Hugmyndadagar - 19.-20. október

Hugmyndadagar

Langar þig til að segja góða sögu í hljóðvarpi og hlaðvarpi? 
Ertu með hugmynd að þáttagerð fyrir ungt fólk, í sjónvarp eða á vef?

Hugmyndadagar RÚV verða haldnir í áttunda sinn 19.-20. október 2021.
Innsendingarfrestur hugmynda er til 30. september.

Hugmyndasmiðum, höfundum, framleiðendum og öðrum gefst kostur á að kynna hugmyndir og tillögur að dagskrárefni fyrir dagskrárstjórum RÚV. Hugmyndadagar fara alla jafna fram tvisvar á ári og voru fyrst haldnir í október 2017.

Alls hafa yfir 2000 hugmyndir borist Hugmyndadögum frá upphafi, um 450 hópar og einstaklingar verið boðaðir á fund í Efstaleiti til að kynna tillögur sínar nánar og á áttunda tug verkefna hafa þegar orðið að veruleika, eru í þróun eða í frekari skoðun. Markmiðið er að auka enn á fjölbreytni í dagskrárframboði RÚV, opna hugmyndaþróunina og styrkja tengsl RÚV og sjálfstæðra framleiðenda. Meðal hugmynda sem komið hafa inn á Hugmyndadögum og orðið að veruleika eru dagskrárliðirnir Árny og Daði í Kambódíu, Hinseginleikinn, Smá pláss, Fólkið á bak við flóttann, Ólétta stelpan, Ymur, Ekkert skiptir máli, Íslenska mannflóran, Hyldýpi og Fallnar borgir, Lífsformið, Lögfræði á mannamáli, Nærumst og njótum, Sælla að gefa o.fl.

Að þessu sinni erum við sérstaklega áhugasöm um:
Fyrir sjónvarp/vef:
Hvers kyns efni fyrir ungt fólk, sjónvarps- og vefefni. Einnig leitum við að viðfangsefni og/eða dagskrárgerð sem snertir minnihlutahópa og/eða aðgengi að miðlum RÚV.

Fyrir Rás 1/hlaðvarp:
Hugmyndir sem brúa bilið milli hlaðvarps og útvarps. Við leitum að þáttum/þáttaröðum sem segja sögur og miðla fróðleik með aðgengilegum og faglegum hætti, samfélagslegum sögum, sögum af fólki með forvitnilega reynslu, sögum úr menningarlífinu, sögum úr fortíð og samtíð. Við leggjum áherslu á vandaða heimildavinnu og blaðamennsku. Jafnframt höfum við áhuga á hugmyndum að leiknum framhaldsverkum fyrir útvarp og hlaðvarp.

Fyrir Rás 2/hlaðvarp:
Hvers kyns efni sem styður við íslenskt tónlistarútvarp og grasrót íslensks tónlistarlífs hvort sem er til útvarps eða fyrir hlaðvarp.

Frestur til að koma hugmyndum og tillögum á framfæri er til og með 30. september. Unnið verður úr innsendum hugmyndum og völdum hópi boðið að kynna hugmyndir sínar fyrir dagskrárstjórum á Hugmyndadögum 19.-20. október 2021. Framleiðslufyrirkomulag og annað er opið til frekari umræðu en í dag framleiðir RÚV hluta af efni sínu sjálft en vinnur annað í samstarfi.

Netfang hugmyndadaga er [email protected] 

Ath. Aðeins hugmyndir sem sendar eru inn um hugmyndagátt hér að neðan verða teknar gildar.

 

 

Hægt er að senda frekari upplýsingar um verkefnið, hljóðbút, myndbút eða hvað annað sem þú/þið teljið að komi hugmynd ykkar frekar á framfæri hér með viðhengi.

Athugið: Viðhengi getur ekki verið stærra en 20 MB. Ef viðhengi er stærra þá vinsamlegast sendið það á netfangið [email protected] t.d. með vimeo eða wetransfer