Alma varð hundveik af myglu

Alma D. Möller veiktist í mygluðu og rakaskemmdu húsnæði Landspítalans fyrir rúmum áratug. Fram að því hafði hún lítið veitt umræðu um myglu athygli, og meðal lækna var vantrú á áhrifum myglu á heilsu algeng.

Alma varð hundveik af myglu

Alma var nýbyrjuð á nýjum vinnustað, gjörgæsludeild Landspítalans. Fljótlega tók hún eftir því að pestir herjuðu á hana, en hún var vön því að vera bæði hraust og full starfsorku.

„Ég fékk tíðar sýkingar í ennis- og kinnbeinsholur og þurfti meira að segja í skurðaðgerð út af því. Og leið oft eins og ég væri að fá flensu. Ég skildi ekkert í þessu og tengdi þetta ekkert vinnustaðnum fyrst,“ segir hún.

Síðan kom að því að hún var fjarri vinnustaðnum í um sex til átta vikur, fór bæði í sumarleyfi og aðgerð á hné. „Þá man ég hvað mér leið ótrúlega vel þegar ég kom til starfa.“

Kostnaður Landspítalans vegna fjarveru starfsmanna sem voru veikir af völdum myglu og raka nam um 30 milljónum króna árið 2016.

Það er sjaldan rólegt á gjörgæsludeildinni, en þegar Alma sneri úr leyfi var þó svigrúm til skrifborðsvinnu og hún sat því löngum stundum á skrifstofunni.

„Ég skildi ekkert hvað fjaraði undan starfsorkunni,“ segir hún. „Ég er venjulega full af orku.“

Síðan kom í ljós að þarna voru miklar rakaskemmdir, lak bæði með glugga og svölum. Sýni voru tekin og staðfest að þarna var mygla. „Þá loksins fór ég að leggja saman tvo plús tvo,“ segir Alma. „Í ljós kom að við vorum þarna margir læknar sem vorum með svipuð einkenni.“

Skemmdirnar voru lagfærðar og flestir starfsmennirnir náðu sér aftur. Mygla og rakaskemmdir hafa þó áfram verið til vandræða. Kostnaður sjúkrahússins vegna fjarveru starfsmanna sem voru veikir af völdum myglu og raka nam um 30 milljónum króna árið 2016. Það ár varði spítalinn 300 milljónum króna til viðgerða og endurbóta vegna raka og myglu, samkvæmt því sem kom fram í fréttum RÚV á þeim tíma.

Margir starfsmenn landlæknisembættisins fengu einkenni sem rakin voru til myglu. Embættið var þá til húsa í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg í Reykjavík.

Alma varð síðar landlæknir og rakst þá aftur á mygluvanda á skrifstofum embættisins í eldra húsi.

„Það voru margir með einkenni, þriðjungur starfsmanna. Tíu prósent gátu ekki unnið í húsinu og voru komnir í annað húsnæði. Fólk sem hefur einu sinni fengið einkenni, það er viðkvæmara fyrir því að finna þau aftur.“

Rætt er við Ölmu í Kveik í kvöld þar sem fjallað verður um rakaskemmdir og myglu, sem valda miklu tjóni og heilsuvanda á hverju ári.

Sjáðu líka brot úr viðtali við Ragnheiði Sigurðardóttur sem missti röddina eftir að mygla fannst þar sem hún vann.