RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Kosningaumfjöllun RÚV

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Hildimundardóttir
Undirbúningur að umfjöllun RÚV fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022 er hafinn. Umfjöllunin verður á sérstökum kosningavef, í sjónvarpi, útvarpi og hlaðvarpi. Kosningaumfjöllun RÚV hefst í fyrri hluta apríl þegar fyrsti þáttur kosningahlaðvarpsins verður birtur.

Kosningaumfjöllun RÚV verður sem hér segir: 

  • Kosningavefur RÚV opnaður um miðjan apríl. 
  • Umræðuþáttur í sjónvarpi með oddvitum framboða í Reykjavík, 13. maí. 
  • Framboðsfundir á Rás 2 og ruv.is með oddvitum framboða í mörgum stórum sveitarfélögum. 
  • Málefnaumræða í útvarpi í ýmsum þáttum á Rás 1 og Rás 2. 
  • Kosningahlaðvarp RÚV þar sem fjallað verður um kosningamálin, og rætt við sérfræðinga, kjósendur og álitsgjafa. 
  • Fréttaskýringar í sjónvarpsfréttum um kosningamálin. 
  • Fræðslu- og skemmtiþættir í sjónvarpi, á ruv.is og samfélagsmiðlum fyrir yngri kjósendur. 
  • Kosningaumfjöllun á samfélagsmiðlum RÚV. 
  • Kosningavaka í sjónvarpi að kvöldi kjördags, 14. maí og kosningavakt á Rás 2. 
  • Oddvitar framboða sem ná kjöri í borgarstjórn Reykjavíkur mætast í Silfrinu daginn eftir kjördag. 

Stefnt er að því að formleg kosningaumfjöllun hefjist snemma í apríl þegar kosningahlaðvarpið hefur göngu sína. Seinni hluta apríl hefjast kjördæmafundir. Þættirnir verða teknir upp samdægurs og sendir út á Rás 2 og í mynd á ruv.is. Oddvitum allra framboða sem hafa fengið úthlutað listabókstaf í sveitarfélaginu er boðið að taka þátt í þeim.  Þá er ráðgert að formleg málefnaumfjöllun í fréttum og útvarpsþáttum hefjist um miðjan  apríl. Gert er ráð fyrir að oddvitar framboða mætist í sjónvarpssal kvöldið fyrir kjördag, þann 13. maí. 

Fjallað verður um framboðin og kosningarnar í fréttatímum RÚV. Gætt verður að því að gera framboðum jafn hátt undir höfði en fréttamat gildir hverju sinni. Um aðgang framboða að fréttum RÚV gilda reglur um takmarkanir á þátttöku framboða til almennra kosninga í dagskrá RÚV.  
 
Ríkisútvarpið áskilur sér rétt til að takmarka þann fjölda framboða sem mætast hverju sinni í viðtals- eða umræðuþáttum líkt og gert hefur verið í undanförnum alþingiskosningum, forsetakosningum og sveitarstjórnarkosningum. Nánari útfærsla á leiðtogaumræðum kvöldið fyrir kjördag verður kynnt þegar fjöldi framboða liggur fyrir. Markmiðið með þessu er að stuðla að upplýstri umræðu í aðdraganda kosninga og skila áhorfendum meiru en umræður allra framboða á sama tíma í umræðuþætti myndu gera.  

Nákvæmari útfærsla og tímasetningar birtar þegar nær dregur.  Vakni spurningar er hægt að hafa samband við Valgeir Örn Ragnarsson kosningaritstjóra í tölvupósti, [email protected], og verður þeim svarað við fyrsta tækifæri.