26.000 raddir sem ekki heyrast

Af þeim rúmlega þrjátíu þúsund erlendu ríkisborgurum sem hér búa nýttu aðeins 4.130 atkvæðarétt sinn í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Varhugavert er að virða að vettugi samfélagshóp því þá verður hann jaðarsettur og getur upplifað kulnun eða reiði gagnvart samfélaginu, segir prófessor í stjórnmálasálfræði. Sum í hópi innflytjenda vissu ekki einu sinni af kosningunum þrátt fyrir að hafa kosningarétt. Öðrum þykir stjórnmálamenn aðeins huga að innflytjendum rétt fyrir kosningar.

Innflytjendur á Íslandi eru um sextíu þúsund eða rúm sextán prósent mannfjöldans. Þetta er alls konar fólk og kemur víða að. Mikið hefur farið fyrir umfjöllun um hælisleitendur og flóttafólk en athyglin hefur lítið beinst að þeim sem hafa sest hér að, innflytjendunum. Sum komu hingað til að vinna í fáein ár en ílengtust. Önnur komu hingað í nám, kynntust maka og settust að hér.

„Þá finnst mér að við þurfum að gefa þeim raunverulegt tækifæri til þess að hafa áhrif,“ segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi. RÚV - Arnar Þórisson.

„Mér finnst mikilvægt að við sem samfélag sé um bæði svolítið sanngjörn gagnvart erlendu íbúunum okkar sem við innheimtum fulla skatta af og erum búin að ákveða að þau eigi að fá að kjósa til sveitarstjórna. Þá finnst mér að við þurfum að gefa þeim raunverulegt tækifæri til þess að hafa áhrif,“ segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi. Við víkjum nánar að honum síðar.

En hafa þau áhrif? Hafa innflytjendur, sem sum hver hefur dreymt um að búa í vestrænu lýðræðisríki, áhrif á samfélagið og hvernig því er stjórnað? Fólk getur verið virkt í samfélaginu á margvíslegan máta en lýðræði gengur bókstaflega út á að hlustað sé á fólk og að það hafi áhrif á hvernig landinu og sveitarfélögum er stjórnað. En hvernig gengur þessum fjölbreytta hópi nýrra Íslendinga að taka þátt í kosningum?

Najlaa Attaallah, t.v. og Sherry Ruth E. Buot, t.h. Samsett mynd.

„Ég vissi ekki einu sinni að það væru kosningar og ég veit ekki hvernig þær virka af því að þaðan sem ég kem er svo sjaldgæft að haldnar séu kosningar,“ segir Najlaa Attaallah frá Palestínu. Karim Askari, frá Marokkó, hefur reynt að ná athygli stjórnmálamanna: „Stjórnmálamennirnir koma ekki til okkar. Þeir setjast ekki niður með okkur. Þeir hlusta ekki á okkur,“ segir Karim. Sherry Ruth E. Buot, frá Filippseyjum, tekur undir þetta: „Við erum gleymd. Við erum eins og ósýnilegt fólk.“

En innflytjendur eiga ekki að vera ósýnilegir. Þvert á móti segir Efnahags- og framfarastofnunin, OEDC, að Ísland eigi að gera innflytjendur hluta af íslensku samfélagi. Og Samtök iðnaðarins ganga enn lengra og segja að til að tryggja lífsgæði næstu áratugi þurfi fleiri að flytja hingað og innflytjendur að verða allt að helmingur vinnandi fólks.

En þetta ákall OECD og iðnaðarins er ekki í samræmi við upplifun Nöjlu frá Gaza-ströndinni í Palestínu. Hún kom hingað fyrir bráðum fimm árum sem skiptinemi í háskóla en ákvað að vera hér um kyrrt og börnin hennar eru fædd hér. En aðlögunin gengur hægt.

Najlaa spyr hvað hún eigi að gera þau 10-20 ár sem það taki hana að vera nógu færa í íslensku til að geta skilið pólitískar umræður.

„Stundum finnst mér að við höfum verið skilin eftir. Ég vil læra íslensku og ég er að gera mitt besta, reyndar er ég að læra íslensku í háskóla. En annað fólk verður líka að leiða hugann að því að ég á fjölskyldu og ég verð að vinna og greiða mína skatta. Og sólarhringurinn er bara 24 stundir,“ segir Najlaa.

„En ég neita því ekki að það er okkar hlutverk að læra tungumálið. En til þess að verða nógu fær í tungumálinu, þurfum við áralanga þjálfun. Það tekur mig 10-20 ár að læra að tala reiprennandi íslensku. En hvað með árin 10 eða 20 fram að því?,“ spyr Najlaa.

En af hverju erum við að velta því fyrir okkur hvort fólk kýs? Það er réttur íbúa í lýðræðisríki að velja sér valdhafa og kosningar eru ákveðinn mælikvarði á virkni hópa fólks. En hvað segja tölurnar okkur?

Miklu færri kusu í síðustu alþingiskosningum í hópi innflytjenda en þeirra sem hafa engan erlendan bakgrunn. RÚV - Kolbrún Þóra Löve. Heimild: Hagstofa Íslands.

Áttatíu og þrjú prósent þeirra sem hafa engan ekki erlendan bakgrunn kusu í síðustu alþingiskosningum en fjörutíu og tvö prósent innflytjenda. Það hefur því ekki gengið vel að virkja innflytjendur til að kjósa. En skiptir það máli? Í lýðræði felst að öll séum við jafnmikils virði og að þarfir og langanir eins séu ekki mikilvægari en annarra. En ef innflytjendur hafa ekki sín sérstöku áherslumál þá ætti það varla að skipta máli að innan við helmingur þeirra kýs, eða hvað?

„Nú er ég búin að vera hérna í tuttugu ár og ýmislegt sem ég upplifði fyrir tuttugu árum er enn í gangi sem innflytjendur tala um, hvað varðar íslenskukennslu, hvað varðar það að menntun er ekki tekin gild á vinnustöðum. Af hverju eru ekki tækifæri til framfara hjá fólki af erlendum uppruna í samfélaginu og inni í fyrirtækjum? Þetta er búin að vera sama sagan í um tuttugu ár,“ segir Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi alþingismaður.

Sherry frá Filippseyjum tekur undir þetta. Hún lærði hjúkrun og starfaði við það í Bretlandi og fluttist þaðan til Íslands til að setjast hér að. Hún hefur unnið margvísleg störf hér en vinnur núna í leikskóla. „Ég hef verið hér í langan tíma, mjög langan tíma, í 23 ár og mér finnst að Ísland er heima mín núna. Fyrsta heima núna, það er gömul heima áður eða heimalönd. En þetta er heimalandið mitt núna. Og ég elska Ísland og ég er mjög stolt af Íslandi. En það er svo margt í kerfinu sem við getum lagað,“ segir Sherry.

„Það er 40-50 þúsund kall núna fyrir [íslensku]námskeið. Það er svolítið mikið fyrir fólk sem er að borga líka svo háa leigu,“ segir Sherry. RÚV - Arnar Þórisson.

Eins og aðgengi að íslenskukennslu sem kostar sitt. „Og fólk þarf að fara í vasa sinn og borga fyrir það. Það er 40-50 þúsund kall núna fyrir námskeið. Það er svolítið mikið fyrir fólk sem er að borga líka svo háa leigu,“ segir Sherry.

Karim frá Marokkó hefur búið hér í 18 ár og er í góðum tengslum við hóp múslima sem mæta til bænastundar í Stórmoskunni. Hann segir traust skorta í samskiptum innflytjenda og stjórnmálamanna.

Langstærstur hluti stefnuskrár stjórnmálamanna snýr að þeim sem hafa alist hér upp. En nýir Íslendingar hafa aðrar þarfir, bendir Karim Askari, formaður Stofnunar múslima á Íslandi á. RÚV - Arnar Þórisson.

„Níutíu prósent af stefnuskrá þeirra er bara fyrir heimamenn, fyrir þau sem eru hér borin og barnfædd, ekki fyrir nýbúana. Nýbúar hafa sínar þarfir. Ef þú ferð að tala um að gera garð hér og þar eða að breikka eða þrengja götu, þá er þeim alveg sama. En þeim er umhugað um launin sín, um húsnæðisvandann, um börnin sín, bætur og tungumál. Þetta eru þarfir þeirra,“ segir Karim Askari, formaður Stofnunar múslima á Íslandi.

„Það er eitt sem við öll þjáumst af: Við erum einmana. Við erum ekki með stuðningsnet hérna. Við höfum ekki stórfjölskylduna hér. Ég hef ekki foreldra mína hér,“ segir Najlaa.

Já, skortur á stuðningsneti, aðgengi að íslenskukennslu og að erlend menntun sé tekin gild, eru meðal áherslumála sem okkar nýju Íslendingar sjá lítið af hjá stjórnmálamönnum. En ekki öll sem hér búum skella skollaeyrum við þessu því sum, til að mynda íbúar í Vík í Mýrdal, hafa áttað sig á þessu. Þar nálgast fólk málið út frá nýju sjónarhorni með það að markmiði að efla lýðræðislega þátttöku þeirra sem hafa flutt hingað frá útlöndum.

Vík í Mýrdal. Þar eru haldnir mánaðarlegir fundir á vegum sveitarstjórnar sem fara eingöngu fram á ensku. RÚV - Arnar Þórisson.

Mánaðarlega eru fundir í Enskumælandi ráði í Vík. Í því sitja íbúar af erlendum uppruna. Formaður ráðsins er Tomasz Chochołowicz. Hann flutti frá Póllandi til Íslands fyrir átta árum ásamt konu sinni. Þau settust strax að í Vík og hafa þau átt börnin sín þar. Tómasz hefur starfað hjá Icewear næstum allan tímann. Hann er verslunarstjóri þar í dag.

Tomasz tók sæti á B-listanum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar í Mýrdalshreppi. Hann hefur barist fyrir því að hlustað sé á sjónarmið erlendu íbúanna á Vík. RÚV - Arnar Þórisson.

Hvernig kom það til að þú fórst að blanda þér í kosningabaráttuna? „Strákar frá B-listanum komu til mín. Fyrst voru þeir feimnir og spurðu hvort þeir mættu taka mynd af sér með mér. Ég sagði: Allt í lagi, ekkert vandamál. Ég þekki þá og ég kann vel við þá. En svo færðist meiri alvara í þetta. Ég hugsaði: Hvað getum við gert? Hvað vill fólk? Hvað vilja útlendingar?“, segir Tomasz.

Fjölgun erlendra íbúa í Vík í Mýral hefur verið afar mikil síðustu ár. RÚV - Kolbrún Þóra Löve. Heimild: Hagstofa Íslands.

Miklar breytingar hafa orðið á samsetningu samfélagsins í Vík í Mýrdal síðustu ár. 2010 bjuggu þar 500 manns og 30 þeirra voru með erlendan ríkisborgararétt. Núna búa þar 950 og 570 þeirra eru með erlendan ríkisborgararétt.

Í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra voru reglur rýmkaðar þannig að erlendir ríkisborgarar þurftu bara að hafa búið þrjú ár í sveitarfélagi en ekki fimm til öðlast kosningarétt. „Við þetta tæplega fjórfaldaðist fjöldi erlendra íbúa á kjörskrá,“ segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi.

Og þá ákvað Tómasz að reyna að fá stjórnmálamenn til að hlusta á sjónarmið erlendu íbúanna. Einar Freyr var þá þriðji maður á B-lista. „Og maður fékk svolítið á tilfinninguna: Ókei, þarna er hópur. Hann kannski hefur verið svolítið afskiptur. Hefur ekki haft nægilega sterka rödd, ekki haft vettvang til að koma sínum skoðunum á framfæri,“ segir Einar.

Tómasz er formaður Enskumælandi ráðsins. Einar Freyr gefur skýrslu í upphafi hvers fundar. RÚV - Árni Þór Theodórsson.

„Svo ég sagði það sem ég þurfti að segja og hann hlustaði greinilega. Og þau tóku þetta alvarlega,“ segir Tómasz. „Þannig verður verða til þessar hugmyndir um Enskumælandi ráðið sem viðbragð, bara til að hleypa þeim að umræðunni og hafa áhrif,“ segir Einar. Ráðið kemur saman mánaðarlega. Á fundum ráðsins gefur sveitarstjóri skýrslu, svarar spurningum og tekur við ábendingum nefndarmanna.

Upplifir þú að það hafi verið þannig að erlendu íbúarnir hér hafi verið með einhver málefni sem voru ekki að komast á dagskrá fyrr en það var byrjað að tala við þau svona markvisst? „Ja, við getum til dæmis tekið bara líkamsræktina. Það er eitt skýrasta dæmið,“ segir Einar. „Við ætlum að byggja líkamsræktarstöð. Ég geri ráð fyrir að hún verði 600 fermetrar. Þegar ég fór um og spurði erlendu íbúana hvað þeim fyndist vanta hérna, sögðu þau: Betri líkamsræktarstöð, stærri líkamsræktarstöð,“ segir Tómasz.

Og nýja líkamsræktarstöðin, fyrsta baráttumál erlendu íbúanna sem vilja geta stundað líkamsrækt eftir langan vinnudag, virðist í höfn því stefnt er að byggingu hennar á næsta eða þarnæsta ári.

Erlendu íbúarnir í Vík segjast fá miklu betri upplýsingar um framkvæmdir í sveitarfélaginu eftir að ráðið tók til starfa. RÚV - Árni Þór Theodórsson.

Finnst þér eitthvað hafa breyst með Enskumælandi ráðinu? „Já, það er miklu meira upplýsingaflæði. Og líka bara svona formlegt sjónarmið: Heyrðu við erum hér og það eru ekki allir sem tala íslensku,“ segir Kristína Hajniková frá Slóvakíu.

„Það var í raun og veru erfitt fyrir mig að nálgast upplýsingar um það er að gerast í bænum en núna er það miklu auðveldara,“ segir Damian Szpila frá Póllandi.

„Þegar þú ert útlendingur og kemur hingað, þá kynnist þú bara útlendingum. Allar upplýsingar sem ég fæ eru bara í gegnum vini mína, sem vill svo til að eru útlendingar,“ segir Michal Svach frá Tékklandi.

Deirdre Ana Stack Marques, frá Írlandi, tekur undir að með Enskumælandi ráðinu sé auðveldara að átta sig á hvaða framkvæmdir standi fyrir dyrum í sveitarfélaginu.

„Það eru stundum margar sögusagnir í gangi sem þú getur þaggað niður ef þær eru ekki sannar eða staðfest ef eitthvað er hæft í þeim,“ segir Hamsa Arnedo Moreno frá Spáni. Marcin Miskowiec frá Póllandi segir að með tilkomu ráðsins heyrist rödd erlendu íbúanna í Vík betur.

Þó svo að kosningaþátttaka hafi í heildina minnkað hjá þjóðinni í sveitarstjórnarkosningum, hefur hún hrunið hjá þeim sem eru með erlendan ríkisborgararétt. Þau mega kjósa þegar þau hafa átt lögheimili á Íslandi í 3 ár. RÚV - Kolbrún Þóra Löve. Heimild: Hagstofa Íslands.

Þó svo að mörg í hópi erlendra íbúa í Vík hafi nýtt atkvæðaréttinn í síðustu sveitarstjórnarkosningum á ekki það sama við þegar landið allt er skoðað. Í heild hefur kosningaþátttaka minnkað úr 79 prósentum í 63. Stærra skarð hefur þó verið hoggið í hóp erlendra ríkisborgara því þátttaka þeirra hefur minnkað úr 40 prósentum í 14.

Kosningarnar fóru alveg fram hjá mörgum innflytjendum. Najlaa er í þeim hópi. En hún hefði viljað taka þátt í kosningunum. „Auðvitað. Ég bý á Íslandi og ég er hluti af samfélaginu. Það ætti að vera skylda mín að kjósa einhvern sem getur þjónað samfélaginu,“ segir Najlaa.

Og Sherry bætir við að áhugaleysi stjórnmálamanna skýri að einhverju leyti hvers vegna innflytjendur kjósa ekki: „Okkur finnst að stjórnmálamenn muni bara eftir okkur þegar kosningar eru að koma,“ segir Sherry. Karim tekur undir þetta. „Stjórnmálamenn segjast ætla að gera hitt og þetta fyrir innflytjendur. En að kosningum loknum heyrum við ekkert frá stjórnmálamönnunum. Það finnst mér dapurlegt,“ segir Karim.

Karim Askari segir innflytjendur ekki finna það í reynd að hér ríki lýðræði. RÚV - Arnar Þórisson.

„Mér finnst svolítið sorglegt að sjá það hafi farið á þann veg núna hér á Íslandi. Við erum að reyna að vera alþjóðleg en samt erum við að setja fólk af erlendum uppruna til hliðar. Bara að nota þau þegar við viljum og okkur vantar þau til að gera eitthvað fyrir okkur,“ segir Sherry.

Innflytjendum sárnar þessi skortur á samtali. „Hvar er lýðræðið hérna? Ef það er lýðræði þá verðum við að sjá það,“ segir Karim. Og Sherry bætir við: „Fólk sem er „lítið fólk“ er gleymt.“ Karim hvetur fólk til að þess að fræða innflytjendur í stað þess að dæma þá fyrir fram.

Þó svo að Najlaa hafi búið hér í bráðum fimm ár og lagt stund á íslenskunám er tungumálið henni mjög framandi. „Stundum verð ég svo döpur og miður mín þegar ég hugsa: hvenær kemur eiginlega að því að ég geti bara horft á íslenskt sjónvarp og skilið það sem þar er sagt.“

Nichole Leigh Mosty er ein fárra sem hafa náð langt í stjórnmálum þrátt fyrir að tala ekki lýtalausa íslensku. Hún var alþingismaður 2016-2017 fyrir Bjarta framtíð og segir mikilvægt að fólk af erlendum uppruna eigi sér fyrirmyndir í hópi stjórnmálamanna. „Þegar fólk sér ekki fólk eins og þau í þessu hlutverki þá eru þau minna að fylgjast með hvað er að gerast og hafa áhuga á þeim. Og bara líka að trúa því að það er einhver berjast fyrir þeirra hag. Það skiptir máli, hver er minn haukur í horni.“

Kjör Nichole Leigh Mosty á Alþingi markaði tímamót. Hún varð fyrst kvenna af erlendum uppruna til að vera kosin á Alþingi og einnig fyrst fólks af erlendum uppruna til að gegna embætti varaforseta Alþingis.

Nichole er fyrsta konan af erlendum uppruna sem hefur verið kjörin á Alþingi og fyrsti þingmaðurinn af erlendum uppruna sem hefur gegnt embætti varaforseta Alþingis. Þrátt fyrir mótbyr hvetur hún fólk af erlendum uppruna til virkrar þátttöku. „Þeir sem settu út á minn bakgrunn áttu mjög erfitt með að kyngja því að ég er bandarísk og ég myndi vera hérna að skipta mér af Íslandi. Samt var ég búinn að dvelja hérna og greiða skatta, og er að ala upp mín börn, var að reka skóla og var að læra í skóla í yfir sextán ár. Ég myndi segja að ég væri fullgild, jöfn öllum hinum með tvöfaldan ríkisborgararétt og allt sem þurfti. En samt, það að ég var …  einhver kallaði mig Trump-hóru, sagði mér að fara aftur til míns heimalands og styðja mitt fólk og allt sem var að gerast þar. Já, það var hrækt á mig einu sinni þegar ég var að labba niður götu og sagt að þjóðin þyrfti ekkert konu eins og mig. Við vitum að það var pínu vegna tungumálsins. Ég tala ekki hreina íslensku,“ segir Nichole.

