Yngra fólk með astma ekki í meiri smithættu en aðrir

24.03.2020 - 20:23
Mynd: RÚV / RÚV
Yngra fólk með astma sem hefur verið í góðri meðhöndlun er ekki í meiru hættu en aðrir að smitast af COVID-19 kórónuveirunni. Þetta kom fram í máli Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í Kastljósi í kvöld.

„Astmi er ekki svo slæmur að þessu leyti. Langvinnir lungnasjúkdómar og léleg lungnastarfsemi þar sem lungun eru orðin óvirkari en í frískara fólki eru erfiðir fyrir fólk sem fær COVID-sjúkdóm,“ sagði Óskar og nefndi þá lungnaþembu sem dæmi.

„Astmi er svolítið annað, það er meira köst þar sem fólk verður gott inni á milli. Allir sem eru með lungnasjúkdóma þurfa að fara varlegar, en þetta eru sérstaklega þeir eldri og viðkvæmari með erfiðari sjúkdóma þar sem skiptir miklu máli að fara varlega. Í raun þá er mjög lítil hætta fyrir yngra fólk með astma, sem er vel meðhöndlað. Það er mjög lítil hætta fyrir það,“ sagði Óskar.

Þá sagði hann að heilsugæslur höfuðborgarsvæðisins fái nú 37% fleiri verkefni á sín borð en fyrir sex vikum, en mest kemur það fram í símhringingum og í netspjalli.

„Það er í raun þúsundir auka samskipta í hverri viku og þarf að breyta verklagi til þess að ráða við slíkt. Við erum í því hlutverki að bjarga mannslífum, koma í veg fyrir sjúkdóma og hjálpa fólki. Það skiptir miklu máli að við skipuleggjum okkur rétt og þá breytum við okkar verklagi til þess að kljást betur við þetta,“ sagði Óskar Reykdalsson.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi