Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Zetan aldrei skapað annað en bölvað hringl“

Mynd: RÚV / RÚV

„Zetan aldrei skapað annað en bölvað hringl“

24.09.2019 - 00:07

Höfundar

Stafsetning er túlkun en ekki einhvers konar náttúrulögmál. Því er ekki hægt að segja að tungumál sé ritað eins og það er talað. Það er bara ritað eins og ákveðið er hverju sinni. Sú umdeilda ákvörðun var tekin árið 1973 að nema bókstafinn z brott úr íslenskum ritreglum.

Stafsetning er skipulag ritmáls, það hvernig við röðum stöfum saman til að tákna orð og setningar. Stafsetning kemur við sögu í öllum málum sem eiga sér ritmál. Ritmál er þó ekki tungumálið sjálft, heldur túlkun á því, eða framsetning. Þetta sjáum við til dæmis á því að langflest börn læra málið í umhverfi sínu án sérstakrar kennslu eða leiðsagnar. Þau túlka bara það mál sem þau heyra og byggja málkerfi sitt upp á því. Stafsetningu þurfa þau hins vegar að læra, líkt og þau læra að lesa með tilsögn. 

Allir hópar fólks sem fundist hafa eiga sér talað mál og margir einnig táknmál. Það sama er ekki hægt að segja um ritmál. Fyrstu ritmálin eru innan við 6000 ára eða frá því þegar mannfólk fór að stunda landbúnað og setjast að í þorpum. 

Tungumál heimsins eru 7.111, samkvæmt nýjasta mati málfræðiritsins Ethnologue. Af þeim er talið að ritmál sé til fyrir 3.995 mál. Þó er ekki vitað hvort öll ritmálin eru mikið notuð, til dæmis eru ekki allir málhafar alls staðar læsir. Þau 3.116 mál sem eftir standa eiga sér líklega ekki ritmál.

Upphaf ritunar á Íslandi

Kristnitakan árið 1000 er talin eiga stóran þátt í upphafi ritunar á Íslandi. Ritöld á Íslandi er ýmist sögð hafa hafist þá eða á fyrstu áratugum 12. aldar, þegar lög þjóðveldisins, eða hluti þeirra, voru, að sögn Ara fróða, skrifuð veturinn 1117-18. Elsta varðveitta íslenska frumritið er hins vegar Reykjaholtsmáldagi frá 1185, skrá yfir eignir kirkjunnar í Reykjaholti.

Eins og þekkt er hafa Íslendingar skrifað öldum saman. En stafsetningin var alls konar. Hún var ekki samræmd, því stafsetningarkennsla var engin, nema tilsögn fyrir þá í yfirstétt sem skrifuðu handrit. Þó myndast í grófum dráttum ákveðin rithefð, þótt einstök atriði hafi verið ólík. Þegar svo er farið að prenta bækur á Íslandi á 16. öld er stafsetningin þar í samræmi við rithefð handrita.

Það er þó ekki fyrr en með Bessastaðaskóla á 19. öld sem meira fer að bera á beinni kennslu í íslenskri stafsetningu. Þar tókust á ólíkir skólar í stafsetningu, framburðarskólinn og upprunaskólinn. Sjónarmið framburðarsinna voru þau að stafsetning ætti að endurspegla talað mál og vera auðlærð en ekki einhver sérviska málfræðinga. Sjónarmið upprunasinna voru þau að íslenska ætti að halda tengslum við eldri málstig og sýna orðsifjar, og að framburðarstafsetning myndi enda með óreiðu vegna ólíks framburðar í ólíkum landshlutum. 

Stefnuleysi í stafsetningarmálum

Fjölnismenn voru framan af áberandi meðal framburðarsinna, en Konráð Gíslason átti þó eftir að skipta um skoðun í þeim efnum. Halldór Kr. Friðriksson málfræðingur var meðal upprunasinna, hann kenndi við Lærða skólann og ritaði Íslenzka málmyndalýsingu með orðsifjalegri stafsetningu sem talið er að hann og Konráð hafi unnið að saman og nefnd var skólastafsetningin. Rasmus Rask hafði einnig mikil áhrif með sinni fornmálslegu stafsetningu.

Stefnuleysi var þó ríkjandi í stafsetningarmálum undir lok aldarinnar, skrifar Jón Aðalsteinn Jónsson í grein sinni Ágrip af sögu íslenskrar stafsetningar. Orðsifjar urðu ríkjandi í hinni svokölluðu blaðamannastafsetningu, en reglur hennar voru samdar í Blaðamannafélaginu, sem var stofnað 1897, og þær birtar 1898. Þær voru reyndar sendar fjölda manna sem trúnaðarmál, því koma átti á þessum reglum án þess að blaðaumræður yrðu um þær. Einar Benediktsson skáld rauf þann trúnað og birti reglurnar. Hann var mótfallinn þeim og sagði ótækt að fara á bak við almenning í þessum efnum.

Vinsældir framburðarstafsetningar virðast eitthvað aukast fyrir erlend áhrif undir lok aldarinnar, Björn M. Ólsen og Finnur Jónsson skrifa um ágæti hennar. Finnur átti reyndar eftir að skipta um skoðun eftir aldamótin og þeir sem ráða virðast hafa aðhyllst upprunasjónarmið, því í fyrstu opinberu auglýsingu yfirvalda um stafsetningu árið 1918 eru orðsifjar og uppruni ráðandi á kostnað framburðar.

Frávik í auglýsingunni frá blaðamannastafsetningunni felast einungis í því að rita skyldi je í stað é; og s í stað zetu. Þetta varð ekki til að lægja öldurnar, skrifar Jón Aðalsteinn. 

Jónas Jónsson kennslumálaráðherra frá Hriflu gaf svo út auglýsingu um nýja stafsetningu árið 1929. Samkvæmt henni skyldi rita é og z en strax 1934 fengu skólar undanþágu frá því að kenna reglur um zetu. 

Stafsetning er ákvörðun

Stafsetning er því sem fyrr segir túlkun, og ákvörðun, en ekki einhvers konar náttúrulögmál. Því er ekki hægt að segja að tungumál sé ritað eins og það er talað. Það er bara ritað eins og ákveðið er hverju sinni. Sömu stafir standa fyrir ólík hljóð í ólíkum tungumálum, sem sýnir okkur að það er ekkert fast samband milli stafa og hljóða. Stafir tákna bara þau hljóð sem ákveðið er að þeir tákni. Sé gott samræmi milli hljóða í tungumáli og stafanna sem ætlað er að túlka þau er auðvelt að læra stafsetninguna. Þetta er til dæmis stundum sagt um finnsku og var líklega markmið þeirra sem aðhylltust íslenska framburðarstafsetningu á 19. öld og fram á þá tuttugustu.

Í íslensku er þessu ekki alveg svo farið því upprunasjónarmið urðu ofan á. Til að mynda geta ólíkir stafir táknað sama hljóð, og sami stafur getur táknað ólík hljóð. I og y og í og ý eru stafapör fyrir sömu hljóð. Þá ríma orðin bæir, fleirtala af bær og hagir, fleirtala af hagur, í máli flestra þrátt fyrir ólíka stafsetningu. G er dæmi um staf sem táknar síðan ýmis ólík hljóð, og stundum táknar hann meira að segja ekkert sérstakt hljóð. Hann táknar lokhljóð í orðinu gata, raddað önghljóð í orðinu vegur og óraddað önghljóð í orðinu dragt. Þá táknar fyrra g-ið ekkert sérstakt hljóð í orðinu beyging, sem rímar við afþreying, og þar er ekkert g. Íslenska er því ekki eins og stundum er haldið fram, skrifuð eins og hún er töluð.

Íslenska stafrófið er 32 stafir, 36 ef c q w og z væru tekin með, og er nokkurs konar sérhæfð útgáfa af latneska stafrófinu. Í því eru ýmsir séríslenskir stafir en flestir þeirra eru þó einnig notaðir í öðrum stafrófum. Æ er notað annars staðar á Norðurlöndum, broddstafir eru til dæmis notaðir í spænsku og tékknesku og í færeysku eru raunar allir séríslensku stafirnir nema þ, ö og é. 

Í 6. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls stendur: „Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og ráðherra gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki ráðherra.“ Það er sem sagt í lögum að stafsetningu skal kenna í skólum. En ritvillur eru nú samt ekki ólöglegar, þótt oft sé látið að því liggja.

Hvað er erfitt að stafsetja á íslensku?

Eitt af því sem helst virðist vefjast fyrir fólki er hvar skal rita eitt n og hvar tvö. Það er algengt að fólk sé í vafa um hvort það á að vera eitt eða tvö n í vissum beygingarmyndum kvenkynsorða sem enda á -un eða -an, til dæmis verslun og hótun; og einnig í þolfalli karlkynsorða sem enda í nefnifalli á -ann, -inn eða -unn, eins og til dæmis morgunn og himinn og karlmannsnafna eins og Þráinn og Óðinn.

Þá er ekki alltaf ljóst hvar á að vera r og hvar ekki. Árið 2016 fór bandarískur ferðamaður sem ætlaði á Laugaveg í Reykjavík bæjarvillt. GPS-tækið í bílnum beindi honum í vitlausan bæ, en hann hafði slegið inn heimilisfang áfangastaðar síns við götuna Laugarveg, með r-i. Sú gata er vissulega til, en hún er á Siglufirði. Í nafninu Laugavegur í Reykjavík, er hins vegar ekkert r. Það getur því borgað sig að hafa stafsetninguna á hreinu. 

Margir eiga í mesta basli með ufsilon y. I og y hafa sama hljóðgildi, það er að segja: bókstafirnir i og y tákna sama hljóð, og hafa gert öldum saman. Upp úr 1600 er talið að y, ý, ey séu að mestu horfin úr málinu og runnin saman við i, í og ei. Táknin lifa þó enn góðu lífi og eru fullgildir þegnar í íslenska stafrófinu, og ráða þar upprunasjónarmið. Y og ý koma fram í orðum sem eru með u eða ú í stofni eða ef o, u eða ju; eða ó, ú eða jú er í skyldum orðum, til dæmis orði sem „ufsilonorð“ er leitt af, til dæmis gylla af gull, lyfta af loft.

I og y tákna sama hljóðið og sumir myndu kannski segja að við höfum lítið við ufsilonið að gera og gætum losað okkur við það. Ein slík breyting var gerð á íslenskri stafsetningu á 20. öld, þegar zetan var afnumin.

„Ekki skal rita z fyrir upprunalegt tannhljóð (d, ð, t)+s, þar sem tannhljóðið er fallið brott í eðlilegum framburði." Þessi fyrirmæli birtust lesendum Vísis fimmtudaginn 6. september 1973. Tveimur dögum áður var samþykkt í menntamálaráðuneytinu að nema zetu brott úr íslenskum ritreglum.

Fylgismenn upprunastafsetningar og þeir sem aðhylltust framburðarstafsetningu deildu um ýmislegt, þar á meðal bókstafinn z. Upprunasinnar vildu hafa zetuna en framburðarsinnar ekki. Með réttritunarreglum Halldórs Kr. Friðrikssonar frá 1859 er lagður grundvöllur að notkun zetu og reglurnar giltu nokkurn veginn í rúma öld, fram á áttunda áratug 20. aldar.

Reglur um z of flóknar fyrir börn

Afnám zetu var auglýst í Vísi, og víðar, haustið 1973. Mikill tilfinningahiti einkenndi umræðu um afnám bókstafsins af hálfu andstæðinga ákvörðunarinnar og svonefnd stafsetningarnefnd sá sig knúna til að kynna almenningi rökin sem lágu til grundvallar. Í Tímanum, 1. mars 1974, rétt tæpu hálfu ári eftir afnám zetu, gera nefndarmenn grein fyrir því að ástæðan hafi fyrst og fremst verið einföldun.

Bókstafurinn zeta hafði lengi táknað sama hljóð og s, og eitt tákn, eða bókstafur, í stað tveggja fæli augljóslega í sér einföldun. Auk þess sem athugun hafi leitt í ljós að það að rita s í stað z drægi lítið sem ekkert úr gagnsæi málsins.

Andstæðingar afnámsins höfðu nefnilega áhyggjur af mögulegum misskilningi ef til dæmis sagnmyndir féllu saman í rithætti, til dæmis í setningum eins og: „Draumurinn hefur ræst“ og „Hann hefur ræst bílinn“. Stafsetningarnefndarmenn litu svo á að ljóst væri af samhengi að í fyrri setningunni væri sögnin rætast en í þeirri seinni ræsa, það þyrfti ekki að tákna sérstaklega með zetu í þeirri fyrri, ræst af rætast.