Það eru því tungumálaörðugleikar, skortur á upplýsingum og fordómar gagnvart innflytjendum sem hindra kosningaþátttöku þeirra. Og Najla bætir við að ekki þekkja öll sem hingað koma til lýðræðis og kosninga. „Við sem komum frá Miðausturlöndum, við höfum ekki tekið þátt í kosningum og því ferli öllu. Eins og að velja flokk, greiða atkvæði og hvernig við eigum yfirleitt að geta lesið stefnuskrá stjórnmálaflokks.“

En lítum við í sveitinni þar sem Einar Freyr býr, skammt frá Vík. Hérna ólst hann upp á Loðmundarstöðum og kynntist ferðaþjónustu vel því móðir hans rak þar gistiþjónustu. „Þá er kannski fyrir fólk sem er einungis í ferðaþjónustu, ekkert endilega sanngjarnt að ætla að meina þeim þátttöku í opinberri umræðu bara út af því að það getur ekki tjáð sig á íslensku,“ segir Einar.

Það er erfitt að alhæfa fyrir hinn fjölbreytta hóp innflytjenda á Íslandi og innlendar rannsóknir skortir. „Við vitum það bara úr rannsóknunum að það skapar mikið vandamál ef einhver hópur í samfélaginu upplifir sig með einhverjum hætti jaðarsettan gagnvart stjórnmálakerfinu. Að þau geti ekki haft áhrif eða þau kunni ekki á, á þau sé ekki að hlustað, ekki sé tekið mark á þeim. Þetta leiðir til kulnunar gagnvart kerfinu, áhugaleysis, þú tekur ekki þátt, eða jafnvel reiði. Og getur verið, eins og við sjáum, kannski ekki endilega með fólk af erlendum uppruna en sjáum mjög víða, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, að þessi hópur verður síðan mjög frjór jarðvegur fyrir kannski það sem langflestir telja einhvers konar óæskileg stjórnmálaöfl, eins og hægri popúlísk öfl, og kannski með uppreisnar-, ofbeldis- eða fara á skjön við kerfið-tilburðum,“ segir Hulda Þórisdóttir, stjórnmálasálfræðingur og prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

„það skapar mikið vandamál ef einhver hópur í samfélaginu upplifir sig með einhverjum hætti jaðarsetta gagnvart stjórnmálakerfinu. Að þau geti ekki haft áhrif eða þau kunni ekki á, á þau sé ekki að hlustað, ekki sé tekið mark á þeim,“ segir Hulda Þórisdóttir, prófessor við Háskóla Íslands. 

„Við erum að nálgast tuttugu prósent. Ef þau sem taka ákvörðun endurspegla ekki þau sem eru í samfélaginu, þá verður fólk jaðarsett,“ segir Nichole.

Það er því til mikils að vinna með því að stuðla að því að auka kosningaþátttöku innflytjenda úr þessum tæpu fjórtán prósentum í sveitarstjórnum. Og það þarf ekki að vera erfiðleikum háð eins og þau í Vík vita.

„Þetta eru bara mjög, finnst mér skemmtilegri áskoranir heldur en maður kannski átti von á að þetta samfélag væri að fást við fyrir tíu, fimmtán árum þegar íbúum fækkaði, atvinnutækifærum fækkaði,“ segir Einar Freyr.

„Það sem ég hef heyrt hingað til er jákvætt. Fólkið er ánægt með það sem er að gerast. Það sér umbæturnar í þjónustunni og almennt. Að þorpið tekur framförum,“ segir Tomasz.

„Nú þökk sé öllum þessum nýju íbúum frá öðrum löndum, hefur þetta sveitarfélag og samfélagið hérna getu til þess að fjárfesta, fara í framkvæmdir eins og leikskólabyggingar og fleira. Þannig að hérna, það er bara mjög breytt en mun skemmtilegri staða heldur en fyrir tiltölulega stuttu síðan,“ segir Einar Freyr.