Á götum Aþenu eftir brottvísun frá Íslandi

Ahmad Ata sefur í almenningsgörðum og reynir að orna sér við útblástur úr loftræstistokkum jarðlestakerfisins í Aþenu. Hann er heimilislaus eftir að hafa verið synjað um hæli á Íslandi.

Á götum Aþenu eftir brottvísun frá Íslandi

Ahmad segir sögu sína og sýnir aðstæður flóttafólks í Aþenu í Kveik í kvöld. Hann segist hafa flúið frá Palestínu, heimalandi sínu, eftir að ísraelskir uppljóstrarar reyndu að þvinga hann til að gerast sjálfur uppljóstrari. Öðrum kosti yrði birt myndbandsupptaka sem setti líf hans í hættu.

Hann flýði fyrst til Amman í Jórdaníu og keypti sér flugmiða þaðan til Tyrklands, í gegnum Aþenu. En þar var för hans stöðvuð þar sem vegabréfsáritun til Tyrklands vantaði. Til að komast hjá því að vera vísað aftur til Jórdaníu óskaði Ahmad eftir hæli í Grikklandi.

Hann lýsir því sem við tók sem hreinni vítisdvöl og að fjórum mánuðum liðnum leitaði hann á netinu að löndum sem væru örugg. Þannig fékk hann þá hugmynd að koma sér til Íslands, sem hann gerði fyrst snemma árs 2018. Honum var neitað um hæli þar sem hann nyti alþjóðlegrar verndar og sendur aftur til Grikklands. Hann reyndi í tvígang að komast aftur til Íslands en var í bæði skiptin vísað aftur til Grikklands, nú síðast í lok janúar.

Heimilislaus Aþenubúi eða flóttamaður sefur á bekk í almenningsgarði við gríska þinghúsið

„Mér leið eins og ég væri einn af fólkinu á Íslandi“, segir Ahmad. „Mér leið eins og þarna væri fjölskylda mín. Þegar þau hitta mig þá líður mér ekkert eins og ég sé neitt öðruvísi en þau. Ég elska landið og ég var öruggur þar. Ég elskaði fólkið og ég elskaði veðrið.“

Lögmaður er með mál Ahmads til meðferðar og ætlar með það fyrir dómstóla. Ólíklegt er að niðurstaða fáist innan árs og á meðan er Ahmed á götunni í Aþenu. Hann segist lítill maður og auðvelt fórnarlamb fíkla og þrjóta á götum Aþenu. Hann efast um að hann lifi af biðina eftir dómsniðurstöðu.

Kveikur er á dagskrá RÚV kl. 20.05, strax að loknum fréttum og Kastljósi.