RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Yfirlýsing RÚV: Niðurstaða EBU vegna framgöngu Hatara í Söngvakeppninni

Myndir af annarri æfingu Hatara í Eurovision í Tel Aviv 2019.
 Mynd: https://eurovision.tv - Thomas Hanses
RÚV hefur móttekið niðurstöðu EBU um að ákveðið hafi verið að sekta RÚV vegna framgöngu Hatara í græna herberginu í lok Söngvakeppninnar, þegar listamennirnir drógu upp trefla með fánalitum Palestínu.

RÚV kom á framfæri mótmælum við EBU um fyrirætlanir um sekt þar sem lýst var yfir óánægju með meðferð málsins og fyrirhugaða niðurstöðu.  Í bréfi til EBU er því lýst hvernig RÚV gerði allar mögulegar ráðstafanir til að farið yrði að reglum keppninnar og því væri það röng niðurstaða, í það minnsta ranglát, að sekta RÚV fyrir brot á reglum.  RÚV er þeirrar skoðunar að þær sjónvarpsstöðvar sem taka þátt í keppninni geti aldrei komið algjörlega í veg fyrir að listmenn á þeirra vegum segi eða geri eitthvað sem mögulega kunni að stangast á við reglur keppninnar.

RÚV er eftir sem áður afskaplega stolt af framlagi landsins þetta árið og telur að atriði Hatara hafi verið glæsilegt og vakið mikla athygli.   Afgreiðsla EBU mun ekki hafa frekari eftirmála og hefur RÚV tekið ákvörðun um að taka þátt í keppninni í Rotterdam á næsta ári. Söngvakeppni RÚV og Eurovision er gríðarlega vinsælt á Íslandi og þorri þjóðarinnar fylgist spennt með keppninni ár hvert, en í fyrra fylgdust 98 % þeirra sem horfðu á sjónvarp á Íslandi á þessum tíma með keppninni, sem er það mesta sem þekkist í Evrópu.  Opnað hefur verið fyrir innsendingu laga í keppnina en úrslitin á Íslandi ráðast í Laugardalshöll 29. febrúar nk.  

 

20.09.2019 kl.16:12
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni