RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Áhersla á fræðslu í nýjum þjónustusamningi við RÚV

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gert nýjan þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf. sem var undirritaður í dag. Samkvæmt samningnum verður lögð aukin áhersla á fræðsluhlutverk Ríkisútvarpsins og rækt við íslenska tungu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að það sé í takti við áherslu Ríkisútvarpsins síðustu mánuði þegar skólastarf hefur verið takmarkað vegna COVID-19.

„Lögð verður áhersla á þjónustu við börn og ungmenni, m.a. til að efla lýðræðisvitund, auka miðla- og upplýsingalæsi og hvetja til þátttöku í dagskrárgerð og öðru skapandi starfi,“ segir í nýrri tilkynningu frá ráðuneytinu. Þar segir að Ríkisútvarpið muni verja 12 prósentum af innheimtu útvarpsgjalds til meðframleiðslu og kaupa á íslensku efni af sjálfstæðum framleiðendum.

Þá eigi að leggja áherslu á varðveislu og miðlun efnis úr safni Ríkisútvarpsins, þjónustu við eldri borgara og þátttöku í þróun máltæknilausna með það fyrir augum að íslenska verði nothæf og nýtt í tölvum og tækjum. Þá segir einnig að ýmis atriði sem voru óljós í fyrri þjónustusamningum hafi verið gerð skýrari með þeim nýja, eins og réttur Ríkisútvarpsins til eignarhlutar í samstarfsverkefnum í samræmi við fjárframlög og greiðslur til listamanna í samstarfsverkefnum. 

„Annars skal við framkvæmd markmiða í þjónustusamningi horft til framboðs á efni og áherslna í dagskrá annarra fjölmiðla og gætt að samkeppnissjónarmiðum, þar sem RÚV sinnir skyldum sem aðrir fjölmiðlar uppfylla ekki á markaðslegum forsendum,“ segir einnig um samninginn. 

Hægt er að nálgast þjónustusamninginn hér

30.12.2020 kl.12:57
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, almannaþjónustumiðill, Í umræðunni