Í grein stafsetningarnefndarinnar í Tímanum 1974 stendur: „Fullyrða má, að reglurnar frá 1929 styðjast engan veginn við forna ritvenju og bera sumar hverjar vitni um sprenglærðan afkáraskap og kjánalæti. [...] og fullyrða má að [þær] eiga enga forna hefð á bak við sig.“

Sérstakar reglur um notkun zetu komu fyrst fram í Lestrarkveri Rasks handa heldri manna börnum snemma á 19. öld. Blaðamannastafsetningin svonefnda tók svo við um aldamótin 1900 og var þá mjög dregið úr notkun zetu og 1918 var hún alveg felld niður með auglýsingu frá ráðherra. Regla Rasks var svo aftur tekin upp ellefu árum síðar, með auglýsingu um íslenska stafsetningu í Lögbirtingablaðinu 28. febrúar 1929. Barnaskólar færðust hins vegar undan því að kenna reglur um zetu og fimm árum síðar fengu þeir formlega undanþágu. Frá árinu 1934 þurfti ekki lengur að kenna börnum flóknar reglur um notkun zetu.

Um þetta skrifaði Helgi Hjörvar grein í Samtíðina 1. maí 1934: „Stafsetningin er þegar dauðadæmd og að dauða komin. Það er þarflegt, að gera sér þetta ljóst nú þegar. Blöðin hundsa hana, rithöfundarnir fyrirlíta hana, kennararnir hata hana, 5-6 menn í landinu kunna hana, börnin geta ekki lært hana, háskólastúdentar geta ekki lært hana, og hinum fáu forvígismönnum hennar er fallinn allur ketill í eld.“

Karp um stafsetningu á Alþingi

En voru z-reglurnar virkilega svona flóknar? Barnaskólakennurum fannst reglurnar um z í það minnsta of flóknar fyrir börn. Þeir báðust undan því að kenna um z með þeim rökum að ærið nóg verkefni væri að kenna um önnur atriði stafsetningar. Auk þess sem hin svonefndu þyngri fræði z væru ekki við hæfi barna, þar sem nám þeirra krefðist meiri kunnáttu í málfræði en raunhæf væri á barnaskólastigi. Þegar zetan var svo loks afnumin með lögum árið 1973, hafði hún ekki verið kennd í barnaskóla í tæp 40 ár. 

Í janúar 1974 var rætt á Alþingi um tillögu alþingismannanna Sverris Hermannssonar, Bjarna Guðnasonar, Ellerts Schram og Helga Seljan um að taka upp zetu á ný í íslensku ritmáli. Sverrir sagði vegið að íslensku úr launsátri. Stafsetningarnefndin hefði engu heildaráliti skilað heldur varpað einum staf fyrir borð. Hann sagðist gruna að þetta væri einungis upphafið að öðru og meira og y yrði sjálfsagt fyrir næstu árás. Zetan væri af ýmsum talin eitthvert sérviskuuppátæki málfræðinga, en því færi fjarri. 

Magnús Torfi Ólafsson menntamálaráðherra sagði að tungan sjálf kæmi ekki fram í rittáknum heldur hljóðtáknum. Zetan hefði aldrei táknað sérstakt hljóð í íslenskra manna munni. Rittákn væru búningur tungunnar en ekki eðli hennar. Zetan yki ekki gagnsæi tungumálsins ólíkt y. Hann vísaði í höfund Fyrstu málfræðiritgerðarinnar sem sagðist vísa zetu úr íslensku máli og stafrófi. 

Jónas Árnason talaði síðastur en hann studdi zetuna. Hann sagði að þetta væri góður fundur. Hér væri verið að ræða einn íslenskan bókstaf og mönnum hitnaði í hamsi. Hann ætlaði ekki að gera mikið uppistand yfir því að zetan hyrfi en hann myndi gera það ef hróflað yrði við y. 

Kristján frá Djúpalæk skrifaði í Dag árið 1984: „Á Íslandi hafa menn fundið sér ýmis kjörsvið í verndarmálum. En iðnaðarráðherra (Sverrir Hermannsson) var sem í fleiru frumlegur. Valdi hann sér til að fórna lífi fyrir bastarð þann úr stafrófinu sem zeta kallast og er að hálfu stafurinn s. Það var fyrir nokkrum árum er lítið var að gera á Alþingi að einhverjir „gáfumenn“ fundu hjá sér köllun að breyta stafsetningarreglum eina ferðina enn, og eru síðan fáir af þeim sem ólust upp við eldri reglur, þ.á m. kommusetningu, sendibréfsfærir. Einn var þó Ijós punktur í þessu puði þeirra: Zetan var gerð útlæg úr rituðu máli - en zeta hafði um Iangan aldur verið einn mesti skrekkvaldur í prófum allra meðalgreinda og vel það. Þá var það að núverandi iðnaðarráðherra rann blóðið til skyldunnar og hélt uppi þrjátíu klukkustunda málþófi í einni lotu til varnar kynhverfingi þessum. Og síðan varði hann margri stund í sama skyni. En kom fyrir ekki. Önduðu nú próftakendur léttara, svo og blaðamenn og allir þeir er pára þurftu ástarnótu ellegar klögumiða.

