Yfirvöld á Filippseyjum reyna sitt besta

Mynd: Ruv / Ruv
Yfirvöld á Filippseyjum eru að reyna sitt besta, segir Bæring Ólafsson sem hugði á forsetaframboð á Íslandi 2016. Hann hefur búið á Filippseyjum í fjórtán ár. Ályktunartillaga Íslands um rannsókn á aðgerðum yfirvalda þar í landi var samþykkt í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku. Tillagan er umdeild og harðlega gagnrýnd af fulltrúum Filippseyja og yfirvöldum í landinu og Bæring segir að málið sé á allra vörum.

Í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2 sagði Bæring að flestir væru sammála um að það þyrfti að taka á vandamálum þar í landi af hörku. Fólk óttaðist að annars væri hætta á að glæpagengi nái yfirhöndinni.

Hann sagði að það hefði alltaf reynst erfitt að stjórna Filippseyjum enda sé stórt og fjölmennt ríki. Fátækt væri mikil og menntun mögulega ekki með besta móti. Mannréttindi væru þó varin. 

Þá sagði Bæring að á ýmsi gengi í landinu og úti í heimi skildu margir ekki hvernig ástandið þar væri, sérstaklega ekk fólk á Vesturlöndum svo sem í Evrópu og Bandaríkjunum. 

Mörgum Filippseyingum finnist sem Ísland hafi vegið að þeim án þess að hafa skoðað hlutina vel áður. Hann tekur fram að hann ætli ekki að  verja Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, eða Vicente Sotto, forseta efri deildar þingsins þar í landi, en báðir hafa þeir farið hörðum orðum um ályktunartillögu Íslands.

Hins vegar skiljist honum á fólki þar úti að því finnist þetta vera innanríkismál og að það þurfi að taka á því sem slíku. 

Það hafi ekki verið venja að Mannréttindadómstóllinn eða Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna krefjist þess að alþjóðleg rannsókn verði gerð með þessum hætti. Filippseyingar skilji ekki hvers vegna eyjarnar séu sérstaklega teknar fyrir þegar til dæmis mikið sé um eiturlyfjamál í Mexíkó og Kína, segir hann. 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi