75% skordýranna horfin

Það væri auðvelt fyrir Íslendinga að álykta sem svo að skordýrum færi fjölgandi í heiminum, því þannig er þróunin hér á landi með hlýnandi loftslagi. En öðru nær.

75% skordýranna horfin

Kveikur fjallar um rannsókn sem sýnir fram á stórfelldan skordýradauða á náttúruverndarsvæðum í Þýskalandi. Aðstandendur rannsóknarinnar telja að heimfæra megi niðurstöðurnar á mestalla Vestur-Evrópu.

„Á þessum tæpu þrjátíu árum, að teknu tilliti til áhrifa óstöðugs veðurfars og breytinga á veðurfari á þessum tíma, kom í ljós að við höfðum misst úr þrjá fjórðu skordýranna“ segir Hans de Kroon, plöntuvistfræðingur og einn af höfundum greinarinnar.

Líffræðilegur fjölbreytileiki fer almennt dvínandi í heiminum og skordýr eru þar ekki undanskilin. Þróunin gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir matvælaframleiðslu í heiminum, þar sem meirihluti plantna er háður því að skordýr komi að frævun þeirra.

„Án skordýra lifum við ekki af. Það er mjög einfalt. En ætli skordýrin lifi okkur ekki, svona til lengri tíma litið.“ Segir Joseph Settele, þýskur líffræðingur, og rammar stöðuna inn í hrollvekjandi setningu.

Settele er svo sem ekki óvanur því að vera boðberi válegra tíðinda. Hann var einn af aðalhöfundum IPBES-skýrslu Sameinuðu þjóðanna, þar sem lagt var mat á stöðu líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa í heiminum. Skýrslan kom út í byrjun sumars og fékk marga til þess að staldra við.

Hann segir brýnt að gera breytingar á landbúnaði og lifnaðarháttum mannsins ef ekki eigi illa að fara.

Aðstandendur rannsóknarinnar í Þýskalandi voru varkárir í ályktunum sínum um hvað ylli skordýradauðanum, en einn þeirra hafði þó þetta að segja:

„Við skulum átta okkur á því að mikið er til af upplýsingum um áhrif skordýraeiturs í litlu magni á skordýrastofna. Það er í samræmi við það sem við sjáum hérna,“ segir de Kroon. „Og þetta vekur mann til umhugsunar um hvernig við högum landbúnaði hér í hinum vestræna heimi.“

„Við verðum að bregðast við undir eins. Við getum ekki beðið í önnur tíu ár þar til við höfum ítarlegri skilning á þróuninni.“

Nánar verður fjallað um málið í Kveik í kvöld klukkan 20:05.