Næst gerist það að verjandi zetu fær stjórn ráðuneytis. Fyrirskipar hann þá að veita zetunni fullkominn þegnrétt á ný í möppum ríkis síns. En hér fór sem oft áður að sjaldan launa kálfar ofeldi: Hvalurinn gleypti Jónas, sem mun hafa verið hvalverndunarmaður og sennilega verið að bursta í honum tennurnar, selurinn dreit hringormi í þorskinn okkar, svo jafnvel Portúgölum ofbýður, og zetan felldi Sverri á klofbragði.“

Eins og slitið væri líffæri úr lifandi veru

Í Dagblaðinu var skoðanakönnun um zetu í júní árið 1976, þremur árum eftir afnám. Spurt var: Ertu með eða á móti henni?

„Ég er á móti zetu. Það er eiginlega það eina sem ég er ákveðin í,“ sagði kona á Reykjavíkursvæðinu.

„Sé zetan slitin burt er það eins og slitið væri líffæri úr líkama lifandi veru,“ sagði Karl á Akranesi.

„Zetan hefur aldrei skapað annað en bölvað hingl,“ sagði kona á Akranesi.

Alls voru 300 spurð, 150 karlar og 150 konur. Helmingur fólksins var á Reykjavikursvæðinu og helmingur úti á landi.

Greinilegur meirihluti reyndist vera á móti zetu. Meðal kvenna úti á landi var mjótt á mununum, en meirihluti kvenna á Reykjavíkursvæðinu var á móti zetu. Drjúgur meirihluti karla, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, var andvígur zetu. Alls var af 300 spurðum 91 fylgjandi zetu, 153 voru andvígir og 56 óákveðnir.

Andstæðingar zetunnar nefndu oftast þann hringlanda, sem væri með hana. Fólk sagði, að það svaraði ekki kostnaði og erfiði að fara að taka hana upp aftur. Margir nefndu auðvitað að reglurnar um zetuna væru býsna erfiðar. Stuðningsmenn zetunnar töldu sumir hverjir að málið mundi missa mikið ef hún yrði á burtu að fullu. Margir, bæði andstæðingar og stuðningsmenn, komu því að, að Alþingi hefði hegðað sér illa þegar það eyddi miklum tíma í rifrildi um zetu í þinglokin meðan mörg stórmálin hefðu litla afgreiðslu fengið.

Undantekning að sátt ríki um samræmda stafsetningu

Stafsetningarnefndin, sem ákvað að nema skyldi zetu brott úr íslenska stafrófinu, haustið 1973, valdi að láta framburð ráða. Zeta hefði ekki haft sérstakt hljóðgildi í íslensku um langt skeið, það er að segja, um aldir ekki táknað sérstakt hljóð heldur táknað sama hljóð og bókstafurinn s. Og upp hófust, eins og við höfum að einhverju leyti rakið hér, deilur sem enn eru sumu fólki í fersku minni.

Skrifað hefur verið á íslensku í næstum þúsund ár. Megnið af þeim tíma voru engar samræmdar reglur og þegar þær voru loks settar var hart deilt um hvernig þær ættu að vera. Þá einna helst um hvort stafsetning skyldi endurspegla framburð eða hvort taka ætti mið af uppruna og upprunasjónarmið urðu að mestu ofan á. Það ástand sem við búum núna, þar sem sátt virðist að mestu ríkja um samræmda stafsetningu okkar, er því undantekning í stóra samhenginu. Það er enda ekki svo að við skrifum íslensku öll eins. Stafsetning er enn þá að vissu leyti alls konar, sem má til dæmis hæglega sjá ef litið er á blogg eða athugasemdakerfi netmiðla. 

Guðrún Línberg Guðjónsdóttir og Kristján Friðbjörn Sigurðsson fjölluðu um stafsetningu og afnám z úr íslenskum ritreglum í Orði af orði á Rás 1.

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

Þegar tungumálið var fullkomið