Yoda er bara Regina George úr Mean Girls

Mynd með færslu
 Mynd: Star Wars

Yoda er bara Regina George úr Mean Girls

08.11.2019 - 14:15
„Yoda er bara Regina George úr Mean Girls,“ segja gestir Geirs Finnssonar í hlaðvarpsþættinum Hans Óli skaut fyrst. Þessa vikuna er það Revenge of the Sith sem er umræðuefni þáttarins en gestir Geirs voru sammála um að taktarnir í Jedi meistaranum smávaxna minntu óneitanlega á Reginu úr kvikmyndinni Mean Girls.

Þriðji kafli Star Wars sögunnar, Revenge of the Sith, kom út árið 2005 og fékk mun betri viðtökur en fyrri tvær kvikmyndirnar í forleiknum. Í Revenge of the Sith hrynur bæði þúsund ára veldi Jedi riddaranna og lýðræðið og einræði hinna illu Sitha, undir stjórn Darth Sideous, rís upp. Það er hér sem bræður berjast, Logi og Lilja fæðast og Anakin verður Svarthöfði í einu sögufrægasta atriði kvikmyndasögunnar. 

Í þessum þriðja þætti fer Geir yfir þennan þriðja og síðasta kafla í Star Wars forleiknum (sem sagt kvikmyndirnar sem komu á eftir en samt á undan upprunalegu myndunum þremur). Gestir vikunnar eru Ragnhildur K. Ásbjörnsdóttir Thorlacius og Bríet Blær Jóhannsdóttir. 

Í tilefni þess að níunda og síðasta kvikmyndin í Star Wars sögu Skywalker-fjölskyldunnar verður frumsýnd í desember sest stjörnustríðs nördinn Geir Finnsson niður með öðrum aðdáendum myndanna og kryfur þær í níu þátta hlaðvarpsseríu. Þú getur hlustað á annan kafla hér og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Útpæld pólitík en átakanleg ástarsaga

Kvikmyndir

Jar Jar Binks eldist ekki sérstaklega vel