTube

Stéttarfélagið VR birti í lok janúar auglýsingar þar sem kallað er eftir frekari aðgerðum, ekki fyrir fyrirtæki heldur heimili.

„Stjórnvöld voru fljót að bregðast við þegar COVID-19 brast á, í þágu fyrirtækjanna það er að segja,“ segir í auglýsingunni. „Fólkið þarf hjálp líka, og það strax.“

Halldór Benjamín segir að ekki þýði að skipta samfélaginu upp í tvö hólf, þar sem fyrirtæki séu öðru megin og launþegar hinum megin. Hann bendir á að það fé sem ríkið hefur varið í aðgerðir fyrir fyrirtæki hafi fyrst og fremst runnið í hlutabætur. „Sem að var til hvers? Jú, til þess að styrkja stöðu launþega, er það ekki?“ segir Halldór Benjamín.

„Við erum ekki ósátt við að fyrirtæki fái stuðning,“ segir Drífa, „ef að það verður til þess að aðstoða fólkið.“ Fólk fái að einhverju leyti aðstoð í gegnum fyrirtækin.

„Við höfum hins vegar verið mjög skýr með það að það fyrsta sem þurfti að gera var að styðja við atvinnuleysistryggingakerfið, hækka atvinnuleysisbætur, lengja í atvinnuleysisbótum.“ segir hún.

„Við náðum smá árangri þar, en við höfum haldið því fram allan tímann að besta leiðin út úr kreppunni er að tryggja það að fólk geti staðið við sínar skuldbindingar,“ segir Drífa.

Mynd: Anna Kristjánsdóttir.

Þótt byrjað sé að bólusetja heimsbyggðina er óvíst hvenær næst að ráða niðurlögum farsóttarinnar, og alls óvíst hvenær ástandið á vinnumarkaði verður aftur orðið gott.

Halldór Benjamín telur að lungi beinna aðgerða gagnvart ferðaþjónustufyrirtækjum sé þegar kominn fram: „Enda var markmiðið, sjáðu, að fyrirtækin gætu skalað sig niður, farið í eins konar híði, eins og það hefur verið kallað, og beðið þess að það birti til á nýjan leik.“

Mynd af Seljalandsfossi efst í umfjölluninni: Curren Podlesny/Unsplash