RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Fréttaflutningur eðlilegur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá útvarpsstjóra:

Í Morgunblaðinu í dag ritar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra grein þar sem hann heldur því fram að hann hafi verið órétti beittur þegar fréttamenn sænska Ríkissjónvarpsins tóku við hann viðtal vegna Wintrismálsins svokallaða og síðar þegar Kastljós fjallaði um Panamaskjölin. Í lok greinar sinnar fer forsætisráðherrann fyrrverandi fram á afsökunarbeiðni RÚV vegna umfjöllunarinnar um Wintris.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigmundur Davíð finnur að umfjöllun fjölmiðla um störf sín. Sú gagnrýni hefur beinst að ýmsum fjölmiðlum þó hann hafi vissulega beint spjótum sínum í auknum mæli að RÚV eftir umfjöllun Kastljóss um Panamaskjölin. Í aðdraganda þáttarins fullyrti hann að þátturinn væri herferð RÚV gegn sér en á daginn kom að margir af helstu fjölmiðlum heims fjölluðu um málið með sambærilegum hætti.  

Við fréttastjóri höfum margsinnis farið yfir þetta mál á liðnu ári og ætíð blasir það sama við; fréttagildi málsins er ótvírætt og það átti erindi við almenning í landinu. Þær upplýsingar sem fram komu í umræddum þætti standa og hafa ekki verið hraktar. Með umræddum fréttaflutningi var Ríkisútvarpið að sinna sínu hlutverki og skyldum. Því er ekki tilefni til afsökunarbeiðni Ríkisútvarpsins vegna málsins.

Fjölmiðlar eiga að vera fulltrúar almennings og þeim ber að spyrja kjörna fulltrúa út í málefni er hann varðar. Það sama á við um Sigmund Davíð og aðra kjörna fulltrúa en auk þess að vera alþingismaður, þá var hann forsætisráðherra í þrjú ár og formaður í stjórnmálaflokki um árabil. Sigmundur Davíð hefur ítrekað fengið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og fjallað hefur verið um þau í miðlum RÚV.

Um Ríkisútvarpið gilda sérstök lög sem svo eru áréttuð í þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Til að tryggja óhlutdrægni og sanngjarna málsmeðferð hefur RÚV einnig sett starfsfólki sínu ítarlegar fréttareglur. Allt er þetta gert til að tryggja vandaðan fréttaflutning og dagskrárgerð. Störf Ríkisútvarpsins eru opinber og almenningur getur lagt sjálfstætt mat á þau en samkvæmt opinberum mælingum nýtur Ríkisútvarpið yfirburðatrausts meðal almennings. Ef almenningur er ósáttur við tiltekin atriði í fréttaflutningi, þá tekur RÚV fúslega við athugsemdum og svarar með formlegum hætti. Ef viðkomandi er ósáttur við þá afgreiðslu sem hann fær hjá stofnuninni, þá er hægt að beina málinu til sjálfstæðrar siðanefndar sem leggur sjálfstætt mat á framgöngu starfsmanna RÚV en að auki má benda á að allir geta skotið málum til Blaðamannafélags Íslands.  Ef þingmaðurinn telur á sig hallað þá hvet ég hann til að beina málum í þennan formlega farveg sem er til staðar fyrir hann eins og aðra.

Magnús Geir Þórðarson,
útvarpsstjóri